« Tyrkneska ríkið tapar máli í StrassbourgKrefst páfinn tilbeiðslu allra manna? »

29.06.08

  13:27:34, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1206 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni, Önnur trúarbrögð

Um íslamismann, naívismann og guðlastsákvæðin

Fyrir nokkru las ég bókina Íslamistar og naívistar eftir Danina Jespersen og Pittelkow en hún kom út hér á landi í fyrra. Bókin er í heild sinni athyglisverð og upplýsandi m.t.t. íslamisma og er ekki að sjá galla í efnistökum hennar á því sviði enda hafa höfundarnir aflað sér heimilda víða eins og sjá má á ítarlegri tilvísanaskrá og heimilda eða ritaskrá.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem í bókinni stendur endar er ég flestu sammála þar hvað varðar greiningu höfundanna á ástandi mála en renni örstutt yfir þau hugtök sem þar eru notuð. Íslamisma þekkja flestir og hann þarf varla að kynna en höfundarnir nota naívisma í merkingu yfir þá Vesturlandabúa sem hafa lítinn metnað fyrir eigin menningu og telja að gefa beri eftir á flestum sviðum þar sem viðhorf íslam mæta Vestrænni menningu.

Það er þó kannski frekar það sem vantar í bókina sem mig langar að verja að nokkrum orðum. Í fyrsta lagi er það að þó höfundarnir taki verðuga afstöðu með viðhorfum málfrelsis og taki í framhaldi af því undir rétt blaðamanna Jyllandsposten til að birta myndirnar umdeildu, þá finnst mér að þeir hefðu mátt velta fyrir sér réttlætingu þess að nota skopmyndir og háð eins og þarna var gert í ljósi aðstæðna og í ljósi lagahefðar Danmerkur en þar hefur guðlast að öllum líkindum verið bannað með lögum mjög lengi. Þetta er umhugsunarefni því eins og kunnugt er þá litu múslimar svo á að myndbirtingarnar væru guðlast og því viðhorfi hefur einnig verið haldið á lofti að þær hafi aukið veg og áhrif öfgamanna í röðum múslima.

Mér hefur þótt sem þessi nýja tíska í umfjöllun um trúarbrögð, þ.e. háðskar myndbirtingar væru í raun ein birtingarmynd ágengrar veraldar-og guðleysishyggju sem hefur með réttu eða röngu verið kennd við veraldlegan og guðlausan húmanisma. Þessi tegund veraldarhyggju hefur verið kölluð ágeng (agressive) eða jafnvel herská (militant) því sumir sem hana aðhyllast vilja ýta flestum eða jafnvel öllum birtingarmyndum trúarbragða út úr hinu sýnilega samfélagi. Þessi hugmyndafræðilegi straumur er ekki nýr af nálinni en hann virðist hin síðustu ár hafa þróast og mótast og fengið á sig sína núverandi mynd í Bandaríkjunum og svo virðist sem sumir trúleysingjar finni í honum andsvar við ágengum boðunaraðferðum ýmissa sértrúarsafnaða og starfsaðferðum þeirra þar í landi. Ágengu trúleysingjarnir virðast t.d. ganga út frá því að Guð sé ekki til og því sé rétt og sjálfsagt að afgreiða trúarlega umfjöllun um Guð sem hindurvitni. En á sama tíma virðast þeir ekki átta sig á að þeir eru að taka afstöðu sem er sambærileg við trú að því leyti að þegar aðir játa Guði þá hafna þeir eða afneita Guði. Þetta fólk telur sig því eðlilega og alls ekki trúað þó erfitt sé að neita því að það taki afstöðu til Guðs. Það er m.a. í þessu ljósi sem hægt er að skilja aðgerðir blaðamanna Jyllandsposten. Ágengir trúleysingjar halda t.d. á lofti 'réttinum til að guðlasta'. Það er því erfitt að ætla að blaðamennirnir hafi ekki sótt réttlætingu aðgerða sinna í þennan hugtakarann auk fleiri atriða svo sem trú á yfirburði eigin menningar auk hollustu við grunngildi samfélagsins svo sem málfrelsið.

Ólgan í kjölfar skopmynda Jyllandsposten hlýtur að stafa af samslætti ólíkra viðhorfa. Í þessu tilfelli er nærtækt að ætla að þar sé annars vegar aðallega íslamismi eða harðlínuíslam og hins vegar harðlínutrúleysi, ágeng eða herská trúleysisviðhorf. Íslamisma verður að svara en ekki á þann hátt sem dönsku blaðamennirnir gerðu heldur með rökum, gagnrýni og metnaði fyrir eigin menningu. Því hefur verið haldið fram eins og áður segir og líklega með réttu að með harkalegum aðgerðum á borð við myndbirtingarnar séu Vesturlandabúar að gefa áróðusmönnum íslamismans eldsneyti til að kynda með áróðursvél sína.

