« Ritningarlesturinn 23. október 2006Ritningarlesturinn 22. október 2006 »

22.10.06

  08:56:43, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1346 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um sköpunarmátt þjáninganna

Nýverið sá ég viðtal við unga konu í sjónvarpinu sem er afar mikið fötluð og ekur um í hjólastól. Engu að síður hefur hún lokið menntaskólanámi og hefur hafið nám í háskóla. Í vetur heldur hún fyrirlestra í framhaldsskólunum. Inntak boðskapar þess sem hún miðlar af reynslu sinni til annarra ungmenna er: FORRÉTTINDI ÞESS AÐ VERA FÖTLUÐ! Við skulum nú íhuga þennan leyndardóm örlítið nánar með hliðsjón af því sem heil. Tómas frá Akvínó segir um þjáninguna í hugleiðingunni með guðspjalli dagsins (22. október).

Ég ætla að greina hér frá reynslu gamals vinar míns sem ég hef vikið að áður í pistlum mínum, föður Henry Boulad S. J. Fyrir utan að vera guðfræðingur nam hann taugalífsfræði við Háskólann í Chicago. Í einu bréfa sinna greindi hann mér fá tilraun sem gerð var í Bandaríkjunum hvað varðaði sársaukaskynjun ýmissa dýrategunda.

Tilraunirnar voru framkvæmdar á vegum Bandaríkjahers þar sem herlæknar í vígvöllum Annarrar heimstyrjaldarinnar höfðu komist að raun um að sársaukaskyn hermanna var afar breytilegt og réðst af uppruna þeirra. Þannig þörfnuðust þeir hermannanna sem voru úr hópi frumbyggjanna, indíánar og eskimóar, ekki jafn stórra skammta af deyfilyfjum eins og til að mynda hermenn af ítölskum ættum.

Niðurstöður rannsóknanna voru í sem fæstum orðum þær að huglæg og sálræn afstaða sjálfra hermannanna réði úrslitum. Umfangsmiklar rannsóknir voru gerðar á sársaukamörkum ýmissa dýra. Niðurstöðurnar komu afar mikið á óvart. Þau dýranna sem þjáðst höfðu mest í langan tíma reyndust vera með hærri greindarvísitölu! Þegar þau voru krufin blasti við sjónum að rákirnar í heilabörkum þeirra voru dýpri en annarra dýra sömu tegundar.

Þegar faðir Boulad snéri að nýju heim til Egyptalands tók hann að íhuga þessar óvæntu niðurstöður nánar og þá var það sem hann uppgötvaði það sem hann nefndi SKÖPUNARMÁTT ÞJÁNINGANNA, mátt, sem opinberaðist með áþreifanlegum hætti í lífi einstaklinga sem höfðu „unnið sigur á þjáningunni.“ Hann greindi frá fyrrverandi liðsforingja í egypska hernum sem misst hafði sjónina í götuóeirðum. Fyrsti árin eftir þetta slys þjáðist hann af alvarlegu þunglyndi. En með tímanum gerðist „kraftaverkið.“ Þegar hann hafði sæst við sjálfan sig og ástand sitt tók hann að berjast fyrir réttindum blindra og velferð þeirra. Hann stofnaði og varð framkvæmdastjóri stærsta blindraheimilisins í Egyptalandi!

Faðir Boulad minntist einnig á franska konu sem var svo alvarlega bækluð allt frá fæðingu að því sem næst allur líkami hennar var óstarfhæfur. „Bæklun“ hennar var í reynd svo mikil að það var höfuðið eitt sem starfaði bókstaflega talað með eðlilegum hætti og það varð að vopni hennar í baráttunni fyrir réttindum hinna bækluðu í Frakklandi. Með því að tala í útvarpi og sjónvarpi auðnaðist henni að lokum að reisa sjö meðferðarheimili. Listamaður einn sem aflaði sér heimsfrægðar gat gefið öðrum hlutdeild í fegurð heimsins með því að halda á penslinum milli tanna sér.

Með þessum og fjölmörgum öðrum tilvikum sannfærðist Boulad um hinn skapandi mátt þjáningarinnar, að fólki sem hefði auðnast að virkja þennan mátt öðrum til heilla framkvæmdi í reynd kraftaverk, væru einstaklingar sem nýttu hæfileika síns mun betur en þeir sem teljast „heilbrigðir.“ Hann útskýrði þetta með því að þessu fólki hefði lærst sá leyndardómur, að lifa út frá dýpsta djúpi verundar sinnar, hefði svo að segja sætt sig við aðstæður sínar og aðlagað líf sitt að þeim möguleikum sem lífið fæli í sér: HEFÐI SÆST VIÐ GUÐ. Og í beinu áframhaldi af þessu hefði það orðið að farvegi hinnar styrkjandi náðar sem hefði haft mótandi áhrif á allar aðstæður þess og breytni.

