« Ritningarlesturinn 10. ágúst 2006Ritningarlesturinn 9. ágúst 2006 »

09.08.06

  07:45:41, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 550 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Um stríð og frið

„Einn þeirra, sem með Jesú voru, greip til sverðs og brá því, hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum eyrað. Jesús sagði við hann: „Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla“ (Mt 26. 51-52). Hér opinberar Jesús okkur andlegt lögmál blóðhefndarinnar: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn! Það er þetta sem Benedikt páfi XVI áminnir hina trúuðu á með tilmælum sínum um að biðja fyrir friði í Líbanon og Ísrael. Að biðja fyrir friði og taka einn dag til yfirbóta. Þér öðlist ekki vegna þess að þér biðjið ekki segir Jesús. Mikil speki býr því að baki þessara orða hins heilaga föður.

Það var ekki Jesús sem vitjaði þorpsins Kana í byggðum Sídonar og Týrusar (Líbanon) nú fyrir skömmu sem forðum. Það voru ísraelskar eldflaugar í næturhúminu og 48 létu lífið, að mestu konur og börn. Þetta er lögmál blóðhefndarinnar sem Kristur kom til að afnema.

Í ritningarlestri dagsins (9. ágúst) áminnir hinn blessaði Jóhannes Tauler okkur á hvar þennan frið er að finna. Hann er að finna í djúpi mannsverundarinnar: DJÚPI GUÐS. Abyssum abyssae vocat hrópaði Davíð forðum: „Eitt djúpið hrópar á annað, þegar fossar þínir duna“ (Sl 42. 8). Djúp mannsverundarinnar hrópar á djúp Guðs – óræðisdjúp Heilags Anda – og þetta er friðarákall. Við biðjum um frið Guðs sem er öllum skilningi æðri.

Þetta er hin heilaga arfleifð kristindómsins sem Benedikt páfi biður okkur að haldi í heiðri. Einn nákominna vina minna hefur beðið fyrir friði í byggðum Sídónar og Týrusar daglega. Ekki síðasta mánuðinn, heldur árum saman. Hann tilheyrir bænahópi sem biður sífellt um frið á þessu landsvæði sem Drottinn gekk um í holdi fyrir 2000 árum.

Í dag minnist kirkjan einnig heil. Teresu Benediktu (Edith Stein), karmelsysturinnar sem snérist til kristinnar trúar frá gyðingdómi og skrifaði bréf til príorínu sinnar og bað um að verða að lifandi friðþægingarfórn fyrir þjóð sína: Ísrael. Guð varð við bæn hennar og hún lét líf sitt með þjóð sinni í Auschwitz!

Þetta skulum við hafa í huga á þessum degi: „Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ Þegar Kristur kemur að nýju til byggða Týrusar og Sídonar mun friður hans ríkja og þurrka öll tár af hvörmum saklausra kvenna og barna þegar Stalínsorgelin þagna fyrir fullt og allt.

Eitt sinn sat heil. Silúan í borðsalnum í Panteleimonsklaustrinu á Aþosfjalli og hlustaði á bræður sína ræða um stjyrjaldarátökin (í fyrri heimstyrjöldinni). Hann var hljóður þar til umræðunum var lokið. Þá sagði hann: Ég er ekki sammála ykkur bræður. Drottinn boðaði okkur aldrei það sem er óframkvæmanlegt. Aldrei! Það er rangt að grípa til vopnavalds! Hann hefði aldrei boðað okkur friðinn ef slíkt væri óraunhæft!

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér fyrir þennan vekjandi pistil og vel ritaða, bróðir Jón. Getið er um Týrus og/eða Sídon í Mt.11.21,–22, 15.21, Mk.3.8, 7.24 og 31, Lk.4.26, 6.17, 10.13–14 og Post.21.3 og 7, sbr. og 12.20. (Þar á meðal eru bein orð Jesú sjálfs: “Vei þér, Kórazín; vei þér, Betsaída; því að ef þau kraftaverk hefðu verið gjörð verið í Týrus og Sídon, sem gjörzt hafa í ykkur, hefðu þær fyrir löngu gjört iðrun í sekk og ösku. Þó segi eg yður, að Týrus og Sídon mun verða bærilegra á dómsdegi en ykkur.") En Kana er sögð í Galíleu – mun þó vera þetta þorp í núverandi Líbanon – og minnzt á hana í Jóh.2.1 og 11 (brúðkaupið í Kana, ein þekktasta saga guðspjallanna, með kraftaverki Jesú), 4.26 og 21.2. (Þessu er nú bara bætt hér við fyrir fróðleikssakir.)

