« Kæra samkynhneigðra á hendur Gunnari ÞorsteinssyniSigurviss bæn fyrir ófæddum »

25.03.06

  13:26:21, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 1760 orð  
Flokkur: Fósturvernd

Um “neyðargetnaðarvörn” – rangfærslum og lögleysu mótmælt

Grein þessi birtist í samanþjappaðri mynd í Mbl. 20. des. 2000, því að frumgerð hennar var sögð of löng fyrir blaðið. Hér er hún birt í upprunalegri, ýtarlegri gerð. Taka má fram, að Mbl.greininni [1] var ekki svarað í blaðinu.

Ekki verður hjá því komizt að andmæla fullyrðingum og áróðri heilbrigðisyfirvalda um verkun svokallaðrar neyðargetnaðarvarnarpillu. Áberandi dæmi um þetta er málflutningur dr. Reynis Tómasar Geirssonar í Mbl. 25. okt. 2000 og Sóleyjar Bender í sama blaði 11. nóv. s.á. Bæði boða þau “neyðargetnaðarvörn” (skammst. NGV) sem úrræði í takmörkun barneigna, en verður fótaskortur á sannleikanum í ofurkappi sínu að koma þessum pillum á framfæri.

Hér á eftir verður sýnt fram á (1) að sumar helztu staðhæfingar þeirra eru byggðar á sandi, jafnvel rangfærslu á alkunnum vísindalegum staðreyndum, og (2) að sú notkun á “NGV”, sem þau leggja til að tekin verði upp, er í reynd ólögmæt, þar sem hún er andstæð lögum nr. 25/1975 um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar o.fl.

Hvenær byrjuðum við að vera til?

Reginvilla Reynis og Sólveigar felst í því yfirlýsta áliti þeirra, að getnaður verði ekki fyrr en við festingu “frjóvgaðs eggs” í slímhúð legsins, en sú festing á sér stað undir lok fyrstu viku eftir frjóvgun.

Þetta eru ekki þau fræði, sem Reynir lærði á skólabók sem læknanemi, og enn er það grundvallaratriði fósturvísisfræðinnar (embryology), að líf okkar byrjar við frjóvgun, þegar egg og sæði sameinast, sem hvort um sig hefur aðeins 23 litninga. Egg og sæði geta sem slík aðeins framleitt sáð- eða egg-prótín og -enzým, og hvorugt þeirra getur þróazt til að verða mannleg vera, heldur eru einungis hlutar af mannlegri veru. En eftir frjóvgun (getnað) er orðin til mennsk vera (human being), lífkerfi með 46 litningum, þeim heildarfjölda sem þarf til og er einkennandi fyrir hvern einstakling sem tilheyrir mannkyni. Þessi vera fer þá þegar að framleiða sér-mannleg prótín og enzým, stýrir vexti sínum og þróun sem mannleg vera, er þá þegar nýr, lifandi, mennskur einstaklingur, karl- eða kvenkyns (dr. Dianne N. Irving [2], sem byggir mál sitt á tilvitnunum í þessi sérfræðirit m.a.: W.J. Larsen: Human Embryology, 1997, R. O´Rahilly og Müller: Human Embryology and Teratology, 1994, K.L. Moore og Persaud: The Developing Human, 1998, og Bruce Carlson: Human Embryology and Developmental Biology, 1994).

