« Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Ludgerus biskupGuð er ætíð í morgunskímu hverrar gleðistundar »

21.03.07

  10:01:16, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1379 orð  
Flokkur: Ýmsir höfundar

UM ÞJÓÐKIRKJUNA – séra Þórir Jökull Þorsteinsson

Á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar var uppi í Indiana í BNA háskólakennari að nafni Kinsey. Hann tók sig til og hóf rannsóknir á kynhegðun fólks. Bók hans um kynhegðun karla kom út í bókarformi við lok stríðins og önnur um kynhegðun kvenna árið 1953.

Niðurstöður Kinseys komu miklu róti á hugi fólks í Bandaríkjunum og víða um hinn vestræna heim. Þótt rannsóknir Kinseys hafi verið umdeildar og séu véfengdar af mörgum allt til þessa dags, þá eru menn á einu máli um að þær hafi allt að einu afhjúpað, að eitt er það sem viðtekið er og annað það sem menn aðhafast í raun og veru, leynt eða ljóst. Við útkomu bóka Kinseys hljóp mikill kippur í kynlífsbrölt hvers konar og fólk sem alið var upp við íhaldssöm gildi tók að álykta sem svo að úr því að "allir" hafa þetta svona eða hinsegin og þar sem "allt" er á sinn hátt "eðlilegt", þá gætu allir farið að fýsnum sínum hverjar sem þær kynnu að vera.

Takið eftir því að þessu myndi kristin kirkja aldrei samsinna. Að margra mati markaði útgáfan á þessum bókum Kinseys upphaf kynlífsbyltingarinnar sem svo er nefnd og ekki höfðu þær fyrr komið fyrir almennings sjónir en t.a.m. karlatímaritið Playboy hóf göngu sína.

Það grundvallarviðhorf er viðtekið í vestrænum samfélögum að rannsóknir eigi rétt á sér og þær eru ótaldar allar saman og nðurstöður þeirra réttar og rangar. Spurningin er bara þessi: Hvað gerir fólk við niðurstöðurnar? Ef rannsóknir á atferli manna leiða í ljós að "allir" ljúga, stela og blekkja verður það þá eðlilegt og réttlætanlegt, þ.e.a.s. normal hegðun? Ég tel mig tala fyrir munn ykkar allra þegar ég hafna því. Það er sannur kirkjulegur lærdómur að hinn fallni maður er ekki "normal" miðað við upprunastöðu hans. Þessi fullyrðing er guðfræðilega rétt.

Þegar kemur að því máli sem við höfum haft til umræðu innan okkar kirkjudeildar þá sýnist mér að við megum til að setja okkur inn í þau sögulegu ferli sem liggja að baki kröfunni um "kirkjulega giftingu" fólks sem hyggur á slíkt með öðum af sama kyni.

Þjóðfélög sem að meira eða minna leyti byggja á skikkan veraldlegs ríkisvalds sjá manninn gjarna sem skyni gætt dýr með réttindi og skyldur. Ríki og alþjóðlegar stofnanir hafa fyrir allnokkru fallist á að ekki sé á því stætt á því að ætla með lögum að meina fullorðnu fólki að gera það sem hugur þess stendur til í kynlífi þess. Tálmanir laga eru í þessum efnum heyra víðast hvar sögunni til í hinum vestræna heimi. Mannréttindahyggja samtímans hefur þar á ofan seilst enn þá lengra og á vettvangi Evrópusambandsins hefur það verið rætt að það skuli gert refsivert að tjá það með einum eða örðum hætti að ami sé að lifnaðarháttum samkynhneigðra. Þetta gerist á sama tíma og það verður stöðugt algengara að fólk tjái, að það sé orðið hálfþreytt á því að samborgarar þess skuli stöðugt vera veifandi kynferðislegum hneigðum sínum framan í aðra.

Kinsey varð til þess að leggja fram þá nálgun að það sem "allir" virtust iðka væri hið eðlilega. Kynlífsbyltingin var þó aðeins rétt að byrja. Næst kom Pillan og þá uppreisn ungu kynslóðarinnar með Vietnam, blómabörnum, fíkniefnum og frjálsum ástum. Þessir tímar færðu mönnum aðra sýn á heiminn og síðan hefur það verið lykilatriðið í lýðræðishyggjunni að hið "eðlilega" hljóti að vera það sem flestir gera, eða samsinna. Þannig ályktaði margur út frá bókum Kinseys og þannig ályktar fólk í hjarðhvöt sinni til þessa dags.

