« Örlítið um handleiðslu Heilags AndaAf Tübingenmönnum og fleira »

15.02.06

  09:52:08, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2121 orð  
Flokkur: Bænalífið

Um hið andlega brúðkaup Krists og sálarinnar

Hér á vefsetrinu hefur verið vikið að inntaki kaþólsks hjónabands sem guðlegri tilhögun og óaðskiljanlegum þætti í helgunarguðfræðinni. Þannig hefur kirkjan lagt á það áherslu frá upphafi vegferðar sinnar á jörðu, að hjónaband karls og konu sé helgunarvegur. Ef kaþólskur karl og kona fella hugi saman, þá útilokar hjónabandi þau ekki frá því að ganga veg helgunarinnar, heldur þvert á móti, sökum þess að hér er um sakramenti Drottins að ræða sem glæðir náðargjöf elskunnar í Heilögum Anda. Ef einstaklingar fá ekki köllun til annarrar þjónustu í kirkjunni til klausturlífs, prestsþjónustu eða annarra helgrar þjónustu, hvetur kirkjan karlinn og konuna til að kvænast til að forðast saurlifnað.

Í gagnkvæmri og vaxandi elsku sinni nálgast hjónin þannig hið ANDLEGA BRÚÐKAUP Krists og sálarinnar vegna þess að þau verða „eitt hold“ í elsku sinni. Hið andlega brúðkaup er hástig helgunarinnar á jörðu í vaxtartakmarki Krists fyllingar (Ef 4. 13). Það nær fram að ganga í sálunum í stigvaxandi mæli. Hér vík ég að tveimur þessara stiga: Hinu andlega heitorði og sjálfri kærleikssameiningu brúðarsálarinnar við Ástmögur sinn, Krist. Tilvitnanirnar eru teknar úr Cantico espiritual eða Ljóði andans eftir Jóhannes af Krossi. Þær eru úr þýðingu þeirri sem ég hef verið að vinna að úr spænsku á þessum vetri, sem væntanlega verður lokið á komandi sumri.

Við skulum þá fyrst grípa til tilvitnunar úr ritskýringunum við 22. erindið þar sem elska Krists og brúðarsálarinnar fer dýpkandi.

Rétt eins og gegnir þegar holdlegt hjónaband er afstaðið og tvö verða að einu holdi, eins og heilagar Ritningar víkja að (1 M 2. 24), þá gildir hið sama þegar hið andlega brúðkaup milli Guðs og sálarinnar nær fram að ganga. Hér er um tvö eðli að ræða í einum Anda og einni elsku eins og hl. Páll segir þegar hann grípur til þessarar sömu samlíkingar: En sá er samlagar sig Drottni er einn andi ásamt honum (1 Kor 6. 17). Þessi sameining líkist því þegar birta stjörnu eða kertis verður eitt með sólinni sem hefur uppsvelgt hina ljósgjafana í sig sjálfa.

4. Brúðguminn víkur að þessu stigi í þessari ljóðlínu þegar hann segir: Brúðurin hefur gengið inn í. Þetta felur í sér að hún hefur gengið hér inn og sagt skilið við allt tímanlegt og náttúrlegt, alla andlega væntumþykju, afstöðu og viðleitni. Allar freistingar, truflanir, sársauki, áhyggjur og vandamál hafa liðið henni úr minni og hún hefur ummyndast í þessu faðmlagi. Því kemur næsta ljóðlína, en hún er:

Unaðsgarð þrár sinnar.

5. Þetta jafngildir því að segja: Hún hefur ummyndast í Guð sinn. Hér er vikið að þessu sem unaðsgarði vegna þess ljúfleika og gleði sem hún upplifir þegar hún dvelur í honum. Engin nær til þessa unaðsgarðs fullkominnar ummyndunar sem er gleði, ljúfleiki og dýrð hins andlega brúðkaups, án þess að ganga fyrst í gegnum hið andlega heitorð sem felur í sér trygga og gagnkvæma elsku þeirra beggja sem gefið hafa hvort öðru heitorð. Eftir að sálin hefur verið heitbundin Guðsyninum í blíðleika fullkominnar elsku, þá kallar Guð á hana og beinir henni inn í þennan blómstrandi unaðsgarð til að staðfesta þetta unaðsríka stig brúðkaups síns og hennar. Sú sameining sem hér á sér stað milli hinna tveggja eðla og miðlun Guðdómsins til mennskunnar á þessu stigi er slík, að þrátt fyrir að ekki sé um neina eðlisbreytingu hjá hvorugu þeirra að ræða, virðast þau bæði vera Guð. En í þessu lífi getur þessi sameining ekki orðið fullkomin, þrátt fyrir að hún sé öllum hugsunum og orðum æðri.

Næsta tilvitnun úr ritskýringunum við 26. erindið varpar enn frekara ljósi á þennan leyndardóm kærleikssameiningarinnar.

Í hinum innri vínkjallara.

