« Dobrotolubije – úrval úr rússnesku Fílókalíunni nú komið á pdf formatiRitningarlesturinn 24. ágúst 2006 »

24.08.06

  08:20:38, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2375 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um Drottins trúu múrverksmenn, fríhyggjumenn og frímúrara

Í fyrradag vék ég að hvítasunnumönnum í Kína, fólki sem leggur allt í sölurnar til að boða ríki Guðs á jörðu í fjandsamlegu umhverfi. Þessir einstaklingar gera það sökum elsku sinnar á Jesú, þessari elsku sem Jóhannes af Krossi nefndi amor impaciente, hina ástríðufullu elsku, elsku sem postularnir upplifðu á veginum til Emmaus: „Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur Ritningunum?“ (Lk 24. 32). Hið Alhelga Hjarta Jesú brýst ætíð út sem eldur í mannshjörtun í raunnánd sinni og þá ljúkast leyndardómar hans upp í uppljómun elskunnar. Fólk sem upplifir þennan áþreifanleika raunnándar Guðs eru vinir hans eins eins og heil. Íreneus frá Lyon komst að orði vegna þess að það virðir boðorð hans, rétt eins og Abraham og sér því land fyrirheitanna eins og hann og beinir för sinni til þess. Drottinn smyr augu þess svo að það SÉR. Þetta var bæn Páls postula: „Ég bið hann að upplýsa sálarsjón yðar, svo að þér skiljið, hver sú von er, sem hann hefur kallað oss til“ (Ef 1. 18).

Þessir kínversku hvítasunnumenn bregðast við eins og hinir trúuðu í frumkirkjunni og standa frammi fyrir jafn óleysanlegu stórvirki, það er að segja að leggja fjölmennasta ríki heims undir konungsvald Krists, rétt eins og kristindómurinn lagði Rómaveldi undir fætur hans á þrjúhundruð árum. Sagnaritarinn Jósefus sem var gyðingur sem gekk í þjónustu Rómar, greinir frá því í riti sínu „Gyðingauppreisninni,“ að meðan á eyðingu Jerúsalem stóð hafi rómverska herstjórnin í borginni rætt um þann þunnskipaða hóp sem kallaðist kristnir menn og hvað ætti að gera við þá. Rómverjarnir hefðu komist að þeirri niðurstöðu að best væri að láta þá afskiptalausa. Annars vegar sökum þess hversu fámennir þeir væru og að hinu sökum þess hversu friðsamir þeir væru. Yfirherstjórinn Vespasían sem Neró keisari hafði falið að annast eyðingu borgarinnar klykkti út með því að segja, að ef Guð væri á annað borð með þessu kristna fólki þá kæmi það sér ekki illa fyrir Róm að auðsýna því vinsemd. Honum bauð greinilega ekki í grun að 300 árum síðar myndi þetta fólk leggja Rómaveldi að velli.

Kína nútímans er mun fjölmennara en hið forna Rómaveldi og því hefur Guð hagað því svo til í þessu víðlenda ríki að kristnir menn eru líka fjölmennari en í Jerúsalem forðum. Hvítasunnumenn sem minnst var á hér að ofan standa heldur ekki einir heldur berjast kaþólskir þeim við hlið til að útbreiða ríki Krists konungs. Og nú liggur Guði á svo að árin verða ekki 300 heldur 30 vegna þess að ljóst er að mesta vakning mannkynssögunnar er þegar hafin í Kína. Að sjálfsögðu stendur Kristur henni að baki: „Án mín getið þér alls ekkert gjört (Jh 15. 5) en: „Ef þér biðjið mig einhvers í mínu nafni, mun ég gjöra það“ (Jh 14. 14). Á Íslandi og í öðrum Evrópulöndum fer annars konar barátta fram nú um stundir með öfugum formerkjum: Afkristnun þessara sömu landa!

