« Ritningarlesturinn 22. september 2006Ritningarlesturinn 21. september 2006 »

21.09.06

  08:50:08, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 723 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um frið Krists og fjórverutáknið

Guð fyrirhugaði mannkyninu ráðsályktun frá því „áður en heimurinn var grundvallaður“ (Ef 1. 4). Þessi fyrirhugun bjó í hjarta hans frá eilífð vegna þess að hann elskar sköpun sína. Við getum virt fyrir okkur þessa eilífu fyrirhugun í listasafni Heilags Anda í Ritningunum. Sem í skuggsjá komandi gæða opinberar hann okkur þessa fyrirhugun í tjaldbúð hins Gamla sáttmála. Þar getum við séð hvernig hin komandi kirkja átti að birtast á jörðu. Þar má sjá allt: Hin miklu áhöld opinbera okkur þannig sakramentin sjö og þar er okkur opinberaður staður friðar hans, eða eins og Davíð sagði: „Elfar-kvíslir gleðja Guðs borg, heilagan bústað Hins hæsta“ (Sl 46. 5). Þessar elfar-kvíslir eru fljót friðarins. Og í öðrum sálmi lesum við: Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til“ (Sl 72. 7). Við kynnumst þessum frið í hinu Allra helgasta þar sem dýrð hins Hæsta ríkir yfir kerúbunum yfir sáttmálsörkinni sem í hinum Nýja sáttmála skírskotar til hins Alhelga Hjarta Jesú: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur“ (Jh 14. 27).

Heimurinn og höfðingjar heimsins bjóða annars konar frið, frið sem grundvallast á friði sverðsins sem er svikafriður tálsýna. Friður Drottins glæðist hins vegar í mannshjartanu. Þaðan streymir hann út til mannanna, fyrst til eigin fjölskyldu og því næst getum við elskað náunga okkar eins og móðir Teresa frá Kalkútta sagði og þá fyrst aðra jarðarbúa af ólíkum kynþáttum. Í tjaldbúð hins Gamla sáttmála opinberar Drottinn okkur einnig veginn til þessa friðar. Og þegar við kynnum okkur hann í ljósi Krists er hann sá hinn sami og hann opinberaði okkur í kirkju þeirri sem hann gaf okkur að skilnaði, áður en hann hvarf að nýju til himna.

Í Ritningarlestri dagsins (21. september) víkur Íreneus frá Lyon að því hversu samofið fjórverutáknið er guðspjöllunum fjórum. Okkur opinberast þessi sami sannleikur jafnframt í inngangi tjaldbúðar hins Gamla sáttmála með fjórum stólpum hans: Þessi inngangur var ekki líkur neinum öðrum inngangi: Hann var 20 hebreskar álnir að breidd, en aðeins fimm að hæð og prestar Arons urðu að skríða undir tjalddúkinn til að ganga inn í forgarðinn. Þetta skírskotar að sjálfsögðu til auðmýktarinnar. Breiddin skírskotar til orða Jesaja:

Þar skal vera braut og vegur: Sú braut skal kallast brautin helga. Enginn sem óhreinn er, skal hana ganga. Hún er fyrir þá eina (hina hreinu). Enginn sem hana fer skal villast, jafnvel ekki FÁRÁÐLINGUR“ (Jes 35. 8).

Allur 91. Davíðssálmurinn er lofsaungur um þennan friðarveg Drottins undir vernd fjórverutáknsins. Það er hryggilegt til þess að vita að íslenskir ráðamenn létu erlenda valdsmenn glepja sig til ófriðar vegna þess að Ísland var undir vernd fjórverutáknsins sem birtist í ríkisskjaldarmerki landsins, tákni sem við fengum að arfleifð frá frændum okkar: Keltum. Það er auk þess hryggilegt til þess að vita að sú þjóð sem hefði getað gengið veg friðarins hefur saurgað hann út í blóði sinna eigin ungabarna: „Þeir þyrma ekki lífsafkvæmum sínum, og líta ekki miskunnaraugum til ungabarna“ (Jes 13. 18).

