« Heilög Fílómena blóðvottur – Litli katakompudýrlingurinnKaþólska fréttasjáin: Vikan 14. til 20. maí 2006 »

20.05.06

  10:49:50, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1952 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Um kaþólskar fyrirbænir samkvæmt hinni heilögu arfleifð

Þetta eru inngangsorðin í verkinu „Hl. Fílómena blóðvottur – Litli katakompudýrlingurinn“ og sjá má á Vefrit Karmels.

Grundvöllur kenningar kirkjunnar þegar leitað er fyrirbæna hinna heilögu er fólginn í kenningunni um samfélag hinna heilögu. Samfélag hina heilögu felst í hinum trúföstu á himnum, á jörðu og í hreinsunareldinum sem mynda í heild hinn leyndardómsfulla líkama Krists sem er höfuð hans. Öll sú umhyggja sem lýtur að einum hópnum er umhyggja hinna og allir hjálpa öllum. Við hér á jörðinni með því að ákalla hina heilögu á himnum og biðja fyrir sálunum í hreinsunareldinum og hinir heilögu á himnum með því að biðja fyrir okkur. Ekki er unnt að orða hina kaþólsku kenningu betur en hl. Jeróme (331-420) gerði:

Ef postularnir og píslarvottarnir báðu fyrir öðrum meðan þeir voru enn í líkamanum, hversu miklu fremur munu þeir þá ekki gera það eftir að þeir hafa verðið krýndir kórónu sigurlaunanna! Einn maður, Móse, ávann 600.000 mönnum fyrirgefningar Guðs og Stefán, sem líkti eftir Drottni og var fyrsti píslarvotturinn í Kristi bað Guð um að fyrirgefa ofsækjendum sínum. Mun máttur þeirra verða minni nú þegar þeir dvelja með Kristi? Páll postuli segir að 216 sálir sem sigldu með honum hafi verið gefnar honum. Eftir að hann hvarf héðan til að lifa með Kristi lokar hann þá vörunum og segir ekki eitt aukatekið orð til handa þeim sem trúðu predikun hans um alla heimsbyggðina? (Contra Vigilant, P. G. XXIII, 344). [1]

Sjálfur bauð Guð Abímelek að láta Abraham biðja fyrir sér: „Og mun hann biðja fyrir þér að þú megir lífi halda . . . Og Abraham bað fyrir Abímelek og Guð læknaði Abímelek“ (1 M 20. 7, 17). Sama máli gegndi um vini Jobs: „Farið til vinar míns Jobs og fórnið brennifórn fyrir yður, og Job þjónn minn skal biðja fyrir yður, því að aðeins vegna hans mun ég eigi láta yður gjalda heimsku yðar“ (Jb 42. 8). Fyrirbænirnar eru í rauninni afar áberandi á nokkrum stöðum í Jobsbók: „En ef þar er hjá honum árnaðarengill, talsmaður, einn af þúsund . . . miskunni hann sig yfir hann og segi: „Endurleys hann og lát hann eigi stíga niður í gröfina“ (Jb 33. 23). Sífellt er vikið að Móse sem milligöngumanni: „Ég stóð þá á milli Drottins og yðar“ (4 M 5. 5, sjá Gl 3. 19, 20).

Hvað áhrærir sannanir úr hl. Ritningu og frá hinum heilögu feðrum, þá blasir við sjónum að trúrækni sú sem felst í því að ákalla meðbræður okkar um hjálp er augljós og boðuð. Englarnir bera velferð manna fyrir brjósti ein og sjá má af orðum Krists sjálfs: „Ég segi yður: Þannig verður fögnuður með englum Guðs yfir einum syndara” (Lk 15. 10). Í versi sjö segir hann einfaldlega: „Þannig verður meiri fögnuður á himnum“ (sjá Mt 13. 10). Og í Hebreabréfinu lesum við: „ Eru þeir ekki allir þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir, sem hjálpræðið eiga að erfa?“ (Heb 1. 14). Við sjáum þetta hlutverk þeirra þegar opinberast á tímum Gamla testamentisins, líkt og hjá Sakaría spámanni: „Þá svaraði engill Drottins og sagði: „Drottinn allsherjar, hversu lengi á það fram að fara, að þú miskunnir þig ekki yfir Jerúsalem . . . Þá svaraði Drottinn englinum . . . blíðum orðum og huggunarríkum“ (Sk 1. 12, 13). Og Rafael erkiengill sagði: „Þegar þú baðst og úthelltir tárum . . . bar ég bæn þína fram fyrir Drottin“ (Tb 12. 12).