Í leiðandi fræðiriti, Essentials of Human Embryology (1988) eftir Keith L. Moore, segir: “Mannleg þróun byrjar eftir sameiningu karlmanns-kynfrumu (sæðis) og kynfrumu konu (eggs) í ferli, sem þekkt er sem frjóvgun (getnaður).” Oxford Concise Medical Dictionary (1980) skilgreinir getnað þannig: “Upphaf þungunar, þegar karlmanns-kynfruma (sæði) frjóvgar kynfrumu konu (egg) í eggjastokkunum”. “Okfruman (zygote) er byrjun á nýju, mannlegu lífi (þ.e. fósturvísi (embryo)). Hugtakið “frjóvgað egg” á [einungis] við um þroskað egg sem frjóvgast af sæði; um leið og frjóvgunin er fullkomnuð, verður eggið að okfrumu”; eftir það er í rauninni ekki rétt að tala um “egg” (O´Rahilly & Müller, 16, sbr. Moore & Persaud, 2), þó að sumir, s.s. Reynir og Sóley Bender, kjósi að nota það villandi hugtak í skrifum sínum. Þessi okfruma er einnar frumu fósturvísir (unicellular embryo), sem skiptir sér og þroskast hratt á næstu dögum og vikum og er orðinn um 150 frumur, þegar hann festir sig að eigin frumkvæði í slímhúð legsins, eins og prófessor Erich Blechschmidt hefur lýst nánar.

Það “sjónarmið”, að getnaður eigi sér stað við þá festingu (5-7 daga fósturvísir) eða jafnvel 14 dögum eða 3 vikum eftir frjóvgun og að fyrr sé ekki rétt að tala um fósturvísi og mannlegt líf, er eins og hver önnur andvísindaleg goðsögn, ekki upprunnin frá fósturvísisfræðingum, heldur mönnum eins og Jesúítaguðfræðingnum Richard McCormick og froskaþróunarlíffræðingnum dr. Gifford Grobstein í verkum þeirra frá 1979. Þetta hefur verið gripið á lofti af ýmsum heimspekingum, líftækni-siðfræðingum o.fl. og notað sem réttlæting fyrir fósturvísisrannsóknum til 14. dags frá frjóvgun (brezka Warnock-nefndin) og fyrir athæfi lyfjafyrirtækja sem telja sér heimilt að framleiða pillur, sem ekki aðeins hindra egglos og getnað, heldur binda enda á líf fósturvísis með því að hindra festinguna í legvegginn. Til að fegra athæfi sitt hafa lyfjafyrirtækin og aðrir af sama sauðahúsi (eins og International Planned Parenthood) talað um “neyðargetnaðarvörn” þegar átt er við allt sem pillur þeirra geta gert til að spilla þungun fram að festingu í legvegg. Því miður vilja Reynir Tómas Geirsson og Sóley Bender sverja sig í þennan hóp, en þau breyta ekki vísindalegum staðreyndum og væri sæmst að halda sig við sannleikann.

Fyrirhuguð notkun “NGV” er lagabrot

Í samræmi við áðurnefndar falsforsendur um getnað mannlegs lífs er fullyrðing Reynis og Sólveigar sú, að NGV sé alls ekki fóstureyðing. Skoðum það mál.

Samkvæmt Fæðu- og lyfjastofnun (FDA) Bandaríkjanna eru áhrif NGV í höfuðatriðum þrenns konar: hindrun eggloss, torveldun á flutningi eggs eða sæðis um eggjaleiðara [sem hvort tveggja kemur í veg fyrir getnað] og hindrun festingar í legvegginn [sem eyðir fósturvísi].

Egg, sem losnar í konunni á 4ra vikna fresti, lifir 12-24 klst., og þó að sæðið geti lifað allt upp í fimm daga, unz það nær egginu eða deyr út, þá gera þessar staðreyndir það að verkum, að í verulegum hluta tilvika er notkun NGV sennilega áhrifalaus, af því að konan er einfaldlega ekki frjó. En gerum ráð fyrir að kona sé nýlega orðin eða u.þ.b. að verða frjó. Þá er talið í einni athugun, að þegar þungun hennar er hindruð með NGV, gerist það að meðaltali í u.þ.b. 57% tilvika með þeim hætti að festing fósturvísis í legvegginn er hindruð. Sé NGV hins vegar tekin strax á fyrstu 24 klst. eftir kynmök, er talið, að þessi hindrun á festingu í legvegg gerist í 43% tilvika. Þeir sem útbreiða vilja notkun NGV eru gjarnan í feluleik varðandi þessi áhrif hennar á fósturvísa sem þegar eru orðnir til, en jafnvel International Planned Parenthood viðurkennir, að sumar gerðir “NGV” virki oftar til að hindra festingu fósturvísis í legvegg heldur en að hindra frjóvgun, og Schering, framleiðandi einnar NGV (PC4), segir hana hafa “það aðalmarkmið að hindra festingu hins frjóvgaða eggs [sic!] í legveggnum”.

