« Lög Megasar við Passíusálmana flutt í HallgrímskirkjuHvað er kaþólskt hjónaband? »

12.02.06

  10:18:41, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 680 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Um tjáningarfrelsið og guðlastsákvæðin

Una Margrét Jónsdóttir ritar grein í Morgunblaðið 11. febr. um tjáningarfrelsið og sagði m.a:

"En það að forsvarsmenn danskra múslima skyldu krefjast þess að blaðamönnunum væri refsað og að forsætisráðherra landsins bæðist afsökunar á einhverju sem stóð í frjálsu og óháðu dagblaði, það bendir því miður til þess að þeir hafi ekki skilið grundvallarlög þess lands sem þeir höfðu valið að búa í."

Nú vill svo til að í dönsku hegningarlögunum, nánar tiltekið grein 140 í 15. kafla sem fjallar um brot gegn friði segir:

15. kapitel
Forbrydelser mod den offentlige orden og fred [..]
§ 140. Den, der offentlig driver spot med eller forhåner noget her i landet lovligt bestående religionssamfunds troslærdomme eller gudsdyrkelse, straffes med bøde eller fængsel indtil 4 måneder.
LBK nr 909 af 27/09/2005
http://www.retsinfo.dk/

Það sem danskir múslimar hafa kannski ekki skilið er af hverju ekki mætti beita þessari lagagrein? Þeir hafa kannski fengið þá mynd að það væru í reynd tvenn lög í landinu? Ein fyrir Dani, þau sem væru skrifuð og önnur fyrir múslima - þau sem væru óskrifuð?

Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur skrifar ágæta grein í Mbl. daginn eftir 12. febrúar undir heitinu "Íslam og upplýsing". Þar rekur hann hugmyndafræðilegan mun islam og Vesturlanda og veraldarvæðingu m.t.t upplýsingar. Steindór reifar málið af þekkingu og nákvæmni eins og honum er lagið en þegar hann kemur að ritinu "Uppruni tegundanna" eftir Charles Darwin birtast nýmæli, að minnsta kosti fyrir þeim sem þetta ritar. Hann segir:

"Uppruni tegundanna eftir Charles Darwin, þar sem sýnt var fram á að lífið á jörðinni hefði orðið til án guðlegra afskipta."[leturbr. RGB].

Ég bið Steindór afsökunar en ég er það illa upplýstur að ég hélt að hvorki væri hægt að sanna né afsanna nokkurn skapaðan hlut með tilliti til Guðs. Hef alltaf talið að "Uppruni tegundanna" leiddi rök að því eða setti fram þá kenningu að lífið á jörðinni hefði þróast úr einföldum formum yfir í flókin og margbrotin. Síðan víkur Steindór að 125. grein alm. hegningarlaga og ályktar að myndbirtingar JP væru að öllum líkindum ólöglegar hér á landi. Hér er ég Steindóri sammála, en ekki bara vegna 125. greinar heldur líka vegna greinar 233a. Steindór ályktar samt í framhaldinu að henda beri 125. grein í íslensku lögunum út. Það er sérkennileg niðurstaða í ljósi undangenginna atburða. En það má velta fyrir sér af hverju Rasmussen beitti t.d. grein 140 í dönsku lögunum ekki í þessu tilfelli á meðan enn var tími til? Nú eru guðlastsákvæði líklega búin að vera í norrænum rétti í meira en þúsund ár eða hvað? (Forvitnilegt væri ef einhver lögfróður maður kæmi með punkt um það inn á síðuna.) Síðustu árin hafa komið upp raddir um að þessi ákvæði beri að afnema, sbr. grein Steindórs, en kannski er atburðarás undanfarinna daga einfaldlega að sýna okkur að svona ákvæði þarf að vera til staðar þó það sé kannski ekki notað nema einu sinni til tvisvar á öld eða svo? Kannski er þarna lítið notaður öryggisventill sem ekki er skynsamlegt að fjarlægja, líkt og málskotsákvæðið í stjórnarskránni? Hér hefði lagaramminn átt að halda og koma í veg fyrir víðtækan ófrið og ósætti - en það er jú megintilgangur laga ekki satt? Spurning af hverju hann gerði það ekki? Getur verið að Rasmussen standi meiri stuggur af öflum sem vilja ekki að grein 140 sé beitt en af múslimum sem vilja að henni sé beitt? Af hverju var einfaldlega ekki látið reyna á málið fyrir dómstólum? Spyr sá sem ekki veit.

RGB

33 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Rétt er þetta, bróðir. En ef og sem sjálfsagt er, ef ímanarnir telja málstað sínn góðan og dómtækan, hvers vegna læddu þeir þessum þremur viðurstyggilegu myndum með gögnunum, sem þeir fóru síðan í yfirreið með um hinn múslimska heim? Hvernig yrði tekið á því máli fyrir dómstólum? Að sýna spámanninn með svínshöfuð, og kemur frá þeim sjálfum. er svívirðing gagnvart Íslam. Það er líka brot á sharia Íslams þegar danskir múslimar selja Dönum pulsur úr svínakjöti. Eins gott að Osama bin Laden og Al Qaida berist ekki spurnir af því. Þá yrði líklega að sprengja upp pulsuvagnana á Strikinu og á Ráðhústorginu, eða hvað? Alltént selja Gyðingar sem einnig eru lögmálsdýrkendur einungis kadosh, eða hreint fæði (kosher). En kannski hefur spámanninum yfirsést þetta ákvæði þegar honum „opinberaðist“ hin nýja trú. Alla vega gleymdi hann eiturlyfjunum í upptalningu sinni um forboðið matarræði.

12.02.06 @ 10:47
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég á hér að sjálfsögðu við hadish eða rétttrúargyðinga.

12.02.06 @ 11:05
Athugasemd from: Magnús Ingi Sigmundsson
Magnús Ingi Sigmundsson

Mér finnst þessi umræða beinast of mikið í að reyna að kenna Dönum um ástandið. Þetta er svipað og að kenna konunni um að eiginmaðurinn sé að berja hana, að hún hefði nú ekki átt að segja þetta við hann og móðga hann o.s.f.
Nú eru múslimar búnir að fyrirgera þeim rétti algerlega að þeim sé vorkennt framar. Það er allavega mín skoðun. Mér finnst líka umhugsunarvert að múslimar vilja koma til vesturlanda vegna þess að lífskjörin eru betri þar en í heimalandinu en þeir neita að aðalagast þeim siðum og venjum sem tíðkast í því landi sem þeir taka sér bústað í. Ekki bara það heldur beinlínis hata þá siði og venjur. Ragnar veltir fyrir sér hvort Rasmussen hafi verið hræddur við að vernda múslimana fyrir að hæðst sé að múhammed en raunverulega ástæðan fyrir að myndirnar voru birtar í upphafi var einmitt ótti manna við að reita múslima til reiði og það var verið að storka þeim ótta fyrst og fremst en ekki trú múslima.

