« Um friðarboðskap kristninnar - 4. hluti - höfnun drambsinsHvar eru kaþólikkarnir? »

27.10.07

  19:40:37, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 907 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Trúarpælingar

Um friðarboðskap kristninnar - III. hluti - höfnun ágirndar og öfundar

Fleiri innri kenndir mannsins geta valdið ytri ófriði en reiði og meðal þeirra má nefna öfundina og ágirndina sem líta má á að séu brot á sjöunda, níunda og tíunda boðorðinu. Enginn getur hamið neina aðra öfund eða ágirnd en sína eigin enda hefur það sýnt sig að það eitt getur verið ærið verkefni hverjum manni. Ef þið lesendur góðir viljið því berjast fyrir betri heimi þá er verkefnið sannarlega bæði brýnt og ærið en það þarf ekki að fara langt til að byrja og góður vilji er allt sem þarf. Ekki er nauðsynlegt að bylta þjóðskipulagi eða menningu heldur fyrst og fremst sínu eigin hugarfari og hegðun. Jöfnuður samfélagsins verður að vera afleiðing innri sáttar en ekki einfalds ytra réttlætis Hróa hattar. Og sem leiðsögn í þessum málum er vart hægt að finna betri texta um þessi mein en umfjöllun trúfræðslurits kirkjunnar þar sem segir:


I. MEIN ÁGIRNDARINNAR
2535. Löngunin er næm og fær okkur til að þrá notalega hluti sem okkur skortir. Þannig er til komin löngunin að borða þegar við erum svöng eða ylja okkur þegar okkur er kalt. Slíkar langanir eru í sjálfu sér góðar en stundum ganga þær út fyrir skynsemismörk og knýja okkur til að girnast með óréttmætum hætti eitthvað sem ekki er okkar, sem tilheyrir öðrum eða þeir eiga tilkall til.
2536. Tíunda boðorðið bannar þá græðgi og þrá að safna hömlulaust að sér jarðneskum gæðum. Það bannar ágirnd sem sprettur af ástríðu eftir auðæfum og því valdi sem þeim fylgja. Einnig bannar það löngunina til að valda ójöfnuði með því að skaða veraldlegur eigur náungans: Þegar lögmálið segir: "Þú skalt ekki girnast", þá þýðir það með öðrum orðum að við eigum að gera útlægar langanir okkar í það sem ekki er okkar. Hungrið eftir eigum annarra er gífurlegt, takmarkalaust og óseðjanlegt. Því stendur skrifað: "Sá sem elskar peninga, verður aldrei saddur af peningum." [321]

2537. Það brýtur ekki gegn þessu boðorði að vilja eignast hluti sem tilheyra náunganum svo fremi sem það gerist eftir réttmætum leiðum. Í hefðbundinni trúfræðslu er minnst af raunsæi á "þá sem eiga erfiðara með að berjast gegn glæpsamlegum löngunum sínum" og sem "á að brýna enn frekar fyrir að halda þetta boðorð": [Þetta eru]… kaupmenn sem óska sér vöruþurrðar og hækkandi verðlags og geta ekki sætt sig við að sitja ekki einir að því að kaupa og selja til að þeir sjálfir geti selt dýrara og keypt ódýrara; þeir sem vona að starfsfélagar þeirra líði skort til að hagnast annað hvort með því að selja þeim eða kaupa af þeim… læknar sem óska þess að sjúkdómar breiðist út; lögmenn sem leita ákaft eftir sem flestum mikilvægum málum og réttarhöldum. [322]

2538. Tíunda boðorðið krefst þess að öfundin verði gerð útlæg úr mannlegu hjarta. Þegar Natan spámaður reyndi að fá Davíð konung til að iðrast, sagði hann honum sögu af fátæka manninum er átti einungis eitt gimbrarlamb, sem hann umgekkst eins og dóttir væri, og af ríka manninum sem, þrátt fyrir að eiga stóra og mikla hjörð, öfundaði fátæka manninn og stal lambi hans að lokum. [323] Öfund getur leitt til verstu glæpa. [324] "Öfund djöfulsins leiddi dauðann inn í heiminn": [325] Við berjumst hvert gegn öðru og það er öfundin sem hervæðir okkur hvert gegn öðru .…Ef allir kappkosta að sundra líkama Krists, hvar endum við þá? Við erum í þann veginn að gera líkama Krists að liðnu líki.… Við fullyrðum að við séum öll limir á sama líkama, engu að síður rífum við hvert annað í okkur líkt og villidýr. [326]

2539. Öfundin er höfuðsynd. Hún vísar til leiðinda yfir því að sjá eigur annars manns og hóflausrar löngunar til að komast yfir þær, jafnvel með óréttmætum hætti. Hún er dauðasynd þegar hún veldur því að náunganum er óskað skaða: Heilagur Ágústínus leit á öfundina sem "fremstu synd djöfulsins". [327] "Af öfundinni fæðist hatur, lastmæli, rógburður, fögnuður yfir óförum náungans og óánægja yfir velgengni hans." [328]

2540. Öfundin er viss gerð leiðinda og þannig er hún höfnun á náungakærleikanum; sá sem er skírður verður að berjast gegn henni með því að temja sér góðan vilja. Öfundin stafar oft af hroka; hinn skírði á að þjálfa sig í að lifa í auðmýkt: Vilt þú sjá Guð gerðan dýrlegan fyrir þitt tilstilli? Fagnaðu framförum bróður þíns og þá þegar hefur þú gefið Guði dýrð. Fyrir því að þjónn hans gat sigrað öfundina með fögnuði yfir verðleikum annarra, mun Guð lofaður verða.[1]


[1] http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/2196.html

No feedback yet