« Ritningarlesturinn 21. nóvember 2006Ritningarlesturinn 20. nóvember 2006 »

20.11.06

  11:28:22, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 497 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Um forna kaþólska merkingu orðsins afláts

Þar sem umræðan milli okkar Jóns Vals Jenssonar snertir ekki „þráðinn“ í umfjölluninni um Vinaleiðina ákvað ég að koma athugasemdum mínum fram í sérstakri grein, en þar andmæli ég þeim skilningi sem kemur fram hjá Jóni Val um merkingu orðsins afláts. Þar sem Hómilíubókin er ein „náttborðsbóka“ minna er orðið mér afar nærtækt. Þær upplýsingar sem koma fram í Hinni íslensku samheitaorðabók [1] eru í fyllsta samræmi við forna málnotkun vil ég benda á eftirfarandi staðreyndir. Þar segir:

aflát: aflausn, fyrirgefning, lausn, sakaruppgjöf, syndafyrirgefning, syndakvittun.

Í Hómilíubókinni kemur orðið „aflausn“ fyrir þrisvar sinnum á bls. 166 og 215 (2x). Hins vegar er gripið til orðsins „afláts“ alls 5 sinnum á bls. 41, 80, 159, 193, 278. Einnig er minnst á aflátshug (bls. 194) og „aflátsiðrun“ (bls. 301). Hvað áhrærir orðið „aflátsbréf,“ þá kemur það fyrir í fyrsta skiptið í rituðum heimildum árið 1478, eins og sjá má í Editiones Arnamagnæanæ A. 15. [2] Í þessari sömu útgáfu er tekið fram að orðið „aflát“ hafi verið notað í elstu íslensku heimildum á Íslandi í sömu merkingu og tíðkaðist í fornþýsku og miðaldaháþýsku sem ablâz.

Eins og ég skil Jón Val vill hann takmarka merkingu orðsins „afláts“ við „aflátsiðrunina“ sem lýkur með „aflausn.“ Þessu er ég ekki sammála og tel orðið eiga fullan rétt á sér í nútímaíslensku sem fyrrum, líkt og Samheitaorðabókin bendir réttilega á. Það er bæn höfundar þessara orða að hann fái gott aflát á sínum hinsta degi.

Í reynd talar séra Jón Bjarman um orðið „aflausnarbréf“ í pistli sem hann hélt á siðbótardaginn 31. október 2002. [3] Skilja má á orðum Jóns Vals að aflátsiðrunin eða yfirbótin hafa glatað þýðingu sinni í kirkju nútímans. Þessu er ég heldur ekki sammála. Gott dæmi um aflátsiðrun er sú yfirbót sem fjölmargir kaþólskir læknar sem lögðu stund á fósturdeyðingar gera í Bandaríkjunum eftir að hafa iðrast gjörða sinna og Frank Pavione, framkvæmdastjóri Priests for Life greinir frá: Að þeir leitist við að biðja fyrrum fórnardýr sín fyrirgefningar.

Ekki er nægilegt að drengurinn játi að hann hafi brotið rúðuna. Hver á að greiða fyrir hana? Í dag felst aflátsiðrun eða yfirbót venjulegs fólks sem drýgir smásyndir í því að fara með ákveðin fjölda Faðirvora eða Maríubæna samkvæmt tilmælum skriftaföðurins.

[1] Íslensk samheitaorðabók, Háskóli Íslands: Styrktarsjóður Þórbergs Þórðarsonar og Margrétar Jónsdóttur, Reykjavík 1985.
[2]. Sjá: http://jegp.press.uiuc.edu/view.php?vol=104&iss=2&f=br_5.pdf (einnig á html).
[3]. http://tru.is/pistlar/2002/10/a-sidbotardegi/

18 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Það má jafnvel leiða að því líkur að það hafi verið sjálfur Ísleifur Gissurarson sem komið hafi með þetta orð til Íslands eftir uppfræðslu sína hjá Aðalbert erkibyskupi í Brimum þar sem hann var vígður til byskups árið 1056. Í sögu biskups er greint frá því að hann hafi haldið Ísleif hjá sér í langan tíma til að leiðbeina honum.

Önnur sérviska mín er að halda í hina fornu stafsetningu sem skírskotar til kaþólskra byskupa. „Y-ið„ datt út við siðaskiptin eins og reyndar svo margt annað þegar íslensk hámenning leið undir lok.