12.02.06 @ 13:12
Athugasemd from: Magnús Ingi Sigmundsson
Magnús Ingi Sigmundsson

Smá athugasemd til skýringar:
Ég á við að múslimar séu búnir að fyrirgera því að þeim sé vorkennt meira í sambandi við þetta skopmyndamál, því sem þeir hafa brugðist við með ofbeldi og hótunum um hryðjuverk, morð o.s.f.
Eins og ég myndi ekki vorkenna manni sem hefur beitt konu sína ofbeld, þótt hún hafi móðgað hann á einhvern hátt.

12.02.06 @ 17:15
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

“Mér finnst þessi umræða beinast of mikið í að reyna að kenna Dönum um ástandið.”


Sæll kæri Magnús. Ég setti mál mitt fram í formi spurninga en ekki dóma. Verum minnugir orða páfa: “Raunverulegt eða munnlegt óumburðarlyndi, sama úr hvaða átt það kemur, hvort sem það kemur fram sem frumorsök eða sem viðbrögð er alltaf alvarleg ógnun við friðinn.” Þegar alvarlegir atburðir gerast þykir mér sjálfsagt að reyna að greina vandann til að geta dregið lærdóm af atburðunum, jafnvel þó það kalli á óþægilegar spurningar.
Bestu kveðjur,
Ragnar.

12.02.06 @ 17:29
Athugasemd from: Magnús Ingi Sigmundsson
Magnús Ingi Sigmundsson

Óumburðarlyndið er að hálfu múslima. Allir verða að þola það að sagðir séu lélegir brandarar um trú þeirra, án þess að brenna hús og hóta morðum. Afsakið óumurðarlyndið í mér en þetta eru nú bara mínar skoðanir á þessu.

13.02.06 @ 10:43
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Frá því þessi grein var skrifuð hefur það gerst að Neytendastofa hefur sektað Nóatún ehf. um hálfa milljón króna vegna auglýsinga þar sem fram kom fullyrðingin “bestir í fiski". Mbl. greindi frá þessu 22. febr. 2006. Væntanlega eru lög um neytendavernd í Danmörku sem banna hliðstæðar fullyrðingar. Mér hefur þó ekki gefist tími til að kanna það. Nú er spurning af hverju hið opinbera lætur ein lög sem takmarka tjáningarfrelsið gilda en ekki önnur, t.d. lagagreinar 233a og 125 í hegningarlögum á Íslandi og gr. 140 í Danmörku?

Einnig hefur það gerst að stjórnarandstæðingar í Danmörku hafa meðal annars gagnrýnt forsætisráðherrann fyrir að synja beiðni um fund með sendiherrum ellefu múslímalanda sem höfðu varað við því að skopmyndirnar gætu leitt til götumótmæla. Þá hefur Fogh Rasmussen verið gagnrýndur fyrir að bregðast ekki við viðvörun Egypta um að mótmælin gætu stigmagnast. Mbl. greindi frá þessu 22. febr. 2006.

05.03.06 @ 11:13
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Listaskáldið góða Sjón skrifaði grein í Mbl. 2. mars sl. þar segir hann m.a.

Sú tíð færist nær að Íslendingar sem játa íslamska trú láta til sín taka í íslensku menningarlífi […] og það er ekki síst þeirra vegna að ég tel lífsnauðsynlegt að láta ekki undan í þeirri deilu um tjáningarfrelsið sem uppi er í dag.

Nú hljóta margir að spyrja sig af hverju skáldinu þyki nauðsynlegt að standa vörð um það óumburðarlyndi og menningarhroka sem kristallast í myndbirtingunum en þegi þunnu hljóði á meðan fyrirtæki er sektað um hálfa milljón fyrir að skrifa “bestir í fiski"? Meðal fórnarlamba skopmyndaólgunnar eru kristnir menn, kirkjur og kristin menning í Nígeríu og Pakistan. Tjáningarfrelsið liggur líka í valnum, stórlega laskað því þetta fjöregg var lagt í hendur galgopanna á Jyllandsposten. Óskandi er að „strákurinn með röntgensjónina“ fari nú að standa undir nafni.

05.03.06 @ 11:36
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifar grein í Fréttablaðið föstud. 3. mars 2006 og segir m.a.

Við verðum að mega gagnrýna islam, eins og múslimar hljóta að mega gagnrýna kristna menn.

Hér kemur Hannes á framfæri sömu hugsun og fleiri hafa gert og líklega hljóta velflestir landsmenn að vera Hannesi sammála. Orðabók Menningarsjóðs segir merkingu orðsins gagnrýni vera svohljóðandi: “aðfinning, mat, dómur um starf e-s (t.d. rit, listaverk, listflutning, smíðisgrip, framleiðslu)” 7. prentun 1980 bls. 169. Það að líkja myndbirtingunum með þessum hætti við aðfinningu, mat eða dóm hlýtur að teljast vægt til orða tekið og til þess fallið að draga upp nokkuð fegraða mynd af því sem gerðist. Að sjálfsögðu viljum við skoða góðu hliðina á okkur í þessu máli og það væri rangt að gera það ekki, en til að horfast í augu við raunveruleikann þá þurfum við að snúa hinni hliðinni að speglinum líka.

05.03.06 @ 12:17
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þeir hjá Jótlandspóstinum birtu myndirnar vegna þess að þeir þekktu til nokkurra tilvika þar sem menn vildu ekki gera nöfn sín heyrum kunn sem höfðu „dirfst“ að vinna verk sem voru múslimum ekki að skapi.

Þegar ég renni yfir þær athugasemdir sem sjá má hér finnst mér blasa við sjónum um hvað málið snýst. Sumir kjósa að tjá sig með þessum hætti, aðrir öðruvísi með misjafnlega ríkum áherslum og þunga. Þetta er kjarni vestræns lýðræðis.

Ragnar hefur rétt á að tjá sig með „ofurviðkvæmum“ hætti um málefni múslima af sínum ástæðum, en ég með mínum. Andrés Magnússon tók saman ágæta grein í Blaðinu um pólitíska notkun skopmynda, og tók þar einmitt dæmi hvað skopmyndir af Adolf H. fóru í taugarnar á ofurmönnunum í Þýskalandi. Samkvæmt afst0ðu Ragnars hefði aldrei átt að birta þær vegna þess að sú hætta væri fyrir hendi að móðga Hitler. Tja . . .

