« Ljómi barnsins - nýr jólatexti við þekkt lagZontakonur minnast Nonna - sýning opin til áramóta »

25.11.07

  10:52:48, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1285 orð  
Flokkur: Trúarpælingar

Um friðarboðskap kristninnar - 5. hluti: Hin kinnin

Ekki er hægt að fjalla um friðarboðskap kristninnar án þess að skoða eindregna boðun Jesú Krists um hvernig bregðast skuli við ofbeldi og yfirgangi eins og lesa má í Lúkasarguðspjall 6:27-29.

Elskið óvini yðar, gerið þeim gott sem hata yður, blessið þá sem bölva yður og biðjið fyrir þeim er misþyrma yður. Slái þig einhver á kinnina skaltu og bjóða hina og taki einhver yfirhöfn þína skaltu ekki varna honum að taka kyrtilinn líka.

Segja má að þessi viðhorf séu meðal þess róttækasta sem Jesús Kristur lét frá sér fara í félagslegum og jarðneskum boðskap sínum en þau viðhorf hafa samt haft mikil áhrif og á bakvið þá róttækni felst djúp og skynsamleg hugsun. Skoðum þetta aðeins. Menn eiga að:

1. Elska óvini sína.
2. Gera þeim gott sem hata sig.
3. Blessa þá sem bölva sér.
4. Biðja fyrir þeim sem misþyrma sér.
5. Bjóða hina kinnina líka ef einhver slær þá á aðra.
6. Gefa fataræningjum eftir fleiri föt.

Nú hugsar kannski einhver lesandi að þessi grein hefði átt að vera sú fyrsta hjá mér í greinaflokkinum um friðinn því hvergi sé ofbeldið og yfirgangurinn skoraður jafn einarðlega á hólm og hér. Vera má að það sé rétt, en það er samt svo að uppsprettur friðarins eru innra með þeim sem geta breytt eftir þessum mjög svo krefjandi siðaboðum og boðin ein geta ekki veitt þann siðferðilega styrk sem þarf til þeirrar hetjulegu og dyggðugu breytni sem þarna er kallað eftir. En eflaust er það þó svo að sá sem byrjar að fylgja þessum boðum styrkir þar með þá hegðun sem í þeim er kynnt og er lagður af stað hægt en örugglega upp á hinn vandrataða en góða veg dyggðanna sem liggur upp á fjall heilagleikans eins og kristnir menn nefna þessa leið.

Fyrsta boðið um að elska óvinina er ekki bara bein áskorun um að stöðva allt hatur þegar í stað heldur að elska óvinina! Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hverju slík andleg kúvending getur komið til leiðar þegar menn deila - sú deila hlýtur að hjaðna fljótt, jafnvel þó aðeins annar aðilinn fari eftir boðunum. Segja má að í þessu boði felist erfið áskorun sem ekki er auðvelt að taka á eigin spýtur.

Annað boðið að gera þeim gott sem maður veit að bera haturshug til sín eru ekki síður beinskeytt atlaga að uppsprettum ófriðarins. Ólíklegt er að sá haturshugur magnist mikið upp sem verður vitni að góðverkum þess sem hataður er.

Þriðja boðið að blessa þá sem bölva gengur á hólm við fúkyrðaflaum sem gjarnan er fyrirboði átaka.

Fjórða boðið að biðja fyrir þeim sem misþyrma sér er líklegt til að draga úr misþyrmingunum og það sem krefst hvað mests andlegs styrks. Þetta eru ráðleggingar um það hvað sé best að gera þegar ofbeldið stendur yfir og er í sama anda og hið fimmta um að bjóða hina kinnina. Þegar Jesús var krossfestur er greint frá því að hann hafi beðið fyrir misyndismönnum sínum. Margir af sporgöngumönnum hans hafa fetað þessa braut, svo sem Stefán frumvottur og síðast í fyrra bárust fregnir af því að þegar kaþólsk nunna var myrt í Afríku hafi hennar síðustu orð verið bænarorð fyrir morðingjum sínum.