20.11.06 @ 13:18
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Samt er nú orðið biskup komð úr grísku, trúlega gegnum latínuna. Á grísku er það episkopos, á latínu episcopus. Sjálfur skrifaði ég gjarnan ‘byskup’ hér áður fyrr, að hætti dr. Páls Eggerts Ólasonar, en er hættur því – það verður okkur Jóni ekki að áflogaefni. Öðru máli gegnir um aflátið!

20.11.06 @ 17:44
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Tvær athugasemdir í byrjun:

1. Ekki er nóg fyrir Jón Rafn að vísa í einhver blaðsíðutöl í Hómilíubókinni. Fæstir eiga hana. Ég vil fá textana sjálfa í samhengi sínu hingað á tölvuskjáinn (alla textana).

2.

“Eins og ég skil Jón Val vill hann takmarka merkingu orðsins „afláts“ við „aflátsiðrunina“ sem lýkur með „aflausn.“ Þessu er ég ekki sammála …”

Rangt skilið! Aflausnin (syndafyrirgefningin í skriftasakramentinu) er endapunktur iðrunarinnar, en þá (eftir að farið er úr skriftastólnum) taka við yfirbótaverkin, þ.e. ’settu skriftirnar’ = nánast “það sem skriftabarninu er sett fyrir” á vegi dygðanna og til æfingar í réttlæti eftir fyrirgefningarorð prestsins (sem talar sem fulltrúi Krists). En aflátið er tengt yfirbótinni: er lausn frá henni, ekki frá syndunum, því að sú lausn er þegar fengin í skriftasakramentinu.

20.11.06 @ 17:54
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Hér eru textatilvitnanirnar:

(1). heilagt líf réttlátra en að fullu aflát synda og yfirbót vor, syndugra manna (bls. 41).

(2). og hreinsa enn í aftekju og afláti og taka svo skurðarskírn. (bls. 80).

(3). tæir oss iðrun synda vorra, ef aflát og yfirbót fylgir, svo sem Davíð (bls. 159).

(4). og hann gefi oss vilja til afláts synda og iðranar, svo að vér (bls. 193).

(5). freistun fjánda, og efl mig til afláts synda og til iðrunar þér þægilegrar. (bls. 278).
 
 AFLÁTSHUG
á inni efstu stundu lífs síns aflátshug allra synda með iðrun fullri, honum (bls. 194).
 
 AFLÁTSIÐRUN
voru gjörvar, verði af leystar með aflátsiðrun og ölmusugerðum (bls. 301).

Texti í heild:

Um fyllri merkingu orðsins aflausn:
Aflausn synda er í sjö hlutum, í skírn og í synda iðrun, í ölmusugerðum og í óheiftræki, í kenningu við bræður óra, að þeir varni við illu, en gjöri gott, í huslun og í bana fyr Guðs sakar (bls. 215).

Af þessu má ljóst vera að orðið aflát er haft um syndafyrirgefningu í heilögu skriftasakramenti.

20.11.06 @ 18:53
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Deutsches Wörterbuch von Jacob Grimm und Wilhelm Grimm. 16 Bde. [in 32 Teilbänden]. Leipzig: S. Hirzel 1854-1960. -

ABLASZ, m. demissio, remissio, nnl. aflaat, das ablassen. ablasz des schreibens von der hand. ablasz des wassers im teich, auch der ort, wo es abgelassen wird: wächst, da die fischweier in den walden ihren ablasz haben.

Orðið aflaat undirstrikað af mér.

Hollenska;
AFLAAT: Kerkelijke kwijtschelding van straf. Thans zo goed als verouderd begrip, dat berust op het onderscheid tussen de vergeving der zonden door de biecht … [fyrirgefning syndanna með skriftum].

20.11.06 @ 20:57
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Textinn úr Grimm-orðabókinni virðist tengja eða gera að samheitum ablatz og aflaat, en merkingarsviðið þar virðist lítt eður ekki koma inn á það sem við erum að tala um á sviði guðfræði og sálgæzlu.

Hvað hollenzka textann snertir, vil ég, ef Jón Rafn skilur hollenzku, að hann þýði hann orð frá orði, ekki bara síðustu orðin. Ef einhver málsgögn eru lögð fram “to prove a point", er lágmark að lesendurnir verði að geta skilið hann.