Það var svínshausmyndin sem gerði allt vitlaust, mynd sem imanarnir læddu sjálfir inn í málsgögnin. Hvers vegna gerðu þeir það? Svarið er einfalt. Til að gera allt vitlaust.

05.03.06 @ 13:16
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Samkvæmt afst[ö]ðu Ragnars hefði aldrei átt að birta þær vegna þess að sú hætta væri fyrir hendi að móðga Hitler.

Þessari ályktun er ég ekki sammála og finnst ekki skýra málið að bera það saman við atvik sem áttu sér stað upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar. Annars vegar er um að ræða árekstra menningarheima sem eiga sér stað í kjölfar upplýsingatæknibyltingar þegar upplýsingar fljúga heimshorna á milli á örskotshraða, “vítt og vítt um veröld hverja” og hins vegar um viðbrögð við harðstjórn og ofríki Þýskalands fyrir 60-70 árum. Lengi væri hægt að réttlæta harðar aðgerðir með því að vitna í það dæmi. Skýrustu dæmin um slíkt í nútímanum eru fljótfærnisleg afglöp leiðtoga vestrænna þjóða þegar þeir ákváðu að ráðast á Afghanistan og síðar á Írak. Þær innrásir voru eflaust báðar réttlættar með Chamberlein/Hitlers - rökunum. Ég hafna því að þau rök eigi við í þessu samhengi, alveg eins og ég er og mun verða andvígur báðum þessum hernaðaraðgerðum.

05.03.06 @ 13:28
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég lít öðru vísi á þetta mál Ragnar. Það væri í sjálfu sér hægt að koma upp stjórnskipaðri nefnd sem kvæði upp um það sem má segja eða ekki og hvernig (ritskoðun). En það hangir meira hér á spítunni. Þess vegna er niðurstaða frönsku þingnefndarinnar svo athyglisverð [sjá Engin hjónavígsla fyrir hómósexualista eða réttur til að ættleiða börn]. Hér eru lögð fram rök sem evrópskir lögfræðingar eiga eftir að vitna til í dómsmálum hvað varðar samkynhneigð.

Sama má segja um hinar nýju tilnefningar í Hæstarétt Bandaríkjanna. Nú er fallinn úrskurður um að kristnum mönnum sé heimilt að andmæla fóstureyðingum. Með sama hætti má vænta þess að krafa hómósexualista um að það sé „hatursáróður“ að andmæla afstöðu þeirra verði dæmd dauð og ómerk. Stundum er óhjákvæmilegt í lýðræðisþjófélögum að tryggja tjáningarfrelsið, jafnvel þó að sumir aðrir kunni að fara í fýlu. Hið sama gildir um múslima. Ég hef fullan rétt á því að segja, að ég beri ekki virðingu fyrir „spámanni“ sem fer um með sverði og eldi. Fullan rétt í vestrænu þjóðfélagi.

05.03.06 @ 14:06
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Stundum er óhjákvæmilegt í lýðræðisþjófélögum að tryggja tjáningarfrelsið, jafnvel þó að sumir aðrir kunni að fara í fýlu. Hið sama gildir um múslima.

Ég er þessu sammála í grundvallaratriðum Jón og hafi eitthvað sem ég setti á blað gefið annað í skyn þá hef ég ekki valið orðin nógu gaumgæfilega. En tjáningarfrelsið verður samt ekki lengi hluti af réttindum okkar ef ítrekuð dæmi hliðstæð skopmyndamálinu koma upp. Það getur ekki verið rétt aðferð til að leysa þennan aðlögunarágreining að traðka sínkt og heilagt á því sem þessu fólki þykir heilagast. Sú aðferð gerir það eitt að magna upp öfgar beggja vegna fylkinganna eins og berlega hefur komið í ljós. Hætt er við að það unga múslimska fólk sem þarf að búa við slíkt viðmót í sínum uppvexti muni ekki bera mikla virðingu fyrir menningu hins nýja föðurlands. Þá aðeins verður sjálfsmynd þeirra sterk og heilleg að þau geti verið stolt af uppruna sínum og rótum. Við erum alveg við það að missa af því gullna tækifæri að snúa þessari óheillaþróun við.

05.03.06 @ 17:48
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Sonur vinafólks míns á Filippseyjum var að afhenda Nýja testamentið sitt (á tagalog) þegar hann kom til Ryad í Saudi þar sem hann hafði ráðið sig í vinnu sem pabbi hans og mamma höfðu gefið honum að skilnaði.

Í Kabúl grýta þeir konur til dauða. Þetta er samkvæmt sharia. Í Kartoum í Súdan er það aðal afþreying fólks um helgar að sjá útlimi stífða af fólki og augun útstungin. Eigum við að þegja yfir því hvernig kynfæri ungra telpna eru limlestir í Íslam af tillitsemi?

Er þetta fólk í stakk búið til að setja Vesturlöndum siðareglur í blaðaskrifum? Ég vek einnig athygli á því að Kristur hefði að minnsta kosti verið dæmdur í háar fébætur, ef ekki fangelsi í dag sökum áhrýnisorðanna sjö í garð faríseanna. Átti hann að þegja af tillitsemi?

Benedikt páfi sagði um miðjan janúar s. l. að Divina Commedia Dantes hefði haft djúpstæð áhrif á sig. Þetta sagði hann þrátt fyrir að Dante hafi stungið einum páfanna á haus niður í mitt helvíti, enda var listi eiturrmorða þessa manns auk annarra illvirkja langur, afar langur.

Mér finnst virðingarvert að leyfa honum Helga Hósea að standa með skiltin sín í friði á Langholtsveginum, þó að ég sé ekki sammála boðskapnum. Ég myndi verja rétt hans til þess.

Er ekki Rusdie ennþá á dauðalistanum hjá þeim þarna fyrir austan?

05.03.06 @ 19:24
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þetta sem þú nefnir eru skelfileg dæmi um það sem aflaga fer í sumum islömskum löndum. Þetta virðist samt að hluta til stafa af fundamentalistavakningunni meðal þeirra sem varð áberandi í kjölfar írönsku byltingarinnar. Ég gæti bætt einu landi við en það er Pakistan. Hef verið að fylgjast með þeim af og til í vetur á http://www.asianews.it. Þar eru götuóeirðir, brúðubrennur og önnur ólæti í nafni trúarinnar algeng. Hafandi horft á ástandið í Pakistan þykir mér furðulegt hvað það tók þó langan tíma þangað til ólætin vegna skopmyndanna brutust út þar. Ég bjóst við þeim miklu fyrr. Í pakistönsku hegingarlögunum er guðlastsákvæði og liggur líflát við sem þyngsta refsing. Þetta er líklega í hnotskurn það sem við Vesturlandabúar viljum ekki sjá hér hjá okkur og höfum ekki viljað öldum saman.
Staðreyndir málsins hljóta því að kalla á markvissar aðgerðir stjórnmálamanna sem miða að því að efla hófsöm öfl innan islam á kostnað öfgaaflanna, að auka gagnkvæman skilning auk þess að stuðla að því að aðlögun þeirra að menningu hvers lands verði ekki á kostnað hennar og það verði haft að leiðarljósi að báðir aðilar hafi hag af samskiptunum.