Í þessu sambandi langar mig að minnast á hina blessuðu Matrona Dimitrievna sem fæddist í þorpinu Sebino í Tulsahéraði í Rússlandi það 9. nóvember 1885. Hún var af fátæku bændafólki komin og blind frá fæðingu – fæddist án augna – en varð einn af stólpum kirkjunnar á Stalínstímanum. Allt sitt líf barðist Matúshka Matrona fyrir andlegri velferð sálnanna, jafnt kirkjuleiðtoga sem alþýðu manna og þannig rættust spádómsorð föður Jóhannesar frá Kronstadt: „Hér er sú komin sem leysa mun mig að hólmi! Áttundi stólpi Rússlands!“ Þrátt fyrir blindu sína sá hún með auganu hreina (Lk 11. 34-36).

Í hinum skapandi þjáningum myrkasta skeiðs nætur andans er sálin styrkt með þeim dýpstu þjáningum sem nokkur mennsk vera hefur liðið í þessari jarðnesku tjaldbúð þar sem við dveljum nú um stundir. ÞETTA ERU ÞJÁNINGAR GUÐS SEM ÞJÁÐIST SEM MAÐUR Á KROSSTRÉNU. Þegar hann gefur sálinni hlutdeild í sínum eigin þjáningum er óhjákvæmilegt að sálin verði að góðum fyrirbiðjanda þar sem Guð hefur umbreytt hjarta hennar í sitt eigið: Gefið henni kærleiksríkt hjarta. „Hvað er kærleiksríkt hjarta?“ spyr Ísak Sýrlendingur:

Sá sem hefur slíkt hjarta til að bera getur hvorki séð eða minnst skapaðrar veru án þess að augu hans verði tárvot sökum þeirrar ósegjanlegu samúðar sem gagntekur hjarta hans. Þetta er hjarta sem hefur mýkst og getur ekki lengur horft á eða heyrt minnst á þjáningu af vörum annarra, jafnvel þá léttvægustu. Það er af þessum ástæðum sem slíkur maður biður óaflátanlega, einnig fyrir skepnum, óvinum sannleikans og þeim sem gera honum illt, þannig að þeir fyrirfarist ekki og hreinsist. Hann mun jafnvel biðja fyrir skriðkvikindum knúinn áfram af þeirri ósegjanlegu meðaumkun sem ríkir í hjörtum þeirra sem hafa sameinast Guði.

Slík sál hefur verið krossfest á krosstré elskunnar með Endurlausnara sínum í nótt andans og tekur undir hans eigin bæn í dýpsta djúpi þjáninga hans:

FAÐIR, FYRIRGEF ÞEIM, ÞVÍ AÐ ÞEIR VITA EKKI, HVAÐ ÞEIR GJÖRA (Lk 23. 34).

Og nú langar mig að segja frá einu námskeiðinu sem haldið er í Bænaháskóla Guðsmóðurinnar: Á hverjum degi leiðir hún okkur upp á Fórnarhæð krossins til síns heilaga Sonar og lætur dýrlegt og háheilagt blóð hans drjúpa yfir okkar eigin hjörtu. Þannig lærum við að þjást og bera fram fórnir sem Jesús metur svo mikils að hann gerir okkur að samstarfsmönnum sínum í endurlausnarverki sínu þegar við gerum það full gleði og þakklætis.

Fórnirnar þurfa ekki að vera miklar: Það er hugarfarið sem býr að baki sem ræður úrslitum. Ef þið gerið áhyggjur hins daglega lífs að fórnum til að færa Jesú að gjöf verður hann ósegjanlega glaður vegna þess að með þessu heiðrið þið píslir hans á krossinum og minnist þeirra. Áhyggjur líkt og hvort Stínu litlu gangi vel í skólanum eða áhyggjurnar af afborguninni af greiðslukortinu um næstu mánaðarmót umbreytast þannig í eðalsteina sem gleðja Jesú ósegjanlega mikið. Eins og ég sagði: Það skiptir ekki nokkru máli hvort fórnirnar séu litlar eða stórar, einungis að við gerum okkur þetta að reglu. Amen.

No feedback yet