20.11.06 @ 21:23
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Líklegast er að merking orðsins aflát hafi breyst í tímans rás. Notkun þess er greinilega eins og þú segir Jón í Hómilíubókinni en svo virðist sem merkingin hafi síðan þá þrengst og núna merki þetta það sem Jón Valur segir lausn frá yfirbót [eða frekar hreinsun] en ekki lengur lausn frá syndum - syndaaflausn eða fyrirgefningu. Ég hef t.d. aldrei séð eða heyrt það notað í nútímatextum yfir neitt annað en aflausn sálna úr kvölum hreinsunareldsins sem hægt er að ávinna þeim með fyrirbænum. Aflát frá yfirbótarverkum þekki ég heldur ekki. Það hlýtur sömuleiðis að vera eldri merking.

20.11.06 @ 21:29
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Sic et non, segi ég eins og Abaelard – já og nei. Vera má, að Jón Rafn hafi rétt fyrir sér um merkingu orðsins í Hómilíubókinni (en ég bið enn um að sjá textana þaðan), en hvorki í meginlands-guðfræði miðalda né nú er aflát það sama og aflausn. Þar er einmitt stór munur á. En sé þetta rétt, sem nafni minn hyggur um orðsnotkun Hómilíubókarinnar, þá get ég tekið undir þetta innlegg Ragnars kl. 22.29, allt fram til þess, er hann segir:

“Ég hef t.d. aldrei séð eða heyrt það notað í nútímatextum yfir neitt annað en aflausn sálna úr kvölum hreinsunareldsins sem hægt er að ávinna þeim með fyrirbænum. Aflát frá yfirbótarverkum þekki ég heldur ekki. Það hlýtur sömuleiðis að vera eldri merking.”

Aflausn er á latínu = absolutio (absolvere: leysa (solvere) af eða frá e-u).
Aflát er á latínu = indulgentia (fr. og e.: indulgence; nánar neðar).

Bókin Kaþólskur siður eftir Catharina Broomé (Þorlákssjóður 1995) hefur sitthvað um aflausn, aflát og aflátssölu (sjá orðalykil aftast), sömuleiðis Sannleikurinn, vegurinn og lífið, fræðslurit um kaþólska trú eftir Ferdinand Krentzer (Torfi Ólafsson þýddi, útg. Kaþólska kirkjan á íslandi, 1981). En ég sigli fram hjá þeim ritum í bili, af því að ég er að leita að enn skýrari texta (sjá þó næsta innlegg mitt). Nú ætla ég ekki að vitna í það gamla verk Addis og Arnolds, A Catholic Dictionary (til í bókasafbni guðfræðideildar HÍ), 9. útg., London 1916, þótt það gæti nýtzt “to prove my point,” því að einhver gæti kallað það of gamla heimild, heldur velja aðra nýrri: Dictionary of Moral Theology, London 1962, útgefið af kaþólskum háklerkum og tvístaðfest sem laust við kenningarlega villu í siðferðis- og trúarefnum (kem með nánari uppl. bráðum). Hvað segir í því riti? Um ‘indulgence’ er fjallað í rúmum fjórum dálkum þess, en þetta er kjarnaatriði (s.621b):

Definition and Nature. An indulgence is defined as follows: “An indulgence is the remission [lausn] before [frammi fyrir] God of [frá] the temporal [tímanlegu, tímabundnu] punishment due for sins already forgiven [leturbr. JVJ] insofar as their guilt is concerned, which the ecclesiastical authority, drawing from the treasure of the Church [sem nýtir sér eða tekur af (góðverka)sjóði kirkjunnar], grants to the living by way of [með] absolution, and to the dead by way of suffrage [með bænarákalli, þ.e. fyrirbæn fyrir þeim sem eru í hreinsunarástandinu, purgatorio].” (Can. 911, Code of Canon Law). From this definition it appears that an indulgence may be considered as complementary to [viðauki við] the sacrament of penance [iðrunarsakramentið, skriftasakramentið]. In fact, in confession [við játninguna eða skriftirnar] the guilt is remitted [er sektin gefin upp] and the eternal punishment [þ.e. sú eilífa refsing sem er eilífur viðskilnaður frá Guði] that follows every grave sin is condoned [er í raun fyrirgefin], but the temporal punishment that remains after any sin whatsoever is not always, nor completely, remitted. Remission of such temporal punishment may be obtained in this life by means of expiatory works [með yfirbótarverkum] and indulgences; otherwise, due satisfaction [full framkvæmd eða fullnægjugjörð, þ.e. alger yfirbót] must be made in purgatory.”