Niðurstaðan er sú, að þegar NGV “virkar”, er hún vissulega stundum getnaðarvörn, en stundum veldur lyfið fósturláti (chemical abortion), því að mjög stórt hlutfall þessara “þungunarvarna” er fólgið í því að útrýma lifandi fósturvísi. En þar er um fóstureyðingu að ræða samkvæmt ótvíræðum forsendum og skilningi laganna frá 1975, sem ná til allra slíkra tilfella frá getnaði. Aftur á móti var engin heimild gefin í þeim lögum til að fóstureyðing eigi sér stað nema eftir skriflega umsögn 2ja lækna eða læknis og félagsráðgjafa, ennfremur að því tilskildu, að læknir annist hana á sjúkrahúsi (lög nr. 25/1975, 11. og 15. gr.). Verður því ekki annað séð en að nú sé að því stefnt með ráðuneytisathöfnum að gera eitthvað í fullkomnu trássi við þau lög sem í gildi eru frá Alþingi.

Fráleit átylla vegna fósturláta

Reynir gerir lítið úr þýðingu þess atriðis, sem hann þó viðurkennir, að nýja pillan getur komið í veg fyrir festinguna í legvegginn, en með því verður fósturvísinum útrýmt. Rök hans eru þau, að það gerist hvort sem er “við mjög margar náttúrulegar frjóvganir”, að hið “frjóvgaða egg” (sic!) leysist upp og hverfi með tíðablóði. Svo hnykkir hann á og segir: “Meirihluti náttúrulegra frjóvgana verður aldrei að barni og þetta er alveg sambærilegt”.

Svarið er þríþætt: Engin eðlisbreyting verður á fósturvísi þegar hann festir sig í legvegg, þetta er sama eðlisveran eftir sem áður. Þá upplýsa heimildir (The Lancet 1983) að rannsóknir sýni, að af fósturvísum heilbrigðra kvenna farist nálægt 8% á fyrstu tveimur vikum eftir frjóvgun (ekki 29%, eins og talið hafði verið í eldri könnun frá 1942–59, hvað þá ‘meirihluti’). Í 3. lagi má benda á, að í mörgum löndum heims er barnadauði “af náttúrlegum ástæðum” mun skæðari en aðeins 8%, en það gefur engum rétt til að ráðast að lífi barna; og eins þótt “náttúran leyfi það”, að öll deyjum við, þá er það engin réttlæting fyrir menn að drepa náungann. Eins geta náttúrleg afföll af fósturvísum ekki gefið neina heimild til að veitast að lífi þeirra.

Lögbrotum andmælt. Læknar haldi læknaeiðinn

7. okt. 2000 er haft eftir Ingibjörgu Pálmadóttur heilbrigðisráðherra í Mbl.: “Hún segir að um næstu áramót komi svokölluð neyðargetnaðarvarnarpilla á markað sem verði gerð mjög aðgengileg í heilsugæzlunni, m.a. með því að hún verði ekki lyfseðilsskyld”. Sóley Bender upplýsir í Mbl. að Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir (FUKOB, íslenzka útgáfan af hinum illræmdu Planned-Parenthood-samtökum) hafi veitt ráðgjöf í miðbæ Reykjavíkur, þar sem stúlkur geti “fengið lyfið án tafar”, m.ö.o. án lyfseðils. Þar er gengið í berhögg við lagaákvæði, og með þeirri ósvinnu að afhenda NGV án lyfseðils eða viðtals við lækni er þar að auki verið að taka áhættu, því að lyfið er langt frá því að vera eftirkastalaust eða henta hverri sem er með vissa sjúkdómasögu að baki. [3]

Ég lýsi þessi áform ráðherrans og athafnir FUKOB lögleysu [4], eins og ljóst er af lögunum frá 1975 og greinargerðum að baki því lagafrumvarpi. En læknum ber skylda til að halda sig við læknaeið Alþjóðasamtaka lækna, þar sem segir: “Ég heiti því að virða mannslíf öllu framar, allt frá getnaði þess; jafnvel þótt mér verði ógnað, mun ég ekki beita læknisþekkingu minni gegn hugsjónum mannúðar og mannhelgi.”

