« Bjargið alda, borgin mínNý útgáfa: Ljóð andans á html flettiriti »

19.04.07

  09:31:51, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 964 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um kveifska menn, arga og sannleikann

Nú má sjá ávexti afkristnunnar þjóðarinnar á bloggsíðunum á netinu. Þetta er annarrar kynslóðar nýheiðingjar sem aldir eru upp af foreldrunum af fyrstu kynslóð guðsafneitunarinnar. Þetta eru einstaklingar sem hafa flosnað svo gjörsamlega upp úr arfleifð sinni að kristindómurinn er þeim framandi, ef ekki með öllu ókunnur. Þetta lýsir sér meðal annars í orðbragði þessa fólks þar sem blótsyrðin vella fram af sama þunga og stórflóð lýsingarorða auglýsingastóriðju neyslusamfélagsins. Í hugum kristinna manna er þetta einungis enn önnur staðfestingin á orðum Frelsarans:

Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis, en finnur ekki. Þá segir hann: ,Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór.' Og er hann kemur og finnur það tómt, sópað og prýtt, fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður. Eins mun fara fyrir þessari vondu kynslóð (Mt 12. 43-45).

Það er ekki hollt að bera börn sín til heilgrar skírnar og haga svo öllu uppeldinu svo til að kenna þeim að vanvirða skírnaheitið með ósæmilegu háttalagi og munnsöfnuði. Slíkt særir Andann helga og hrekur á brott. Andarnir illu eru höfuðlestirnir sjö, þar á meðal lostinn og græðgin.

Eitt sem einkennir þessa menn er að þeir eru kveifskir: Bleyðimenni. Þannig ráðast þeir á fólk á bloggsíðum undir skjóli nafnleyndar, vilja ekki gangast við nafni. Einn slíkur réðst þannig að Jóni Val eina nóttina í löngu óhróðursmáli og rægði af honum mannorðið (sjá: http://hnodri.blog.is/blog/hnodri/entry/180962/ . Eins og hann tók sjálfur fram greip hann til nafnleyndar vegna ríkjandi „félagslegra aðstæðna í samfélginu“ [1]. Hann virðist sem sagt skammast sín sjálfur fyrir skrif sín. Ef til vill vill hann ekki skaða eigið álit ef hann á samskipti við sæmilega siðað fólk! Til forna var níð útlegðarsök.

Auk þess á þetta fólk það yfirleitt sameiginlegt að vera annað hvort „argir menn“ eins og forfeður okkar orðuðu það eða þá ákafir stuðningsmenn þessarar kynhneigðar (argur maður eða kona voru þeir einstaklingar nefndir sem leituðu samlags við fólk af sama kyni). Þannig saumaði Þórunn húsfreyja í Eyrbyggju húsbónda sínum „kvenbrók“ vegna þess að hann þjónaði henni ekki til borðs og sængur. Samfarir þeirra hjóna urðu ekki lengri. Og Brókar-Auður gekk í setbrók karla. Ekkert er nýtt undir sólinni þó að það sé ekki eftirbreytnisvert.

Eitt af því sem fer í purrurnar á þessum Níðhöggi og hann telur Jóni Val til lasta er að hann telur sig hafa „algildan sannleika mannlegrar tilveru á hreinu.“ Að mati téðs nafnleysingja er slíkt mikilli löstur og það svo mjög, að slík afstaða gerir viðkomandi ekki viðræðuhæfan. Tja, svo er nú það!

