« Mikill vísindamaður og lífsverndarsinni – dr. Jérôme Lejeune – tekinn í tölu heilagra?Hún skal merja höfuð þitt »

11.03.07

  11:34:43, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1023 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um heiðrun og tilbeiðslu

Í dag sem er þriðji sunnudagurinn í föstu heiðrar kirkjan heil. Teresu Margrét Redi (d. 1770). Þetta gerir kirkjan daglega, það er að segja að hún velur einn hinna heilögu og bendir á þá sem fyrirmynd til breytni. Systir Teresa Margrét var einungis 23 ára gömul þegar hún andaðist. Hún er næst yngst þeirra kvenna sem hafin hefur verið upp við altarið í tölu hinna heilögu. Hin hét einnig Teresa og var frá Lima í Perú. Hún var einungis nítján ára gömul þegar hún andaðist!

Víkjum fyrst að orðinu heiðrun, að auðsýna einhverjum heiður. Í fornkirkjunni var þetta nefnt duleia á grísku. Maríu Guðsmóður er sýnd sérstök heiðrun. Þetta nefndu hinir fornu feður og mæður kirkjunnar á grísku hyperduleia eða sérstaklega mikla heiðrun. Þegar á annarri öld auðsýndu þeir Guðsmóðurinni slíka hyperduleia eins og við sjáum til að mynda í skrifum Tatíans (d. 160). Frá upphafi og fram á daginn í dag er gerður strangur munur á latreia eða tilbeiðslu og heiðrun. Guð einn í Þrenningu er tilbeðinn: Honum einum er kristnum mönnum ætlað að tilbiðja.

Fáir hafa sýnt Guðsmóðurinni meiri heiðrun en einmitt Marteinn Lúter. Hann skrifaði:

„Hún er full náðar og réttilega sögð vera að öllu leyti án syndar . . . Náð Guðs fyllir hana allri gæsku og eyðir allri illsku úr henni . . . Guð er með henni sem felur í sér að allt sem hún gerði eða á eftir að gera er guðdómlegt og áhrif Guðs í henni. Auk þess vakti Guð yfir henni og verndaði hana gegn öllu sem gat unnið henni tjón.“ [1]

Lúter tekur því undir hina heilögu arfleifð kirkjunnar: „Og réttilega sögð vera að öllu leyti án syndar.“ Á grísku er hún nefnd Panhagían (Hin háheilaga). Hvað er það sem gerði karmelsysturina Teresu Margréti svo einstaka í sinni röð, að hún var hafin upp í tölu heilagra. Það var sökum þess að þegar kirkjan kannaði öll málsskjölin sem vörðuðu hans (alls níu þykk bindi) sannfærðist hún um að þessi stúlka hefði lifað afar heilögu lífi: Var hrein sökum Orðsins. Rannsóknin stóð yfir á árabilinu 1770 til 1838.

Heil. Teresa Margrét upplifði sama leyndardóminn og gerðist í lífi Guðsmóðurinnar: Getnað Orðsins í sínu eigin lífi eða það sem Meistari Eckhart kallaði: Hinn eilífa getnað Orðsins. Og sagði ekki Páll blessaður að hann liði harmkvæli „þangað til Kristur er myndaður í yður!“ (Gl 4. 19). Systir Teresa Margrét varð heilög vegna þess að hún varð við þeim boðskap sem Guðsmóðirin greindi henni frá: HORFIÐ TIL HANS! Þetta gerir Guðsmóðirin ætíð í hlutverki sínu sem Vegvísan (Hoidegetria). Með þessu ásæi sínu beindi Heilagur Andi systur Teresu Margréti inn í sjálft djúp Þrenningarinnar. Þetta er það sama og við sjáum gerast í frásögn Lúkasar guðspjallamanns:

Og engillinn sagði við hana: „Heilagur Andi mun koma yfir þig og kraftur hins Hæsta (Guðs Föður) mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, Sonur Guðs“ (Lk 1. 35).

Þannig opinberar Alhelg Þrenning sig í guðspjallinu og þannig mun hún opinberast í okkar eigin lífi ef við fylgjum fordæmi Maríu. Við sjáum annað hryggilegt dæmi framar í frásögn Lúkasar af Sakaría sem dróg orð engilsins í efa: HANN VARÐ BLINDUR! Við skulum því ekki láta vantrúna blinda okkur gagnvart sannleikanum um hinn eilífa getnað Orðsins í okkar eigin lífi. Af þessum sökum er María Guðsmóðir kirkjunni svo ósegjanlega dýrmæt að henni er auðsýndur sérstakur heiður. Meistari Eckhart sagði:

