« ALLAH MEHABA (Guð er kærleikur)Hún blessaða Bernadetta okkar frá Lourdes »

05.02.06

  14:18:25, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1548 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Um viðræður milli trúar, vísinda og veraldarhyggju (secularism)

Um miðjan janúar s.l. lagði Benedikt páfi XVI áherslu á viðræður milli trúar og vísinda annars vegar og veraldarhyggju (secularism) hins vegar. Mig langar þannig að víkja örlítið að viðræðum kirkjunnar og stjarneðlisfræðinnar um heimsmyndunarfræðina (cosmology). Árið 1989 var Alheimsþing stjarneðlisfræðinga þannig haldið í Vatíkaninu. Ástæðan er sú að á þessu sviði eiga kirkjan og vísindin samleið. Benedikt páfi er þannig einungis að feta í fótspor forvera síns, Jóhannes Páls páfa II. Bandaríski stjarneðlisfræðingurinn Robert Jastrow hefur komist vel að orði í þessu sambandi: „Nú sjáum við að staðreyndir stjörnufræðinnar falla að afstöðu Biblíunnar til sköpunar heimsins. . . Fjölmargir vísindamenn sætta sig ekki við að heimurinn hafi orðið til með þessum hætti. Guðfræðingar eru í hæsta máta ánægðir með þær sannanir sem leiða í ljós að alheimurinn átti sér upphaf, en stjörnufræðingarnir bregðast undarlega við. Viðbrögð þeirra varpa athyglisverðu ljósi á hina vísindalegu hugsun – sem krafist er að sé óhlutbundin – þegar staðreyndir sem vísindin sjálf hafa uppgötvað rekast á grunvallaratriði trúarjátningar okkar.“ Við getum einnig orðað þetta öðruvísi: Vantrú og guðsafneitun (atheism) er einungis ákveðið afbrigði trúar sem játar að Guð sé ekki til.

Jastrow víkur hér að kenningunni um Miklahvell (Big Bang), að alheimurinn hafi orðið til fyrir um það bil 14 milljörðum ára í einum punkti og á einu andartaki eða andrá í tíma og rúmi. Þetta er sú staðreynd sem Biblían greinir okkur frá: Guð sagði: Verði ljós! Og það varð ljós (1 M 1. 3). Og það er nokkrum sinnum (11 sinnum) sem hann Jesaja gamli greinir okkur frá þeim Drottni allsherjar sem þenur alheiminn út, til að mynda í 40. kafla spádómsrits síns: Það er hann, sem þenur út himininn eins og þunna voð og slær honum sundur eins og tjaldi til þess að búa í (Jes 40. 22). Spámaðurinn aldni er hér að greina okkur frá útþenslu alheimsins, grundvallarkenningu heimsmyndunarfræði nútímans. Í reynd finnum við fjölmarga staði um þetta í heilagri Ritningu, ef við viljum kanna þetta enn frekar. Með nútíma tölvutækni reynist öllum slíkt auðvelt. Ég bendi einungis á Davíðssálmana í þessu sambandi.

Þar sem ég er kristinn maður sem játa opinberunargildi kristindómsins trúi ég því að Guð hafi blásið spámanninum þessum orðum í brjóst. Ég tek hér einungis eitt annað dæmi. Þegar heimspekingurinn Moritime Adler greindi Niels Bohr frá kenningum hl. Tómasar frá Akvínó um færslu engla í rúmi, varð honum að orði: „Mér var ekki ljóst að það var guðfræðingur sem lagt hafði fram grundvallarlögmál skammtafræðinnar (quantum mechanics) fyrir 700 árum.“ Kenning Tómasar leiðir þá staðreynd í ljós, að á skammtaskífunni er ekkert bil milli talnanna 2 og 3. Eða með orðum Jastrows: „Fyrir vísindamanninn sem hefur lifað í trú á mátt skynseminnar, líkur þessari sögu eins og martröð. Hann hefur klifið fjall vanþekkingarinnar og er í þann veginn að stíga upp á efsta tindinn. En þar sem hann hefur sig upp yfir síðustu hindrunina, þá er það hópur guðfræðinga sem fagnar honum, hópur sem setið hefur hér öldum saman.“

Í trúarheimspeki kirkjunnar er vikið að sköpun alheimsins sem allri tilveru í einum punkti með hugtakinu totum simul á latínu. Endurlausnarinn nefndi þetta totum simul himinn sálarinnar sem er sáðkorn (Mt 13. 31) sem þrátt fyrir það felur í sér fyllingu eilífðarinnar, totum simul eða allan tíma og rúm í einum punkti. Það er þessi sannleikur sem skírskotað er til með gríska orðinu aeon eða „hinni komandi öld.“ Orðið varpar ljósi á veruleika sem stendur á milli eilífðarinnar í fyllstu merkingu orðsins eða aïdiotis og tímaskyns hins holdlega eðlis eða kronos, tímaskeiðs verðandi í tíma og rúmi. Danski heimspekingurinn Sören Kirkegaard komst svo að orði að hinn skynræni og holdlegi maður væri þess ekki umkominn að lifa í andartaki líðandi stundar. Í hans augum er þetta andartak tómt: Án raunnándar. Það er einungis í lífi náðar hins Óskapa ljóss þar sem sálin er þess umkomin að skynja Kriststímann, tímaskyns sem hann gefur sálinni hlutdeild í sem æðsti prestur hinna komandi gæða (Heb 9. 11), þann tímanlega veruleika sem Nýja testamentið kallar „hina komandi öld.“