Í hugum kristinna manna er sannleikurinn ekki eitthvað óhlutstætt hugtak; eitthvað HVAÐ. Tungumálakunnátta mín einskorðast við vestgermönsk mál, rómversk og slavnesk. Í rússnesku er þannig talað um tvenns konar sannleika sem mér vitanlega er ekki gert á hinum menningarsvæðunum. Það er um tvö orð að ræða í rússnesku sem skírskota til sannleikans, orðin „istina“ og „pravda.“ Hið fyrra kemur til að mynda fyrir í rússnesku Biblíuþýðingunni eins og í ummælunum: „Ég er vegurinn, sannleikurinn (istina) og lífið“ (Jh 14. 6). Orið „pravda“ vísar til þess sem er rétt, en hér er um afstæð sannindi að ræða. Segja má að „istina“ sé ætíð „pravda,“ en „pravda“ þurfi alls ekki að vera „istina.“

Þannig hét höfuðmálgagn Sovétríkjanna sálugu Pravda og boðaði „sannleika“ kommúnista sem kristnir menn gátu alls ekki fallist á vegna þess að hann stangaðist á við „istina“ kristindómsins. Veraldarhyggjan hefur einnig búið sér til sitt Pravda, afstæðishyggju póstmódernískrar hugmyndafræði sem lýsir sér í níhilisma fjölhyggjunnar. Í þessari hugmyndafræði er orðið Guð skrifað með litlum staf: guð. Hann er einungis eitt af fjölmörgum hugtökum þessarar hugmyndafræði sem er inntakslaust, eins komar bronsaldarmenjar.

Í Pravda veraldarhyggju nútímans er argur einstaklingur velþóknanlegur ríkjandi „sannleika“ rétttrúnaðarins. Það er þessi sannleikur sem blasir við sjónum í viðræðum Krists og Pontíusar Pílatusar. Pílatus spyr: „Hvað er sannleikurinn“ og Kristur svarar með þögninni. Ef hann hefði orðað spurninguna öðruvísi og spurt HVER hefði hann fengið svarið: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“

Kristinn maður hefur höndlað hinn „algilda sannleika mannlegrar tilveru“ með játningu trúar sinnar og hefur á „hreinu.“ Hann dæmir allt í ljósi þessa SANNLEIKA (istina) sem er Kristur og fyrirverður sig ekki fyrir það, þrátt fyrir að kveifskir menn og argir hafni honum í afstöðu sinni til sannleikans.

Orðið kveifskur er komið af sama stofni og orðið kveisa. Það er þessi hugmyndafræðilega magakveisa eða niðurgangur sem er lasleiki veraldarhyggju nýheiðninnar.

Engu að síður óska ég öllum kveifskum einstaklingum og örgum gleðilegs sumars sem öðrum Guðs börnum.

[1[. Þetta var það orðalag sem höfundurinn greip til í upphafi, en virðist svo hafa þurrkað út.

18 athugasemdir

Lárus Viðar Lárusson

Kristinn maður hefur höndlað hinn „algilda sannleika mannlegrar tilveru“ með játningu trúar sinnar og hefur á „hreinu.“

Ég tel það vera skaðlegt að telja sjálfum sér trú um að hann hafi höndlað hinn algilda sannleika. Skortur á umburðarlyndi fylgir jafnan í kjölfarið.

Þeir sem myrða lækna í Bandaríkjunum, vegna þess að þeir framkvæma fóstureyðingar, hafa einnig höndlað þennan algilda sannleika. Þeir telja sig vera í guðlegum rétti vegna þess að þeir vita betur en læknarnir. Þau lög sem læknarnir starfa eftir eru ógild í þeirra huga því lögmál guðs er þeim æðra í hugum þeirra.

Þeir sem hafa skömm á samkynhneigðum hafa alls engin rök fyrir fóbíu sinni aðra en að guð sé þessu mótfallinn. Afskiptasemi þeirra sem telja sig hafa höndlað sannleikann nær jafnvel inn á einkalíf fólks, svefnherbergi þeirra.

Sem betur fer eru þessir menn hættir að amast við matarvenjum fólks. Annars gætu humarveiðimenn verið í lífshættu fyrir þeim sem hatast við þá sem brjóta lögmálið.

