« Um friðarboðskap kristninnar - II. hluti - höfnun reiðinnarAf ummælum erkibiskupsins í Mósambik »

14.10.07

  12:14:20, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1155 orð  
Flokkur: Trúarpælingar, Skírnin

Um friðarboðskap kristninnar - I. hluti

Friðarsúla Yoko Ono [1] til minningar um John Lennon er þarft framtak og er áskorun til allra góðviljaðra manna um að kjósa friðinn fremur en ófriðinn. Hún hvetur fólk til að velta fyrir sér hvað felst í hugtakinu 'friður' og hvernig er hægt að stuðla að innri og ytri friði og hvað einstaklingar geti gert til að stuðla að friði í sínu nánasta umhverfi, samfélaginu í heild og í samfélagi þjóðanna. Það fer sennilega eftir lífsafstöðu hvers og eins hvernig þessum spurningum er svarað en hér langar mig til að gera tilraun til að skoða lauslega nokkra punkta sem snerta afstöðu kristninnar til þessara spurninga.

Þegar Nýja testamentið er lesið verða menn fljótt varir við tilvísanir til friðar. 'Friður sé með yður' er t.d. ávarp hins upprisna Jesú Krists til lærisveinanna, sjá t.d. í Jóhannesarguðspjalli og í Jóh. 14:27 sjáum við:

Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.

Í bréfum Nýja testamentisins er friðarkveðja algeng við upphaf bréfanna, sjá t.d. í Galatabréfinu:

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi, sem gaf sjálfan sig fyrir syndir vorar, til þess að frelsa oss frá hinni yfirstandandi vondu öld, samkvæmt vilja Guðs vors og föður. Honum sé dýrð um aldir alda, amen.

Það er bæði maðurinn Jesús Kristur, hinn upprisni Kristur og svo lærisveinar hans og fylgendur sem heilsast með friðarkveðjunni. Friðarkveðjan er því stöðugt nálæg og einkennandi fyrir samkomur og heilsanir í hinum frumkristna flokki. Engum þarf því að koma á óvart að í kaþólskum hámessum tíðkast að bera friðarkveðjuna í kjölfar orðanna: 'Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður'. Að því búnu tilkynnir presturinn: 'Berið hvert öðru friðarkveðju'. Því næst taka kirkjugestir í hönd þeirra sem næst þeim sitja og segja 'Friður sé með yður'.

Friður Jesú Krists er því hluti af Guðsríki hans, því ríki sem talað er um í Faðirvorinu. En ríki hans er ekki 'af þessum heimi' þó það sé í heiminum. Útgangspunktur hins kristna friðar er því framar öllu hinn innri friður einstaklingsins. Enginn getur breytt heiminum neitt meira en hann getur breytt sjálfum sér og með þessum innri umskiptum er síðan hægt að hafa áhrif á aðra með góðu fordæmi og töluðu orði. Ef þessi leið er ekki farin er hætt við að öll friðarboðun verði sem hljómandi málmur og hvellandi bjalla - þ.e. með miklum holhljómi. Hinn innri friður einstaklingsins berst síðan út í samfélagið og þeim mun meir sem þeim einstaklingum fjölgar sem eru sáttir við sjálfa sig og aðra því friðvænlegra verður í samfélaginu. Friður Krists er því ekki sá friður sem settur er með valdi, heldur byggist hann á innri og ytri sátt þeirra einstaklinga sem samfélagið mynda og í því sambandi verður hin ytri sátt afleiðing hinnar innri.

Óhjákvæmilega hlýtur því að þurfa að skoða á hverju hin innri sátt grundvallist ef komast á að uppsprettu friðarins. Til að skilja það þarf að leiða hugann að öðrum hluta hins kristna boðskapar en það er að Kristur sagði sig kominn til að kalla synduga menn til afturhvarfs. Í hinum kristna skilningi er það því syndin, afbrot mannsins gagnvart sjálfum sér, samfélaginu og Guði sem orsakar truflun í sjálfsvitund hans og andlegri vellíðan og er því uppspretta ófriðarins. Það er hin slæma samviska sem nagar og veldur óróa og vanlíðan sem síðan getur breiðst út til nálægra einstaklinga og valdið ófriði ef ekki er gripið í taumana nógu snemma. Þessi órói og innri ósátt getur síðan brotist fram í óhóflegri sjálfselsku, ágirnd, girnd - þ.e. fíknar af einhverju tagi, óþolinmæði eða reiði svo dæmi séu tekin.

Hin andlegu umskipti kristninnar byrja því á skírninni, sem felur í sér táknræna hreinsun í vatni og svo auðvitað náð Guðs sem hreinsar sálina af öllu grómi og gerir manninum kleyft að byrja líf sitt upp á nýtt og snúa baki við syndinni. Að skírninni lokinni er maðurinn kominn inn í hið andlega samfélag í trúnni - kirkjuna sem Kristur stofnaði og er birting á Guðsríki hans á jörð. Kirkjan verður því samfélag þeirra einstakinga sem hana mynda. Til stöðugrar varðstöðu gagnvart syndinni stofnaði Kristur síðan skriftasakramentið. Baráttan við uppruna ófriðarins er því háð á frumstigi, þ.e. á meðan hin innri ósátt og vanlíðan er enn það ófullburða að hægt er að uppræta hana áður en hún veldur of miklu tjóni. Baráttan er því færð þangað sem hún á heima, þ.e. inn í vitund og hjörtu mannanna en ekki inn í réttarsalina eða út á vígvellina og ef hún er háð nógu snemma þá veldur hún ekki spennu heldur eru áhrif hennar friður eins og áður segir.

Í hefðbundnum kristnum skilningi er best að grafa syndina upp þegar hún er ekkert annað en frækorn - þ.e. tillaga að athöfn í vitundinni. Verra er að láta fræ hennar spíra og vaxa, þ.e. að aðhafast það sem hún leggur til. Það er fyrst þegar gefið er eftir gegn syndinni og áhrif hennar fara að verða sterkari sem maðurinn lendir í alvarlegri innri baráttu við sjálfan sig. Ástæðan er sú að hann hefur að einhverju leyti gengið syndinni á hönd og þarf því að berjast við hluta af sjálfum sér og þessi hluti stækkar ef syndinni er leyft að ganga á lagið.

Um fullnaðaráhrif þessarar boðunar er samt erfitt að fullyrða nokkuð. Við getum ekki með neinu móti rannsakað heiminn eins og hann væri ef Jesús Kristur hefði ekki fæðst og flutt sinn boðskap. Erfitt er þó að sjá að nokkur einstaklingur hafi komist með tærnar þar sem hann hafði hælana í því að hafa áhrif á fólk og breyta lífi þess - að því er þeir telja sjálfir - til hins betra.

[1] Sjá www.mbl.is: http://www.mbl.is/mm/folk/frett.html?nid=1295933

No feedback yet