Af þessu spratt síðan ennfremur það að öllum var eiginlega ætlað að "finna sjálfa sig" og ekki síst sína eigin kynferðislegu sjálfsmynd. Allir fóru að vera með öllum í nýfengnu "frelsi" eins og í því skyni að komast að eigin sanna eðli og kyneðli. Þær skelfilegu búsifhjar sem fólk þoldi fyrir þessa hyggju menningarinnar eru ótaldar og verða seint að fullu metnar. Hið "eðlilega" hafði fengið alveg nýtt inntak og enn sitjum við uppi með merkingu þess skilgreinda af geðbatteríinu og kirkjan er komin í gíslingu þessa þankagangs.

Ég fæ ekki annað lesið og heyrt af sumum kollegum hér að trúin sé þeim fyrst og síðast sálrænt eða psykiskt fyrirbæri sem aðallega snúi að sjálfsmynd fólks og félagslegri stöðu. Gleymt er að vegur trúarinnar var og er genginn til þess að nálgast það að verða NORMAL. Ég reikna með að þið grípið þankann!

Að höndlast af Guði er að verða heill og trúin á Krist er ekki psykósa. Að verða NORMAL fyrir lífið í Kristi merkir ekki að maður sé það í þeim skilningi sem við getum orðað við félagsleg, pólitísk eða sálfræðileg NORM - því þau koma og þau fara, ærandi óstöðugan, krefjast alls en gefa í raun ekkert nema innantóm fyrirheit um hamingju og heillir, ef ekki á morgun þá hinn.

Hlustið bara á pólitíkusana.

Vegur trúarinnar er vegur lífsins í Kristi og við göngum þann veg til að öðlast það og til að frelsast frá kjaftæði heimsins og blindleika holdsins. Ekki til að fjötrast þar af. Okkur stendur í Kristi líka til boða að frelsast frá boðskap þeirra sem enga frelsun sjá aðra en þá sem unnt er píska fram með pólitískum aðferðum í samfélögum manna.

Égt hafna því að kirkjan skuli keyrð ofan á og niður á þetta plan og að henni sé ætlað að dansa eftir þessum flautuleik djöfulsins og starfa á þessum hans nótum. Það er engri kristinni kirkju samboðið.

Flestu fólki er í samtímanum ógerlegt að sjá annað en stofnun þegar að kirkjunni kemur og það er blint á að kirkja Krists er trúaratriði og Andans leyndardómur. Sé kirkjan ekkert annað en stofnun og hreyfing fólks þá er okkur auðvitað í lófa lagið að meðhöndla hana og stokka upp eftir því sem okkur sýnist. Við sem eigum að heita prestar skyldum hins vegar huga að því að kirkjan er meira en veraldlegur umbúnaður hennar. Líkaminn er meira en klæðin og lífið er meira en fæðan.

Okkur er ekki leyfilegt að breyta kirkjunni eða háttum okkar innan hennar fyrir það eitt að vilja sýna borgaralega greiðvikni í málefnum einhverra þjóðfélagshópa.

Kirkjan er líkami Krists og sem slík leyndardómur sem okkur er ætlað að höndlast af og finna, fremur en að haga okkur eins og við værum þegar orðnir konungar eða drottningar yfir henni. Okkur er trúað fyrir ráðsmennskuhlutverki en erum ekki húsbændur í samhengi máls. Okkur er trúað fyrir því að standa föst fyrir þegar kirkjan er annars vegar jafnvel þó heiminum sýnist allt og allir vera meira normal en við.

Það getur vel verið að Þjóðkirkjufólki þyki sem kirkja þess þurfi fyrst og síðast á réttlætingu þjóðfélagsins að halda en okkur er ekki ætlað að víkja af vegi sannleikans fyrir vinskap manna og eigum áfram að starfa að því að boða Drottin þó félagslega eða pólitíska vinsæld kynni að bresta.

Hið eðlilega er EKKI það sem menn aðhafast, væri svo þyrfti ekki að vísa þeim til vegarins eina og lífsins í Kristi.

No feedback yet