PS. Sennilega hefur Torfi Ólafsson skýrt bæði aflát og aflausn í því kaþólska orðasafni sem hann hefur verið að birta í skömmtum í Merki krossins.

20.11.06 @ 22:18
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Upphaf þessara umræðna um aflausn og aflát er að finna í lokaklausunni í þessari aths. Jóns Rafns við aðra vefgrein, en síðan gerði ég
stutta aths. við þau orð hans um aflát, og í beinu framhaldi ræddum við málið þar áfram í tveimur lengri athugasemdum – og síðan hér á þessum þræði.

20.11.06 @ 22:53
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég sé, að mér hefur sézt yfir, að nafni minn er kominn hér með textana úr Hómilíubókinni, kl. 19.23. Þó sýnast mér textarnir ekki beint skýrir þar, hvað merki. Þeir nr. 4 og 5 kunna að virðast styðja mál Jóns Rafns, en vegna 3. textans vil ég benda á, að þar er að sjá sem “aflát og yfirbót fylgi®” á eftir “iðrun synda vorra,” sem sé (eins og mér sýnist það merkja) eftir iðrunarsakramentið. En það er einmitt það, sem kaþólska kirkjan kennir núna. Í bókinni Sannleikurinn, vegurinn og lífið, fræðsluriti um kaþólska trú eftir Ferdinand Krentzer, segir á s. 351:

“Í frumkirkjunni voru lögð á menn geysiströng yfirbótarverk, og það tók oft mörg ár að inna þau af hendi. Og það var ekki fyrr en að þeim yfirbótarverkum unnum, sem mönnum var veitt aflausn [= absolutio, innskot JVJ]. Nú er aflausn veitt strax að skriftunum loknum og yfirbótin oftast leyst af hendi að aflausn fenginni. – Aflátið [indulgentia, innskot JVJ], sem svo mjög hefur verið mistúlkað, á rót sína að rekja til þessara yfirbótarverka. Það fólst upphaflega í því, að menn voru að hluta til leystir frá þeim yfirbótarverkum sem kirkjan hafði lagt á þá (aflátið fólst alls ekki í því að mönnum væru fyrirgefnar syndir!). Það sem jákvætt var við aflátið og er enn í fullu gildi er vitundin um að hverri synd fylgi afleiðingar og að kirkjan sé ávallt fús til að létta hverjum einstaklingi þær byrðar sem afleiðingar syndarinnar hljóta að hafa. Aflátið ber að skilja þannig, að kirkjan taki að sér að biðja sérstaklega um að manninum verði gefin upp tímanleg viðurlög, sem hljóta að vera fylgifiskur hverrar drýgðrar syndar. Í reyndinni hefur dregið æ meira úr því að menn leiti afláts hjá kirkjunni, enda er enginn skyldugur til þess.”

Þessi síðustu sex orð (sem og svigagreinin með upphrópunarmerkinu) í hinni kjarngóðu þýðingu Torfa sýna auðvitað, að aflát er ekki aflausn – því að aflausn sem partur (eða kóróna) skriftasakramentisins er vitaskuld ein af þeim skyldum, sem hverjum uppvöxnum, kaþólskum manni (sem og þeim orþódoxu) ber að undirgangast. Að fá aflátið (þessa heims) er hins vegar ekki skylda.

20.11.06 @ 23:11
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hér var þó, í fyrstu tveimur setningunum í tilvitnuninni úr bók Krentzers, viss staðfesting á því, sem Jón Rafn var trúlega að vísa í: að yfirbótarverkin gátu verið og voru unnin fyrir skriftirnar. Samt er fyrirgefning Guðs vitaskuld ókeypis, gratís gefin (gratis data). En þessu fyrirkomulagi var síðar breytt, yfirbótin færð eftir skriftirnar – þannig verður líka enn ljósara, að það eru ekki yfirbótarverkin, sem gerðu menn verðuga fyrirgefningar Guðs, heldur veittist fyrirgefningin í skriftastólnum af náð og ókeypis fyrir trúna eina og iðrun sanna, án verkaréttlætis, eins og Páll minnir okkur svo oft á.