Jón Rafn talar um höfuðlestina sjö, hrokinn er einn þeirra. Að telja sig hafa höndlað einhvern æðri sannleik meðan flestir aðrir vafra um í villu “lasleika veraldarhyggju nýheiðninnar” er einmitt það, hroki.

19.04.07 @ 17:38
Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Í þessari hugmyndafræði er orðið Guð skrifað með litlum staf: guð.

Orðið guð er skrifað með litlum staf vegna þess að það er samnafn, en ekki sérnafn. Ef ég skil kristni rétt kallast g

19.04.07 @ 19:51
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég hef ekki í hyggju að taka þátt í hringekjurökfræði Lárusar enn einu sinni enda hefur maðurinn margendurtekið sig hér á vefsetrinu mánuðum saman,

Hjalti. Samkvæmt kaþólskri guðfræði er Guð lifandi Persóna – einn Guð í Þrenningu – og ber því sérnafn líkt og aðrar persónur. Basta.

19.04.07 @ 19:58
Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Eitthvað hefur mér tekist að klúðra síðustu athugasemd minni hérna. Það væri frábært ef það væri hægt að skoða athugasemdirnar sínar áður en maður sendir þær á þessari fínu síðu.

En ég ætla að reyna að klára það sem ég skrifaði (eftir minni og ef ég klúðra því ekki :) ) og bæti kannski smá við:

Ef ég skil kristni rétt heitir guð kristinna manna ýmist Jahveh eða Jesús (ég veit ekki til þess að þriðja persóna guðs hafi gefið upp nafn sitt.

Ef þú kíkir í íslenska orðabók, til dæmis þessa, þá sérðu að orðið guð er skrifað með litlum staf.

Samkvæmt kaþólskri guðfræði er Guð lifandi Persóna – einn Guð í Þrenningu – og ber því sérnafn líkt og aðrar persónur.

En guð er ekki sérnafn, ekki frekar en köttur. Basta cosí!

19.04.07 @ 22:54
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Guð er nafn guðdómsins eina á íslenzku. Og sérnafn er það, ekki samheiti með einhverjum öðrum guðum, enda eru þeir engir (Jesaja, 37.19, 45.14). Þó er nafnið guðir einnig notað í annarri merkingu í Ritningunni: um englana. En Guð er ekki þvílíkur guð. Hann einn er hinn ó-skapaði, allt annað er skapað.

Þennan greinarmun ætti Hjalti Rúnar að þekkja eftir nokkra viðdvöl í guðfræðideild HÍ.

Þar að auki leyfi t.d. ég mér að nota viss orð með stórum staf fyrir virðingar einnar sakir, skrifa t.d. Heilög Ritning með stórum staf í báðum orðum og Drottinn, ekki drottinn. Þjóðverjar skrifuðu það orð áður fyrr með mjög sérstökum hætti. Af því að þeir skrifa öll nafnorð með stórum staf, þá gerðu þeir í þessu tilviki betur og skrifuðu “der HErr, ekki “der Herr", um Guð sem Drottin.

Svo eru sumir sem skrifa jafnvel persónufornöfn, sem standa fyrir Guð, með stórum staf (Hann, Honum), en ég geri það afar sjaldan, mest vegna þess hve það verður ankannalegt í eignarfalli (t.d. “máttarverk Hans").

Skrifa meira á morgun vegna hins góða pistils nafna míns. Verið öll Guði falin.

19.04.07 @ 23:31
Lárus Viðar Lárusson

Ég hef ekki í hyggju að taka þátt í hringekjurökfræði Lárusar enn einu sinni enda hefur maðurinn margendurtekið sig hér á vefsetrinu mánuðum saman,

Ég veit ekki hvort að Jón Rafn sé að rugla mér við einhvern annan, ég hef nú ekki gert margar athugasemdir hér og þessi var sú fyrsta á þessu ári.

Ég gúglaði sjálfum mér hér til upprifjunar og ég veit ekki hvað JRJ á við með að ég sé að margendurtaka mig hér. Að vísu hef ég oftar en einu sinni talað um offjölgunarvandamál mannkynsins, ef hann á við það.