05.03.06 @ 20:29
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég skil vel ungt mennafólk meðal Íslam sem numið hefur við vestræna háskóla og vill vernda lönd sín fyrir fóstureyðinagstóriðjunni og klámvæðingariðnaðinum. En ég tel afar varhugavert að láta undan ofstækisöflum innan Íslam. Ég horfði reyndar á fund danska biskupsins með æðsta klerknum í Egyptalandi í þýska sjónvarpinu. Af einhverjum ástæðum „datt“ þetta út úr fréttum innlendra sjónvarpstöðva. Kardínálinn í Egyptalandi sat þann fund og æðsti klerkurinn sagði í þýska sjónvarpinu (ZDF) að hann tæki einungis mark á páfa og vildi fund með honum til að ræða málin.

Ég held að þannig verði leyst úr þessu vandamáli. Kaþólskir eru 600.000 í Írak, ég held um 1.5 milljónir í Egyptalandi. Um 300.000 í Súdan (óháðir sharia).

Sjálfur vann ég í sjónvarpinu í 5 ár í gamla daga. Þeir hafa vitaskuld klippt kjarnann úr fréttinni á sjónvarpsstöðvunum hér heima vegna þess að samkvæmt þeirra kokkabókum er páfinn ekki í „tísku.“ Eitt lítið dæmi: Á aðfangadagskvöld var sjónvarpað beint frá messunni í Vatíkaninu í Danska, sænska og norska sjónvarpinu.
(Rásum 1).

05.03.06 @ 20:50
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Já, páfinn mun víst seint verða í tísku á RÚV - sjónvarpi (andvarp). Þessi för danska biskupsins var annars skelfileg niðurlæging fyrir hann. Ótrúlegt að hann skyldi láta hafa sig út í þetta, það var fyrirsjáanlegt hvernig fara myndi. Hann talaði út í eitt um tjáningarfrelsi. Að sjálfsögðu tók æðsti klerkurinn ekki mark á því tali því auðvitað er honum fullkunnugt um alla málavexti og einnig er næsta öruggt að hann hefur bæði verið upplýstur um dönsk lög, sem og hrakför sendinefndar múslima á fund Rasmussens. Það þýðir ekkert að koma fram við múslima eins og þeir séu fávísir eða illa upplýstir. Það er heimskulegt[óhyggilegt] að vanmeta þá þannig auk þess sem það hlýtur að vera niðrandi upplifun fyrir þá. Í þokkabót má ganga út frá því að margir þeirra hafi álit á okkar menningu sem ekki er víst að sé í samræmi við okkar háu hugmyndir um hana.

[Lagfært RGB]

05.03.06 @ 21:39
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Guðmundur Andri Thorsson pistlahöfundur á Fréttablaðinu segir í pistli sínum “Skrípamyndamálið í Danmörku - önnur tilraun” 6. mars 2006:

Tjáningarfrelsið er aldrei gefið. Í þessari deilu er maður um síðir neyddur til að taka afstöðu og þá tekur maður afstöðu gegn þeim sem vilja skerða tjáningarfrelsið út af eigin móðgunarstuðli. Svo ringlaður var maður orðinn í því undarlega andrúmslofti sem ríkt hefur í heiminum allt frá innrásinni í Írak að maður hafði allt í einu skilning á froðufellandi bræði nokkurra trúfífla yfir því að einhverjir aðrir voguðu sér að gera gys að trú þeirra með nokkrum einföldum skrípamyndum.

Vissulega er það rétt hjá Guðmundi að það beri að taka afstöðu, en hér er vert að benda á að sú afstaða þarf ekki nauðsynlega að vera einföld með-móti afstaða. Það er hægt af mörgum skynsamlegum ástæðum að vera andsnúinn óumburðarlyndi af hverju tagi sem er - sama hvort um er að ræða fyrstu gerð eða viðbrögð, og þegar horft er á hvernig múslimum er haldið frá því að ná borgaralegum rétti sínum í Danmörku í þessu máli þá er gremja þeirra skiljanleg þó svo hin hörðu viðbrögð þeirra séu forkastanleg og margfordæmd. Það hlýtur að vera skylda allra sem tjá sig um deilumál að reyna að grafast fyrir um orsakir þeirra og sjá hvað býr að baki. Ef það er ekki gert er hætt við að menn verði fljótt fórnarlömb lýðskrums og yfirborðsmennsku - eða “ringlaðir", eins og Guðmundur kemst að orði.

Nema auðvitað að hér sé um slíkt grundvallaratriði að ræða að hvergi beri að hopa þegar tjáningarfrelsið er annars vegar. Ef Guðmundur er þeirrar skoðunar þá má líklega vænta snarprar varnar af hans hálfu fyrir hönd Gunnars í Krossinum sem nýlega var kærður af Samtökunum 78. Skrýtið samt að ekkert skyldi heyrast frá honum í Nóatúnsmálinu en þar var líklega gengið mun nær tjáningarfrelsinu en oft áður. Kannski erum við Íslendingar bara bestir í fiski eftir allt saman?

09.03.06 @ 21:28
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Haukur Már Helgason heimspekingur svaraði skáldinu Sjón í Fréttablaðinu 6. mars 2006 í greininni “Trölli stelur málfrelsinu” Hann segir m.a.

Ég hélt því fram og held til streitu, að þeir sem í samhengi hitamálsins um “skopmyndirnar” í Jyllandsposten, leggja sig eingöngu eftir því að krefjast málfrelsis og saka reiða múslima um að vilja ritskoða vestræna fjölmiðla, hafi sumpart fallið í gildru, að þeir séu sjálfir þátttakendur í vél sem þeir ráði ekki sjálfir yfir.

og bætir við síðar:

Ég held að þessir tímar leyfi okkur ekki slagorðakenndar ofureinfaldanir - ég held að þær þjóni einkum uppgangi hernaðarhyggju og hugmyndafræðinnar sem er nú látin styðja hana.

Hér er vel mælt. Óskandi að fleiri væru og hefðu verið á þessari skoðun. Þá hefði Íraksstríðið ekki orðið og þá hefði skopmyndadeilan aldrei orðið. Sælir eru friðflytjendur!