Nú á tímum liggur Guði á og styttir því tímanann úr 300 árum í 30. Hvers vegna? Það er sökum þess að við lifum á tímum Antíkrists, endatímunum, eða með spádómsorðum heil. Nilosar sem ég vék að fyrir tveimur dögum: „Á þessum tímum munu menn fljúga um loftin eins og fuglar og kafa niður í hafdjúpin líkt og fiskar . . . og tala úr einu heimshorninu til annars.“ Leó páfa XIII opinberaðist þessi sannindi einnig þann 13. október 1864 í opinberun, 100 ára tímaskeið þar sem vald Satans næði hámarki, það er að segja tuttugusta öldin: Páfi hné skyndilega niður eftir að hafa sungið heilaga messu og missti meðvitund. Viðstaddir töldu hann hafa fengið hjartaáfall eða slag. Að dágóðri stund liðinni eftir að hann tók að jafna sig sagði hann nærstöddum, að sér hefði brugðið svo mjög þegar hann sá alla þá tortímingu siðrænna og trúarlegra gilda sem ríða myndi yfir heimsbyggðina: „Hversu skelfileg var ekki þessi sýn sem bar mér fyrir augu.“ Eða eins og heil. Nilos komst að orði: „Fólk segir skilið við hófsemd og fýsnirnar verða allsráðandi. Undirferli og græðgi verða ríkjandi og vei þeim sem safna að sér fjármunum. Losti, hórdómur, kynvilla, alls kyns hulin óhæfuverk og morð heltaka samfélagið” (fjöldadeyðingar á ófæddum börnum, innskot mitt).

Öll þessi einkenni sjáum við nú birtast með áþreifanlegum hætti í þeim heimshluta sem hefur verið höfuðvígi kristindómsins s. l. 1000 ár – Evrópu – að Íslandi meðtöldu. Þetta er tími fráfallsins mikla sem Páll postuli víkur að í öðrum kafla Annars bréfsins til Þessalonikíumanna: Tími lögleysingjans mikla – Antíkrists. Þetta er afleiðing þeirrar humyndafræðilegu gerjunar sem fylgdi í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar sem rann saman við fjölgyðishyggju af heiðnum toga sem hefur hvað eftir annað gosið upp í kirkjusögunni í ýmsum stefnum eða ismum. Auk afstæðishyggju fríhyggjunnar má nefna deisma þann eða algyðishyggju sem fékk byr í seglin í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar. Hún birtist með áþreifanlegum hætti í frímúrarahreyfingunni sem Vesturkirkjan og Austurkirkjan eru einhuga um að fordæma.

Leó páfi XIII komst svo að orði: „Styrjöldin við frímúrara er svo hatrömm, að það er mikilvægt fyrir kristna menn að grípa til hygginda höggormsins jafnframt því að varðveita einfeldni dúfunnar í hjartanu“ (Custodi Di Quella Fede). Þann 23. maí árið 1958 komst Píus páfi XII svo að orði í ávarpi til prestastefnunnar: „Rætur fráfalls nútímans má rekja til vísindalegrar guðsafneitunar, díalektískar efnishyggju (marxisma), afstæðishyggju, áhugaleysis og frímúrarastefnunnar – sem er móðir þessa alls.“ Og í nóvember árið 1983 gaf Ratzinger kardínáli og núverandi páfi Benedikt XVI úr eftirfarandi yfirlýsingu:

„Neikvæð afstaða kirkjunnar hvað áhrærir samtök frímúrara er óbreytt sökum þess að kenningar þeirra hafa ætíð verið ósættanlegar við kenningar kirkjunnar og þar af leiðandi er þátttaka í þeim óheimil. Kaþólskir einstaklingar sem ganga í samtök frímúrara gera sig bera af mikilli synd og er því meinað að meðtaka heilaga bergingu (Eru settir út af sakramentinu). Staðbundin kirkjuleg yfirvöld eru ekki í aðstöðu til að dæma um inntak samtaka frímúrara sem gæti falið í sér að vikið væri frá ofannefndum úrskúrði.“

Frímúrarar skiptast í þrjár megingreinar: Frönsku stúkuna, þá engilsaxnesku og þá sænsku. Tvær þær fyrri fara ekki leynt með fjandskap sinn gagnvart kristindóminum, en sú sænska telur sig vera af kristnum toga spunnin, jafnvel kristnari en sjálfa kirkjuna! Í reynd má finna á netinum fjölmörg dæmi um játningar þjónandi presta úr ýmsum kirkjum mótmælenda sem áttuðu sig á því að afstaða frímúrara gæti ekki samræmst kristnum játningargrundvelli þeirra, þannig að þeir sögðu skilið við frímúrarahreyfinguna. Að þrábeiðni frímúrara átti þýska biskuparáðið viðræður við talsmenn þýsku frímúrarahreyfingarinnar á árunum 1978-1980 og niðurstöðurnar voru gefnar út í ritinu Kirche und Loge á vegum Miriam Verlag árið 1981 og tekið saman af Manfred Adler. Í sem fæstum orðum fólust þær í því að kirkjan eigi enga samleið með frímúrurum nú fremur en áður. Þetta er í fyllstu samhljóðan við reynslu þá sem þessir mótmælendaprestar greina frá „þegar þeir komu til sjálfs sín“ (Lk 15. 17) aftur.

