« Trú og skynsemi haldast í hendurKína: Biskup fangelsaður »

16.11.05

  22:04:25, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1274 orð  
Flokkur: Kirkjuþing og ráðstefnur, Þjóðfélagskenningin, Umhverfismál

Náttúran frá sjónarhóli kristninnar

Tíu umhverfisboðorð kristninnar.

RÓM, 12. nóv. 2004 (Zenit.org). Mannkynið er kallað til ábyrgðarfullrar umsjónar með sköpuninni. Þetta var eitt af því sem kom fram á ráðstefnunni „Siðfræði og umhverfið“ sem hófst í Evrópska háskólanum í Róm á mánudaginn var. Séra Scarafoni, rektor háskólans útskýrði að hin kristna sýn á umsjónarhlutverk mannsins væri grundvölluð á þeim skilningi að maðurinn væri frjáls og viti borin vera, kölluð til þróunar hins skapaða heims.

„Þessu má ekki rugla saman við sigurglaða sýn á mannlegt ástand og athafnir, sem tilheyrir vísindalegri og hugmyndafræðilegri afstöðu gagnvart mannlegu eðli“ bætti presturinn við. „Kaþólsk siðfræði er grundvölluð á kærleiksboðinu sem er meðvitað um mannleg mistök en líka sjálfsöruggt um að fólk geti gert gott með hjálp náðar Guðs.“

Renato Martino kardínáli forseti Páfaráðs um réttlæti og frið tók næstur til máls. „Svar kirkjunnar við Malthusískri svartsýni setur traust sitt á eiginleika mannkyns til að sigrast á vandamálum. „Þessi viðleitni verður samt að fara fram á siðlegum nótum“ sagði kardínálinn. „Athafnir fólks í hinum skapaða heimi má ekki líta á einungis sem æfingu í tæknilegri getu til að takast á við hlutina“ bætti kardínálinn við og vitnaði í hugmyndir Jóhannesar Páls II. um „mannlega umhverfisfræði“ sem leiðbeinandi í þessu sambandi. Umhverfisfræðileg vandamál eru að upplagi mannfræðileg vandamál. Það hvernig við nálgumst náttúruna er undir því komið hvernig við nálgumst okkur sjálf og Guð. Þegar við afneitum hlutverki Guðs í lífi okkar þá setjum við sjálf okkur í hans stað og missum um leið sjónar á þeirri ábyrgð sem fylgir því að annast hinn skapaða heim.

Giampaola Crepaldi biskup og ritari Páfaráðs um réttlæti og frið lagði áherslu á mikilvægi þess að setja sýn á náttúruna í samhengi við samband Guðs og hinnar mannlegu persónu. Í ræðu sinni kom Crepaldi biskup inn á þjóðfélagskenningu kaþólsku kirkjunnar sem þræðir meðalveginn á milli villanna tveggja; annars vegar þeirrar sýnar að náttúran sé allt í öllu og hins vegar þeirrar að hún sé einungis tæki í hendi mannsins. „Náttúran hefur verið færð manninum í hendur en hana verður að nýta af ábyrgð og hófsemi.“

„Maðurinn er án efa æðri sköpunarverkinu að því leyti að hann á sér ódauðlega sál“ sagði Crepaldi biskup. „Samt sem áður hefur maðurinn ekki drottnunarvald yfir sköpuninni. Athafnir ætti að gaumgæfa með hliðsjón af verndunarsjónarmiðum og þróunarsjónarmiðum og fólk ætti að gera sér grein fyrir því að sköpuð gæði þessa heims eru ætluð til notkunar allra.“

Crepaldi biskup hélt áfram og tók saman aðalatriðin í kenningum kirkjunar um umhverfið og lagði í umfjöllun sinni út af þjóðfélagskenningum kirkjunnar. Hin 10 leiðandi grundvallaratriði eru sem hér segir:

1) Í biblíunni er að finna grundvöll hinna siðlegu gilda sem nauðsynleg eru til að takast á við spurningar varðandi umhverfið. Maðurinn gerður í mynd Guðs er æðri dýrunum, og þau á að nýta af ábyrgð. Holdtekja Krists og kenning hans bera vitni gildi náttúrunnar. Ekkert sem til er í þessum heimi fellur utan hinnar guðlegu áætlunar um sköpun og endurlausn.

2) Þjóðfélagskenning kirkjunnar rifjar upp tvö grundvallarsjónarmið. Ekki ætti að smækka náttúrúna niður í það að vera viðfangsefni sem fiktað er í eða það arðrænt. Ekki ætti heldur að gera náttúruna að viðmiðun alls eða setja hana ofar reisn mannsins.

3) Spurningin um umverfið nær til plánetunnar í heild, þar sem hún er sameiginleg uppsprettulind gæða. Umhverfisleg ábyrgð okkar tekur til kynslóða framtíðarinnar.

