« Þýskir Jesúítar minnast NonnaUm friðarboðskap kristninnar - III. hluti - höfnun ágirndar og öfundar »

04.11.07

  19:51:34, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 611 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Trúarpælingar, Þjóðfélagskenningin

Um friðarboðskap kristninnar - 4. hluti - höfnun drambsins

Ekki er hægt að fjalla um friðarborðskap kristninnar án þess að víkja að höfnun hennar á drambseminni eða hrokanum, mannlegri tilhneygingu sem veldur vanlíðan og tortryggni og er því rót ófriðar í samfélagi manna. Kaþólska kirkjan flokkar drambið sem hina fyrstu af höfuðsyndunum eða dauðasyndunum sjö. Þessar syndir eru nefndar "höfuðsyndir eða dauðasyndir vegna þess að hver þeirra verður löngum orsök og undirrót annarra synda." [1] Sjá líka Síraksbók (10,7.15).

Vjer verðum sekir um drambsemi þegar vjer höfum of mikið álit á oss sjálfum, en gefum eigi Guði þá vegsemd er honum ber, eða fyrirlítum náunga vorn. [2]

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hve miklum skaða og ófriði er hægt að valda með því að fyrirlíta einstaklinga eða þjóðfélagshópa eða með því að ala á slíkum kenndum. Þar nægir að nefna fyrirlitningu gagnvart gyðingum sem nazistar í Þýskalandi ólu kerfisbundið á þangað til nægilegt hatur var byggt upp til að hefja fjöldamorð þeirra sem síðan þróaðist út í þjóðarmorð.

Sú dyggð sem vinnur á drambinu er auðmýktin. Í guðspjöllunum sést hvernig Jesús Kristur gengur ákveðið á hólm við hroka og dramb hvað eftir annað og býður mönnum auðmýkt og fyrirgefningu í staðinn. Þetta sést t.d. í dæmisögunni um faríseann og tollheimtumanninn, einnig í sögunni af Sakkeusi tollheimtumanni og í sögunni af hórseku konunni. Í samfélagi hans var vændisfólk og tollheimtumenn fyrirlitið en samt stillir hann þeim upp sem verðugum náðar Guðs og dregur því skýrt fram að syndin, þ.e. sá verknaður sem fær fólk til að fyrirlíta er eitthvað sem ávallt er hægt er að snúa frá og því ber ekki að fyrirlíta þann sem syndgar heldur fremur líta í eigin barm. Skoðum aðeins eftirfarandi texta úr riti kirkjunnar:

Er ég drembilátur, geri ég lítið úr öðrum? Hlusta ég á það, sem aðrir hafa að segja? Gef ég mér tíma til að sinna ððrum: Eiginmanni, eiginkonu, börnum, vinum, vandamönnum, sjúkum eða bágstöddum í nágrenninu? Hvernig kem ég fram við þá, sem á aðstoð þurfa að halda, þá sem leita ráða, sem eru einmana, ókunnugir, útlendir? Hvernig kem ég almennt fram: Er ég vingjarnlegur, fráhrindandi, kuldalegur, tortrygginn, áhugalaus...?

Fyllist ég beiskju við fyrstu vonbrigði? Get ég fyrirgefið? Er ég fullur fordóma um vissa félagshópa, t.d. unga fólkið, byltingarseggi, auðvaldssinna, smáborgara..? Geri ég mér far um að verja heiður og æru annarra? [3]

Framsetningu Jesú Krists á auðmýktinni og höfnun sjálfs drambsins má líkja við róttæk umskipti og fráhvarf frá illskunni. Með réttu er hægt að segja að engum manni hefur farnast þessi áskorun betur en honum með boðskap sínum. Það er friðarbylting sem hefst í brjósti hvers manns, breiðir út frið Guðs til samfélagsins og stuðlar að uppbyggingu þess sem hann nefndi ríki sitt, hið andlega ríki sem nær út fyrir endimörk þessarar tilveru. Kristindóminn má því með þungum rökum kalla stærstu friðarhreyfinguna og það er friðarhreyfing sem hefur starfað í bráðum 2000 ár.

[1]Kaþólsk fræði. Fjelagsprentsmiðjan 1922. Bls. 88
[2] Sama -"-.
[3] Sátt við Guð - Skriftir og iðrun. Útg. Kaþ. kirkjan á Íslandi 1978. bls. 40.

No feedback yet