Annað vandamál, sem lútherskir bræður okkar glíma jafnan við, þegar þeir skoða afláts-viðfangsefnið, er þetta með góðverkasjóð kirkjunnar (thesaurus Ecclesiæ). Nú líður á nótt, og þá læt ég mér þetta nægja þeim til hughreystingar, til að eftirláta þá von hjá þeim, að við kaþólikkar séum ekki hrokknir af standinum í trúarkenningu okkar:

Sá góðverkasjóður hefur vissulega með góð verk sanntrúaðra og sannelskandi manna og kvenna að gera, heilagra í breytni sinni – EN: þau góðverk eru verk Krists sjálfs, verkin sem Guð vinnur í heiminum með helgandi náðarkrafti sínum gegnum þjóna sína og þernur; þau geta vissulega samverkað með þeirri náð og verða að gera það, en hinn lífgefandi kraftur hennar – sem er kærleikurinn (innblásinn frá Guði og í raun kærleikur Guðs) – er verk Guðs Anda. Hér er því ekki um neitt “verkaréttlæti” að ræða í hinni neikvæðu pálínsku og lúthersku merkingu (= verkaréttlæti mannanna sem slíkra), heldur réttlætisverk Guðs sjálfs. Soli Deo gloria [Guði einum (ber) dýrðin – mottó Lúthers], getum við því sagt; og jafnvel þótt góðir kristnir menn eigi hlutskipti í þeim verkum, eru þau omnia ad majorem Dei gloriam [öll til enn meiri dýrðar Guðs, öll til að auglýsa og útbreiða enn meir dýrð Guðs – mottó heil. Ignatiusar Loyola, stofnanda Kristsmunkareglunnar (Jesúíta; lat.: Societas Jesu)].

20.11.06 @ 23:47
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ragnar! Það er einmitt þetta sem ég var að gera og ekkert annað. Á hinu vestgermanska málsvæði var orðið aflát (aflaat) notað á miðöldum sem jafngildi latneska orðsins remissio [fyrirgefning]: sem syndafyrirgefning, eins og sjá má í Hómilíubókinni og íslensku málvísindamennirnir benda réttilega á í Samheitaorðabókinni 1985.

Orðið er einnig til á hinum Norðurlandamálunum sem aflåtelse þar sem það lifir enn í dag sem réttarfarshugtak. En merkilegt nokk finnum við hina fornu merkingu þess lifa meðal mótmælenda í Noregi. Þetta sjáum við í „Bibelsk ordbok for hem og skole [1]. Þar er vitnað til syndafórnar hins Gamla sáttmála á friðþægingardaginn mikla (yom kippur). Friðægingarfórnin var tvíþætt: Annars vegar hinn hreinsandi máttur blóðsins (forgildi friðþægingar Krists á fórnarhæð krossins) og síðan vikið að Asasel eða syndahafrinum sem rekinn var úr í eyðimörkina (3M 16. 6-10). Þessa athöfn nefna Norðmennirnir „aflåtelse.“ Er það ekki einmitt þetta sem Jóhannes skírari sagði: „Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins“? (Jh 1. 29).

Lítum rétt sem snöggvast í Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar:

1478. (981) Aflát er fengið fyrir tilstilli kirkjunnar sem í krafti þess máttar sem Kristur Jesús fékk henni til að binda og leysa hefur afskipti fyrir hönd hins kristna manns og opnar upp fyrir honum fjársjóð verðleika Krists og dýrlinganna til að hann öðlist frá Föður miskunnsemdanna uppgjöf stundlegra refsinga sem til eru komnar vegna synda hans. Með því er kirkjan ekki einfaldlega að koma þessum kristna manni til hjálpar heldur vill hún einnig hvetja hann til þess að ástunda trúrækni, iðrun og yfirbót, og náungakærleikann.

Ég læt svo þessari umræðu lokið af minni hálfu en hvet allt kaþólskt fólk til að verða sér út um eintak af Hómilíubókinni vegna hinnar tæru kaþólsku kenningar sem þar má sjá, en ekki síður sökum þeirrar gullaldaríslensku sem þar má njóta. Í formálanum vitna þau Guðrún Kvaran og Gunnlaugur Ingólfsson í ummæli Jóns Helgasonar um að „óvíða flói lindir íslensks máls tærari en í þessari gömlu bók og sé sá íslenski rithöfundur sem ekki hefur þaullesið hana litlu betur undir starf sitt búinn en sá prestur sem enn eigi ólesna fjallræðuna.“ [2]

Til marks um það hversu áhrifamikill boðskapur bókarinnar er enn í dag nefni ég hér til gamans, að rússneskur málvísindamaður, Viktor Genke [TENGILL], þýddi nokkra valda kafla úr henni á rússnesku. Rússneskir guðfræðingar urðu svo hrifnir af boðskapnum að um páskana 2003 var tekin upp ein bænanna úr henni og flutt við guðsþjónustur í Rússlandi: Molitva Kristu (Bæn til Krists).

