« Ljós Maríu í hinni myrku nótt móður Teresu frá Kalkútta – Hvernig hin blessaða Mey huggaði „dýrling göturæsanna.“Biðjum fyrir Tíbet – það hjálpar til!!! »

22.04.08

  06:05:17, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 334 orð  
Flokkur: Bænalífið

Um dyggð langlyndisins í bæninni – Jóhannes Tauler frá Strassborg og einn af Vinum Guðs (Gottesfreunde) í Rínardalnum

„Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður.“

Á tímum þolrauna ber þeim sem vill ekkert né þráir annað en að fela sig í Guði að bíða af langlyndi eftir því að kyrrðin glæðist að nýju . . . Hver veit hvar eða hvernig Guði þóknast að snúa til baka og fylla hann náð sinni? Hvað ykkur áhrærir skuluð þið bíða þolinmóð í skugga hins guðdómlega vilja. Náðargjafir Guðs eru ekki sjálfur Guð og okkur ber að gleðjast í honum einum, en ekki í gjöfum hans. En eðli okkar er svo gráðugt og sjálflægt að það hrifsar allt til sín og hremmir það sem tilheyrir því ekki og þannig myrkvar það náðargjafir Guðs og hindrar hið dýrmæta starf Guðs . . .

En hvað ykkur áhrærir skuluð þið sökkva ykkur niður í Krist í fátækt hans og hreinleika, hlýðni hans, elsku og sérhverja dyggð. Það er í honum sem manninum gefast náðargjafir í Heilögum Anda: Trú, von og kærleiki, sannleikur, innri ljúfleiki og friður í Heilögum Anda. Í honum snúum við baki við okkur sjálfum og öðlumst ljúft langlundargeð og meðtökum allt frá Guð í kyrrleiksvaldi hjartans.

Allt sem Guð heimilar og fyrirhugar, velgengni eða mótlæti, gleði eða hryggð samverkar manninum allt til góðs (Rm 8. 28). Það smæsta sem verður á vegi mannsins hefur Guð séð frá eilífð, það var áður til í honum og nær fram að ganga eins og hann vill og ekki öðruvísi. Varðveitið því frið ykkar! Slík friðsemd í öllum hlutum lærist einungis með frelsi undan okkur sjálfum í hinu innra lífi . . . Þetta er arfleifð göfugrar sálar þegar hún hvílir í Guði vegna þrár eftir Guði einum sem varpar ljósi á alla hluti: Kristur hreinsar allt á þessum vegi.

No feedback yet