« Hvar eru kaþólikkarnir?Um friðarboðskap kristninnar - I. hluti »

20.10.07

  20:17:02, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 929 orð  
Flokkur: Trúarpælingar

Um friðarboðskap kristninnar - II. hluti - höfnun reiðinnar

Ef horft er á hvernig einstaklingar geta fært nánasta umhverfi sínu hinn kristna frið þá er það fyrst og fremst með innri sátt við sjálfan sig, Guð og heiminn, þ.e. alla tilveruna með tilliti til þessa heims og hins komandi. En þó þessi innri sátt sé til staðar þarf líka að leggja stund á ýmsar dyggðir því í hita og þunga daganna geta hæglega gerst atvik sem verða til að spilla friðnum ef ekki er höfð nægileg aðgát. Þar er komið að hinum kristnu dyggðum, t.d. þolinmæði og þeirri afstöðu að að reiði sé synd og brot á 5. boðorðinu.

Skoðum aðeins hvað trúfræðslurit kirkjunnar segir um þetta:

III. AÐ VARÐVEITA FRIÐINN
Friður
2302. Þegar Drottinn minntist á boðorðið "Þú skalt ekki morð fremja", bað hann um frið hjartans og sagði manndrápsofsa og hatur vera siðferðisbrot. Reiði er þrá eftir hefnd. "Það er ekki lögmætt að leita hefndar og valda þeim böli sem verðskuldar refsingu" en það er lofsvert að krefjast skaðabóta "til að leiðrétta ódyggðirnar og viðhalda réttlætinu". Reiði sem kemst á það stig að vera vísvitandi þrá eftir að drepa eða særa alvarlega náunga sinn er alvarlegt brot gegn náungakærleikanum; slíkt er dauðasynd. Drottinn segir: "Hver sem reiðist bróður sínum, skal svara til saka fyrir dómi". [1]

Reiðin er einfaldlega skilgreind sem þrá eftir hefnd og það er talið benda til alvarlegs siðferðisbrests að láta undan henni og ef vel er skoðað og hvernig sem skoðað er þá er ekki hægt að sjá að hún hjálpi neinum hvorki þeim sem reiðist né þeim sem fyrir reiðinni verður.

Eitt af því sem einkennir nútímamenninguna er hömluleysi - að 'sleppa fram af sér beislinu' hefur ekki þótt hafa á sér neikvæðan blæ. Hugtakið 'útrás' sem gjarnan er haldið að fólki er þó athugunar vert. Fólk á að fá útrás fyrir þetta og hitt. Útrásarhugtakið er ekki nýtt og það á trúlega rætur sínar að rekja til 'kaþarsis' hugtaks Aristótelesar sem hann notaði til að lýsa listrænum áhrifum spennufalls í harmleik síns tíma á áhorfendur. Hugmyndin um 'útrás' í nútímanum virðist þó vera frekar óljós en hún virðist geta átt við æði margt.

Hér er komið að kjarna málsins en hann er sá að útrásarhugtakið hentar ekki og hjálpar alls ekki til að varpa neinu allsherjarljósi á hegðun manna. Atferlisvísindi nútímans færa einmitt heim sanninn um að hið gagnstæða er frekar tilfellið. Hegðun styrkist þeim mun meir sem hún er endurtekin oftar. Ef maður lætur undan reiði í þeim tilgangi og trú að með því fái hann útrás fyrir vanlíðan sína hvort sem hún stafar af vonbrigðum eða þreytu þá eru allar líkur á að hann styrki þetta hegðunarmynstur og verði reiðinni sífellt auðveldari bráð og þá er stutt í dauðasyndina, þ.e. þrána að meiða náunga sinn alvarlega.

Kristinn maður á því að líta á reiði sem siðferðisbrot og vinna gegn henni með bænum, fyrirgefningu, iðrun og yfirbót, t.d. í gegnum skriftirnar. Þetta viðhorf er í samræmi við þá hugmynd að maðurinn sé leir í höndum Guð og sál hans eigi að vera eins og fagurlega snyrtur garður en ekki eins og óræktarflag.

Ekki er hægt að skiljast við þessa umfjöllun um reiðina sem andstæðing friðarins og þá sér í lagi heimilisfriðarins án þess að minnast á orð Páls postula í Kólossusbréfinu. Hann segir í 3. kafla 15 og 21. versi:

"Látið frið Krists ríkja í hjörtum yðar, því að til friðar voruð þér kallaðir sem limir í einum líkama. Verðið þakklátir." ... "Þér feður, verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus."

og í Efesusbréfinu 6. kafla skrifar hann í 4. versinu:

Og þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun Drottins.

Hér er greinilegt að hann leggur feðrum þá skyldu á herðar að ala börn sín upp í aga en þó án reiði. Samskipti foreldra og barna eiga að vera án reiði. Þetta er atriði sem hætt er við að einhverjir átti sig ekki á og setji samasemmerki milli aga or reiðilegrar umvöndunar en það er óleyfileg afstaða í kristnum skilningi. Aginn á að byggjast á kærleikanum. Þessi boðun hefur trúlega verið verið einhverjum kristnum manninum uppspretta heilabrota hér á árum og öldum áður en hugmyndir um jákvæða skilyrðingu, þ.e. verðlaun fyrir góða hegðun og afnám verðlauna í tilfelli óþægðar urðu útbreiddar og þeir fallið í þá gryfju að drottna yfir börnum sínum með hótunum um refsingar.

Virðing barnanna fyrir foreldrunum á ekki að vera óttablandin enda er óttinn óvinur friðarins og sá friður sem byggist á ótta ekki sannur friður heldur friður valdboðs og veraldlegrar harðstjórnar.

[1] Trúfræðslurit Kaþólsku kirkjunnar. Sjá: http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/2196.html

No feedback yet