Annars bjóst ég ekki við svari til að byrja með. Við vitum báðir hvar við stöndum í þessum málum.

20.04.07 @ 01:33
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég tel það vera skaðlegt að telja sjálfum sér trú um að hann hafi höndlað hinn algilda sannleika. Skortur á umburðarlyndi fylgir jafnan í kjölfarið.


Orð Jesú má einmitt túlka sem hvatningu til umburðarlyndis: „Dæmið ekki svo þér verðið ekki dæmdir“, „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum“. Kristin kenning kennir mönnum að virða frjálsan vilja. Mig minnir að Jóhannes Páll páfi hafi sagt eitthvað á þá leið að þeir sem ekki virtu frjálsan vilja væru að óvirða Guð.

Þeir sem myrða lækna í Bandaríkjunum, vegna þess að þeir framkvæma fóstureyðingar, hafa einnig höndlað þennan algilda sannleika. Þeir telja sig vera í guðlegum rétti vegna þess að þeir vita betur en læknarnir.

Er það? Þarf einhver trúarbrögð til að fólk fyllist af grillum og beiti ofbeldi? Þeir sem beita ofbeldi í nafni trúar ganga ekki á vegi hennar heldur nota hana sem yfirskin til að réttlæta grillur sínar - eða þá til að gabba einfaldar sálir til fylgis við sig.

20.04.07 @ 05:26
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ja, heyr á endemi! Guðfræði Hjalta ber þess merki hvar hann meðtók uppfræðslu sína. Góður maður sem sat í guðfræðideild HÍ í eitt ár sagði: „Það var sama um hvað var rætt, eftir tíu mínútur snérist allt um femínisma og samkynhneigð.“ Að sjálfsögðu gafst viðkomandi upp á frekara námi í guðfræði á þessum stað.

Dálætismál prófessoranna nú um stundir er Tómasarguðspjallið, gnóstískt guðspjall sem boðar villutrú. Hinir heilögu feður fornkirkjunnar tóku saman kanón rita sem urðu að Biblíunni. Mótmælendur mættu hafa þá staðreynd í huga, að það var kaþólska kirkjan sem færði þeim Heil. Ritningu í hendur! Þeir höfnuðu fjölda rita sem „fræðimenn“ gnóstíkera og maníkea höfðu samið um Drottin vegna þess að þau stóðust ekki mat hinnar heilögu arfleifðar. Þeir máttu gildi rita þeirra sem þeir vógu og mátu í ljósi þeirrar heilögu arfleifðar sem þeir meðtóku frá Drottni sjálfum.

Clarence Glad eyddi í það miklu „púðri“ fyrir hálfum mánuði í morgunrabbi við Ævar Kjartansson að sanna að orðin „malakos“ og „arsenokoites“ (1Kor 6. 9) hefðu ekkert með samkynhneigð að gera. Hér er hann algjörlega á skjön við túlkun meginstrauma kristninnar í heiminum. Ég vitna í orð textafræðingsins föður Jean-Baptiste Erdarts, annan tveggja höfunda ritins „Clarification sur l’Homosexualité dans la Bible“ (Ljósi varpað á samkynhneigð í Biblíunni) sem kom út hjá Edition du Cerf nýlega:

„Malakos“ þýðir bókstaflega „blíður, silkimjúkur eða ljúffengur.“ Í sambandi samkynhneigðra skírskotar það til hins eftirgefanlega aðila, en getur einnig skírskotað til vændiskarls eða afar kveifarlegra manna.

Þegar merking orðsins „arsenokoites“ er rannsökuð og hið augljósa kynferðislega inntak bannlistans er haft í huga útilokar það síðari tvær merkingarnar.