09.03.06 @ 21:44
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hvaða Nóatúnsmáli, Ragnar?

En þessi kæra á hendur Gunnari Þorsteinssyni, sem þú vísar þarna í frétt um á vefsíðu Samtakanna ‘78, er forkostulega hjákátleg. Hún er ekki einu sinni málfræðilega rétt orðuð, fyrir utan hvað hún er allskostar vanreifuð, þ.e. innilega laus við að vera sett fram í rökstuddu formi. Ég er helzt á því, að Hrafnhildur, formaður þeirra, sé svo báglega að sér um þessa hluti (atriðin sjö), að hún viti bara ekki betur.

Viðbót e.h. 10/3: Mogginn birti loksins frétt um þetta í morgun. Þar sjá menn t.d. orðalagið á kærunni.

09.03.06 @ 23:10
Athugasemd from: Magnús Ingi Sigmundsson
Magnús Ingi Sigmundsson

Ihsanoglu hefur hvatt ríki Evrópusambandsins til að banna allt sem tengist múslimahræðslu, „islamphobia” og að sett verði lög um hvað sé heimilt að birta í fjölmiðlum. Svo sem ærumeiðandi ummæli ofl.

http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/frett.html?nid=1189726

Er þetta það sem koma skal Ragnar?

10.03.06 @ 11:22
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Það er einmitt þetta sem ég hef verið að vara við: „islamphopia,“ „homosexualphopia.“ Er málið gegn Gunnari í Krossinum ekki talandi dæmi um þetta. Það á að reyna að skylda okkur með lögum til að „lofsyngja“ það sem er afar ámælisvert, svo ekki sé kveðið sterkara að orði.

10.03.06 @ 12:32
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ekki veit ég hvað koma skal, en það er samt greinilegt að hugmyndin um fullkomlega óheft tjáningarfrelsi hefur sterka útópíska drætti og að löggjafinn setur ýmis takmörk þegar kemur að því að vernda almenning gegn vá. Við sjáum t.d. í Nóatúnsmálinu að fyrirtæki er sektað um hálfa milljón fyrir að skrifa “Bestir í fiski". Væntanlega er þessi sekt þyngsta refsing fyrir nokkuð skrifað eða talað hér á landi í langan tíma? Og samt heyrist ekkert frá þeim sem hæst tala um tjáningarfrelsi þessa dagana.

Ég geri t.d. ráð fyrir að fæstir vilji sjá kviknakta karla spranga um á almannafæri hér á landi eins og tíðkast víst sums staðar vestanhafs. Nýlegt dæmi er t.d. um menn sem voru teknir á Selfossi fyrir að hlaupa allsnaktir eftir Austurveginum. Lögreglan tók þá og þeir verða sektaðir. Ég styð okkar góða rokksýslumann Ólaf Helga Kjartansson 100% í því máli. Vestanhafs eru nektargöngur líkast til varðar með tjáningarfrelsi.

Eins þykir sjálfsagt flestum dæmið um Baptistaprestinn í Kansas sem úthúðar mörgu góðu fólki, þar á meðal bæði Billy Graham sem og samkynhneigðum, vera dæmi um frelsi sem þanið er til hins ýtrasta.

Ef neytendalög sem eiga væntanlega að vernda neytendur fyrir röngum upplýsingum um vörur mega takmarka tjáningarfrelsið, hvers vegna ætti ekki að takmarka það í tilfellum þar sem óhyggileg og óheft beiting þess getur valdið alvarlegri ólgu og ófriði? Við sjáum t.d. nýleg dæmi um lög Breta gegn trúhatri - sem hljóta að vera afturhvarf til fyrri tíðar hvað þetta varðar?

Hið kaldhæðnislega við þetta allt saman er líklega sú staðreynd að guðlastslög eru að öllum líkindum mun eldra fyrirbæri en hugmyndin um tjáningarfrelsið - eflaust búið að vera samofið norrænum lögum frá því fyrir þá tíð að þau voru rituð.

Ummæli Ihsanoglu ef rétt eru eftir höfð eru sérstaklega skiljanleg ef Pakistan er haft í huga. Þar hafa stjórnvöld hvað eftir annað orðið að bera klæði á vopnin og vernda kristna minnihlutahópa gegn ofríki og múgæsingum múslimskra fundamentalista. Mig minnir að eitt dæmið hafi verið þannig að það sem byrjaði sem ágreiningur vegna spilaskuldar endaði með guðlastsákæru og árásum á kirkjur. Stjórnvöld (þar sem múslimar eru líklega í meirihluta) rannsökuðu málið og það endaði með sátt. Skopmyndaólgan og fleiri dæmi sýna svo ekki verður um villst að okkar heimshluti er byrjaður á óumflýjanlegu aðlögunarferli að islam (í allri sinni breidd), og islam er sömuleiðis að byrja á jafn óumflýjanlegu aðlögunarferli að vestrænni menningu. Ég segi óumflýjanlegu því mannfjöldahrun vestrænna þjóða getur varla endað á neinn annan hátt en þann að fá fleiri vinnandi hendur inn í samfélögin.

Við verðum að horfast í augu við það að meira að segja íslenskur stjórnmálamaður hefur stillt þessum vanda upp sem árekstrum milli kristni og islam. Sbr þetta: [Tengill á grein um eldhúsdagsumræðu]. Líklegra er að hér séu átakspólarnir sekúlarismi Vesturlanda annars vegar og bókstafur Islam hins vegar. Mér er t.d. ekki kunnugt um nein alvöru trúfélög sem níða þannig skóinn af hinum (þó þannig viðhorf hafi tíðkast hjá sumum bókstafstrúarhópum). Núna er t.d. yfirlýst stefna þeirra á Vantrúnni að birta reglulega skopmyndir um trúarbrögð, og seint munu þeir líklega vilja kannast við að vera trúaðir, líta líklega á sig sem húmaníska sekúlarista - þið leiðréttið mig lesendur góðir ef ég fer rangt með. Þeir munu væntanlega gæta jafnræðis milli trúfélaga og úthluta hverju félagi sinn skammt af skopmyndum, islam, ásatrúarmönnum sem og okkur hinum kristnu.