Afstaða Austurkirkjunnar er ekki síður afgerandi. Þann tólfta október 1933 varaði biskuparáðstefna grísku Orþodoxakirkjunnar hina trúuðu við frímúrurum með svofelldum orðum:

„Frímúrarastefnan er dulspeki sem er afar frábrugðin og andstæð kristindóminum. Eins og öll önnur dulspeki leiðir hún til synkretisma, þrátt fyrir að hún virðist vera umburðarlynd gagnvart öðrum trúarbrögðum. Þannig grefur frímúrarastefna nútímans undan trausti á öðrum trúarbrögðum og gerir þau ótrúverð. Hún keppir að því í stigvaxandi mæli að ná valdi yfir allri siðrænni framþróun og krefst þess að vera sannleikurinn og æðri öllum trúarbrögðum (kristindómurinn ekki undanskilinn) eins og einhverju sem er óæðra henni sjálfri. Meðan kristindómurinn sem er opinberun seilist lengra en rökhyggjan með trúarkenningum sínum og krefst trúar sem grundvallast á yfirskilvitlegri náð Guðs, býður frímúrarastefnan einungis upp á náttúrleg sannindi sem grundvallast á fríhyggju og náttúrlegum niðurstöðum rökhyggjunnar. Siðgæðisafstaða hennar grundvallast á náttúrlegum eigindum mannsins og einskorðast við náttúrlegt takmark.“

Þessa afstöðu ítrekaði gríska biskuparáðið árið 1972 og nefndi frímúrara „óvini kristindómsins“ (Kirche und Loge, bls. 9-10).

Í dag – 24. ágúst – heiðrar kirkjan einn postulanna, Bartólómeus. Allt sem við vitum um hann með vissu er það sem sagt er um hann í samstofnaguðspjöllunum. Fræðimenn telja hann vera hinn sama og sá sem Natanael víkur að í Jóhannesarguðspjallinu sem segir að hann hafi verið frá Kana og að Jesús kallaði hann „Ísrealíta og engin svik væru í honum að finna.“ Í rómverska píslarvottatalinu er sagt að hann hafi predikað í Indlandi og í Armeníu og að Astyages konungur hafi látið húðstrýkja hann og hálshöggva. Samkvæmt erfikenningunni átti þetta að hafa gerst í Abanopolis á vesturströnd Kaspíahafsins og greint er frá því að hann hafi einnig predikað í Mesópotamíu, Persíu og Egyptalandi. Allt er þetta hulu sveipað í tímans djúpi, en eitt er þó ljóst: Bartólómeus tilheyrði þeim tólf og predikaði orð Guðs vegna þess að hann hafði þessa hreinu og einföldu trú til að bera sem Philoxenes biskup frá Mabbug í Sýrlandi vék að í hugleiðingu þeirri sem fylgir ritningarlestri dagsins og líkti við hreint auga. Sjálfur víkur Drottinn að þessu hreina auga trúarinnar:

„Þegar auga þitt er heilt, þá er allur líkami þinn bjartur, en sé það spillt, þá er líkami þinn dimmur. Gæt því þess að, að ljósið í þér sé ekki myrkur“ (Lk 11. 34-35).

Bartólómeus hafði þetta hreina auga til að bera og fór og predikaði sannleika þess sem er „Vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jh 14. 6) rétt eins og kínversku bræðurnir og systurnar sem ég vék að í upphafi þessarar greinar knúinn áfram af Kristselskunni. Og sannleiksboðskapur hans er ekki sú „tortímingu siðrænna og trúarlegra gilda sem ríða myndi yfir heimsbyggðina“ og opinberaðist Leó páfa XIII í sýninni sem vikið er að hér að ofan. Hana höfum við fyrir augunum á Íslandi í dag. Síðasta birtingarmynd hennar er lagafrumvarp um stofnfrumurannsóknir sem lagt verður fyrir Alþingi í haust, rannsóknir á líkamsmenjum frumfóstra sem hafa verið aflífuð og kirkjan berst gegn um allan heim.

Drottinn okkar bað okkur að fylgjast með táknum tímans:

„Að kvöldi segið þér: ,Það verður góðviðri, því að roði er á lofti.' Og að morgni: ,Illviðri í dag, himinninn er rauður og þungbúinn.' Útlit loftsins kunnið þér að ráða, en ekki tákn tímanna“ (Mt 16. 2-3).

