« Þorsti hins Alhelga Hjarta Jesú eftir mannssálunum – úr Andlegri erfðaskrá blessaðrar Teresu frá Kalkútta (1910-1997)Sjónvarpsstöðin Ómega boðar ómengaðan gyðingdóm »

21.02.08

  14:20:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1323 orð  
Flokkur: Bænalífið

Um aðstreymi vatns náðarinnar til mannssálarinnar

Himnasmiðurinn mikil, Arkitekt og Skapari allrar tilurðar, grípur iðulega til samlíkinga úr náttúrlegri sköpun sinni til að varpa ljósi á hina yfirskilvitlegu tilhögun náðarinnar. Vatnið gegnir mikilvægu hlutverki í þessu sambandi sem skírskotun til náðarinnar. Drottinn gaf samversku konunni að bergja af þessu vatni við brunninn forðum. Meistari Eckhart sagði eitt sinn að það streymdi ávallt niður á við og að María Guðsmóðir hefði verið slíkt ker við boðunina – sæmdarker náðar – vegna þess að hún lægði sig fyrir Guði og því hafi hún verið hafin svo hátt upp í lífi náðarinnar.

Sannleikurinn er sá að Guð metur þá mikils sem lúta vilja hans á jörðinni, svo mjög að hann lætur þá standa jafnfætis sér svo að segja. Með þessu á ég ekki við að þeir verði að Guði heldur guðsgjörast þeir í lífi náðarinnar. Ég gríp til annars dæmis úr hinni náttúrlegu tilhögun. Ef við setjum tvö glös við hlið hvers annars, annað fullt af vatni en hitt tómt og komum fyrir örþunnu pappaspjaldi undir því fyrra sem er fullt af vatni og setjum síðan plastslöngu í það og yfir í tóma glasið, þá streymir vatnið í það. Við getum sagt sem svo að fyrra glasið sé Guð og það síðara mannssálin. Heilagur Gregoríos frá Nyssa (335-395) nefndi þetta aðstreymi „apporoia“ á grísku.

Meðan ég bjó í Suðurþýskalandi í gamla daga horfði ég iðulega á þátt í sjónvarpinu sem sendur var út hálfsmánaðarlega og hét: Óleystar gátur mannskynssögunnar. Þar voru tekin fyrir ýmsar ráðgátur mannskynssögunnar sem vafist hafa fyrir mönnum. Áhorfendum var síðan gefið tækifæri til að senda inn lausnir ef þær voru þá yfirleitt að finna. Ein þessara gáta sem vafist hefur fyrir fræðimönnum er vatnsveita Rómverja í borginni Smyrnu í Litluasíu.

Staðhættir voru þannig að gnægtir vatns var að finna upp á fjalli einu í um það bil tveggja kílómetra fjarlægð frá borginni, en gallinn var sá að annað fjall stóð mitt á milli borgarinnar og fyrra fjallsins. Hvernig leystu rómversku verkfræðingarnir úr þessu vandamáli? Jú, þeir byggðu mikinn steinstokk sem lá frá fyrra fjallinu upp á það síðara þar sem komið var fyrir miklum safngeymi, einskonar Öskjuhlíðartanki. Þaðan lá steinstokkurinn til borgarinnar og þannig gátu þeir tryggt Smyrnu nægilegt vatn.

Borgin var að mörgu leyti fyrirmyndarborg sem bar af sjálfri Róm, höfuðborg heimsveldisins. Þar var fullkomin vatnsveita og vatnið leitt í hús manna og almenningsböð algeng. Hreinlætið höfðu Rómverjarnir lært af Gyðingum sem lauguðu hendur sínar margoft daglega og ávallt fyrir máltíðir og eftir að hafa gegnið örna sinna. Þetta var speki sem Guð hafði uppfrætt þá um í lögmálinu og enn í dag einhver öruggasta sóttvörn sem fyrirfinnanleg er.

Jæja. Spurningin sem lögð var fyrir þýska sjónvarpsáhorfendur var þessi. Hvernig fóru rómversku verkfræðingarnir að því að mæla hæð fjallsins sem stóð nær Smyrnu vegna þess að það var einungis 1, 8 metra lægra en það fyrra? Þeir höfðu ekki nákvæma hornamæla (þeotolitos) tiltæka og allt fram á miðbik tuttugustu aldar vafðist það fyrir mönnum að mæla hæð af slíkri nákvæmni. Engum auðnaðist að svara þessari spurningu. Ekki hafa þeir tekið áhættuna í blindni vegna þess að framkvæmdirnar voru býsna kostnaðarsamar.