„Arsenokoites“ merkir bókstaflega „að liggja með manni.“ Það er myndað með því að tengja tvö orð saman úr 3M 18. 22 og 20. 13 og hefur líklega birst í júdísk-hellensku samhengi. Rabbínarnir studdust við hebreska orðasambandið „að liggja með manni“ sem komið er úr 3M 18. 22 og 20. 13 til að tjá samband samkynhneigðra.

Þeir takmörkuðu það ekki við kynferðissamband við drengi. Allt virðist þetta nægja til samans til að við getum fullyrt að líklegasta skýringin sé sú að orðið skírskoti til manna sem iðka kynlíf samkynhneigðra. Merking orðsins „arsenokoites“ gerir okkur kleift að einskorða orðið „malakos“við hinn eftirgefanlega aðila í kynlífi samkynhneigðra.

Þannig er litið á hómósexúalisma sem afar alvarlega athöfn sem brjóti í bága við hin guðdómlegu lög. Þessi kenning er fyllilega til samræmis við gyðingdóminn á þessu tímaskeiði.“

Þessi afstaða kemur þegar í ljós í elsta varðveitta trúfræðsluriti kirkjunnar „Didache“ (Tólfpostulakenningunni, um 66-120) þar sem iðkun samkynhneigðar er talin til dauðasynda.

Sá sem kom af himni ofan sagði:

„Sá sem er af jörðu, hann er af jörðu og talar af jörðu. Sá sem kemur af himni, er yfir öllum og vitnar um það, sem hann hefur séð og heyrt, og enginn tekur á móti vitnisburði hans. En sá sem hefur tekið á móti vitnisburði hans, hefur staðfest, að Guð sé sannorður. Sá sem Guð sendi, talar Guðs orð, því ómælt gefur Guð Andann. Faðirinn elskar Soninn og hefur lagt allt í hönd honum. Sá sem trúir á Soninn, hefur eilíft líf, en sá sem óhlýðnast Syninum, mun ekki sjá líf, heldur varir reiði Guðs yfir honum“ (Jh 3. 31-36).

Hjalti. Hann opinberaði okkur nafn Guðs: FAÐIR (Abba).

Ég fæ ekki orða bundist vegna hringekjuröksemda Lárusar Viðars hér að ofan. Frá upphafi vega vara hinir heilögu kirkjunnar við „falskri auðmýkt.“ Auðmýkt lýsir sér í hlýðni við Orð þess sem kom af himni ofan og var „hlýðinn allt til dauða á krossi.“ Hann kenndi okkur að biðja: „Verði þinn vilji á jörðu sem á himni!“ Þetta er hlýðni við Tíyrðin (Dekalog), hlýðni gagnvart vilja Föðurins og þar er Guðsmóðirin fyrirmynd kirkjunnar: „Verði mér samkvæmt orðum þínum“ (Lk 1. 38).

Auðmýkt Drottins á ekkert sameiginlegt með „pravda“ heimsins sem túlkar hana sem undirlægjuhátt. Sjálfur gekk hann um musterið og hratt um borðum víxlaranna og dúfnasalanna. Þannig lítur „pravda“ heimsins ekki á hina sönnu auðmýkt þess sem er Vegurinn, sannleikurinn (istina) og lífið“ (Jh 14. 6). Allt er það séð í bjagaðri skuggsjá mennskra mannasetninga og hugaróra.

Að öðru leyti hefur Ragnar svarað Lárusi með ágætum hér að ofan. Veritas Salvator est.

20.04.07 @ 09:48
Davíð Rósenkrans Hauksson

Spurning til Jóns Rafns:

Hvað er að vera “hinn eftirgefanlegi aðili” í sambandi samkynhneigðra?

Ég veit að þessi texti er ekki kominn beint frá þér en margsinnis heyri ég talað um þennan “eftirgefanlega aðila” í sambandi samkynhneigðra og þar sem þú vitnar í texta með þessu orðalagi datt mér í hug hvort þú gætir frætt mig eilítið um þetta atriði.

