« Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 3Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 2 »

28.08.07

  16:32:54, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 328 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um stjarnanna dýrð

Jafnskjótt og tekur að hausta tekur stjörnuhvelið að draga til sín athygli fjölmargra áhugasamra leikmanna. Í gærkveldi var það Tunglið sem skartaði sínu fegursta á suðausturhimninum í um 11° hæð yfir sjóndeildarhringnum um tíu leytið (Azimuth 138°). Skammt frá Tunglinu má nú sjá Úranus í Vatnsberamerkinu og Neptúnus í Einhyrningnum.

Eftir að Google Earth bætti himinhvolfinu (Sky) við hið stórmerkilega forrit sitt opnast loks möguleikar til að sjá frábærar myndir sem Hubble hefur tekið á síðustu árum. Milli Vatnsberans og Einhyrningsins má sjá mikla „Helix Nebula,“ NGC 7293. Ég ráðlegg fólki að nálgast hina nýju útgáfu af Google Earth ef það hefur ekki gert það nú þegar.

Ég hvet alla foreldra til að opna undraheim himinhvolfsins upp fyrir börnum sínum með því að gefa sér tíma til að sitja með þeim fyrir framan tölvuskjáinn.

Ljósmengunin er mikil í Reykjavík og þannig er forrtitið ómetanlegt. En ég bendi fólki jafnframt á að nægilegt er að keyra upp í Heiðmörk á stjörnubjörtum kvöldum í vetur. Ef foreldrarnir eiga fartölvu er unnt að taka hana með og þá er leikur einn að finna einstök stjörnumerki á himinhvolfinu.

Sem fyrrverandi kortagerðarmaður undrast ég þær framfarir sem orðið hafa á þessu sviði einungis á einum áratug. Í gamla daga leituðumst við hjá Gamla DV við að birta stjörnukort daglega í blaðinu sem féll í minn hlut. Miklar eru framfarir tækninnar frá því að við Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur gerðum stjörnukort í bók Menningarsjóðs um Stjörnufræði sem hann skrifaði. Þrátt fyrir að nú séu liðin 40 ár síðan þetta verk kom út, eru kortin enn í fullu gildi með öllum nöfnum á íslensku. Sjálfur veit ég hversu mikla alúð Þorsteinn lagði í þetta verk enda frábær fræðimaður á sínu sviði.

No feedback yet