Tákn tímanna er ljóst – tíma Antíkrists – og postulinn miklu segir að hann starfi í leynum: „Því að lögleysið er þegar farið að starfa í leyndum og stendur ekki á öðru en að þeim verði rutt í burt, sem nú heldur aftur af“ (2Þ 2. 7). Hér er vikið að Drottni og boðorðum hans. Frímúrarareglan er leynifélag sem starfar í leyndum en sagt er að margir af framámönnum þjóðarinnar séu meðlimir í reglunni. Sagt er að þar komi saman forystumenn í atvinnulífi, fjármálum, stjórnmálum, fjölmiðlun, opinberri þjónustu og jafn ótrúlegt og það hljómar, margir prestar Þjóðkirkjunnar. Hér er um leynifélagsskap að ræða og því ekki unnt að festa hendur á neinu öðru en birtist í táknum tímans: Áþreifanlegum lagaboðum og þróun alls þjóðlífsins. Minnumst orða Felixar páfa III: „Að standa ekki gegn villu er að samþykkja hana – að verja ekki sannleikann er að brjóta hann á bak aftur.“ Því andmæli ég harðlega því sem nú er að gerast í íslensku þjóðlífi með afkristnun þjóðarinnar með því að afnema hvert ákvæðið af öðru í siðaboðskap kristindómsins. Ég gagnrýni harðlega þjóna Þjóðkirkjunnar fyrir þögn sína og að standa ekki vörð um boðorð Krists, Konungs alls lífs:

„Þjóð mín, leiðtogar þínir leiða þig afleiðis og villa fyrir þér veginn“ (Jes 3. 12).

Ég tek að lokum fram að hér tjái ég skoðun mína sem ekki má túlka sem skoðun annarra greinahöfunda hér á kirkju.net. Ég einn ber ábyrgð á þessum orðum mínum – Jón Rafn Jóhannsson. Viðbót (25.8): Í reynd er ég ekki einn um þessa skoðun, margir hafa komið að máli við mig sem blöskrar hökt Þjóðkirkjunnar í trúarsetningum kristindómsins.

7 athugasemdir

Athugasemd from: Aðalbjörn Leifsson
Aðalbjörn Leifsson

Ég get tekið undir það að Frímúrarareglan er ekki kristinn félagsskapur heldur djöfullegur! Hvernig get ég sagt þetta? Jú ég Aðalbjörn var einu sinni meðlimur í þessari reglu en Heilagur Andi talaði til mín og sagði mér að koma mér út úr þessum féklagsskap. Þeir sem eru þarna eru að dýrka guð ekki Almáttugan skapara himins og jarðar Nei heldur guð þessa heims satan sjálfan. Þarna eru allskonar hryllileg tákn notuð hauskúpur og játningar sem leiða menn til bölvunar og örvæntingar. Ég veit að nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins er háttsettur í Frímúrarareglunni. Hún er djöfulleg. Heilagi Faðir leiddu þá menn sem bundnir eru í Frímúrarareglunni út úr henni einsog þú gerðir fyrir mig þetta biðjum við þig að gera í nafni Jesú Krists frá Nazaret Amen.

24.08.06 @ 17:18
Steingrímur  Valgarðsson

Kína er ábyggilega stærsti trúboðsakur veraldar. Ég mæli með að þið lesið magnaða bók sem heitir “The Heavenly man”
Hún er um kínverskan mann sem breiðir út boðskap Krists í Kína og hlýtur að launum ótrúlega grimmilega meðferð kínverskra stjórnvalda. Ég hef lesið mjög margar kristnar bækur eftir marga frábæra höfunda en þessi bók er sú allra besta. Ég veit að “neðanjarðar” kirkjur í Kína vaxa svo ört að það er talið að um meira en 1 milljón manns bætist við hana ár hvert. Ég held að ástæðan fyrir svo örum vexti sé út af þeim miklu ofsóknum sem kristnir verða fyrir af höndum stjórnvalda. Og það er merkilegt að það var norskur trúboði að nafni Marie Monsen sem fór til Kína árið 1901 og var þar í 30 ár. Og fyrir hennar vinnu á akri Drottins komust rosalega margar sálir til trúar. Kristnir leiðtogar í Kína minnast hennar enn í dag og þakka Guði fyrir að hafa sent hana. Guð notaði hana til að kveikja eld í hjörtum fólksins sem kommúnistarnir hafa ekki enn náð að slökkva.