Og á öðrum stað kemst Jesaja spámaður svo að orði: Vei þeim, sem kalla hið illa gott og hið góða illt, sem gjöra myrkur að ljósi og ljós að myrkri, sem gera beiskt að sætu og sætt að beiskju. Vei þeim. sem vitrir eru í augum sjálfra sín og hyggnir að eigin áliti“ (Jes 5. 20-21). Þeir eru ekki friðflytjendurnir sem Drottinn sagði að „munu Guðs börn kallaðir verða“ (Mt 5. 9). Þetta er afar dapurlegt vegna þess að „þeir verða ekki frelsaðir úr snöru fuglarans, frá drepsótt glötunarinnar“ (Sl 91. 5] ef þeir iðrast ekki verka sinna vegna þess að þeir höfnuðu ljósi friðar Drottins sem er fljót friðar lífsins.

5 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég tek undir þann biblíulega anda sem er að finna að baki þessum vel skrifaða pistli. Um vernd lífs hinna ófæddu er Jón Rafn sem fyrrum orðheppinn í vali sínu á Ritningartextum. En almennt um það siðleysi, sem nú virðist í vexti eða uppsiglingu á svo mörgum sviðum þjóðlífs okkar, m.a. þar sem sízt skyldi: hjá þjóðþingi okkar og einhverjum aðilum í klerkastétt Þjóðkirkjunnar (sbr.
þessa grein), þá er annar Biblíutexti sem þetta síðastnefnda vers úr Jesajaritinu minnir á og rétt er að bæta hér við til að hnykkja á málstað Jóns Rafns, en það er hjá spámanninum Jeremía (6.13–14):

Bæði ungir og gamlir, allir eru þeir fíknir í rangfenginn gróða, og bæði spámenn og prestar, allir hafa þeir svik í frammi. Þeir hyggjast að lækna áfall þjóðar minnar með hægu móti, segjandi: “Heill, heill!” þar sem engin heill er. Þeir munu hljóta að skammast sín fyrir að hafa framið svívirðing! En þeir skammast sín ekki og vita ekki hvað það er að skammast sín.

21.09.06 @ 13:03
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Vel mælt, bróðir. Bæta má við þessum orðum og því rita ég þau á skjáinn (spjaldið):

Far nú og rita það á spjald hjá þeim og letra það á bók, svo að á komandi tímum verði til vitnisburðar ævinlega. Því að þetta er þrjóskur lýður, lygin börn, börn sem eigi vilja heyra kenningu Drottins“ (Jes 30. 8-9).

21.09.06 @ 13:26
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sannarlega vel skrifaður pistill. Hvenær mun fólk sjá að það þarf ekki einu sinni trú til að standa gegn fósturdeyðingum? Að lífið þurfi ekki að helgast eða réttlætast af neinu öðru en því sjálfu? Ekki af þeim möguleikum eða gæðum sem í því felast heldur tilvist þess einni saman? Hversu miklu fremur ættu þá ekki þeir menn sem játa trú að standa staðfastir vörð um guðlega helgi þess?

21.09.06 @ 20:21
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því (Jh 1. 4, 5).

Þeir sem hafna því að taka á móti ljósi lífsins nú á náðartímanum munu lifa í myrkrinu að eilífu í nóttinni þegar enginn vinnur.

Þeir munu aldrei njóta „náðar á náð ofan“ (Jh 1. 16), það er að segja hins andlega lífs að eilífu vegna þess að þeir neituðu að þiggja af gnægð hans. Dýrt er það gjald að lifa að eilífu í svartnætti helheima sökum andlegrar blindu óvinar alls lífs á leifturstund jarðnesks fallvaltleika. Þeir „munu út reknir í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna” (Jh 8. 12).

„Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja. Á þeim rætist spádómur Jesaja:

Með eyrum munuð þér heyra og alls ekki skilja,
og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá.
Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið,
og illa heyra þeir með eyrum sínum,
og augunum hafa þeir lokað,
svo að þeir sjái ekki með augunum
né heyri með eyrunum
og skilji með hjartanu og snúi sér,
og ég lækni þá“ (Jh 13. 14-15).

SVONA TALAR ENGINN Í MENNSKUM MÆTTI. ÞETTA ER ORÐ HINS EILÍFA LÍFS. ÚTHELLUM TÁRUM OKKAR BRÆÐUR Í BÆN SÖKUM SLJÓLEIKA ÞESSARA HJARTNA. TÖKUM UNDIR KROSSBÆN DROTTINS: „FAÐIR, FYRIRGEF ÞEIM, ÞVÍ AÐ ÞEIR VITA EKKI HVAÐ ÞEIR GJÖRA!“

21.09.06 @ 21:19
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Sammála, bróðir.

21.09.06 @ 21:49