„Fögnuðurinn verður þessa heims sá hæstur, er góður maður fagnar engla tilkvomu á dauðastundu sinni [3]

[1]. http://runeberg.org/biblobok/0141.html
[2]. Hómilíubók bls. XX.
[3]. Ibid XVII.

21.11.06 @ 09:21
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þótt ritið Encyclopedia of Theology, sem ég ætla einnig að leiða hér fram með vitnisburð sinn (London: Burns and Oates, 1975, 1981, undir ritstjórn Karls Rahner, SJ), sé einungis (samkvæmt undirtitli þess) “A Concise Sacramentum Mundi” (sem var mun stærra verk undir sömu ritstjórn), þá nær greinin ‘Indulgences’ þar frá bls. 702 til 710 og er eftir Karl Rahner sjálfan. Þar segir m.a., 702–3:

“Official teaching of the Church. The fullest description of indulgences by the magisterium [þ.e. samkvæmt kennsluembætti kirkjunnar] is found in CIC [= Corpus Iuris Canonici, þ.e. safni kirkjuréttarákvæða kaþólsku kirkjunnar], can. 911 (similarly Leo X: D[enzinger] 740a): the remission before God of a temporal punishment for sins of which the guilt has been forgiven (at least by the end of the work to which the indulgence is attached: can. 925), granted by ecclesiastical authority out of the Treasury of the Church, to the living by way of absolution, to the dead by way of suffrage. Though the details of this description have not been defined, it has been defined as a doctrine of the faith against Wycliffe, Huss and the Reformers that the Church has authority (potestas) to grant indulgences and that they are to be retained in the Church and are salutary for the faithful (Trent: D 989, 1471; cf. also D 622, 676–8, 757–62).”

D = Denzinger–Bannwart: Enchiridion Symbolorum, definitionum et declarantium de rebus fidei et morum, þ.e. rit þeirra með safni trúarjátninga og opinberra trúarsetninga kaþólsku kirkjunnar (til í fjölda útgáfna, ég á sjálfur þá 31., sem Karl Rahner ritstýrði einmitt, Herder, Freiburg im Breisgau og Róm 1957).

Margt annað fróðlegt er í þessari grein Rahners, m.a. segir hann á s. 709b: “… interest in indulgences is largely diminishing in the Church, even in circles where religion is devoutly practiced” (og heldur svo áfram að ræða út frá því, m.a. um s.k. “plenary” indulgences). En ég læt þetta innlegg nægja.

22.11.06 @ 13:46
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég vek einnig athygli á því, að enda þótt orðið remissio merki oft “fyrirgefning” (t.d. Post. 26.18: remissio peccatorum – en um fyrirgefningu* er í víðara samhengi algengt að notað sé orðið venia), þá er það ekki merkingin í upphafs-skilgreiningunni í gráskyggðu klausunni hér ofar úr riti Rahners: “the remission before God of a temporal punishment for sins of which the guilt has been forgiven.” Fyrst er sem sé sekt syndanna fyrirgefin (og það er hin eiginlega fyrirgefning), en síðan fæst eftirgjöf/uppgjöf (remission) hinnar tímanlegu (temporal) refsingar.

Remissio er dregið af remittere: lina, slaka á; létta á; veita, gefa; láta eftir; leyfa, umbera; láta af, gefa upp, gefa eftir (t.d. sök, sekt, refsidóm), og þannig er það hér í sambandi við aflátið: með því er gefin upp hin tímanlega refsing (þ.e. jarðneska afleiðing) syndanna. Maður, sem hefur fengið aflausn (absolutio), þ.e. fyrirgefningu, syndanna í skriftasakramenti, getur enn haft byrði tímanlegra afleiðinga (“refsinga”) þeirra að bera, og líklegt má heita, að þær dragi okkur mörg inn í hreinsunarástandið (purgatorium) eftir dauðann.

