« Ritningarlesturinn 22. ágúst 2006Ritningarlesturinn 21. ágúst 2006 »

21.08.06

  08:15:05, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1091 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um Kristselskuna

Í ritningarlestri dagsins (21, ágúst) áminnir okkar ljúfi Jesú okkur á gildi hinna lífgefandi boðorða, rétt eins og hinir heilögu feður og mæður kirkjunnar hafa ávallt gert í aldanna rás. Heilög Ritning líkir óhlýðni við boðorðin við hórdómsbrot með tvenns konar hætti.

Annars vegar felst hún í saurgun á eigin líkama með losta girndanna. Hins vegar saurgun óhlýðninnar gagnvart Guði þegar þjóð Guðs snýr við honum baki. Þetta er það hórdómsbrot sem Ísrael framdi gegn Guði. Guð hafði fyrirhugað Ísrael að verða að brúði sinni, en landið snéri baki við Guði og framdi hórdómsbrot með því að tileinka sér siði heiðnu þjóðanna allt um kring. Þrátt fyrir viðvörunarorð spámannanna sinnti þjóðin þeim engu. Það er vel við hæfi á þessum degi að minnast orða Elía spámanns sem eru jafnframt einkunnarorð Karlemítareglunnar sem móðir Teresa endurreisti: „Ég hef verið vandlætingasamur vegna Drottins, Guðs allsherjar“ (1K 19. 14). Þetta var sökum þess að Ísraelsmenn höfðu virt sáttmálann að vettugi – hafnað leiðsögn boðorðanna – og sátu nú um líf spámannsins vegna þess að sannleikanum verður hver sárreiðastur vegna þess að hann veit í hjarta sínum að hér er um sannleiksorð að ræða vegna þess að Guð heftur áskapað manninum samvisku sem rituð er í hjörtu mannanna (Rm 2. 14). [1]

Í rúmlega þrjú ár hafði Júdas Drottin fyrir sjónum, hann horfðist í augu við hann, snart klæði hans, hlýddi á rödd hans og gekk við hlið hans í brennheitri sólinni eftir fáförnum stígum jafnt og í ys markaðstorganna. Allt varð þetta til lítils því að hjarta hans var steinhjarta. Það var sem harður tinnusteinn og fégræðgin varð honum að falli. Hann gat ekki afklæðst líkama syndarinnar né deytt hann. Júdas trúði á mátt Jesú, hann var ekki í hópi þeirra sem snéru baki við honum þegar hann boðaði mátt holds síns og blóðs (Jh 6. 56), heldur trúði hann líkt og djöflarnir: Án elsku (Jk 2. 19).

Laun Júdasar fólust í aumkunarverðum dauða eða eins og heil. Teresa segir í tilvitnun þeirri sem fylgir ritningarlestri dagsins: „Hann verður að áætla launin með hliðsjón af þeirri elsku sem við auðsýnum honum. . . “ Því hvatti hún andlegar dætur sínar að glæða elskuna til Jesú daglega í bænalífinu. Hún tók dæmi af unga manninum sem gekk hryggur frá því að hann mat „auðæfi sín“ meira en Jesús, það er að segja elskaði hann ekki og gat því ekki gengið í fótspor hans.

Þegar mannshjartað herpist saman í „græðgi“ sinni eftir veraldlegri upphefð, auði og vinsældum missir það sjónar af Jesú. Vinur minn og gamall prestur greindi mér frá hinu gagnstæða nýlega. Honum var gefin bók um trú hvítasunnumanna í Kína sem leggja allt í sölurnar fyrir Jesú. Jafn merkilegt og það kann að hljóma eru þeir ávöxtur íslensks trúboðs í þessu fjarlæga landi frá því fyrir stríð frá þeim tíma sem boðorð Drottins voru höfð í heiðri. Þessi vinur minn ætlar að lána mér bókina í vikulokin þegar hann er búinn að lesa hana sjálfur: Ég hlakka til að lesa hana!

Náð Drottins hefur heldur ekki látið á sér standa í lífi þessa fólks. Kraftaverkin gerast daglega í lífi þess, eða eins og Drottinn sagði: „Án mín getið þér alls ekkert gjört“ (Jh 15. 5). Stjórnvöld hata þetta fólk og hneppir í fangelsi. Einn forvígismannanna var þannig settur í illræmdasta fangelsi Kína með hættulegustu glæpamönnum þessa víðlenda ríki. Að sjálfsögðu börðu þeir hann fyrstu þrjá dagana en að viku liðinni höfðu bæði þeir og allir fangaverðirnir frelsast. Sjálfur gekk þessi blessaði maður út úr fangelsinu í gegnum múrana hindrunarlaust, rétt eins og postular frumkirkjunnar. Kraftur Guðs opinberast ávallt með áþreifanlegum hætti í lífi þeirra sem elska hann, í dag eins og forðum, nú eins og á dögum Polycarpusar biskups í Smyrna sem lagði lífið í sölurnar fyrir krossinn vegna þess að hann ELKAÐI Jesú. Allt gerist þetta í hjörtum þeirra karla og kvenna sem virða lífgefandi boðorð Drottins! Hversu frábrugðið er það ekki þeim falsboðendum sem fara hamförum á Íslandi í dag og segja að hvítt sé svart og svart hvítt.

Drottinn. Gef okkur slíka elskhuga Jesú sem loga eins og kyndlar í Kristselskunni. Um þetta skulum við öll biðja, kaþólskir sem hvítasunnumenn! Þannig mun Heilagur Andi smíða nýjan botn í tunnu Þjóðkirkjunnar til að varðveita náð sína í henni vegna þess að hann þráir að allir öðlist hjálpræði fyrir sannleiksorð sitt.

[1] Samviskan skipaði veglegan sess í kenningum hinna heilögu feðra. Þannig kemst einn þeirra svo að orði: „Við skulum ekki deyða kröfur samviskunnar með rangsnúnum röksemdafærslum vegna þess að tillögur hennar eru hagnýtar og leiða til sáluhjálpar. Hún greinir okkur ætíð frá skyldum okkar og hvað okkur ber að gera, einkum þegar hún hreinsast með lifandi, virkri og háleitri árvekni hugans. Í slíku tilviki er hún gædd betri dómgreind sökum hreinleika síns (varðandi allt sem ber að höndum, dómgreind sem er réttlát og markviss) og útilokar allar efasemdir. Af þessum sökum ættum við ekki að láta leiða okkur afvega með villandi kenningum vegna þess að samviskan uppfræðir okkur hið innra um það sem er Guði velþóknanlegt og ásakar sálina harðlega, ef hún hefur saurgað skilning sinn með synd. Hún bendir okkur jafnframt á hvernig við getum leiðrétt yfirsjónir okkar og leiðir hinu fallna hjarta fyrir sjónir, að það verði að iðrast og bendir því á græðsluna með ljúfum sannfæringarkrafti“ (Fílóþeos frá Sínai, Fjörutíu greinar um árvekni, 28).

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þegar ég íhuga djörfung þessara kristnu Kínverja koma þau orð sem Heilagur Andi uppfræddi abba Barsanúfíus um mér í huga:

Hvaða tilgangi þjónar það að láta freistingarnar yfirbuga sig líkt og holdlegur maður? Hafið þið ekki heyrt að freistingarnar bíða ykkar? Vitið þið ekki að Margar eru raunir réttláts manns (Sl 34. 20) og að menn eru reyndir í þeim eins og gull í bræðsluofni? Ef við erum réttlátir, skulum við horfast glaðir í augu við þolraunir, en ef við erum syndugir, að bera þær eins og við höfðum til unnið. Við skulum minnast allra hinna heilögu frá upphafi vega og hafa í huga allt það sem þeir urðu að þjást með góðverkum sínum – og þó mæltu þeir aðeins af gæsku og héldu sig við sannleikann. Þeir voru hataðir og ofsóttir af mönnum allt til loka, en samkvæmt orðum Frelsarans, báðu fyrir þeim sem fyrirlitu þá og ofsóttu (Mt 5. 44). Voruð þið seldir í ánauð eins og hinn hreinlífi Jósef? Hafið þið orðið að þola fjandskap líkt og Móse frá barnæsku til elliára? Voruð þið ofsóttir eins og Sál ofsótti Davíð? Eða var ykkur varpað í hafið eins og Jónasi? Hvers vegna látið þið þá hugfallast? Því skulið þið ekki vera óttaslegnir og fyllast hugarvíli eins og sá sem skortir allt hugrekki, svo að þið missið ekki af fyrirheitum Drottins. Fyllist ekki skelfingu eins og vantrúaðir, gæðið vantrú hugsana ykkar djörfung. Elskið þolraunir í öllum hlutum, þannig að þið verðið að sönnum sonum hinna heilögu.

Jörðin er staður verka og erfiðis, en hvíldarinnar er að vænta á himnum, ég á við hinum réttlátu til handa. Því bætti hann við:

Enginn maður sem einsett hefur sér að ná til einhverrar borgar leggst niður til hvíldar. Enginn sem er fullur starfs-gleði gefur sig letinni á vald þegar hann sér sólina rísa. Enginn sem vill leggja rækt við akur sinn vanrækir hann. En sá maður sem einsetur sér að ná til borgarinnar hraðar för sinni svo að hann nái þangað áður en næturhúmið skellur á. Maðurinn (sem hyggst ljúka verki sínu) hellir sér út í vinnuna við dagmál, nema þá eitthvað verði honum til tafar, og sá sem ætlar að rækta akur sinn tekur til starfa áður en hann fell­ur í órækt. Sá sem hefur eyru, hann heyri (Mt 11. 15).

21.08.06 @ 11:54