3. Til þess að varpa einhverju ljósi á þennan vínkjallara og hvað sálinni liggur hér á hjarta, þá er nauðsynlegt að Heilagur Andi stýri hendi minni og penna. Þessi vínkjallari er hinsta og innilegasta stig þeirrar elsku sem sálin verður aðnjótandi í þessu lífi. Þar af leiðandi nefnir hún þetta stig elskunnar hinn innri vínkjallara, það er að segja það sem er innst. Því er um önnur stig elsku að ræða sem ekki eru svona djúp, en leggja verður að baki til að ná þessu innsta [stigi].
Við getum fullyrt að hér sé um sjö stig eða vínkjallara elskunnar að ræða. Þau ná öll fram að ganga. Þau rætast þegar hinar sjö náðargjafir Heilags Anda hafa fallið sálinni fullkomlega í skaut með hliðsjón af getu hennar til að veita þeim viðtöku. Þegar sálin hefur þannig öðlast fullkomna hlutdeild anda óttans, þá hefur hún til að bera anda elskunnar með hliðsjón af þessum ótta, en þetta er sú síðasta hinna sjö náðargjafa, Sonarelskan. Og sönn Sonarelska glæðist sökum fullkominnar elsku á Föðurnum. Þegar hinar guðdómlegu Ritningar vilja leggja áherslu á að einhver sé fullkominn í kærleikanum, þá segja þær að hann sé guðhræddur. Þegar Jesaja spáir fyrir um fullkomleika Krists, sagði hann: Replebit eum spiritus timoris Domini (Jes 11. 3). Þetta þýðir: Andi ótta Drottins mun fylla hann. Þannig kallaði hl. Lúkas Símeon guðhræddan mann: Erat vir justus et timoratus (Lk 2. 25). Þetta þýðir: Hann var réttlátur og guðhræddur maður. Og sama má segja um fjölmarga aðra.

4. Taka ber fram að fjölmargt fólk nær til og gengur inn í fyrstu vínkjallarana til samræmis við fullkomleika elsku þess. Þeir eru hins vegar fáir í þessu lífi sem ná til þessa hinsta og innsta vegna þess að það er hér sem hin fullkomna sameining við Guð nær fram að ganga. Þetta er hið andlega brúðkaup sem sálin er hér að ræða um. Það sem Guð gefur sálinni hlutdeild í í þessari innilegu sameiningu er ekki unnt að tjá með orðum. Hér verðum við orðvana, rétt eins og ekkert er unnt að segja um Guð sem nálgast það sem hann er. Í þessari ummyndun sálarinnar í Guð, þá er það Guð sjálfur sem gefur sig til kynna í ósegjanlegri dýrð. Bæði verða þau eitt, eins og við getum sagt um gluggagler sem verður eitt með sólargeislunum, eða þá kolamoli með eldinum, eða þá stjörnuskin eitt með sólarljósinu. En þessi sameining er ekki eins eðlislæg og hún verður í næsta lífi.
Því hefur sálin sem fæst orð um það sem hún meðtekur frá Guði í þessum innri vínkjallara sameiningarinnar, fremur en ég telji að hún sé þess megnug að komast betur að orði eins og þegar hún segir:

Bergði ég á Ástmögur mínum.

Næsta tilvitnun er tekin úr ritskýringunum við 27. erindið í Ljóði andans þar sem Jóhannes af Krossi víkur að innileika þeirrar elsku sem brúðarsálin verður aðnjótandi í kærleikssameiningunni:

1. Í þessari innri sameiningu við Guð gefur hann sig sálinni til kynna í svo innilegri elsku, að hvorki blíða móðurástarinnar sem hún auðsýnir barni sínu, fremur en bróðurelskan eða nokkur elska til ástvinar kemst í samlíkingu við hana. Blíða og sannleiki þessara elsku sem hinn óumræðanlegi Faðir gefur sálinni hlutdeild í og hefur hana upp til nær slíku stigi – ó undursamleiki sem verðskuldar allan okkar ótta og lotningu! – að jafnvel Faðirinn verður undirgefinn henni í upphafningu hennar, rétt eins og hann væri þjónn hennar og hún húsbóndi hans. Og honum er umhugað að koma til móts við hana, rétt eins og hann væri þræll hennar og hún guð hans. Svo djúpstæð er auðmýkt og ljúfleiki Guðs! Í þessum atlotum elskunnar opinberar hann að hluta þá sömu þjónustu sem hann segir að hann muni auðsýna hinum útvöldu á himnum í guðspjallinu, að hann muni gyrða sig belti, láta þá setjast að borði og koma og þjóna þeim (Lk 12. 37). Hérna einbeitir hann sér að því að auðsýna sálinni náð og umhyggju sína, rétt eins og móðir auðsýnir barni sínu blíðu og nærir á brjóstum sínum. Þannig kemst sálin í kynni við sannleika orða Jesaja: Þér skuluð liggja á brjóstum hennar og skuluð bornir verða á mjöðminni og yður skal hossað verða á hnjánum (Jes 66. 12).