Öll ker eiga tvennt sameiginlegt: Að taka á móti og varðveita. Andlegt ker er þó ólíkt venjulegu keri. Vínið er í kerinu, ekki kerið í víninu . . . Þessu er ekki þannig varið um hið andlega ker. Allt sem kemur í það er í kerinu og kerið í því og er sjálft kerið. Allt sem kemur í þetta andlega ker er þess eigið eðli. Þetta er í eðli Guðdómsins að fylla sérhverja dyggðuga sál af sjálfum sér og það er í eðli sálarinnar að taka á móti Guði og þetta segjum við um sálina í æðstu eiginleikum hennar. Hérna ber sálin guðsímyndina í sér og samlíkist Guði. [2]

María Guðsmóðir var slíkt gullker sæmdar vegna þess að hún var hreint ker. Það verðum við öll þegar við verðum hrein sökum Orðsins og þá rætist leyndardómur þeirra Maríu Guðsmóður og hl. Teresu Margrétar Redi í okkar eigin lífi og við verðum einnig sæmdarker í musteri hins lifandi Guðs. Það eina sem við þurfum að gera er að taka undir með Maríu og segja: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum" (Lk 1. 38). ÞAÐ ER SÖKUM ÞESSARA ORÐA SEM KIRKJAN AUÐSÝNIR HENNI HYPERDULEIA EÐA SÉRSTAKA HEIÐRUN.

[1]. Luther's Works, American edition, vol. 43, p. 40 , ed. H. Lehmann, Fortress, 1968. Það var John Don Scotus (1266-1308) sem vakti athygli á því að friðþæging blóðs Krists væru svo máttug að hún væri gagnvirk í tíma og þannig hefði Guð vakað yfir flekkleysi Maríu Guðsmóður allt frá sköpun hennar og því segir kirkjan að hún hafi verið án flekks syndarinnar: Flekklaus getnaður samkvæmt ráðsályktun Guðs sem fyrirhugaði henni að ala Son sinn.
[2]. Meister Eckhart (Pfeiffer), bls. 50-51.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér þessa grein, Jón Rafn. Hún hefur sístætt gildi til að leiðrétta sumra lútherskra bræðra okkar um okkar meintu “Maríudýrkun” og “tilbeiðslu til Maríu". T.d. var Zeriaph nokkur (annars ágætur kristinn maður) að skrifa gagnrýni á þessa meintu “dýrkun” á þessari vefsíðu sinni: http://zeriaph.blog.is/blog/zeriaph/entry/141264/

12.03.07 @ 13:46
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég skrifaði þetta reyndar meðal annars vegna þessara skrifa. Guðfræðin virðist eitthvað óljós hjá honum eins og hvað áhrærir múslima.

Maðurinn trúir á Einn Guð í Þrennum greinum og það er þetta sem múslimar andmæla. Hins vegar eru múslimar afar elskir að Maríu.

Það kann að koma kristnum mönnum á óvart hversu mikinn áhuga múslimar sýndu opinberununum í Zeitoun. Þá er þess fyrst að geta að fjölmargar tilvitnanir um Maríu mey má sjá í Kóraninum. Í hugum múslima er María hin sanna Sayyida, Frúin. Eini keppinautur hennar í huga sumra múslima er Fatíma, dóttir Múhammeðs. En eftir andlát Fatímu skrifaði Múhammeð: „Þú verður blessuðust allra kvenna í Paradís, næst á eftir Maríu.“ Í Kóraninum má einnig lesa að Fatíma ber af öllum öðrum konum, að Maríu undantekinni.

Í nítjánda kafla Kóransins má lesa 41 vers um þau Jesús og Maríu. Það er af þessum ástæðum sem múslimar bera svo djúpa virðingu fyrir opinberununum í Fatíma í Portúgal vegna þess að staðurinn ber nafn Fatímu, dóttur Múhammeðs. Þannig litu allir þeir hundruð þúsunda múslima sem urðu vitni að birtingu hinnar blessuðu Meyjar í Zeitoun á opinberanir hennar sem tákn frá Guði. Það er einnig af ofangreindum ástæðum sem múslimar í Afríku, Indlandi og víðar auðsýna líkneski Vorrar Frúar frá Fatíma djúpstæða lotningu, í mun ríkara mæli heldur en nafnkristnir Vesturlandabúar. Þannig taka múslimar þátt í heiðrun Maríu meyjar, taka þátt í helgigöngum henni til heiðurs og er heimilt að ákalla hana í moskum sínum. Þannig snerust fjölmargir múslimar í Mósambik til kristinnar trúar jafnskjótt og þeir sáu líkneski Vorrar Frúar frá Fatíma hjá kaþólskum trúboðum. Er þetta ekki einmitt hlutverk hennar sem Vegvísunnar (Hoidegetria): HORFIÐ TIL HANS?

Jabb, svo er nú það!

12.03.07 @ 15:25