–––––––––––––––––
Neðanmálsgreinar

[1] Morgunblaðsútgáfan af þessari grein: Um “neyðargetnaðarvörn”. Við birtingu greinarinnar sneið Mbl. frá aftari hluta titilsins.

[2] Dianne N. Irving, Ph.D.: When Do Human Beings Begin? "Scientific" Myths and Scientific Facts, grein í International Journal of Sociology and Social Policy, Vol. 19, nr. 3/4 (1999), þ.e. sérheftinu Abortion and Rights. Mjög þarft væri að þýða þessa grein á íslenzku. Dr. Dianne Irving gegnir prófessorsstöðu í heimspeki og líf-siðfræði við bandaríska menntastofnun (Dominican House of Studies, Washington, D.C. 20017), sjá nánar um hana og ritstörf hennar á þessu sviði: Google-tilvísanir.

[3] Sjá greinina 'S.k. neyðargetnaðarvörn er hættuleg heilsu konunnar', sem birtast mun hér síðar.

[4] [Viðauki 10. febr. 2007]: Í þessari netgrein minni um stofnfrumumál á Moggabloggi er ég með einn málslið, sem sýnir skýrt fram á ólögmæti hinnar rangnefndu neyðargetnaðarvarnarpillu: "Ef einhver lesandi heldur, að verndun fósturvísa hafi verið fjarri hugsun okkar Íslendinga, þá eru þeir ekki í takt við lagahefð okkar í því máli. Í 216. grein gildandi hegningarlaga er berum orðum lagt blátt bann við því að deyða fóstur, að viðlagðri allt að 2ja eða 4ra ára fangelsisvist (eða lengur í alvarlegustu tilvikum). Og hvað er þar átt við með orðinu "fóstur"? Það kemur fram í greinargerðinni að baki þeim lögum. Þar segir við þessa grein: "En fósturástand telst byrjað, þegar er [= strax þegar] frjóvgun hefur átt sér stað". Því er ljóst, að 216. greininni er ætlað að veita lagavernd gegn öllum fóstur- og fósturvísiseyðingum allt frá frjóvgun (frávik eða undantekningar frá því lagaákvæði verða einungis veitt með annarri löggjöf frá Alþingi, eins og gerðist með fósturdeyðinga-lögunum 1975)." Og því er við að bæta, að engin lög hafa verið sett um "neyðargetnaðarvörn"; af þeirri og framangreindri ástæðu er fyrirbærið því ólöglegt með öllu hér á landi, jafnvel samkvæmt þeim jarðneska mælikvarða sem löggjafarþingið er vant að leggja á sín mál.

3 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Stórfróðleg grein nafni, vel unnin og verð frekari útbreiðslu. Hef ekki séð fjallað betur um þetta mál á öðrum vettvangi.

25.03.06 @ 13:50
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég var að komast í mjög góða vefsíðu – lykilsíðu að akademískum greinarskrifum um fóstur- og fósturvísismálefni (auk líknardrápa o.fl.): Pro-Life Academic Articles. Þar er fjöldi vandaðra, vísindalegra greina, þ.á m. eru áðurnefnd skrif Dianne Irving ein þessara greina. Geta þær þjónað sem fræðileg undirbygging og leið til að staðfesta í huga manna, hvort þeir hafi á réttu að standa eður ei í lífsréttar-efnum. Greinunum er skipt niður í nokkra flokka, sem hér segir:

Fóstur- og fósturvísisdeyðing:
“Embryology: Inconvenient Facts" eftir William L. Saunders, Jr.