Ég enda þennan laugardagspistil með tilvitnun í Fréttablaðspistil Sverris Jakobssonar. (Frbl. laugard. 11. mars 2006. “Því Maúmet gjörir þeim tál"). Ég er sjaldnast alveg sammála Sverri en ég les hann alltaf þegar ég hef tækifæri til. Hér er ég bara nokkuð sammála - utan hvað ég vil ekki taka undir þetta sem hann segir um miðaldamennina:

Núna verður ekki þverfótað í íslenskum blöðum fyrir álitsgjöfum sem vilja verja hið dýrmæta málfrelsi - í merkingu Brezhnevs og íslenskra miðaldamanna. Réttinn til að tala illa um fólk í fjarlægum löndum, minnihlutahópa og alla þá sem ekki eru hluti af okkar samfélagi eða viðmiði. Svo rammt kveður að þessu að ef einhver slysast til að gefa í skyn að það þurfi nú stundum að sýna öðrum virðingu og tillitssemi þá dugar ekkert minna en að sami einstaklingur birti opinbera afsökunarbeiðni og dragi hinar hræðilegu skoðanir til baka. Málfrelsið er jú svo mikilvægt, skilurðu.

Ég giska á að hér eigi Sverrir við hina glæsilegu Ragnars-Reykásísku U-beygju Guðmundar Andra Thorssonar, sem hann tók í sama blaði 6. mars.

11.03.06 @ 16:50
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Nú hefur það gerst í þessu máli að Ríkissaksóknari Danmerkur hefur sagt að hann ætli ekki að leggja fram ákæru á hendur Jyllandsposten. Morgunblaðið greindi frá þessu 16. mars sl. Í fréttinni var haft eftir honum að myndbirtingarnar væru ekki brot á lögum sem banna mönnum að boða rasisma eða guðlasta. Allmörg samtök og einstaklingar höfðu áður lýst vonbrigðum með að Jyllandsposten skyldi ekki hafa verið ákært. Ein þeirra, Samfélag íslamstrúar, sögðust íhuga að leggja málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg.

Þarna virðist allt stefna í frekar óheppilegan farveg því hvorugur aðilinn vill láta af sínu. Annars vegar eru útópískar og veraldarfirrtar hugsjónir manna sem eru staðfastir í þeirri blindni að deilan snúist um tjáningarfrelsi (frjálslynd kristni og hófsöm veraldarhyggja)[Útstr.RGB] hér á Íslandi hefur “rétturinn til að guðlasta” (ágeng veraldarhyggja) einnig verið nefndur. Hins vegar er hugmyndakerfi islam. Þar á bæ hefur myndast nokkuð breið samstaða um málið og virðist harðlínumönnunum hafa tekist að sækja fylgi langt inn í raðir hinna hófsömu vegna þessa máls. Þeir líta væntanlega svo á að deilan snúist um gagnkvæma virðingu menningar og trúarbragða.

Menn geta svo sem velt því fyrir sér hvernig saksóknarinn hefur komist að þessari sérkennilegu niðurstöðu eftir allt sem á undan er gengið. Hann gæti verið vanhæfur, hann gæti verið undir þrýsingi. Hann gæti skort þor til að víkja af vegi pólitískrar rétthugsunar. Lögfræðingur nokkur sagði eitt sinn við mig þegar við rökræddum um lög. Báðum fannst okkur þau vera úrelt og þarfnast endurnýjunar en lokaröksemd hans var: “Já en þetta eru lögin, hvað sem okkur finnst, lögin eru lög og þau verður að virða". Hugsanlega munu múslimar vera farnir að líta svo á að nefndar lagagreinar séu aðeins fyrir þau trúarbrögð sem fyrir eru í landinu, þ.e. að í landinu séu í raun tvenn lög. Fyrst af öllu má búast við að þetta grafi undan trausti þeirra á dönsku þjóðfélagi. Sú hugsun er líka áleitin og samstaðan sem hefur myndast meðal þeirra bendir til að deilan hafi haft þau áhrif að hinir hófsamari í röðum þeirra séu smátt og smátt að verða undir í skoðanamótun múslimska samfélagsins í rökræðum sínum við harðlínumennina.

Í Morgunblaðinu birtist fróðleg grein sunnudaginn 12. mars sl. Það var viðtal Helgu Sverrisdóttur við Sidney Tarrow prófessor við Cornell háskóla. “Tengsl í breyttum heimi” hét viðtalið. Prófessor Tarrow hefur gert margar rannsóknir á samfélögum innflytjenda í Evrópu. Í viðtalinu kom fram að Tarrow taldi að fylkingarnar í málinu komi úr svo ólíkum áttum að það sé lítill möguleiki að þær geti komist að samkomulagi. Hann líkti skopmyndamálinu við umræður um fóstureyðingar eins og hún er í Bandaríkjunum og sagði að sú umræða einkenndist fyrst og fremst af því að ekki væri hægt að finna sameiginlegan umræðugrundvöll á milli fylkinganna sem deila. Hann segir m.a.:

“Við vitum því miður ekki nógu vel [svo] um það hvernig aðlögun innflytjenda sem halda tengslum við fyrrum heimaland sitt er háttað í Evrópu. Þar eru sem dæmi múslimar sem vilja evrópuvæða islam þegar aðrir hópar þeirra vilja halda í hefðir og venjur.”

Tarrow benti ennfremur á að ríkin sem hafa skapað farsælustu tengslin milli múslimskra innflytjenda og innfæddra hafi lagt mikið upp úr því að laga börn múslima að samfélaginu í gegnum skólakerfið fremur en að hafa múslimska sérskóla sem njóta fjárstuðnings frá Saudi Arabíu og Sýrlandi þar sem kennarar eru oft lítið menntaðir félagsmenn í íslömskum sértrúarhópum sem eru sendir frá löndunum til að kenna.

20.03.06 @ 21:44
Athugasemd from: Magnús Ingi Sigmundsson
Magnús Ingi Sigmundsson

Mjög fróðleg grein Ragnar. En mér finnst að þú berir ekki næga virðingu fyrir sjónarmiðum okkar sem erum ósammála.

21.03.06 @ 12:00
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Laila Freivald, sænski utanríkisráðherrann, varð að segja embætti sínu í ríkisstjórn Göran Perssons lausu í dag og í Svenska dagbladet tala þeir um framkomu hennar sem „skandal,“ það er að segja að brjóta stjórnarskrána með því að loka sænskri vefsíðu með hinum frægu myndum Jyllandsposten. Þar í landi er hefting tjáningarfrelsis litið grafalvarlegum augum.

Þrátt fyrir að Karl Bretaprins slái um sig í Egyptalandi með því að fordæma myndbirtingarnar í dag, þá gerir hann það vafalaust til að beina athyglinni frá skammarlegri og óafsakanlegri framgöngu Breta í Íraksbrjálæði Bush.

Ég get vart flokkað það undir „tjáningarfrelsi“ Ragnar, þegar hommar veifa kynfærunum framan í konur og börn í San Francisco, höfðuðborg kynvillu og siðleysis. Ég kalla það sínu rétta nafni: Siðleysi.