4) Nauðsynlegt er að taka bæði siðfræði og rétt mannsins fram yfir rétt tækninnar og vernda þannig mannlega virðingu. Útgangspunktur allra vísindalegra og tæknilegra aðferða verður að vera virðing fyrir manninum, sem aftur ætti að koma fram við aðrar skapaðar verur af virðingu.

5) Náttúruna má ekki líta á sem guðlega í sjálfri sér. Hún er frekar gjöf gefin af skaparanum til hins mannlega samfélags, sem mannlegri hugsun og mannlegri ábyrgð er treyst fyrir. Af því leiðir að það er ekki óleyfilegt að breyta umhverfiskerfinu svo lengi sem það er gert í samhengi við virðingu þess og fegurð, og í því augnamiði að nýta sérhverja skapaða veru.

6) Spurningar sem varða umhverfið leiða í ljós nauðsyn þess að ná fram meiri samhljómi milli leiða sem hannaðar eru að efla efnahag og þeirra sem ætlaðar eru til að vernda umhverfið, sem og milli þjóðlegra og alþjóðlegra stefnumiða. Efnahagsþróun verður að taka gangverk náttúrunnar með í reikninginn í heild sinni því að náttúruauðlindirnar eru takmarkaðar. Allar efnahagslegar framkvæmdir sem nota náttúruauðlindir ættu að taka með í reikninginn kostnaðinn við að verja umhverfið.

7) Árvekni fyrir umhverfinu þýðir að við ættum að vinna að heildstæðri þróun hinna fátækari svæða. Gæði jarðarinnar eru sköpuð af Guði öllum til skynsamlegrar nýtingar. Þessum gæðum ætti að deila á réttlátan hátt og af kærleika.

8) Samvinna byggð á alþjóðlegum sáttmálum og studd alþjóðlegum lögum er nauðsynleg til að vernda umhverfið. Ábyrgð gagnvart umhverfinu verður að innleiða á lagasviðinu. Löggjöf þessi ætti að hafa að leiðarljósi almannaþarfir.

9) Lífsstíll ætti að hafa að augnamiði lögmál hófstillingar og sjálfsaga, bæði hvað varðar persónuna og samfélagið. Fólk verður að leggja neysluhyggjuna til hliðar og taka upp framleiðsluhætti sem virða hina sköpuðu reglufestu jafnt og koma til móts við grundvallarþarfir allra. Þessi lífsstílsbreyting ætti að fá stuðning frá aukinni vitundarvakningu um að allir jarðarbúar eru á sama báti.

10) Spurningum sem varða umhverfið verður að svara á andlegan hátt, á þann hátt og með þeirri sannfæringu að sköpunin er gjöf sem Guð hefur sett í hendur mannkyns, gjöf til að nota af ábyrgð og af kærleiksfullri alúð. Grunnviðhorf fólks gagnvart sköpunarverkinu ætti að vera þakklæti. Hinn skapaði heimur leiðir fólk í raun að leyndardómi Guðs þess sem skapaði hann og viðheldur honum. Ef Guð gleymist þá tapast um leið hin dýpsta merking náttúrunnar og hún verður fátækari fyrir vikið.

Ef náttúran aftur á móti er endurfundin í hlutverki sínu sem sköpun mun mannkynið geta komið á sambandi við hana sem tekur mið af táknrænni og leyndardómsfullri vídd hennar. Þetta opnar leið til Guðs, skapara himins og jarðar.

RGB þýddi og endursagði. Heimild: A Christian View of Man and Nature - Ten Commandments for the Environment. www.zenit.org/english

3 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þetta er kannski eitthvað sem vert er að huga að um þessar mundir?

04.10.06 @ 18:28
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Vissulega, Ragnar, þetta eru góðar meginlinur í hugsun kirkjunnar um messi mál – hugsun sem miðast við mælisnúrur kristins mannskilnings og sköpunarguðfræði (og fer því ekki villubrautir) og nýtur leiðsagnar guðlegrar opinberunar (sem gefur þessu jákvæða, sterka innihaldið).

Þýðingin á textanum hefur eflaust verið erfið, sum hugtökin eru okkur kannski ekki töm hér á Íslandi, þannig að þau geta virkað sem upphafið helgimál í eyrum okkar veraldarvanra, en hafi menn ekki velvild gagnvart boðskapnum, kemur það hvort sem er út á eitt : að ekki er hlustað á kirkjuna. Því er maður hvort sem er vanastur!

04.10.06 @ 21:02
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ávarp forseta Íslands nú nýársdag þar sem hann hvatti alla til ábyrgðar í umhverfismálum setur þessi mál í sviðsljósið og líklegt er að fólk muni fara að svipast um eftir hlutlausri leiðsögn í þessum málum. Leiðsögn hins gullna meðalvegs sem hvorki er leidd af náttúruverndarsinnum sem gjarnan vilja ganga langt né heldur þeim andstæðinum þeirra sem hafna vilja alveg þeirra sjónarmiðum.

01.01.07 @ 12:28