“The Wrong of Abortion" eftir Robert P. George og Patrick Lee, úr þessu riti: Andrew I. Cohen og Christopher Wellman, (ritstj.): Contemporary Debates in Applied Ethics (New York: Blackwell Publishers, 2005)

“Acorns and Embryos" eftir Patrick Lee og Robert P. George

“The Stubborn Facts of Science: Human Embryos are Human Beings" eftir Patrick Lee og Robert P. George

“Delusions of Dualism: The Human Being is an Integrated Unit" a reply to Professor Paul Bloom of Yale University, eftir Patrick Lee og Robert P. George

“The Pro-Life Argument from Substantial Identity" eftir Patrick Lee

“Human Beings are Animals" eftir Patrick Lee

“Human Personhood Begins at Conception" eftir Peter Kreeft

“I Was Once a Fetus: an Identity-Based Argument Against Abortion" eftir Alexander Pruss

“I Was Once a Fetus: That Is Why Abortion Is Wrong" eftir Alexander Pruss

“When do Human Beings Begin?" eftir Dianne N. Irving

“Life Begins at Fertilization with the Embryo’s Conception," quotes from science textbooks on embryonic development

More Assorted Quotes from Textbooks on Human Development

Stofnfrumur:
“The Stem Cell Debate” a written exchange between Patrick Lee, Robert P. George and Ronald Bailey

“The Ethics of Embryonic Stem-Cell Research and Human Cloning" eftir Robert P. George

“Adult Stem Cells, Embryonic Stem Cells and Cloning" eftir David Prentice

“Adult Stem Cells - The Facts" eftir David Prentice

“Adult Stem Cells - The Facts, Addendum" eftir David Prentice

“Benefits of Adult Stem Cells to Human Patients," Do No Harm Fact Sheet

“Quick Scientific References: Human Cloning, Human Embryonic Stem Cell Research" eftir Dianne N. Irving

Congressional Testimony of David Prentice on the scientific drawbacks of embryonic stem cells and the benefits of adult stem cells

Líknardráp:
“Cast Me Not Off in Old Age" eftir Eric Cohen og Leon R. Kass

“Personhood, Dignity, Suicide, and Euthanasia" eftir Patrick Lee

“Euthanasia and the Culture of Life" eftir Chris Tollefsen

Trúar-tengdar heimildir:
“Jewish Views on Abortion" eftir rabbíann Immanuel Jakobovits

“Abortion" eftir rabbíann David Novak

“Abortion in Halakhic Literature" eftir rabbíann David Bleich

“Abortion" Compiled by the Jewish Orthodox Feminist Alliance

Evangelium Vitae, Pope John Paul II’s encyclical on the Value and Inviolability of Human Life

Ávbarp undir fyrirsögninni “Life-Sustaining Treatments and Vegetative State: Scientific Advances and Ethical Dilemmas" eftir Jóhannes Pál páfa II

“Instruction on Respect for Human Life in its Origin and on the Dignity of Procreation: Replies to Certain Questions of the Day" from the Congregation for the Doctrine of the Faith

“Declaration on Euthanasia" from the Congregation for the Doctrine of the Faith

“Respect for the Dignity of the Dying" from the Pontifical Academy for Life

Aðrar greinar:
National Review interviews Robert P. George on RU-486

“Dr. Jekyll and Mr. Hyde," a critique of Princeton’s Peter Singer, eftir Jenny Teichman

Testimony of Richard F. Collier, Jr. on behalf of the proposed amendment to the New Jersey state constitution allowing for the state legislature to enact laws requiring minors to receive parental consent before procuring an abortion

Inn á allar þessar greinar er hægt að komast með því að smella núna á Pro-Life Academic Articles og smella síðan á nöfn viðkomandi greina í listanum. Ég hef lítt hirt um að þýða þarna ýmislegt úr ensku, vil ekki breyta greinatitlunum sjálfum, og hitt má fylgja. – Góðar stundir.

27.10.06 @ 21:39
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Vek athygli á mjög þýðingarmikilli neðanmálsgrein [4], sem ég bætti í fyrradag við grein mína hér ofar.

12.02.07 @ 12:12
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution