« Ný útgáfa: Ljóð andans á html flettiritiUm barnaníð og markvissa útbreiðslu hómósexúalisma innan kaþólsku kirkjunnar (2) »

10.04.07

  08:45:33, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1491 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um kirkju Krists og veraldarhyggjuna

Drottinn er upprisinn og krossfesti dauðann á Fórnarhæð krossins með því að úthella sínu eigin blóði til að frelsa okkur undan valdi dauðans. Þetta er kjarni friðþægingarinnar og boðunar kirkjunnar frá upphafi vegferðar hennar á jörðinni: SJÁLFUR LEYNDARDÓMUR PÁSKANNA!

Eitt sinn sagði vinur minn – kaþólskur prestur sem nú er genginn inn í fögnuð dýrðarinnar: „Jón, það er ekki alltaf auðvelt að boða kross Krists, þann kross sem við meðtókum fyrir 2000 árum. Það er ekki ávallt auðvelt að boða nútímamanninum kross Krists!“ Hann mælti þessi orð af reynslu úr boðunarstarfi sínu.

Krossinn er samofin kirkju Krists: Krossinn og kirkjan eru ein ÓRJÚFANLEG HEILD sem verður ekki aðskilin. Þetta er einnig boðun kirkjunnar frá upphafi vega, boðun hinna heilögu feðra og mæðra til forna jafnt og trúfastra presta í dag. Ég segi trúfastra presta vegna þess að það eru ekki allir guðfræðingar sem eru trúfastir þjónar Krists. Margir guðfræðingar boða annan sannleika. Þeir segja að kirkjan eigi að laga sig að þjóðfélagi nútímans, svo að segja að dansa í takt við heiminn: Að dansa tangó veraldarhyggjunnar! Þetta eru þeir sem misst hafa sjónar af krossi Krists sem er sá sami í dag og hann var og mun verða allt til endurkomu Krists.

Þetta er heldur ekki neitt nýtt. Allt frá upphafi vega hafa verið til guðfræðingar sem villst hafa af leið: Boðað villukenningar. Þeir hafa jafnframt ruglað fjölmarga leikmenn í ríminu og gefið veraldarhyggjunni vind í seglin. Þeir dreifa ekki með Kristi heldur sundurdreifa. Þessi staðreynd beinir athygli okkar að því að kirkjan skiptist í reynd í tvo ólíka hópa: Hina trúföstu og hina.

Ég hnaut um orð konu einnar í bloggi páskahelgarinnar. Konan sagði eitthvað á þessa leið: „Ég hef lesið söguna og kynnt mér hvernig kaþólska kirkjan kom fram í Mið- og Suðurameríku og á eyjunum í Karíbahafinu. Kirkjan er eitthvað mesta afturhaldsafl sögunnar og kúgunartæki valdastéttarinnar“

Þetta er alveg hárrétt hjá henni svo langt sem það nær. Kirkjan skiptist í hvítt og svart, hina trúföstu krossins og hina. Þessir „hinir“ ganga í þjónustu við herravald þessa heims, selja svo að segja heiminum sálu sína. Þá verður kirkjan að skelfilegu kúgunartæki í höndum vegvilltra þjóna hennar. Þetta eru þeir þjóna hennar sem breyta boðun sinni til samræmis við ríkjandi viðhorf samtíðar sinnar: Sem aðlaga boðskap Krists að þörfum þessa heims.

En andhverfa þessa blasir jafnframt við sjónum: Hinir heilögu kirkjunnar – hinir trúföstu – sem vinna óaflátanlega að því að boða kross Krists. Það var þessi sami kross sem var siguraflið sem lagði hinn forna heim heiðninnar að fótum sér: Þetta var skelfilegur heimur þrælahalds og mannfyrirlitningar. Við sjáum þennan heim enn meðal heiðinna þjóða í dag. Tökum Indland sem dæmi. Nú streyma stéttleysingjarnir inn í kirkjuna á Indlandi vegna þess að hin sanna kirkja Krists hafnar öllu misrétti: Allir eru samir í Kristi. Þetta er einnig að gerast í Kína kommúnismans í dag. Milljónir manns gerast kristnir vegna þess að þeir gera sér ljóst að það er kristindómurinn en ekki kommúnisminn sem færir þeim hinn sanna jöfnuð í hendur!

Það kemur mér alltaf jafnmikið á óvart hvernig veraldarhyggjan hefur tekið sér einkaleyfi (patent) til að túlka mannkynssöguna. Kenningin er einföld: Allt slæmt kemur frá kirkjunni – BURT með hana! Sveiatann! Þeim yfirsést sú staðreynd að yfirgangssamir valdsmenn hafa ávallt verið til staðar á vettvangi mannkynssögunnar. Einstaklingar sem svífast einskis í taumlausri valdagrægði sinni.

Þeir eru jafn iðjusamir í dag og fyrrum. Stephan Mosher [1] hefur þannig bent á að Íslam hati kristindóminn og kristnar þjóðir einmitt sökum framgöngu þessara afla. Í hugum múslima eru þessi öfl dæmigerð fyrir afstöðu „kristinna þjóða.“ Ef við hverfum á vit framtíðarinnar – segjum tvær aldir fram í tímann – og beitum söguskýringu veraldarhyggjunnar á ástandið eins og við þekkjum það í dag, þá er það allt kristindóminum að kenna. Hún afneitar sínum eigin verkum og gerir kirkjuna og kenningar Krists að blóraböggli sínum. Í hugum múslima er dauðamenning barnamorðanna miklu KRISTIN MENNING.

Við Íslendingar þekkjum þetta úr okkar eigin sögu. Valdagírugt danskt konungsvald hrifsaði til sín valdsstjórnina á Íslandi og innleiddi STÓRADÓM! Stóridómur var grundvallaður á prússneskri réttlætisvitund (Prússar urðu ekki kristnir fyrr en á fjórtándu öld). Nú var tekið að stífa menn á stelkum, aflima fólk og drekkja konum í pokum á í Öxará. Þetta var nokkuð sem bæði heiðnir menn og kristnir höfðu forðast að gera innan vébanda Alþingis.

Í dag boðar söguskoðun veraldarhyggjunnar að það hafi verið kirkjan sem staðið hafi þessu að baki. Í reynd er staðreyndin sú að ávallt þegar kirkjan hefur verið veik eða undanlátssöm við valdsmenn veraldarhyggjunar hefur það leitt til mikils ófarnaðar og hörmunga. Þetta á ekki síður við í nútímanum. ÞVÍ ÞARFNAST KIRKJAN TRÚFASTRA ÞJÓNA MEIRA ENN NOKKRU SINNI FYRR Í SÖGU SINNI: ÞJÓNA SEM STANDA FAST Á BOÐSKAP KROSSINS.

Í dag er leyndardómur páskanna jafn áþreifanlegur og fyrir 2000 árum: Kristur er upprisinn! Við skulum því horfa til Krists. Í hugvekjunni sem fylgir guðspjalli dagsins er það heil. Ambrosíus (340-397) sem lýkur þessum leyndardómi upp til fulls:

„Hafið þér séð þann sem sál mín elskar?“ (Ll 3. 3)

„Hvers vegna grátið þið?“ Það eruð þið sjálf sem eruð tilefni táraflóðs ykkar. Það eruð þið sjálf sem komið ykkur til að gráta . . . Þið grátið vegna þess að þið trúið ekki á Krist: Trúið og þið munuð sjá. Kristur er þarna og það fer aldrei fram hjá honum hverjir leita hans. „Hvers vegna grætur þú?“ Tárin eru til lítils, þú þarfnist trúar, lifandi trúar sem er Guði sæmandi. Leiðið hugann ekki að dauðum hlutum og þá munuð þið hætta að gráta . . . Hvers vegna grátið þið öðrum til gleði?

„Hvers leitið þið?“ Getið þið ekki séð að það er Kristur sem er kraftur Guðs, að það er Kristur sem er speki Guðs, að það er Kristur sem er heilagleikinn, að Kristur er skírlífið, að Kristur er hreinn, að Kristur var fæddur af Meynni, að Kristur kemur frá Föðurnum og er með Föðurnum og er ávallt í Föðurnum, getinn en ekki skapaður, elskaður en ekki hafnað, sannur Guð af sönnum Guði?“ „Þeir hafa tekið Drottinn minn og ég veit ekki hvar þeir hafa lagt hann.“ Þér skjátlast kona. Þú telur að aðrir hafi tekið Krist úr gröfinni og þú trúir því ekki að hann sé upprisinn í eiginn krafti. Enginn megnar að fjarlægja kraft Guðs, enginn megnar að fjarlægja speki Guðs, enginn getur afmáð lofsvert hreinlífi hans. Kristur hefur ekki verið borinn á brott úr gröf réttláts manns eða frá innilegu samfélagi við Meyna eða frá trúfestu eigin sálar. Og jafnvel þó að einhverjir vildu bera hann á brott væri slíkt þeim um megn.

Þannig segir Drottinn við hana: „Horfðu á mig, María.“ Meðan hún trúir ekki er hún nefnd „kona.“ En þegar hún snýr sér að honum nefnir hann hana „Maríu.“ Hún öðlast sama nafnið og sú sem ól Krist. „Horfðu til mín,“ segir hann. Sá sem horfir til Krists breytir um stefnu, en við glötum áttum þegar við horfum ekki til Krists. Þegar hún snýr sér við og horfir á hann segir hún: „Rabbúní!, en þetta þýðir kennari.“ Sú sem horfir snýr sér við. Sú sem snýr sér við kemur auga á það sem er betra, sú sem horfir tekur framförum. Það er af þessum sökum sem hún nefnir þann sem hún hélt að væri dáinn „kennara.“ Hún fann þann sem hún hélt að væri horfinn.

Við skulum því snúa okkur til kennara okkar og uppsprettu alls lífs og þá birtist páskaásjónan í okkur eigin hjörtum. Við þörfnumst miskunnar hans þegar við horfum á öll ódæðisverk og hryðjuverkastarfsemi veraldarhyggjunnar í heiminum í dag:

Drottinn Jesús Kristur. Miskunna okkur syndugum mönnum eins og þú miskunnaðir ræningjanum á krossinum.

4 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Jónasson
Ragnar Jónasson

Orð Krists á krossinum, “Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?” geta varla verið sögð af manni sem búinn var að skipuleggja þessi örlög sín. Það þarf engan Sérlokk Hólms til að sjá það.

12.04.07 @ 12:12
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Orð Krists á krossinum ættu kannski að sýna þér dýpt þjáninga hans. Sömuleiðis orð hans og bænir í Getsemane-garðinum. Hann vissi það fyrir, að hann yrði að gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga – og loks, í Getsemane, að enginn útleið væri til að afstýra þeim örlögum. En á krossinum náði þjáningin hámarki sínu. Fræðimenn telja líklegt, að hann hafi farið með allan Davíðssálminn (22.) þar sem þessi orð standa.

12.04.07 @ 14:21
Athugasemd from: Ragnar Jónasson
Ragnar Jónasson

Sumir gagnrýnendur hafa boðið upp á náttúrulegar skýringar á sögum Nýja testamentisins af tómu gröfinni. Kannski dó Jesús ekki í rauninni á krossinum; það leið yfir hann, og hann vaknaði seinna – „yfirliðskenningin“[19]. Eða kannski sáu lærisveinarnir ofsjónir þegar þeir sáu upprisinn Jesú. (Þeir og „fimm hundruð aðrir“.) Eða kannski fór María til vitlausrar grafar, tómrar grafar, og tók „unga manninn“ í misgreipum fyrir engil. Eða ef til vill var líkama Jesú stolið – „samsæriskenningin“, hugdetta sem státað sér af því að vera studd af Biblíunni frá einu sjónarvottunum (rómversku hermönnunum) sem sögðu að nákvæmlega það hafi gerst[20]. Eða ef til vill var líkami Jesú einungis geymdur tímabundið í gröf Jósefusar frá Arímaþeu (hugsanlega ásamt þjófunum tveimur) og var seinna grafinn í almenningsgröf, dæmigerð örlög líflátinna glæpamanna.[21] Eða ef til vill var einhver annar, eins og Tómas, krossfestur í stað Jesú.[22]

Kristni virðist vera búin til úr sama efniviði og heiðnar goðsögur, og sumir frumkristinna viðurkenndu það. Jústínus píslarvottur segir í rökræðum sínum við heiðingja um 150 e.o.t. „Þegar við höldum því fram að Orðið, sem er frumburður Guðs, var getið án kynmaka, og að hann, Jesús Kristur, kennari okkar, hafi verið krossfestur og dáið, og risið upp aftur, og stigið upp til himna; þá leggjum við ekki fram neitt annað heldur en það sem þið trúið varðandi þá sem þið álítið syni Júpíters.“[17]

Merkilegt en satt.

13.04.07 @ 10:07
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hvaðan tekur Ragnar Jónasson þennan texta (sbr. hornklofana!)?

Mikil er trúgirni hans gagnvart öllum undanfærsluleiðunum frá sannleika heimildanna. Það verður farið í skrokk á þessum fáfengilegu mótrökum lið fyrir lið, þegar tími vinnst til.

13.04.07 @ 10:49