20.04.07 @ 11:19
Lárus Viðar Lárusson

Er það? Þarf einhver trúarbrögð til að fólk fyllist af grillum og beiti ofbeldi? Þeir sem beita ofbeldi í nafni trúar ganga ekki á vegi hennar heldur nota hana sem yfirskin til að réttlæta grillur sínar - eða þá til að gabba einfaldar sálir til fylgis við sig.

Ég sé ekki í fljótu bragði hvaða aðra ástæðu menn hafa fyrir því að myrða fóstureyðingalækna, aðra en staðfasta trú með algildu siðferði.

20.04.07 @ 14:02
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Telur þú Lárus að pilturinn sem myrti 32 samnemendur sína og kennara í Tækniháskólanum í Virginíu á dögunum hafa gert það vegna þess að hann hafi trúað á algilt siðferði?

Davíð: Ég þekki ekkert til kynlífsathafna samkynhneigðra. Geri ráð fyrir því að átt sé við þann sem tekur að sér hlutverk konunnar. Ef til vill ættu þeir að auglýsa kynlíf sitt enn betur fyrir alþjóð til að uppfræða okkur?

Mér vitanlega eru þeir eini samfélagshópurinn sem vekur athygli almennings á því sem þeir hafast að í svefnherbergjum á nóttinni sem eru vitaskuld einkamál hvers og eins. En að troða afstöðu sinni í kynlífinu upp á aðra er „skondið“ í augum sumra, að auglýsa það fyrir alþjóð líkt og Bónusfeðgar lærisneiðar og kók.

20.04.07 @ 15:20
Davíð Rósenkrans Hauksson

Þetta segir Jón Rafn

“Ég þekki ekkert til kynlífsathafna samkynhneigðra. Geri ráð fyrir því að átt sé við þann sem tekur að sér hlutverk konunnar.”

og meinar þá “hinn eftirgefanlega aðila” í samböndum samkynhneigðra.

Ég get alveg skilið að eitthvert sé hlutverk konunnar eða öllu heldur kvennanna í kynlífi lesbía. Hvert það er veit ég eigi. En hvert er eiginlega hlutverk konunnar í kynlífi tveggja homma? Ég hélt að hommar væru karlkyns. Kemur hún kannski að loknu kynlífi mannanna örgu með vatnsglas handa þeim?

Já, það virðist ekki vanþörf á að fræða suma aðeins um sambönd homma ef þeir halda að þar innan sé um einhverja skiptingu milli aðila að fyrirmynd gagnkynhneigðs sambands að ræða. Sérstaklega ef þessir sömu ætla að reyna að rægja þennan hóp fólks eða almennt fjalla um hann.
Ætli fólk haldi kannski að í upphafi samkynhneigðs sambands sé ákveðið hvor sé konan og hvor sé karlinn?

Hvar hefur þú annars séð auglýsingu um kynlíf samkynhneigðra, Jón Rafn?

20.04.07 @ 16:39
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég sé ekki í fljótu bragði hvaða aðra ástæðu menn hafa fyrir því að myrða fóstureyðingalækna, aðra en staðfasta trú með algildu siðferði.

Ég get bent þér á tvær, þ.e. 5. boðorðið: Þú skalt ekki morð fremja og hin er boð Jesú um fyrirgefningu en ekki hefnd. Ég held nú að þeir sem grípa til svona ofbeldis og annars ofbeldis gegn þjóðfélaginu í heild eða hluta þess hljóti fyrst og fremst að vera fólk sem á í verulegum persónulegum vandræðum. Í þannig stöðu notfærir það sér hvaða hálmstrá sem hægt er að ná í til að réttlæta gerðir sínar.

20.04.07 @ 16:42
Lárus Viðar Lárusson

Ég get bent þér á tvær, þ.e. 5. boðorðið: Þú skalt ekki morð fremja og hin er boð Jesú um fyrirgefningu en ekki hefnd.