Það er svo Jóhannes guðspjallamaður sem lýkur upp fyrir okkur sýn Nýja testamentisins þar sem bænir engla og hinna heilögu verða eitt: „Og annar engill kom og nam staðar við altarið. Hann hélt á reykelsiskeri úr gulli. Honum var fengið mikið reykelsi til þess að hann skyldi leggja það við bænir allra hinna HEILÖGU á gullaltarið frammi fyrir hásætinu. Og reykurinn af reykelsinu steig upp með bænum hinna HEILÖGU úr hendi engilsins frammi fyrir Guði“ (Opb 8. 3-4).

Hin guðdómlega fyrirhugun Guðs nær fram að ganga með píslum Drottins á fórnarhæð krossins og þegar hann sendir okkur Huggarann, Andan Heilaga sem fyllir allt í öllu og sameinar hið nýja samfélag kirkjunnar sem eina heild á jörðu sem á himnum. Það er hins vegar rétt að hvergi í Gamla testamentinu er vikið að fyrirbænum hinna heilögu, heilagra manna og kvenna sem skilið höfðu við hið jarðneska líf. Þetta má rekja til þess hversu ófullkomin þekking manna var á þessum tímum áður en Kristur opinberaði okkur hið eilífa líf og upprisuna og heldur því stöðugt áfram í Heilögum Anda sem lifir í kirkju hans. Í upphafi voru hinir HEILÖGU að vísu ekki margir eins og gefur að skilja, en síðan tók þeim að fjölga með blóðvottum píslarvættisins. Einn þeirra var meyjan hl. Fílómena.

En á komandi öldum töluðu þeir mestu á meðal kirkjufeðranna með ljósum hætti um kenninguna um fyrirbænir og áköll til hinna heilögu. „Það er ekki einungis æðsti presturinn [Kristur] sem biður einn, heldur einnig englarnir . . . og einnig sálir hinna heilögu sem þegar eru sofnaðir (ai te ton prokekoimemenon hagion psychai), Orígen, P. G. XI. 448. [2] Á mörgum öðrum stöðum grípur Orígen til svipaðra orða. Í bréfi sínu til Kornelíusar páfa kemst hl. Kýprían svo að orði: „Við skulum minnast hvors annars með gagnkvæmum hætti. Við skulum biðja í sífellu hvor fyrir öðrum og ef hin guðdómlega forsjón kallar annar hvorn okkar skyndilega á brott á undan hinum, skulum við varveita elsku okkar í nærveru Drottins. Við skulum ekki láta fyrirbænir okkar fyrir bræðrum okkar og systrum hætta í nærveru okkar miskunnsama Föður“ (P. L. IV. 358). „Þar sem þolgæðið er fyrir hendi er hvorki skortur á umhyggju hinna heilögu né vernd engla“ (Hl Hilaríus, P. L. X. 682). „Við minnumst síðan þeirra sem sofnaðir eru á undan okkur, patríarka, spámanna, postula og píslarvotta, að sökum fyrirbæna þeirra meðtaki Guð okkar eigin bænir“ (Hl. Kýrillos frá Jerúsalem, P. G. XXXIII. 1166). „Minnist mín, þér erfingjar Guð, bræður í Kristi, ákallið Frelsarann af ákafa fyrir mína hönd, að Kristur megi frelsa mig frá þeim sem berst gegn mér á degi sem nóttu“ (Hl. Efraím sýrlendingur, De Timore Animae). „Þið sigursælu píslarvottar sem mættuð píslunum af fögnuði, biðjið fyrir okkur örbjarga og syndugum mönnum sem erum þjakaðir af áhugaleysi, að Kristur megi koma til okkar og upplýsa hjörtu okkar svo að við munum elska hann“ (Hl. Efraím sýrlendingur, Encom. in Mart.). „Munt þú [Efraím] sem stendur við hið himneska altari og þjónar með englum frammi fyrir hinni lífgefandi og Alhelgu Þrenningu ekki minnast okkar allra, biðja okkur syndafyrirgefningar til handa og ávaxtaríks og eilífs vaxtar í konungsríkinu“ Hl Gregoríos frá Nyssa, P. G. XLVI, 850). „Megir þú [Kýprían] líta niður til okkar af velþóknan úr hæðum og vera okkur til leiðsagnar í orðum okkar og æði og hirðir þessarar heilögu hjarðar . . . og gleðja okkur með enn fyllri uppljómun Alhelgrar Þrenningar sem þú stendur frammi fyrir“ (Hl. Gregoríos frá Nazíansus, P. G. XXXV. 1193). Með þessum sama hætti ákallar Gregoríos hl. Aþaníos (P. G. XXXV, 1128): „Ó heilagi kór! Ó heilaga samfélag! Ó þú ósigrandi hersveitt stríðsmanna! Verndarar mannkynsins! Þið annist okkur í náð ykkar! Þið vinnið með okkur í bænum okkar! Þið miklu fyrirbiðjendur!“ (Hl. Basil hinn mikli, P. G. XXXI, 524). „Megi Pétur sem grét svo sárt sökum sjálfs sín, úthella tárum sökum okkar og beina okkur til blessaðrar ásjónu Krists“ (Hl. Ambrósíus, P. L. XIV, 242). Við höfum þegar vitnað í orð hl. Jeróme hér að ofan. Hl. Jóhannes Krysostomus víkur iðulega að áköllum og fyrirbænum til hinna heilögu í hugvekjum sínum: „Þegar þú skynjar að Guð er að aga þig, flýðu þá ekki til óvina hans . . . heldur til vina hans, píslarvottanna, hinna heilögu og til þeirra sem voru honum velþóknanlegir og búa yfir mikilli djörfung“ [parresian, „djarfmælgi“] (P. G. XLVIII). „Við borð Drottins minnumst við ekki píslarvottanna líkt og annarra sem hvíla í friði til að biðja fyrir þeim, heldur til þess að þeir biðji fyrir okkur svo að við fetum í fótspor þeirra“ (Hl. Ágústínus, P. L. XXXIV. 1847).

