« Skynsemin má ekki vera blind gagnvart hinu guðdómlegaGleðilegt nýtt ár 2007! »

03.01.07

  11:22:41, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1154 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni, Trúarpælingar

„Guð hefur ákveðið að hann þarfnast okkar allra“

Í bókinni Pípuhattur galdrakarlsins - ævintýri múmínálfanna eftir Tove Jansson sem út kom hjá forlaginu Erni og Örlygi árið 1968 segir frá heimspekilega þenkjandi bísamrottu. Í stóískri ró dró hún sig í hlé frá skarkala heimsins og notaði tímann til lestrar á bók sinni sem hét: „Um tilgangsleysi allra hluta.“ Bísamrottan lenti síðar í hremmingum og týndi bókinni. Undir lok sögunnar fékk hún samt tækifæri til að hitta galdrakarlinn sjálfan og hennar heitasta ósk var að fá bókina góðu galdraða til baka:

„Nei heyrið þér nú!“ sagði bísamrottan. „Mætti ég biðja um bókina mína galdraða aftur hingað tafarlaust!“ „Búið er það sem búið er“, sagði galdrakarlinn. „En þér skuluð fá nýja bók, heiðraða frú. Gerið þér svo vel!“ „'Um hinn góða tilgang allra hluta'“, las bísamrottan. „Þetta er bandvitlaust! Bókin mín fjallaði um tilgangsleysi allra hluta!“ En galdrakarlinn hló bara.[1]

Þó hér verði engin tilraun gerð til að halda fram óraunsærri bjartsýni á borð við þá sem gagnrýnd var í Birtíngi eftir Voltaire þá voru sumir atburðir nýliðins árs 2006 þess eðlis að horfast verður í augu við áleitnar spurningar. Til dæmis um þá spurningu hvort skortur lífstilgangs sé að valda tjóni hjá allt of mörgum einstaklingum?

Sem dæmi um slíka atburði má nefna að á nýliðnu ári lagði lögregla og tollgæsla hald á jafnmikið af amfetamíni og kókaíni eins og síðustu sex ár þar á undan. [2] Árangur lögreglunnar ber að lofa og styðja en ekki verður hjá því komist að ætla að þessar tölur bendi til að magn fíkniefna í umferð sé að aukast stórlega sem er mikið áhyggjuefni. Í ritstjórnargrein 30.12.2006 skrifaði leiðarahöfundur Morgunblaðsins um þetta:

Sá árangur sem yfirvöld hafa náð í að stöðva fíkniefnasmygl er lofsverður. Rót vandans liggur hins vegar í eftirspurninni. Líf einstaklings á valdi eiturlyfja er ömurlegt og allt of margir hafa orðið eiturlyfjafíkninni að bráð í íslensku þjóðfélagi. Baráttan gegn eiturlyfjum er spurning um mannslíf.[Leturbr. RGB] [3]


Þarna lýsir leiðarahöfundur Morgunblaðsins að rótum vandans. Ef fíkniefnin væru óseljanleg þá myndi enginn selja þau. En hvers vegna er þessi eftirspurn? Getur verið að skortur á gleði, lífsfyllingu og trú á að lífið eigi sér tilgang sé einn af þeim þáttum sem orsaka það að fólk kaupir fíkniefni? Ein skýring sem gjarnan er gripið til, og með nokkurri vissu, er að vandinn liggi í skorti á umhyggju og athygli foreldra og samfélagsins þó ekki hafi enn verið sýnt fram á hvað það er nákvæmlega í þessari umhyggju sem hefur þessi jákvæðu áhrif. Frístundastarf hefur einnig góð áhrif. Nærtækt er að ætla að hin jákvæðu áhrif þessarar umhyggju og athygli séu m.a. til komin vegna þess að hún fóstri trú á jákvæð gildi og þar á meðal að lífið eigi sér tilgang. Ef trú er til staðar um að lífið eigi tilgang þá öðlast brátt allt sem fólk gerir tilgang. Vinnugleði, sátt við tilveruna og innri ró fylgir í kjölfarið. Boðendur tilgangsleysis tilverunnar munu líklega alltaf vera til en kristnin fyllir ekki þann flokk. Skoðum aðeins hið kristna viðhorf um hlutverk lífsins eins og það er sett fram í eftirfarandi predikun:

Sem kristið fólk trúum við því að ástæða sé fyrir veru okkar hér á jörð. Sérhvert okkar er hér að vilja Guðs. Enginn er fæddur fyrir tilviljun. Guð ætlar okkur öllum sérstakt hlutverk. Mörgum er ætlað að giftast og stofna fjölskyldu. Sumum er ætlað einlífi eða að tileinka sig Guði sem prestur eða nunna. En öll eigum við að lifa lífinu í kristilegum kærleika.

Spyrjið fólk sem ekki hefur enn fundið Jesús: "Hvers vegna ert þú komin í heiminn?" og það svarar e.t.v.: "Við erum ekki send hingað heldur erum við einungis hér. Við höfum einungis áhuga á að lifa lífinu lífsins vegna. Við lifum ánægjunnar vegna og lífið væri einskis virði ef við gætum ekki lifað því eins og okkur hentar. Við höfnum allri afskiptasemi Guðs eða hvers sem er í lífi okkar."

Þegar við berum slík svör saman við svörin sem Biblían gefur kemur fram mikil mótsögn, en hún segir að allir hafi sérstöku hlutverki að gegna fyrir Guð.

Allir, ríkir og fátækir, menntaðir og ómenntaðir, ungir og gamlir, konur og karlar, hafa hlutverki að gegna og starfi að sinna. Guð hefur ákveðið að hann þarfnast okkar allra. Öll höfum við mismunandi stöðu í lífinu, ekki til að þjóna okkur sjálfum, heldur til að nýta hana í Guðs þágu. Eins og Jesús hafði verk að vinna höfum við einnig okkar. Eins og Jesús fann gleðina í starfi sínu þannig eigum við líka að finna fyrir gleðinni í okkar starfi.[4]

Það er ekki nóg með að lífið eigi tilgang heldur þarfnast Guð mannsins til að gera góðverk á jörðinni og hver og einn hefur sérstöku hlutverki að gegna. Það er því skylda hins kristna manns að leita tilgangs og vilja Guðs í sínu lífi.

Ekki veit ég hvernig líf bísamrottunnar breyttist við bókaskiptin en eitt er víst að fjöldi fólks er til vitnis um þau umskipti sem orðið geta þegar líf þeirra þróast frá tómhyggju, afstæðishyggju og tilgangsleysi yfir í það að eiga ákveðinn tilgang og hlutverk. Sért þú lesandi góður í þeim flokki sem enn hefur ekki upplifað þessa umbreytingu frá tómi og tilgangsleysi yfir í líf með tilgang og hlutverk, eða ert jafnvel í viðjum fíknar þá vil ég vekja athygli þína á þeim möguleika að snúa þér til kaþólsku kirkjunnar og kynna þér af eigin raun boðskap hennar.

[1] „Pípuhattur galdrakarlsins - ævintýri múmínálfanna.“ Bókaútgáfan Örn og örlygur HF, bls. 152-153. Líklega gefin út 1968?
[2] „Tóku jafnmikið amfetamín og kókaín eins og öll árin 2000-2005“ Morgunblaðið, föstudaginn 29. desember, 2006. http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1121762
[3] „Fíkniefni gerð upptæk“ Morgunblaðið, laugardaginn 30. desember, 2006.
http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1121923
[4]„Prédikun séra Denis, Sunnudag 16. nóvember 2003“ http://mariu.kirkju.net/predikanir16nov.html

No feedback yet