Boðorðin gilda ekki fyrir heiðingja þannig að það hefur ekki stoppað þessa menn. Auðvitað eru þessir menn ekki með réttu ráði en það verður að líta til þess hvað það er sem knýr þá áfram, hættuleg hugmyndafræði. “Ég hef á réttu að standa, þeir ekki.”

20.04.07 @ 17:11
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Varðandi bloggið sem vísað er í, í grein Jóns Rafns, þá er það nú frekar dapurlegt og ber fyrst og fremst vitni um rökþrot og uppgjöf, jafnvel örvæntingu hjá þessum málefnaandstæðingi Jóns Vals. Eða hvað dvelur eiginlega heimildirnar, dæmin og gangrökin frá þessum aðila sem ættu svo auðveldlega að geta skotið málflutning Jóns Vals í kaf ef taka má eitthvert mark á skrifinu?

Nafnlaus persónuleg níðskrif þar sem andstæðingum eru gerðar upp skoðanir hjálpa ekki umræðunni heldur vinna gegn henni. Slík skrif hljóta að vekja upp ótta við að gangast ekki inn á málstað nafnleysingjanna og það er óþægilega grunsamlegt að það sé markmiðið í þessu tilfelli. Þ.e. að vekja ótta og kæfa umræðu.

20.04.07 @ 17:18
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ertu ekki að tala um sjálfan þig, Lárus minn? Ert það ekki þú, sem aðhyllist “hættulega hugmyndafræði,” þar sem enginn algildur sannleikur né gildi ríkja? Viðurkenndu nazistar algild gildi, þegar þeir útrýmdu saklausu fólki, þ.m.t. konum, börnum og gamalmennum, í milljónatali? Ertu “með réttu ráði,” þegar þú hafnar þeim gildum sem menn hafa lengi viðurkennt sem algild?

20.04.07 @ 17:25
Lárus Viðar Lárusson

Æ afhverju þarf umræðan alltaf að fara út í nasisma og kommúnisma. Það er ekki, ótrúlegt en satt, samasem-merki þarna á milli við trúleysi.

Nasistarnir trúðu á sín algildu gildi, að þeir og þeirra kynþáttur væri yfir aðra hafinn. Þessu trúðu þeir í blindni án nokkurra sannfærandi raka eða sannana. Hugmyndin um að gyðingar væri verstir allra kemur úr kennisetningum kaþólskra og lútherskra, sem Hitler trúði á í blindni. Hann hefndi sín á morðingjum Krists.

Ertu “með réttu ráði,” þegar þú hafnar þeim gildum sem menn hafa lengi viðurkennt sem algild?

Það að eitthvað hafi verið lengi við lýði gerir það ekki sjálfkrafa rétt. Menn héldu lengi að jörðin væri miðja alheimsins, þeir sem höfðu aðrar hugmyndir voru einmitt ekki taldir með réttu ráði og brenndir á báli fyrir guðlast og villutrú.

Það er ekkert hættulegt við það aðhyllast afstæð siðferðisgildi. Allir gera það, ég held að allir ættu eftir að verja sig og sína með öllum tiltækum ráðum, ef þeim væri ógnað af manni svipuðum þeim sem myrti stúdentana í Virginíu. Jafnvel þó að það kostaði líf þess sem að því stóð.

Er það ekki rétt skilið hjá mér að JVJ studdi innrásina í Írak, jafnvel þó að vitað væri að hún ætti eftir að kosta mannslíf? Er það dæmi um algilt siðferði?

20.04.07 @ 17:58
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég loka hér með umræðunni á þessari grein enda í engu samhengi við efni hennar: Nafnlaus níðskrif á vefnum.

Ritstjóri Moggabloggsins hefur frá og með deginum í dag komið í veg fyrir slíkt þar sem auðvelt er að rekja IP tölur viðkomandi. Mættu fleiri taka hann sér til fyrirmyndar!

20.04.07 @ 18:02