Þessi veruleiki er sá sem tjáður er með gríska orðinu ta mellonta, öld þess sem er gæddur lífi sem hefur hvorki enda né upphaf daga (Heb 7. 3). Ríki bóndinn í dæmisögunni var þess ekki umkominn að lifa í hinum endurleysta tíma Krists eða í núi líðandi stundar, þessum glugga til eilífðarinnar, vegna þess að hann var fjötraður í viðjar ágóða hins liðna og voninni um enn frekari ágóða í ókunnri framtíð (Lk 12. 16-20). Hversu fjölmargir nútímamenn eru ekki þjakaðir að þessum tómleika og firringu: Því að hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera (Mt 6. 21).

Þetta er grundvöllur heimsmyndunarfræði kirkjunnar. Svo er aðra að finna sem trúa á annan „miklahvell,“ sem í vanmætti bræðinnar sprengja upp það sem er krefjandi, óþægilegt eða stangast á við viðteknar hugmyndir þeirra eða trú. Hér er ég að tala um öfgamenn í röðum Íslamista. Þetta er hryggileg staðreynd vegna þess að það voru þeirra eigin forfeður sem kenndu Evrópubúum algebru, að þjálfa rökræna hugsun sína. Í dag köllum við hér á Vesturlöndum slíka afstöðu einfaldlega villimennsku og kennum hana gjarnan við „villta vestrið.“ Þetta er rökleysa vanvits sem segir: Ef þú ert mér ekki sammála skýt ég þig eða sprengi í loft upp!“ Jafnvel sjálf kirkjan gerði sig seka um slíkt fáræði, ekki síður en veraldleg yfirvöld fyrr á öldum. Þannig er talið að Tomás de Torquemada hafi leitt um 2000 Gyðinga á bálið á árabilinu 1485-1498. Þessi tala fölnar í samanburði við allan þann fjölda sem veraldleg yfirvöld aflífuðu fyrr á öldum í Evrópu. Jafnvel hl. Teresa frá Avíla stóð ógn af slíkum ofbeldisöflum innan kirkjunnar sjálfrar. Það var ekki fyrr en Filippus II Spánarkonungur gekk í málið sem henni var forðað frá því að falla í hendur þessara manna. En hann átti líka ætt sína til góðra að rekja. Faðir hans, Karl V Spánarkonungur, afsalaði sér krúnunni og gekk í klaustur.

Slíkt gerist jafnvel enn á okkar tímum. Í Nikaragúa var þannig bæði Rómversk kaþólsku kirkjunni og kirkjum í Lúterska heimssambandinu vísað úr landinu vegna þess að þær neituðu að framselja skjólstæðinga sína í hendur yfirvalda. Þeim var vísað á brott úr landinu og sértrúarsöfnuði í Texas sem telst til fundamentalista falið að sjá um trúmál í landinu. Þessi söfnuður var svo „heilagur,“ að hann blandaði ekki saman stjórnmálum og trúmálum. Trúarofstæki takmarkast þannig ekki við Íslam. En sínum varfærni hvað áhrærir Íslam! Er hér ekki einungis um öfl að ræða sem eru í raun trúlaus, en beita grunnhyggnum fylgjendum spámannsins fyrir sig, þeim sem í grunnhyggni sinni trúa því, að þeir muni ganga inn í aldingarðinn fagra með svölum vatnslindum og óspjölluðum meyjum, sökum þess að þeir báru sprengibelti um sig miðja. Alltént hafa mér ekki borist fréttir af því ennþá, að leitogarnir sjálfir hafi viljað ganga þessa sömu leið. Þegar þeir eru krafðir ábyrgðar leynast þeir í fjallaskútum líkt og Bin Laden!

Þannig getur bæði kirkjan og veraldarhyggjan hjálpast til við að upplýsa alla þá sem hrærast í myrkri illsku „stóruhvella“ sinna. Hvað áhrærir kirkjuna getur hún þetta með auðmýkt sinni. Á hverjum morgni leitast ég við að auka auðmýkt mína með eftirfarandi bænaorðum: „Drottinn, Guð allsherjar, þú sem þenur alheiminn út eins og tjalddúk, þú sem ræður yfir sérhverjum andardrætti og sérhverri sál, þú sem einn getur veitt okkur græðslu.“ Það er sálum okkar hollt að minnst þess í sífellu, að við erum einungis öreindir á rykkorni í ægivíddum alheims Himnasmiðsins mikla og eigum allt miskunn hans og náð að þakka. Þannig fallast trú, vísindi og veraldarhyggja í faðma því að hrokinn er upphaf alls falls. En gagnvart sprengihótunum öfgaafla innan Íslam geta og mega Vesturlönd ekki látið undan vegna þess að það yrði upphaf að öðru miðaldamyrkri í mannlegum samskiptum.

No feedback yet