Þegar hl. Páll íhugaði þennan leyndardóm hrópaði hann upp yfir sig: To mysterion touto mega estin, „Þetta er mikill leyndardómur.“ Og bætir síðan við: Ég hef í hug Krist og kirkjuna (Ef 5. 31). Ég sé þennan mikla guðsmann ganga fram og aftur þar sem orðin streymdu af vörum hans í krafti Heilags Anda, þannig að skrifarinn hafði vart undan að festa þau á bókfellið. Þannig gerðist þetta sama hjá hl. Katrínu frá Genúa og blessaðri Antonette Foligno. Þannig sat hl. Teresa frá Avíla uppljómuð í Heilögum Anda við að skrifa bækur sínar eftir meðtöku efkaristíunnar, þannig að þó að systurnar styngju hana með nál skynjaði hin heilaga móðir það ekki. Fyrir nokkrum árum dvaldist ég í Karmelítaklaustrinu í Washington DC og faðir Kieran Kavanough sýndi mér stílabækurnar hennar Teresu litlu af Jesúbarninu þar sem hún skrifaði bók sína. Frá upphafi til enda skrifaði hún með fínlegri og fremur barnslegri hendi sinni og hvergi mátti sjá eina einustu útstrikun eða leiðréttingu. Bókmenntagagnrýnendur trúðu þessu ekki fyrr en Karmelítafeðurnir gáfu stílabækurnar hennar út ljósprentaðar (í facismile). Þannig held ég að þessu hafi varið varið með hl. Pál postula vegna þess að hann var innblásinn af Heilögum Anda.

Í tilefni orða fríkirkjuprestsins séra Hjartar Magna Jóhannssonar, að stofnunarkirkja miðaldanna hafi þvingað hugmyndum sínum um eðli hjónabands karls og konu upp á fólk, bendi ég einungis á skrif hl. Gregoríosar biskups frá Nyssa (335-395) sem sjá má í Vefritum Karmels. Rit hans, Ritskýringarnar við Ljóðaljóðin, var það verk sem lesið var mest innan fornkirkjunnar og þar kemur þessi tæra, hreina og órofna arfleifð um helgi hjónabands karls og konu berlega í ljós. Hér á ég við Hina eilífu seilingu frá dýrð til dýrðar, úrval úr ritum hans. Ég bendi sérstaklega á kaflana 26 til loka.

Nú ætti fólki að vera ljóst hvers vegna bæði rómversk kaþólska kirkjan og Rétttrúnaðarkirkjan (1681) dæmdu kenningar þeirra Lúters og Kalvíns um hjónabandið sem villutrú. [1] Kenningar þeirra voru í engri samhljóðan við hina heilögu arfleifð. Það var víðs fjarri!

[1]. Þrátt fyrir kenningar Lúters og Kalvíns um eðli hjónabandsins voru þeir mótmælendur sem héldu tryggð við hina heilögu arfleifð fjölmargir. Þannig gaf Guðbrandur Þorláksson út bók um brúðarguðfræðina árið 1615: Sá mikli leyndardómur um það himneska brullaup og andlega samtengingu vors herra Jesú Kristí og hans brúðar kristilegrar kirkju. Þetta var þýðing á Mysterium magnum Martins Möller. Fyrir tveimur árum þegar ég dvaldist á kyrrðardögum í Skálholti ætlaði séra Bernharður að sýna mér eintak Skálholtsstaðar af bókinni, en því miður var bókasafnsvörðurinn ekki viðlátinn. En þetta rit brenn ég í skinninu eftir að sjá. Vaflaust endurspeglast þetta í mótmælaendakirkjunnum í dag þar sem ofurfrjálsyndisguðfræðin hafnar með öllu helgi hjónabands karls og konu, fólk, sem rofnað hefur úr tengslum við eigin rætur, einkum fríkirkjuprestarnir og fleiri sem samsinna þeim. Má vera að þessi boðskapur sé trú, en þetta er ekki kristinn dómur.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hugheilar þakkir fyrir þetta, Jón. Mikill lestur og góður. Væri betur að sem flestir guðfræðingar og prestar læsu þetta.

16.02.06 @ 09:10
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Sá mæti guðsmaður, herra Sigurbjörn Einarsson biskup, vitnar í ummæli Jóns Helgasonar í formála sínum að Hómilíubókinni um að: „Óvíða flói lindir íslensks máls tærar en í þessari gömlu bók og sé sá íslenskur rithöfundur sem ekki hafi þaullesið hana litlu betur undir starf sitt búinn en sá prestur sem enn eigi ólesna fjallræðuna.“ Bæta má við að óvíða flóa lindir guðdómlegrar speki tærar en í ritum kirkjufeðranna að Biblíunni undanskilinni, og sé sá prestur sem ekki hafi þaullesið þau illa undirbúinn fyrir sitt starf. Amen.

16.02.06 @ 13:33