Kv Steini

24.08.06 @ 17:19
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Það er einmitt þessi bók, The Heavenly Man“ sem ég hef verið að vitna til og fæ að láni á sunnudaginn hjá prestinum vini mínum. Hann hefur sagt mér að það sem borið hafi fyrir þennan mann sé allt saman Guði til mikillar dýrðar. Svona endurgeldur Drottinn þeim sem þjóna honum af elskuríkri þjónustu og þolgæði. Ég hlakka til að lesa þessa bók, Steini. Já, Kína á eftir að gefa af sér mikla uppskeru einmitt sökum ofsa kommúnistanna og ofsóknir á hendur kristnum mönnum.

66 voru þeir trúboðarnir sem myrtir voru í Súdan frá 1850-1870 hver á eftir öðrum þar til sá 67. uppskar 250.000 sálir. Nú eru þeir um 1 milljón, þeir sömu og múslimarnir reyna að útrýma með öllum tiltækum ráðum.

24.08.06 @ 18:25
Steingrímur  Valgarðsson

Það væri gaman ef einhver myndi þýða þessa bók og setja hana á jóla-bóka markaðinn hérna Íslandi.
Mig langar í framtíðinni að fara til Kína í kristniboð, ég veit að þar eru margar þyrstar sálir. Ég þekki trúboða sem hefur farið margar ferðir inn í Kína og smyglað fullt af biblíum þangað. Hann heitir Curtis Silcox og er með trúboðsstarf sem heitir Good news today. Hann sagði að ég mætti koma með honum hvenar sem ég vildi. Hann ferðast um allan heiminn og boðar trúna af miklum móð. Ég hitta hann þegar ég var í trúboði í Cape town, Suður Afríku.
Mr. Silcox sagði mér að á einni samkomumu þar sem hann predikaði í Kína, þá var hann vinsamlegast beðinn um að hvísla. fólkið var hrætt að Trúarlögreglan í héraðinu kæmist að því að samkoma væri haldin og þá yrðu allir handteknir.
Merkilkegt, á Íslandi ríkir trúfrelsi og þjóðin er að afkristnast.

Kv Steini

24.08.06 @ 19:17
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Sjálfur þekki ég til El-Shaddai náðargjafahreyfingarinnar sem rekið hefur afar öflugt starf á Filippseyjunum og í Hong Kong. Þeir eru núna einnig byrjaðir að starfa á meginlandinu.

Hið sama gildir um hina sönnu kaþólsku kirkju í Kína eins og hvítasunnumenn sem er neðanjarðarkirkja sem sætir stöðugum ofsóknum af hálfu stjórnvalda. Ótrúlegt hvað orestarnir og nunnurnar verða að þjást. Kommúnistaflokkurinn hefur svo komið á fót falskirkju sem lýtur hans stjórn.

Meðal annarra orða. Nokkrir meðliminr El-Shaddai starfa nú við Maríkukirkjuna í Breiðholti (Filipsseyingar).

Það er annars merkilegt hvað kommarnir eru hræddir við Guð. Hvernig geta menn verið hræddir við það sem ekki er til að þeirra mati? Í gamla daga gerðu þeir dauðaleit í bílum frá Vesturevrópu í Ungverjalandi og fundu Nýja testamentið á íslensku í bílnum mínum sem var gert upptækt á staðnum!

Kannske verður þetta svona hérna þegar framsókn guðsafneitunarinnar nær hámarki? Hver veit, það kæmi mér ekki á óvart eins og málin þróast.

24.08.06 @ 19:35
Athugasemd from: Kristinn Ásgrimsson
Kristinn Ásgrimsson

Langar bara að segja að bókin umrædda, Heavenly man, hefur þegar verið þýdd á íslensku og átti reyndar að koma út núna í byrjun ágúst. Verður vonandi komin á haustmánuðum.

25.08.06 @ 05:40
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Gaman að heyra þetta, Kristinn. Ég er sannfærður um að hún eigi eftir að verða lesendunum til blessunar. En ég reikna ekki með að frímúrarar og fríhyggjumenn lesi slíkar bækur. Áhugi þeirra beinist að öðrum hugðarefnum.

Og þakka þér fyrir auglýsinguna góðu. En þegar bátnum er ruggað örlítið verða sumir strax sjóveikir og fá innanmein. Þannig er sannleikurinn í verki: Sem nístandi sverð til iðrunar.

25.08.06 @ 06:51