« Filippseyjar: 20 biskupar hitta stjórnina til að ræða vanda fátækraFréttamolar úr heimi kaþólsku kirkjunnar »

27.01.08

  11:17:33, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 552 orð  
Flokkur: Trúarpælingar

Um friðarboðskap kristninnar 6. hluti: Gullna reglan

Eitt merkasta framlag kristninnar til siðfræði og því innri og ytri friðar er hennar útgáfa af Gullnu reglunni svokölluðu en hún er sett fram á tveim stöðum í Nýja testamentinu. Fyrri staðurinn er í Matteusarguðspjalli, 7. kafla, 12. versi:

Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir.

og hinn síðari er í Lúkasarguðspjalli 6. kafla, 31. versi þar sem segir:

Og eins og þér viljið að aðrir menn geri við yður, svo skuluð þér og þeim gera.

Því hefur verið haldið fram að drög að Gullnu reglunni séu fyrst sett fram í Biblíunni á tveim stöðum í 3. Mósebók. Hinn fyrri er í 19. kafla 18. versi þar sem segir:

Þú skalt ekki hefna þín á löndum þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn.

og hinn síðari er í 3. Mósebók 19. kafla 34. versi:

Aðkomumaður, sem dvelur hjá ykkur, skal njóta sama réttar og innborinn maður. Þú skalt elska hann eins og sjálfan þig því að þið voruð aðkomumenn í Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð ykkar.

í fyrri tilvitnuninni er hefndin afnumin hvað varðar eigin landsmenn og ákveðið kærleiksboð sett fram. Þessar setningar úr 3. Mósebók eru því líkari kærleiksboði kristninnar en hugsun Gullnu reglunnar þó auðvitað megi færa rök fyrir því að sá sem lifir samkvæmt kærleiksboðinu hljóti líka að breyta samkvæmt Gullnu reglunni. Síðari setningin er mun líkari almennri viðmiðun á borð við Gullnu regluna en orðalagið er ekki jafn markvisst og í því felst ekki sama persónulega áskorunin og í útfærslu Krists. Það má því kannski segja að Gullna reglan sé hagnýt útfærsla Jesú Krists á kærleiksboðinu og leggi drög að því hvað getur verið algildur en jafnframt hagnýtur og nærtækur mælikvarði á rétta breytni og geti jafnframt þjónað sem háleitt viðmið um hegðun. Í því orðalagi sem Kristur velur eða er haft eftir honum felst ákveðin og persónuleg áskorun sem ekki finnst annars staðar.

Mikið hefur verið fjallað um Gullnu regluna og fjöldi bóka skrifaður. Deilt hefur verið um að hve miklu leyti hún eigi uppruna sinn hjá Jesú Kristi en mér virðist eftir stutta leit á netinu að þetta tiltekna orðalag á þessari og skyldum hugsunum finnist hvergi nema í Nýja testamentinu. Hægt er að benda á skyldleika Gullnu reglunnar við ýmsar greinar siðfræðinnar svo sem hið skilyrðislausa skylduboð Kants. Sjá t.d. umfjöllun Wikipediu á slóðinni: http://en.wikipedia.org/wiki/Ethic_of_reciprocity#Christianity. Gagnrýni á Gullnu regluna t.d. sú sem kemur frá George Bernard Shaw á Wikipedia slóðinni hér að framan og er efnislega á þá leið að gullna reglan geti ekki verið algildur mælikvarði af því að smekkur fólks sé breytilegur virðist frekar langsótt og virkar frekar á mig sem lesanda sem óánægja guðlauss nútímamanns og sósíalista með þann augljósa frumleika og styrk sem óneitanlega stafar frá framsetningu Krists á þessari hugsun.

No feedback yet