Vatnsþrýstingurinn var einnig mikill þegar vatnið streymdi um steinstokkinn sem var lokaður. Til þess að hann stæðist álagið gerðu rómversku verkfræðingarnir þrjá mikla steinboga í botni dalsins til að „fergja“ steinstokkinn niður. Þannig stóðst hann álagið. Við skulum nú yfirfæra þessa líkingu yfir á bænalífið vegna þess að það er farvegur lífs náðarinnar.

Við skulum segja að steinbogarnir þrír skírskoti til hinna þriggja höfuðdyggða reglulifnaðarins: Hlýðninnar, auðmýktarinnar og fátæktarinnar. Án þess að játa andlega örbirgð sína er ekki unnt að taka á móti. Án hlýðni, það er að segja að standa þar sem Guð hefur skipað okkur stað, tökum við aldrei framförum og vöxum í lífi náðarinnar. Og rétt eins og steinbogunum þremur var komið fyrir á lægsta punktinum í dalnum er auðmjúk sál glöð með að skipa lægsta sessinn í Guðsríki. Meistari Eckhart kallaði þetta „að standa undir Guði.“ Þannig verður sálin að góðum farvegi fyrir aðstreymi lífs náðarinnar og getur veitt blessun sinni til annarra sálna eins og safntankurinn á síðara fjallinum þjónaði Smyrnubúum vel.

Líkaminn deyr ef við öndum ekki og sálin deyr úr þurrki án bænarinnar sem er farvegur lífs náðarinnar. Við sjáum þetta birtast með átakanlegum hætti í bloggheimum. Þar fara bloggarar mikinn sem hafa bókstaflega verið rifnir upp með rótum úr hinni kristnu arfleifð. Þetta er fólk sem alið hefur verið upp af foreldrum sem kenndu börnum sínum ekki að biðja og báðu ekki með þeim á kvöldin fyrir svefninn. Í hugum þessa fólks er kristindómurinn eins og hver önnur þjóðmálastefna sem er harðlega gagnrýnd í krafti mennkrar rökhyggju. Þetta fólk er blint og rétt eins og blindur maður getur ekki notið fegurðar litasinfónía listmálara heimsins ber það ekkert skyn á líf náðarinnar sem kraft Guðs.

Fyrst ég er byrjaður að tala á annað borð um bloggheima er ekki illa til fundið að taka dæmi úr tölvuheiminum: Niðurhalið (downloading). Við náum okkur í margvíslegt efni nú til dags frá útlöndum með niðurhalinu. Og þrátt fyrir að við séum með ADSL tenginu getur það tekið talsverðan tíma að taka á móti þungum skjölum líkt og forritum sem geta í sumum tilvikum verið mörg gígabæt.

Sannarlega er ekki of mikið sagt þegar bæninni er líkt við slíkt niðurhal. Í bæninni tökum við á móti lífi náðarinnar og eftir því sem aðstreymið verður meira krefst það lengri tíma. Að sjálfsögðu hljómar þetta eins og hver önnur heimska í eyrum þeirra sem ekki biðja. Það er einmitt þetta sem heil. Páll sagði: „Því að orð krossins er heimska þeim er glatast, en oss, sem hólpnir verðum, er það kraftur Guðs“ (1Kor 1. 18). Nokkru síðar endurtekur hann:

Bræður, hyggið að köllun yðar: Þér voruð ekki margir vitrir að manna dómi, ekki margir máttugir, ekki margir stórættaðir. En Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur heimsku, til að gjöra hinum vitru kinnroða, og Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur veikleika til að gjöra hinu volduga kinnroða. Og hið ógöfuga í heiminum og hið fyrirlitna hefur Guð útvalið, það sem ekkert er, til þess að gjöra að engu það, sem eitthvað er, til þess að enginn maður skuli hrósa sér fyrir Guði. Honum er það að þakka að þér eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn oss VISDÓMUR frá Guði, bæði RÉTTLÆTI, HELGUN og ENDURLAUSN. Eins og ritað er: „Sá, sem hrósar sér, hrósi sér í Drottni“ (1Kor 1. 26-30).

Mikill er máttur bænarinnar. Amen.

No feedback yet