Það má svo sem toga og teygja öll hugtök út á ystu mörk, en slíkt á ekkert skylt við tjáningarfrelsi í lýðræðislegum skilningi. Það er skerðing á tjáningarfrelsi þegar Pro-life eða Lífsverndarsinnum var meinað að mótmæla barnamorðunum við fóstureyðingarstöðvar þeirra voðasamtaka sem „Planned Parenthood“ eru, enda hefur hæstiréttur Bandaríkjanna nú komist að þeirri niðurstöðu og kveðið upp sinn dóm.

Ef til vill er ég svona næmur á tjáningarfrelsi vegna þess að ég hef starfað við fjölmiðla í tæp tuttugu ár. En það verður vafalaust fróðlegt að sjá hvernig íslenskir dómstólar bregðast við í máli því sem Samtökin 78 hafa höfðað gegn Gunnari í Krossinum.

Kannski hommarnir og lesbíurnar krefjist þess að fá að bera kynfærin í 1. maí göngu verkalýðsfélaganna í ár, rétt eins og þau reyndu í 16. skiptið í röð að krefjast þess að ganga í St. Patríksgöngunni í New York? Á slík frekja og yfirgangur eitthvað skylt við tjáningarfrelsi? Þá hef ég algjörlega misskilið merkingu orðsins. Það er munur á því að orga eins og vitfirringur og tjá skoðanir sínar. Enn sem komið er megum við segja á Íslandi að við teljum ástarleiki fólks af sama kyni ógeðfellda athöfn.

21.03.06 @ 17:10
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég biðst afsökunar Magnús. Viltu kannski benda mér á hvar gefið er of mikið í og ég skal lagfæra orðalag svo þessi umfjöllun verði virðingarfyllri.

Morgunblaðið greindi frá því á vefnum í dag (21.3.2006) að Karl Bretaprins hefði sagt „að prófsteinn á siðuð samfélög væri sú virðing, sem minnihlutahópum og ókunnugum væri sýnd.“ Þetta sagði hann í ræðu í Al-Azhar háskólanum í Kaíró þar sem hann tók á móti verðlaunum „fyrir framlag hans til þess að auka skilning á íslamstrú á Vesturlöndum.“ eins og sagt var í fréttinni.

Hér sýnir Karl Bretaprins enn og aftur að hann ásamt móður sinni hefur reynst Bretum vel í ölduróti liðinna ára. Fræg er t.d. sú ákvörðun hans að andæfa Íraksstríðinu og hlaut hann bágt fyrir. Enn var eftir því tekið þegar hennar hátign drottningin fékk Murphy-O’Connor kardínála til að halda kyrrðardaga á setri sínu í fyrra eða hitteðfyrra og brá þar út af venju sinni að fá kennimann frá ensku biskupakirkjunni. Þannig hefur þessi ágæta konungsfjölskylda lagt sitt lóð á vogarskálarnar til að auka skilning milli ólíkra þjóðfélagshópa og efla tilfinningu þeirra fyrir því að þeir séu ekki bara fullgildir þjóðfélagsþegnar heldur hafi eitthvað gott til málanna að leggja í samfélaginu.

Þegar þessi orð Karls eru skoðuð í samhengi við ástandið í Danmörku þá vekur nokkra furðu að ekkert hefur frést af því að Margrét drottning hafi tjáð sig opinberlega um skopmyndamálið. Hefur einhver lesenda frétt nokkuð um það?

21.03.06 @ 17:11
Athugasemd from: Magnús Ingi Sigmundsson
Magnús Ingi Sigmundsson

Það er aðallega þessi málsgrein:

Annars vegar eru útópískar og veraldarfirrtar hugsjónir manna sem eru staðfastir í þeirri blindni að deilan snúist um tjáningarfrelsi (frjálslynd kristni og hófsöm veraldarhyggja) hér á Íslandi hefur “rétturinn til að guðlasta” (ágeng veraldarhyggja) einnig verið nefndur.

Mér finnst ekki að mínar skoðanir séu útópískar og veraldarfirrtar og ekki vil ég vera dreginn í dálk með frjálslyndri kristni og hófsamri veraldarhyggju.

21.03.06 @ 19:35
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir ábendinguna Magnús. Ég strikaði þetta út og tek ummælin til baka. Bið aftur afsökunar.

21.03.06 @ 19:45
Athugasemd from: Magnús Ingi Sigmundsson
Magnús Ingi Sigmundsson

Allt í lagi:)

21.03.06 @ 19:49
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Það er munur á skinhelgi og einarðlegum tjáskiptum frjálsborinna manna. Þetta á ekki síst við um kirkjuna sjálfa, eins og hl. Katrín frá Síena gerði sér ljóst, enda hratt hún á stað siðbót innan kirkjunnar, rétt eins og Voice of the Faithful gerðu í Bandaríkjunum í baráttu sinni við barnaníðinga í prestastétt og biskupa og jafnvel kardínála sem tregir voru í taumi eða vildu ekki sjá hið raunverulega ástand.

Í Dialogo dregur hún upp mynd af prestum og leiðtogum kirkjunnar sem voru samtíða henni: „Gegnsýrðir hroka“ hrifsa þeir til sín fátækrapeningana og verja þeim í hóglífi sitt. „Vei þeim, vei þeim fyrir óhófslifnað þeirra!“ Það sem hið „gæskuríka Orð“ ávann á krossinum sóa þessir prestar í „vændiskonurnar.“ Sem „musteri djöfulsins“ ala þeir sín eigin börn á því sem „tilheyrir hinum snauðu“ og í stað þess að nærast til fulls á hjálpræði annarra við borð krossins, gera þeir krárnar að matborði sínu.“ Þeir eru orðnir að „skepnum“ og „vita ekki einu sinni hvað býr tíðagjörðin að baki . . . djöflar og djöflum verri.“

Jafnvel þó að hún sæi ástandið í kirkjunni fara „sífellt versnandi“ með valdasjúkri prestastétt sem þyrsti í auð og völd, hljómuðu orð Exultet í eyrum Katrínar: „Ó sæla sekt sem verðskuldaðir slíkan Endurlausnara.“ Í sjálfum syndum kirkjunnar kom hún auga á hina ósegjanlegu náðargjöf siðbótarinnar. Rétt eins og sekt heimsins varð til þess að Endurlausnari mannkynsins kom til jarðar því til líknar, draga syndir kirkjunnar þennan sama Endurlausnara til örbirgðar hennar. Og það er kraftur hans eins sem megnar að græða hana og endurreisa sem samfélag hinna snauðu og auðmjúku. Katrín tók að gera sér ljóst, að rétt eins og rósin birtist einungis á milli þyrnanna, öðlast kirkjan einungis græðslu í hreinleika með því að ganga í gegnum harmkvæli.“ [1]

Stundum krefst sannleikurinn þess að tepruskapur sé lagður til hliðar.