*Þegar í Sálmi 130.4 segir í ísl. þýð.: “En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig,” þá segir í Vúlgötu (129.4): “Quia apud te propitiatio est, ….” – En þegar Jesús gaf postulum sínum vald til að fyrirgefa syndir (Jóh. 20.23), segir hann, í latínuþýðingu heil. Hieronymusar (Vulg.): “Accipite Spiritum sanctum : quorum remiseritis peccata, remittuntur eis ; et quorum retinueritis, retenta sunt.” – En við munum líka öll, að þegar við biðjum Faðirvorið á latínu, segjum við ekki remitte nobis debita nostra, heldur dimitte nobis debita nostra.

22.11.06 @ 15:23
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Nafni minn og bróðir í trúnni virðist hafa misskilið gjörsamlega tilgang minn með umfjöllun minni um orðið „aflát“ á hinu vestgermanska málsvæði á elleftu öld. Ég var hér einungis að víkja að orðinu aflát eins og það kemur fyrir í Hómilíubókinni í lok elleftu aldar. [1] Eins og kemur fram í tilvitnun í erlendar orðabækur litu menn á orðið í þeirri merkingu að hér væri um syndafyrirgefningu að ræða. Þetta má einnig sjá í sænsk-latnesku orðabókinni: Aflat: remissio poenae, (peccatorum). Minn gamli rektor og „latínuhestur,“ Kristinn Ármannsson rektor þýðir orðið „aflausn“ þannig sem indulgentia í orðabók sinni. og „án afláts sem perpetuo, continue [2]. Þetta er vissulega rétt, sá sem þiggur ekki aflát í hinni fornu merkingu orðsins lifir í áframhaldandi og stundlegum syndum sínum.

Í seðlasafni Orðabókar Háskóla Íslands má sjá að orðið hefur tvenns konar merkingu: (1) aflát synd(anna); (2) fá afláta (synda, alls konar glæpa). Í ritmálaskrá Orðabókarinnar má í reynd sjá 22 dæmi um orðið aflát í fornum heimildum. Við siðaskiptin lögðust allar „indulgentíur“ og aflátsgjafir af til samræmis við afstöðu mótmælenda. Þar sjáum við jafnframt hina nýju guðfræðilega merkingu aflátu (oblátu), það er að segja heilagrar hostíu, en mótmælendur telja sig fá „syndaaflausn“ í bergingunni. Þetta er að sjálfsögðu að hafa endaskipti á hlutunum. Samkvæmt hinni postullegu arfleifð fer aflát syndanna (aflausn) fram á undan bergingunni og ef hinir trúuðu hafa ekki komið málum sínum á hreint við Guð eða hafa drýgt alvarlegar syndir sem þeir ekki játa og bæta fyrir, þá er þeim meinað að meðtaka Evkaristíuna.

Nafni minn eyðir miklu púðri í að fjalla um eðli „indulgentíunnar“ og telur mig misskilja gildi hennar og mikilvægi í samfélagi kirkjunnar. Fjarri fer því. Þegar ég segi að við „meðtökum aflát“ er gengið út frá því að við höfum fullgert „indulgentíuna.“ Í Trúfræðsluriti rómversk kaþólsku kirkjunnar [3] lesum við:

Fullnaðargerð

1459. (2412, 2487, 1473) Margar syndir skaða náungann. Bæta á skaðann með öllum tilteknum hætti (til dæmis með því að skila aftur stolnum hlutum, hreinsa mannorð þess sem hefur verið rægður og greiða bætur fyrir meiðsli). Einföld réttlætisvitund krefst þess. En syndin særir einnig og veikir syndarann sjálfan og samband hans við Guð og náungann. Aflausn tekur burt synd en hún lagar ekki allar þá röskun sem hún veldur. Eftir að hafa verið reistur upp frá synd bíður syndarans að endurheimta fullt heilbrigði anda síns og það gerir hann með því að gera eitthvað annað og meira til að bæta upp fyrir syndina: hann verður að “gera sektarbætur” eða “friðþægja” fyrir syndir sínar. Slík fullnaðargerð kallast einnig “yfirbót”.