Áköll til hinna heilögu koma fyrir því sem næst hvarvetna í hinni fornu helgisiðafræði. Þannig er sagt í helgisiðum hl. Basils hins mikla: „Samkvæmt boði þíns eingetna Sonar sameinumst við minningu þinna heilögu . . . auðsýn okkur miskunn fyrir bænir þeirra og andvörp.“ Sjá Jerúsalemhelgisiðafræðina, helgisiði hl. Krysostomusar, helgisiði Nestóríana, koptísku helgisiðafræði hl. Kýrillosar og. sv. fr. Ljóst má vera af helgisiðum hl. Kýrillosar frá Jerúsalem að hér er ekki um neinar viðbætur að ræða.

Við sjáum hvernig þessi heilaga arfleifð kirkjunnar frá upphafi vega hefur varðveist órofin með einni tilvitnun í Trúfræðslukver kaþólsku kirkjunnar, en þar má lesa eftirfarandi orð:

„Vottarnir sem hafa farið á undan okkur inn í ríkið, sérstaklega þeir sem kirkjan viðurkennir sem dýrlinga, eiga hlut í hinni lifandi arfleifð bænarinnar með því fordæmi sem þeir gáfu með lífi sínu, með þeim skrifum sem liggja eftir þá og með bænum sínum í dag. Þeir hugleiða Guð, lofsyngja hann og annast stöðugt þá sem þeir láta eftir sig á jörðu. Þegar þeir gengu inn til fagnaðar herra síns voru þeir settir "yfir mikið." Árnaður þeirra er mesta þjónusta þeirra við fyrirætlun Guðs. Við getum og við eigum að leita árnaðar þeirra fyrir okkur og fyrir allan heiminn“ (2683).

Við siðaskiptin höfnuðu mótmælendur þessum dýrmæta þætti hinnar heilögu arfleifðar. Það eina sem eftir lifið af hinni sönnu arfleifð eru áheitin á Strandarkirkju. Hvers vegna heldur fólk enn í dag áfram að gefa áheit þegar mótmælendakirkjan hafnar slíkri guðrækni? Það er sökum þess að slíkt ber árangur og fólk upplifir sjálft að það fær úrlausn sinna mála með áheitunum. Hér erum við komin að kjarna málsins: Reynsluguðfræðinni sem á ekkert skylt við mennskar hugsmíðar.

Þetta upplifa kaþólskir þegar þeir ákalla hina heilögu. Slíkt ber árangur vegna þess að þeir eru miklir frammi fyrir Guði sökum heilags lífernis síns á jörðu. Með fundi helgra menja hl. Fílómenu í katakompunum í Róm var Guð að áminna okkur um að þessi sannleikur hefur lifað frá upphafi vega í hjarta kirkjunnar.

Umfjöllunin er byggð á tilvitnunum fengnum héðan og þaðan úr Catholic Encyclopedia.

Heilög Fílómena, mikil hjá Guði, bið þú fyrir oss!

[1]. Patrologia Latina.
[2]. Patrologia Greaca.

No feedback yet