« Um kristna samstöðuGuðfræðiprófessor á hálum ís »

27.01.06

  12:11:46, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1579 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Um hrun Sovétríkjanna sálugu

– einn þáttur í aðdraganda þess –

Í grein minni, Kristin samstaða, minntist ég lauslega á borgina Novi Sad í Póllandi. Mig langar að greina frá eftirfarandi svo að það verði ekki gleymskunni að bráð. Heilsu minni er þannig varið, að ég gæti þurft að hverfa heim hvenær sem er (sjá Fl 3. 20).

Margir minnast enn föður Lamberts Terstroet sem andaðist í hárri elli í Hollandi árið 2001. Færri gerðu sér grein fyrir því, að hann var einhver virtasti Maríufræðingur (Mariolog) kirkjunnar. Þetta má vafalaust rekja til lítillætis hans og ljúfmennsku. Hann starfaði um 20 ára skeið sem núnsíus Páfagarðs og ferðaðist víða um heim. Mig minnir að hann hafi sagt mér að hann hefði starfað í 67 löndum víðsvegar um heim, síðast í Australíu við skipulagsbreytingar á áströlsku biskupsumdæmunum, áður en hann kom loks til Íslands. Þetta lág svo sem alltaf fyrir honum. Sem ungur prestnemi, einungis sautján ára gamall, spurði faðir hans hann uppúr þurru: „Og hvað ætlar þú svo að gera?“ „Pabbi, við skulum snúa hnattlíkaninu þínu og ég bendi síðan á staðinn blindandi.“ Landið sem kom upp var Ísland, land sem þeir þekktu hvorugur. Ég var svo lánsamur að vera með föður Lambert í bænahópi um tíu ára skeið ásamt fleira góðu fólki. Hann greindi mér frá eftirfarandi.

Árið 1980 var hann að koma úr sendiför til Lahore í Pakistan. Þá kvaddi Jóhannes Páll páfi hann á sinn fund og greindi honum frá eftirfarandi atviki. Prestur einn í Amsterdam hafði til siðs að fara á hverju sumri með hópa í pílagrímsferðir til hellanna í Lourdes í Frakklandi. Einni slíkri ferð var einmitt að ljúka og hann átti 3 eða 4 tíma til ráðstöfunar, áður en hann snéri heim á leið. Hann ákvað að fara niður að hellinum og taka mynd af prestinum þegar hann lyfti hostíunni upp fyrir gjörbreytinguna í messunni vegna þess að þrjár myndir voru eftir á filmunni.

Þegar hann lyfti myndavélinni missti hann hana úr höndum sér. Hún féll á jörðina og þegar hann tók hana upp stóð hún á sér svo að hann gat ekki tekið eina einustu mynd. Rétt áður en hann sté upp í rútuna vék bláókunnugur maður sér að honum, líklegast Austurevrópumaður eftir framburðinum að dæma. Hann sagði við hann: „Gættu hennar vel,“ og benti á myndavélina hans.

Þegar hann kom heim til Amsterdam fór hann með myndavélina á framköllunarstofu og greindi afgreiðslumanninum frá því sem gerst hafði og bað hann um að reyna að bjarga hinum myndunum á filmunni í vélinni.

Þremur dögum síðar hringdi afgreiðslumaðurinn í hann og bað hann að koma þegar í stað til sín. Hann vildi ekki segja honum hvers vegna, bað hann einungis um að koma strax. Þegar hann kom á framköllunarstofuna biðu hans þrír fulltrúar frá Agfa Gevert verksmiðjunum. Þeir vildu vita hvernig hann hefði tekið síðustu þrjár myndirnar. Presturinn brást hálf hvumsa við, en þá sögðu þeir honum að þeir væru búnir að grandskoða filmuna og í ljós hefði komið, að á síðustu þremur myndunum kæmu fram litir sem væru alls ekki í „litabasa“ verksmiðjunnar. Þetta voru myndirnar sem hann tók aldrei!

Síðan sýndu þeir honum þessar þrjár myndir. Á þeim sást að þegar presturinn lyfti hostíunni mátti sjá gullið ljósband sem streymdi út frá hjarta styttu Guðsmóðurinnar og umlauk hostíuna. Verksmiðjurnar höfðu látið stækka myndirnar sem þeir afhentu honum síðan til eignar og fullvissuðu hann um, að með öllu útilokað væri að hér væri um neinn misskilning að ræða. Presturinn sendi myndirnar síðan í Páfagarð þar sem menn létu sannfærast um trúverðugleika þeirra.

Nú bað páfi Terstroet að fara með myndirnar til Varsjár í Póllandi og færa Józef Glemp kardínála og það var einmitt það sem hann gerði. Síðan voru myndirnar fjölfaldaðar og dreift á meðal presta og andstöðuhópa í Solidarnosh. Þetta varð til að auka samstöðu þeirra enn frekar. Þetta var einmitt veturinn sem Pólverjar óttuðust innrás frá Sovétríkjunum hvað mest, en síðar snérist Jaruzelski á sveif með pólsku þjóðinni.