Það er þetta sem hin forna Hómilíubók nefnir „aflátshug.“ Sjálfur leggur Drottinn okkar öllum lærisveinum sínum almennan aflátshuga á herðar með kærleiksboðunum tveimur: Að elska Guð og náunga sinn. Hér á kirkju.net hefur mikið verið rætt um virkt kynlíf fólks af sama kyni sem er vissulega synd. En sú synd sem er öllum öðrum syndum mest felst í því að elska gjafirnar fram yfir sjálfan Gjafara þeirra. Í hverju felst þessi mikla synd? Hún felst í skefjalausri nautnahyggju (hedonisma) og efnishyggju sem Biblían nefnir „hórdóm gegn Guði,“ að ganga til fundar við Baal og setja traust sitt á hann, að setja allt sitt traust á fjármuni, völd og mennska dýrð, synd sem Biblían lítur á mjög alvarlegum augum og við gerum okkur öll sek um í meira eða minna mæli og Kristur varar okkur alvarlega við:

Sannlega segi ég yður: Bærilegra mun landi Sódómu og Gómorru á dómsdegi en þeirri borg . . . Þá tók hann að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gjört flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki gjört iðrun. „Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér“ (Mt 10. 15; 11. 20-24) og . . . Ef menn eru eitt sinn orðnir upplýstir og hafa smakkað hina himnesku gjöf, fengið hlutdeild í Heilögum Anda og reynt Guðs góða orð og krafta komandi aldar, en hafa síðan fallið frá, þá er ógerlegt að endurnýja þá til afturhvarfs. Þeir eru að krossfesta Guðson að nýju og smána hann“ (Heb 6. 4-6).

Það er þetta sem setur nú mark sitt á kirkju fráfallsins mikla (2Þ 2), endatímann, það sem ég var að vekja athygli á í greinaflokki mínum um hina Þrjá myrku daga. Fjarri fer því að ég afneiti yfirbótarverkum og sú mesta aflátsgjöf sem við getum fært okkar himneska Föður er að elska hann af öllu hjarta:

Alhelga Hjarta Jesú, miskunna okkur syndugum mönnum!

[1]. Málvísindamenn telja að hin vaxandi kirkja á Íslandi hafi tekið að rita stólræðusafn Hómilíubókar í lok elleftu aldar fávísum prestum til uppfræðslu.
[2]. Útgefandi: Ísafoldarprentsmiðka 1958.
[3]. Seint verður Reyni K. Guðmundssyni fullþakkað það verk að þýða ritið á íslensku. Þar hefur hann innt mikla þjónustu af hendi fyrir kirkjuna og ég veit sjálfur af hversu mikilli fórnfýsi hann vann að þessu verki árum saman án nokkurs fjárstuðnings.

24.11.06 @ 10:56
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér pistilinn, nafni. Veit ekki hvort ég legg hér inn fleiri orð um þetta mál, en gott var hjá þér að vekja athygli á því, að orðalag Hómilíubókarinnar var aðal-ígrundunarefni þitt.

“Fullnaðargerð” hjá Reyni hygg ég þýðingu hans (ágæta) á ’satisfactio’.

24.11.06 @ 12:06
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Að slíkri „satisfactio“ eða fullnaðargerð víkur sá spaki höfundur í Hómiliubók svofelldum orðum:

Það vil eg og segja yður, að aldregi verða syndir órar svo stórar eða svo margar, að eigi vilji Guð þegar fyrgefa þær, ef af er látið að misgjöra og svo yfirbætt, sem máttur er til. Er fyr Guði engi hlutur aldregi óbótaböl, ef hann sér iðrun manns eftir afgjörðina.

24.11.06 @ 13:18
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kaþólska alfræðiorðabókin (á ensku, útg. 1910) hefur mjög skýra grein um aflátið, sem þú ættir að líta á, kæri nafni minn (t.d. 3. setningu kaflans What an indulgence is not), enda treystirðu því alfræðiriti, sýnist mér, samkvæmt tengli þínum efst á Vefritum Karmels. Og ég hef þá trú, að við hljótum að geta komizt að sameiginlegri niðurstöðu í þessu máli, bæði um hina almennu (alþjóðlegu), kirkjulegu merkingu hugtaksins (nú og a.m.k. skv. kanónréttinum og Konstanz-þinginu á ofanverðum miðöldum og frá tíma Leós páfa X og Trentarþinginu, Concilium Tridentinum, á 16. öld, sbr. ofar), sem og um merkingu hugtaksins í Hómilíubókinni og kaþólskri kristni á Íslandi á hennar tíma.

Greinin í Kaþólsku alfræðiorðabókinni er ýtarleg og mjög upplýsandi, m.a. fyrir okkar lúthersk-evangelísku bræður, sem oft hafa goldið misskilnings um meinta aflátssölu kaþólsku kirkjunnar. Sá misskilningur leiðréttist á mjög ljósan hátt í hinu tilvísaða riti.

01.12.06 @ 03:18