Íhugunarverð eru lokaorð heil. Silúans. Samkvæmt þeim hefðu þó Bretar og Frakkar naumast mátt lýsa yfir stríði á hendur Hitlers-Þýzkalandi, sýnist mér (jafnvel þótt þeir hefðu e.t.v. að mati Silúans mátt verja sig, væri á þá sjálfa ráðizt; ég veit það ekki). Við getum hugleitt, hvort betra viðbragð við árás Hitlers á Pólland hefði verið að láta hann valta áfram yfir varnarlitlu löndin í Mið-Evrópu og á Balkanskaga, áður en hann réðist á Sovétríkin; hugsanlega hefði hann ekki getað haldið uppi svo víðtæku hernámi. En hver var til í að taka þeirri áhættu? Hefði ekki slíkt viðnámsleysi verið í ætt við viðnámsleysi þýzku borgaraflokkanna gegn nazistaflokknum eða almennings við Gyðingaofsóknunum, og var það til góðs? Ég set hér fram þessar spurningar, það er áhugavert að ræða þessi mál og fá að sjá álit ykkar hinna. En ég hef a.m.k. ekki verið sannfærður um, að alger pacifismi (friðarhyggja, sem í reynd er uppgjafarhyggja) samrýmist kenningu kirkjunnar – né orðum frelsara okkar, því að hann segir þó: „Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ Með þessu sýnist mér hann fordæma þá, sem eiga upptök að stríði, en ekki hina, sem verja sig. Það er að vísu ekki berum orðum sagt, en það er eins og hann setji það fram sem réttlát málagjöld, að þeir, sem sverði bregða, muni eða skuli falla fyrir sverði.

09.08.06 @ 11:08
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Eins og komið hefur fram í athugasemdum mínum við skrif enska prestsins um Líbanonstríðið tel ég veraldlega yfirvöld hafa fullan siðferðilegan rétt á að verja ríki sín þegar á þau er ráðist.

Heil. Silúan var að gagnrýna hernaðarhyggjuna sem slíka, að leita bæri allra úrræða áður en gripið væri til vopna. Þannig lét ég í ljós miklar efasemdir um hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna í Írak og mér virðist sem tíminn leið í ljós, að efasemdir mínar hafi verið á rökum reistar.

Sjálfur gegndi heil. Silúan herþjónustu í keisaralega lífvarðarliðinu í St. Pétursborg áður en hann gerðist munkur. Hann var einnig kvaddur til herþjónustu í stríði Rússa og Japana eins og aðrir bræður á Aþosfjalli. Guð hagaði því einfaldlega svo til að alla herskylduna dvaldi hann sem einsetumaður í kofa ekki fjarri heimaþorpi sínu í Túlsahéraði af einhverjum dularfullum ástæðum.

Padre Pio var þannig einnig kvaddur í herþjónustu í fyrri heimstyrjöldinni ásamt yngri fransiskanabræðrunum. Hernaðaryfirvöld taka fullt tillit til trúarafstöðu manna og láta þannig reglumeðlimi starfa sem sjúkraliða eða við önnur hjálparstörf, en ekki taka þátt í vopnaátökum.

Heil. Silúan skírskotar hér til sjálfrar kirkjunnar (Péturs) sem aldrei má grípa til vopna. Mér virðist Benedikt páfi vera að boða hið sama: Að treysta á bæn og yfirbót. Það kemur ekki á óvart jafn víðlesinn og hann er í skrifum hinna heilögu feðra. Þannig hefur kaþólska kirkjan gagnrýnt harðlega framkomu öfgamanna mótmælenda sem gert hafa sprengjuárásir á fósturdeyðingarstöðvar í BNA.

Þannig tel ég það afar virðingarvert hvernig kvekarar brugðust við í borgarastríðinu í BNA: Að neita að bera vopn og starfa einungis sem sjúkraliðar. Vitaskuld var það hárrétt ákvörðun hjá Bretum á sínum tíma að koma Pólverjum til varnar og veraldleg yfirvöld hafa fullan rétt á slíku samkvæmt kirkjulögum, rétt eins og Ísraelsmenn hafa rétt til að verja hendur sínar gegn hryðjuverkamönnum Hizbollah. Hins vegar er fréttaflutningurinn á Íslandi slíkur, að fréttamenn virðast starfa á vegum upplýsingaskrifstofu Hizbollah.

09.08.06 @ 13:24