« Einingarkirkjan á Norðurlöndunum verður reist við Östenbäckklaustrið í Svíþjóð Evkaristían er ein og algjör: Líkami Krists í einingu Heilags Anda »

10.01.08

  09:27:54, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 856 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Um skyldur og ábyrgð kaþólskra útgefenda og þýðenda í löndum mótmælenda

Skyldur og ábyrgð kaþólskra útgefenda og þýðenda í þeim löndum þar sem mótmælendur eru ríkjandi er mikil vegna þess að allt verður að vega og meta í ljósi hinnar heilögu arfleifðar kirkjunnar. Rétt eins og gilti um kommúnistaríkin fyrrum er hugtakafölsun veraldarhyggjunnar afar víðtæk í kirkjulegum skilningi. Við skulum taka sem dæmi orðið lýðræði sem kommúnistar gáfu nýtt merkingarinntak: Orðið „alþýðulýðveldi“ sem í reynd fól í sér einræði flokksins.

Hið sama má segja um veraldarhyggjuna (secularism) sem er í engri samhljóðan við afstöðu kirkjunnar. Við skulum taka orðið „guð“ sem dæmi. Samkvæmt skilgreiningum málvísindamanna veraldarhyggjunnar er orðið „guð“ samheiti sem skrifa ber með litlum staf og þetta er það sem við sjáum einmitt í fjölmiðlum í dag. Hryggilegt er að sjá hvernig mótmælendur hafa látið undan veraldarhyggjunni í þessum efnum í útgáfustarfsemi sinni.

Samkvæmt kaþólskri guðfræði Vestur- og Austurkirkjunnar er Guð Þrenning í einingu Persónanna þriggja. Hér er um lifandi persónur að ræða sem bera sérnöfn rétt eins og þú og ég. Samkvæmt arfleifð kirkjunnar ber því að skrifa nöfn þeirra með stórum staf: Guð, Sonur og Heilagur Andi. Einnig ber að skrifa Andann með stórum staf þegar hann skírskotar til Heilags Anda. Á grísku er það orðið „Pnefma“ sem skírskotar til Heilags Anda. Hins vegar er vikið að mannsandanum sem „nous“ á grísku, „spiritus“ á latínu, „espirit“ á frönsku og „um“ á rússnesku svo að nokkur dæmi séu tekin.

Í bókstaflegri merkingu þýðir orðið „nous“ hugur og þennan skilning leggur veraldarhyggjan í orðið og hann er nú allsráðandi í nýju íslensku Biblíuþýðingunni. Í útgáfunni frá miðbiki nítjándu aldar á íslensku Bibliunni má enn sjá menjar hinnar heilögu arfleifðar, en þar er orðið stundum þýtt sem „hugskot,“ dýpsta skot mannshugans eða djúp. Hér er enn til staðar menjar um hina heilögu arfleifð. Samkvæmt henni merkir orðið „nous“ æðstu eigind mannsins svo framarlega sem hún hefur hreinsast af áhrifum lasta og synda í helgun Krists. Ólíkt skynseminni sem á grísku er nefnd „dianoia“ eða hinni rökkryfjandi hugsun starfar „nous“ með ólíkum hætti. Það mótar sér ekki afstæðar hugmyndir með rökkrufningu, heldur ber það skyn á guðdómleg sannindi með beinu ásæi eða áskynjun. Iðulega víkja hin heilögu að því sem „hreinum“ eða „innblásnum“ skilningi eða hinu andlega innsæi sem dvelur í djúpi verundar mannsins. „Nous“ er starfstæki eða líffæri ásæisins á Guði sem grundvallast á hreinleika hjartans eða með orðum Drottins: „Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá“ (Mt 5. 8) og á öðrum stað: „Þegar auga þitt er heilt, þá er og allur líkami þinn bjartur, en sé það spillt, þá er og líkami þinn dimmur“ (Lk 11. 34). Hér víkur Drottinn að hinu „hreina ásæi,“ eða „auga andans,“ eða „nous.“

Það er einungis með þessum hætti sem við skiljum ummæli eins og eftirfarandi í guðspjöllunum: „Síðan lauk hann upp anda (huga í íslensku Biblíuþýðingunni) þeirra, að þeir skildu Ritningarnar“ (Lk 24. 45). Drottinn blæs lífi í „nous“ lærisveinanna, en það er orðið sem gripið er til í gríska textanum (Textus receptus): Þeir öðlast andlegt innsæi eða ásæi í bruna hjartna sinna, í logum hinnar lifandi Kristselsku. Orðið „theamata“ (ásæi) er komið frá heil. Gregoríosi frá Nansíanzen, einum Kappadokíufeðranna þriggja.

Það er ekki unnt að varðveita hina heilögu arfleifð öðru vísi en að meðtaka Evkaristíuna og önnur sakramenti kirkjunnar sem næringu. Það er þessi næring sem glæðir innblásna þekkingu sem kemur beint frá Drottni í leyndardómi hans í nærveru sinni í samfélagi kirkjunnar sem lifandi líkama hans. Þar talar hjarta við hjarta: Hið Alhelga Hjarta Drottins umvefur mannshjartað í lifandi loga elsku sinnar eins og lærisveinarnir greina frá á veginum til Emmaus: „Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?“ (Lk 24. 32).

Hér er einungis vikið að fáum dæmum um hina lifandi arfleifð kirkjunnar sem kaþólskum útgefendum og þýðendum ber skylda til að virða. Hana sjáum við ljóslega í Biblíuþýðingum rómversk kaþólskra og Orþodoxa, en dapurlegt er að sjá hvernig mótmælendur hafa misst sjónar af henni í undanlátssemi sinni gagnvart herskárri veraldarhyggju eða eigum við fremur að segja sofandahætti?

Einver komst svo að orði: „Það er unnt að spila undurfagrar sónötur Mozarts hvort sem heldur er á greiðu eða fiðlu“. Þegar heilög Ritning á hlut að máli hlýtur sannkristinn einstaklingur að taka fiðluna fram yfir greiðuna þó að veraldarhyggjan telji greiðuna við hæfi.

No feedback yet