Það er staðreynd sem ekki verður horft fram hjá að margt fólk hefur trúarlegar þarfir og það þarf að finna þeim farveg með einhverju móti. Íbúar Vesturlanda þurfa að skoða alvarlega sinn eigin hug og kanna hvort þeir vilji ekki frekar finna trú og metnað í sínum eigin ranni og í sinni eigin menningu en taki ekki upp siði og hætti íslam sem aldrei hafa náð að skjóta hér rótum. Eitt ákveðið svar við ágengni íslam væri því að efla kristna trúarvitund og standa fyrir kristinni trúarvakningu en ekki reyna markvisst að berja kristnina niður og líkja henni við hvaða trúarbrögð sem er með því að setja öll trúarbrögð undir sama hindurvitnahattinn.

Annað atriði sem hefur vafist fyrir mér eru guðlastsákvæði danskra og íslenskra laga. Í lagahefð beggja landanna hafa þessi ákvæði verið til staðar afar lengi en nú virðist vera að viðhorf ágengrar veraldarhyggju séu að gera þau ónothæf í raun því þeim var ekki beitt í Danmörku í skopmyndamálinu. Þetta hlýtur mörgum að þykja furðulegt, t.d. múslímum. Hér virðist vera um bandaríska tísku að ræða sem er að ryðja sér til rúms á sama hátt og guðleysisviðhorfin og ég tel að á næstu árum eða áratugum þurfi bæði Íslendingar og Danir að gera upp hug sinn í þessum málum. Viljum við hverfa frá hefðinni og taka upp bandaríska siði eða viljum við hafa guðlastsákvæði sem verður þá beitt? Nú skal það tekið fram að refsingar við þessum ákvæðum hafa verið vægar. En til að skilja þessi mál til hlítar þarf að velta fyrir sér hvern guðlastsákvæið verndar? Verndar það Guð, er það sett Guði til varnar? Nei, Guð þarf ekki vernd manna heldur verndar þetta ákvæði fyrst og fremst guðlastarann í okkar menningu og lagahefð.

Á sama tíma og málfrelsi sætir ýmsum takmörkunum, svo sem vegna samkeppnissjónarmiða svo dæmi sé tekið þá er furðulegt að ólátum á borð við skopmyndaólguna sé leyft að breiðast út af ótta við að beita þeim lagaákvæðum sem þarf til að stöðva lætin áður en þau valda skaða. Þessi ótti virðist ekki gamall en hann er greinilegur og raunverulegur og hann þarf að taka hreinskilnislega til umfjöllunar og skoðunar eigi að komast hjá því að láta æsingamenn og þá sem beita ögrunum leiða samskipti þessara menningarheima.

3 athugasemdir

Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Nú hef ég meira við pistilinn að athuga, en mig langar fyrst að vita hvað þetta þýðir:

Nei, Guð þarf ekki vernd manna heldur verndar þetta ákvæði [guðlastsákvæði danskra og íslenskra laga] fyrst og fremst guðlastarann í okkar menningu og lagahefð.

Hvað áttu við með því að það verndi þann sem guðlastar?

02.07.08 @ 16:02
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég á við að með þessu ákvæði verður atvikið, í þessu tilfelli guðlastið að opinberu máli og þannig er frumkvæði tekið úr höndum þeirra sem myndu hugsanlega vilja hafa horn í síðu gerandans eða gerendanna með mögulegu sjálfdæmi. Á meðan svona ákvæði er í lögunum þá er það ríkisins að leita réttlætis en ekki dómstóls götunnar. Af tvennu illu er það líklega skárri lausn. A.m.k. geri ég ráð fyrir að það hafi verið hugsun forfeðra okkar sem settu þessi lög.

02.07.08 @ 18:28
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Framhald þessara hugleiðinga er að finna í þessum pistli:

http://www.kirkju.net/index.php/2009/11/15/guelastsakvaei-islenskra-laga-tarf-ae-afnema-sem-fyrst?blog=8

Þar er rökstutt að það þurfi að afnema guðlastslögin og setja í staðinn lög um tjáningarfrelsi.

20.05.10 @ 19:51