Fimmta boðið um að bjóða hina kinnina hefur mörgum mönnum orðið umhugsunarefni. Það er hæpið að túlka megi þetta þannig að ofbeldismenn skuli ekki stöðva því boðin eru einstaklingsbundin, þeim er fyrst og fremst beint til einstaklingsins og eiga því við í þeim tilfellum þegar tveir menn deila. Þetta eru ekki samfélagsleg boð því þó einhver einn ákveði að láta undan í deilu þá getur hann samt ekki bundið allt samfélagið af þeirri ákvörðun. Ekki er heldur talið að þessi boðun upphefji sjálfsvarnarréttinn. Við sjáum líka hvernig Jesús Kristur sjálfur bregst við því þegar honum er rekinn kinnhestur í Jóh. 18:19-23:

Nú spurði æðsti presturinn Jesú um lærisveina hans og kenningu hans. Jesús svaraði honum: „Ég hef talað í áheyrn allra. Ég hef ætíð kennt í samkundunni og í helgidóminum þar sem allir Gyðingar safnast saman en í leynum hef ég ekkert talað. Hví spyr þú mig? Spyrðu þá sem heyrt hafa hvað ég hef við þá talað. Þeir vita hvað ég hef sagt.“ Þegar Jesús sagði þetta rak einn varðmaður, sem þar stóð, honum löðrung og sagði: „Svarar þú æðsta prestinum svona?“
Jesús svaraði honum: „Hafi ég illa mælt þá sanna þú að svo hafi verið en hafi ég rétt að mæla, hví slær þú mig?“
(Leturbr. RGB)

Hér rekur varðmaður Jesú löðrung og hann fer fram á sönnun - rökstuðning fyrir því að hann hafi illa mælt og því verðskuldað löðrunginn. Þó menn eigi því að gjalda illt með góðu og jafnvel að bjóða hina kinnina að þá á það þó ekki að gerast án þess að sá sem slær þurfi að standa fyrir máli sínu. Í boðunum felst því ekki hugsunarlaus uppgjöf fyrir yfirgangsfólki heldur miklu fremur almenn holl og góð ráð og reyndar þau bestu hugsanlegu um hvernig ofbeldið verði stöðvað sem allra fyrst á skynsamlegan hátt.

Um síðari hluta málsgreinarinnar þetta með að gefa fataræningjum eftir enn fleiri föt má segja að líklega eru þar boð sem mörgum kristnum þykja erfið og hafa fáir trúlega náð það langt í andlegri fullkomnun að geta farið eftir þeim. Þó er til saga úr eyðimörk Egyptalands en þar settust kristnir einsetumenn að snemma, líklega á 3. öld, sjá hér: [Tengill]. Sagan segir að einn eyðimerkurfaðirinn hafi farið frá kofa sínum einhverra erinda og þegar hann kom til baka hafi þjófur verið önnum kafinn að hlaða innbúi munksins á asna sem hann var með. Munkurinn tók þjófnum alúðlega og bauð honum aðstoð við að hlaða á asnann sem þjófurinn þáði með þökkum. Þegar öll búslóð munksins var komin á asnann kvöddust þeir með virktum og þjófurinn þakkaði munknum fyrir hjálpina. Hugsunin á bakvið þessa breytni er sú að fyrir þá sem vilja ná fullkomnun í andanum er háskalegt að bindast dauðum hlutum miklum trúnaðarböndum. Þeir verði að vera reiðubúnir að segja skilið við sína jarðnesku hluti "gersemar" hvenær sem er. Sem almenn regla getur þetta tæplega náð mikilli útbreiðslu enda eru þessi boð tæplega hugsuð sem slík. Þó er í þeim sannleikskorn sem eiga erindi til allra en þau eru að alls staðar í heiminum er fólk sem á erfitt með fatnað og framfæri og þessu fólki ber að hlúa að og því ber að hjálpa. Hvenær sem er getur það kall komið, og það getur komið óvænt að einhver sem á leið okkar verði sé mikið hjálparþurfi og hjálpin þoli enga bið. Í því tilfelli a.m.k. leyfi ég mér því að túlka þessi boð sem einstaklingsbundna áskorun um gjafmildi og hjálpsemi.

Heimild: Biblian.is

No feedback yet