Ég vék einnig að því í grein minni að kirkjan í Novi Sad væri sú stærsta í heiminum. Þar starfa 30 prestar. Einn þeirra var gamall samkennari Jóhannesar Páls páfa. Hann kom til Íslands í sumarfrí fyrir um það bil fjórtán árum. Faðir Jakob Rolland getur staðfest það sem hér fer á eftir vegna þess að hann innti prestinn sérstaklega eftir þessu.

Árið 1952 fór hann ásamt Wojtyla í sumarfríinu þeirra til Ítalíu að heilsa upp á Padre Pio. Þegar þeir komu til San Giovanni Rotando sáu þeir fram á, að þeim myndi aldrei auðnast að ná fundum hans, fólksmergðin var svo mikill. Þá tók Padre Pio að hrópa til mannfjöldans og benda og leið varð rudd fyrir þá til hans þegar í stað. Þegar þeir stóðu loks auglitis til auglitis við hinn helga mann, sagði hann: „Þú verður páfi.“ Þetta var 26 árum áður en til þessa kom og engar líkur til þess að pólskur prófessor yrði kjörinn páfi. Samferðamaðurinn sagði að í reynd hefði Wojtyla brugðist fár við.

Jóhannes Páll páfi bar ávallt sérstaka umhyggju fyrir Rússnesku Rétttrúnaðarkirkjunni í hörmungum hennar. Amma hans var rússnesk og kenndi honum rússnesku á barnsaldri. Síðar varð þetta til að bjarga lífi hans. Nasistar fluttu hann ásamt 23 öðru prestum og prestnemum í vinnubúðir í Slóveníu. Síðar þegar Rauði herinn hrakti Þjóðverjana á brott vildi svo til að rússneski herforinginn yfir þessu rússneska hernámssvæði var sagnfræðingur. Einn daginn kom hann í búðirnar og leitaði að einhverjum presti eða prestnema sem kynni bæði rússnesku og latínu. Honum var bent á Wojtyla. Þessum rússneska herforingja hafð verið falið á hendur að skrifa kaflann um Rómaveldi í væntanlegri rússneskri alfræðiorðabók. Hann þarfnaðist hjálpar við þýðingar úr latínu. Síðar þegar skipun kom frá Stalín um að myrða alla presta og prestnema, auðnaðist þessum saman herforingja að þyrma lífi Wotyla. Þeir urðu ævilangir vinir og á hverjum afmælisdegi sínum barst þessum sama herforingja heillaóskir til Moskvu úr Páfagarði.

Þegar ég segi að Jóhannes Páll páfi hafi borið sérstaka umhyggju fyrir Rússlandi og Rétttrúnaðarkirkjunni, þá má sjá það best á því að hann lét prenta sérstakt bænakort árið 1981 með fyrirbænum um endurlausn Rússlands undan ógnaroki sósíalfasimans. Faðir Terstroet gaf mér einmitt eitt slíkt kort. Það var með mynd af Íkonu Guðsmóðurinnar frá Kazan, verndarmóður Rússa. Ég bar það í veski mínu árum saman þar til það bókstaflega datt í sundur vegna ofnotkunar.

Innrásarher Nasista rændi íkonunni og það var ekki fyrr en árið 1956 sem hún kom óvænt fram á listmunauppboði í Austurríki. Einhver auðmaður keypti hana og færði Páfastól að gjöf. Henni var komið fyrir til varðveislu í dómkirkjunni í Fatíma í Portúgal þar til ógnaroki kommúnismans yrði aflétt af rússnesku þjóðinni. Íkonan var afhent Alexij II patríarka af Moskvu þann 21. júlí árið 2005. Í framtíðinni verður henni komið fyrir í Klaustri Guðsmóðurinnar í Kazan þegar það hefur verið endurreist, en kommúnistar höfðu breytt því í tóbaksverkssmiðju. Síðustu vikurnar áður en hún var send réttmætum eigendum bað Jóhannes Páll páfi um að hún fengi að vera hjá sér í einkaíbúð sinni í Vatíkaninu, sem að sjálfsögðu var orðið við. Þetta var aðeins nokkrum mánuðum áður en hann andaðist.

Ég vík nú aftur að föður Terstroet. Hann benti mér á samræmið í hinni guðdómlegu ráðsályktun í þessu sambandi. Árið 1846 birtist Guðsmóðirin í La Saliette og grét vegna guðsafneitunarinnar í Frakklandi eftir stjórnarbyltinguna 1789. 72 ár liðu þar til hún birtist að nýju í Fatíma að 79.000 manns viðstöddum. Í Fatíma sagði hún fyrir um hrun ógnarstjórnar sovétfasistanna. Önnur 72 ár liðu síðan þar til Sovétríkin liðuðust í sundur árið 1989. Alls 144 ár þar til mælir reiðiskálanna var fullur. Hvaða lærdóm getum við dregið af þessu? Enn í dag mælir Panhagían sömu orðin við okkur eins og við astekann Juan Diego í Mexíkó árið 1531: „Litli sonur! Óttastu ekki, umvef ég þig ekki í verndarhjúpi mínum?“

Alhelga mey og Guðsmóðir, bjarga okkur! Forða Íslandi frá framsókn guðsafneitunarinnar!

No feedback yet