[1]. Hjarta veruleikans, 10 kafli: sjá Vefrit Karmels.

21.03.06 @ 20:09
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þetta var athyglisverður póstur Jón, takk fyrir hann. Mig langar að lesa meira eftir þessa konu vonandi getur orðið af því. Talandi um tjáningarfrelsið og guðlastið þá tók Jesús oft býsna hressilega til máls sjálfur. Ekki má heldur gleyma að dauðasök hans í augum gyðinga var guðlast sjá t.d. þennan kafla úr Markúsarguðspjalli 14. kafla:

Þá stóð æðsti presturinn upp og spurði Jesú: “Svarar þú því engu, sem þessir vitna gegn þér?” En hann þagði og svaraði engu. Enn spurði æðsti presturinn hann: “Ertu Kristur, sonur hins blessaða?” Jesús sagði: “Ég er sá, og þér munuð sjá Mannssoninn sitja til hægri handar máttarins og koma í skýjum himins.” Þá reif æðsti presturinn klæði sín og sagði: “Hvað þurfum vér nú framar votta við? Þér heyrðuð guðlastið. Hvað líst yður?” Og þeir dæmdu hann allir sekan og dauða verðan.

Líklega flokkast hinn hefðbundni kristni skilningur á Jesú Kristi, að hann sé sonur Guðs sem guðlast í augum sumra enn þann dag í dag og í þeirra augum eru því játendur kristinnar trúar guðlastarar.

21.03.06 @ 21:54
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Hl. Katrín frá Síena var stórmerk kona og fyrst af tveimur til að hljóta heiðursnafnbótina kirkjufræðari. Hin var hl. Teresa frá Avíla. Þessar heilögu konur urðu það vegna þess að þær krupu á hnéin og skírðust í Heilögum Anda í bæninni, ólíkt þessum babblandi [1] háskólastelpum undansláttarguðfræðinnar sem telja sig hafa höndlað sannleikann með því að rangtúlka ummæli hl. Páls eða slíta þau úr samhengi.

Ónefndur maður sem var fyrrum lúterskur prestur, en gerðist síðan kaþólskur, sagði við mig: Ásamt öðrum sá ég að skipið (kirkjan) var að sökkva. Við hlupum í lífbátana og rérum lífróður í burtu og eftir að hafa róið langt, varð mér litið til baka og skipið var alls ekki sokkið. Þá fleygði ég mér í sjóinn og synti til baka.“ Hann notaði sömu orðin og gamall og trúfastur prestur í Los Angeles Times meðan „barnaníðingamálið í röðum presta“ reið eins og holskefla yfir kirkjuna: „Já, það er rétt, það er kominn hliðarhalli á skipið, en það mun rétta sig við eins og alltaf í sögunni.“

Það er heimska að hlaupast undan merkjum. Þannig gætum við sagt, að þeir sem berjast gegn óréttlæti Bush stjórnarinnar ættu að flýja til Kanada og skipta um ríkisborgararétt. Vitaskuld eiga þeir að berjast á heimavígstöðvunum fyrir auknu réttlæti. Með sömu rökleysinu ættu allir Þjóðverjar að flýja land af því að Adolf H. var mannníðingur og fjöldamorðingi, eða þá að Íslendingar ættu að flytja úr landi af því að landar þeirra drekktu konum í pokum á Þingvöllum forðum.

Þær hl. Katrín og hl. Teresa kenna okkur að horfast í augu við sannleikann, og sannleikurinn er Kristur og hann gefur okkur kjark og þrek til að horfast í augu við söguna, sem ekki er alltaf fögur í höndum misviturra manna, innan kirkju sem utan. Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa. Eða með orðum Jóns Gnarrs: „Maður skiptir ekki um fótboltalið, þó að liðið manns tapi mikilvægum úrslitaleik.“

Já, Kristur var guðlastari í augum Gyðinganna. Lestu 6. kaflann í Jóhannesarguðspjalli þegar hann boðaði þeim leyndardóm holds síns og blóðs. Fjölmargir yfirgáfu hann og hann KALLAÐI ekki á þá til baka! Sannleikurinn er ekki eitthvað 20% eða 75% heldur 100%. Hann er ekki eitthvað, heldur HANN, lifandi persóna. Þetta skyldi Pontíus Pílatus ekki þegar hann spurði: HVAÐ ER SANNLEIKURINN? og Kristur virti hann heldur ekki svars. Hins vegar sagði Blaise Pascal: „Ekki guð fræðimannanna og heimspekinganna, heldur Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs!“

Hvað er sagt við okkur sjálfa: „Þeir sem boða lífsmenningu ljóss og elsku í öðru orðinu, en mannhatur í hinu (dirfast að andamæla hómósexualismanum), eru hræsnarar (guðlastarar). En boðorð Drottins eru hrein og tær og sem meðlima í kirkjunni eru þau STJÓRNARSKRÁ okkar. Já, hl. Katrín var afar merk kona og kenndi okkur að endurreisa kirkjunna úr mennskri eymd:

„Í sjálfum syndum kirkjunnar kom hún auga á hina ósegjanlegu náðargjöf siðbótarinnar. Rétt eins og sekt heimsins varð til þess að Endurlausnari mannkynsins kom til jarðar því til líknar, draga syndir kirkjunnar þennan sama Endurlausnara til örbirgðar hennar. Og það er kraftur hans eins sem megnar að græða hana og endurreisa sem samfélag hinna snauðu og auðmjúku.“

Enn í dag siglir skipið sinn sjó eftir 2000 ár og heldur áfram að gera það til endatímanna, ef við MISSUM EKKI SJÓNAR AF KRISTI OG MÓÐUR HANS! Með storminum á vatninu kenndi Drottinn okkur að sigla í gegnum stormviðri og stórsjó MEÐ ÞVÍ AÐ HORFA TIL SÍN! Það var ekki fyrr en Pétur leit í aðra átt sem hann tók að sökkva, það er að segja til sinnar eigin og mennsku angistar. Það er þetta sem hin Alhelga kennir okkur á íkonu sinni sem Vegvísan (Hodigitria) með því að benda á hann: HORFIÐ TIL HANS!

[1]. Mér skilst að sögnin að babbla sé dregin af Babelsturni þar sem orðin misstu marks vegna þess að þeir ætluðu sér að reisa sér turn sjálfum sér til dýrðar eða þar sem þeir böbbluðu. Eins og aðrar dæmisögur Biblíunnar endurtekur slíkt sig með hverri kynslóð.

22.03.06 @ 01:45