« „Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni.“Nýjar skoðanakannanir: Meirihluti Bandaríkjamanna vill gera fóstureyðingar ólöglegar »

21.04.06

  10:02:00, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 738 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um kaþólska og lúterska dulúð

Hinn víðkunni, málglaði og orðhvati fríkirkjuprestur, séra Hjörtur Magni Jóhannsson, birtist á skjá NFS í gærkveldi (20. apríl) og lýsti með fögrum orðum ágætum og gildi hins gnóstíska rits Júdasarguðspjallsins, og taldi því einkum til ágætis að það væri dýrmætt kristinni kirkju sökum þess að það glæddi áhuga almennings á dulúðinni. Íreneus kirkjufaðir fjallaði sérstaklega um þetta rit í skrifum sínum sem dæmi um trúvillu gnóstikismans. Af orðum séra Hjarta Magna mátti skilja, að „stofnunarkirkjan“ hefði gengið að dulúðinni dauðri. Þvílík firra og rangfærslur.

Dulúðin er einhver dýrmætasti þáttur kristinnar trúararfleifðar sem hún hefur lagt rækt við frá upphafi vega og hefur alið af sér heilögustu menn og konur kristinnar kirkju í aldanna rás. Dulúðin er einnig það sem sameinar kaþólska menn og lúterska enn í dag með jafn afgerandi hætti og ávallt. Þannig hafa karmelítarnir í Svíþjóð mikið dálæti á lúterska djúphyggjumanninum og skósmiðnum Hjalmar Ekström og það er þeim að þakka, að ég komst sjálfur í kynni við rit hans sem standa karmelskri guðrækni afar nærri.

Dulúðin blómstraði í kaþólskum sið á Íslandi og lifði áfram meðal margra mætra presta lútersku kirkjunnar. Hæst ber þar þá Brynjólf Sveinsson biskup og Einar skáld og prest frá Heydölum á upphafsskeiði lútersku í landinu. Þannig lét Brynjólfur biskup þýða og gefa út rit Martins Möllers Mysterium Magnum árið 1615: „Sá mikli leyndardómur um það himneska brullaup og andlega samtenging vors herra Jesú Kristí og hans brúðar kristilegrar kirkju.“ Ritið hefur sama boðskap að flytja og Ljóð andans eftir Jóhannes af Krossi og sjá má í Vefritum Karmels.

Fá dæmi er að finna um jafn ágæta skilgreiningu á helgunarguðfræði eyðimerkurfeðranna eins og í þessari hendingu úr Stallinum Kristí eftir Einar Sigurðsson:

Skapa hjarta hreint í mér,
til híbýlis er sómir þér,
saurgan allri síðan ver
svo ég þér gáfur (dyggðir) færi.

Sjálfur hef ég haft það til siðs að gefa erlendum karmelítum Passíusálma Hallgríms Péturssonar í enskri þýðingu. Pássíusálmarnir eru margfléttaðir úr líkingum og táknmáli kirkjufeðranna, og öllum ber okkur saman um að Hallgrímur lýsir hér hinni myrku nótt Jóhannesar af Krossi með miklum ágætum.

Hr. Karl Sigurbjörnsson biskup, sem sjálfur er afar elskur að dulúðinni, lét þannig gefa út rit um kristna dulúð á vegum Skálholtsútgáfunnar árið 2000 og hefur sjálfur þýtt ágætt safn spakmæla eyðimerkurfeðranna.

Dulúðin er það sem sameinar kristna menn ólíkra játninga trúarinnar og þannig taka lúterskir jafnt sem kaþólskir sameiginlegan þátt í kyrrðardögunum í Skálholti. Vafalaust hafa fáir lagt jafn ríka áherslu á gildi kristinnar dulúðar og guðfræðingurinn Karl Rahner, en hann komst svo að orði: „Kristnir menn framtíðarinnar verða annað hvort djúphyggjumenn eða hverfa af sjónarsviðinu fyrir fullt og allt.“ [1]

Ef þessi orð koma okkur í opna skjöldu, höfum við ef til vill misskilið eðli dulúðarinnar. Sjálfir segja djúphyggjumennirnir okkur, að fyrst og fremst verði Guð á vegi þeirra í djúpi þeirra eigin lífs, í stað þess að gera það í sýnum og opinberunum: Í þeirra eigin reynsluheimi. Hinn áþreifanlega raunnánd Þríeins Guðs og sköpunarmáttur hans í sérhverju mennsku lífi er með þessum hætti skilgreint sem dulúð.

Einmitt sökum þess að hinir heilögu varpa ljósi á hið yfirskilvitlega svið í okkar eigin lífi, hafa guðfræðingar líkt og Karl Rahner lagt ríka áherslu á nauðsyn þess að við enduruppgötvum djúphyggjumennina.

Því má fullyrða, svo að vægilega sé að orði komist, að séra Hjörtur Magni Jóhannsson standi alvarlega á skjön við meginstrauma kristindómsins í landinu. Hvað vakir fyrir honum með því að agnúast í sífellu út í kristna kirkju er hans eigin samviskuspurning.

[1]. Concern for the Church, bls. 149.

No feedback yet