« Benedikt páfi XVI – Heilagur Jósef: Fyrirmynd í hlustun (© L'Osservatore Romano)Um aðskiljanlega náttúru knattleikja – hugleiðing »

09.12.08

  09:32:08, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 886 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um þöggun

Orðið þöggun hefur óvænt skotið upp kollinum í þjóðfélagsumræðunni að undanförnu. Ekki er ólíklegt að okkar ástkæra föðurland skipi einstakan sess meðal þjóða í hinum vestræna heimi. Helstu fjölmiðlar þjóðarinnar eru í höndum sömu hagsmunaaðilana að Rúv undanskildu sem að nafninu til á að vera í þjóðareign. En almennt talað hefur hin „óháða“ stétt fréttamanna lotið ofurvaldi þöggunarinnar á umliðnum árum. Meðal annars lýsir þetta sér í því að ef sérfræðingar voguðu sér að benda á veikleika undirstaða íslenska fjármálaviðundursins brugðust fjölmiðlarnir í heild við slíkri gagnrýni af vanþóknun. Ummæli líkt og „þeir þarna í Háskólanum þurfa nú að fara að athuga sinn gang!“ glumdu við í þöggunaráráttu fjölmiðlavaldsins. Ef erlendir fjölmiðlar voguð sér að gagnrýna útrásarvíkingana glumdi hneykslunin við í öllum fjölmiðlum þöggunarvaldsins. Frægt er þegar háttvirtur utanríksráðherra tókst á hendur sérstaka ferð til Danmerkur s. l. vor ásamt fríðu föruneyti útrásarvíkinga til að sannfæra Dani um að hið íslenska „wirtschaftswunder“ stæði styrkum fótum. Ég minni á að þetta var einungis nokkrum mánuðum fyrir ragnarökin miklu. Ég minnist myndskeiðs úr kvikmynd um David Cooperfield eftir Charles Dickens. Það var tekið á geðveikrahæli þar sem þögnin ein ríkti. Skyndilega tók einn hinna sjúku að æpa og það var eins og við manninn mælt: Allir hinir tóku undir hróp hans.

Jæja, ég ætla mér ekki að verja meiri tíma í efnahagslega hlið þöggunaráráttunnar, heldur tek undir orð konu einnar á Rás 2 í viðtalsþætti, en hún hafði upplifða færeysku efnahagskreppuna á sínum tíma. „Fyrst og fremst kenni ég til hryggðar. Þegar við hjónin snérum að nýju heim til Íslands eftir að við höfðum náð okkur á strik aftur, trúðum við því að íslensku þjóðinni væri stjórnað af hæfum mönnum. Annað kom í ljós og það er fyrst og fremst hryggðin sem mótar afstöðu mína núna.“ Orð að sönnu.

Rétt eins og gegnir um efnahagsmálin hefur þöggunaráráttan mótað alla umræðu um trúmál á undanförnum áratugum. Þar hafa fréttamenn jafnt og stjórnmálamenn gengið fram af oddi og egg og afnumið hvert siðaboðið eftir annað úr kristinni siðfræði og kenningum Meistarans frá Nasaret. Rétt eins og rekja má efnahagshrun ragnarakanna til kvótakerfisins, má rekja siðferðishrunið til fósturdeyðingarlaganna frá 1975. Síðan hefur ferðin legið niður á við með hverju lagaboðinu á eftir öðru sem borist hafa þjóðinni frá múrsteinshúsinu við Austurvöll (sem langafi minn sem nam steinhögg í kóngsins Kaupmannahöfn tók þátt í að reisa. Húsið var reist í ákvæðisvinnu og þegar íslensku steinhöggvararnir voru komnir með fjórfalt kaup á við þá dönsku, lögðu Danirnir niður vinnu og laun Íslendinganna lækkuð af viturri landsstjórninni sem sá í hendi sér, að hér væri komið í óefni hvað laut að „herraþjóðinni.“).

Það hryggilega við þessa öfugþróun er að það eru ekki einungis fréttamenn, stjórnmálamenn og sá skoðanahópur sem kenndur er við Póstólf 101 í Reykjavík sem lýst hafa yfir velþóknun sinni með þetta siðferðishrun og frávik frá kenningum Drottins, heldur einnig fjölmargir prestar Þjóðkirkjunnar. Tvístígandi og hringlandaháttur þessara „kirkjunnar þjóna“ er þeim sjálfum til ævarandi háðungar og dóms.

Þegar í Gamla testamentinu opinberar Guð sig sem miskunnsaman Drottin allsherjar, þann sem „rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og elskar útlendinginn, svo að hann gefur honum fæði og klæði“ (5M 10. 18). Hann elskar mannanna börn og „yndi hans eru mannanna börn“ (Ok 8. 31). Það er þessi sami Guð sem segir: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er himnaríki“ (Mt 19. 14). Þessum Guði er það ekki að skapi að sjötta hvert barn sem fæðist meðal íslensku þjóðarinnar er deytt með köldu blóði árlega sem réttlætt er með efnahagslegri velferð þjóðarinnar!

Þessum Guði er það ekki að skapi að boðorð hans séu þverbrotin. Þessum Guði er það ekki að skapi að ellilífeyrisþegum og öryrkjum hefur verið gert að bera stöðugt þyngri skattabyrði í æðiskenndu fálmi nýfrjálshyggju auðmannavaldsins sem grípur til þöggunarofbeldisins ef einhver sakleysingi vogar sér að ámálga óréttlæti slíks ofríkis.

Þjóð mín. Vakna þú og rís af svefni! „Bræður, verið ekki börn í dómgreind, heldur sem ungbörn í illskunni, en fullorðnir í dómgreind“ (1Kor 14. 20). En hvað er ég svo sem að eyða tímanum í þessi skrif: Þau verða þöggunarvaldinu að bráð vegna þess að Guð er „gamaldags“ og ekki að skapi framsóknar illskunnar á jörðu.

8 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kröftugur pistill, nafni, kryfjandi um málefni tíðarandans, kryddaður góðum frásögnum og nær áhrifaríku risi í lokaþættinum. – Kær kveðja.

09.12.08 @ 22:46
Athugasemd from: Sverrir
Sverrir

Sko, þú talar um fósturdeyðingarlögin frá 1975 og að þá hafi “siðferðishrunið” byrjað og svo tekurðu tilvísanir úr biblíunni þar sem guð er góður við börn.
Hvað með ljótu kaflana?
Hvað ætli guð hafi drepið mörg börn og ófrískar konur í flóðinu mikla?

Hvað drap guð mörg börn þegar hann drap alla frumburði Egypta, allt frá barni faróins til barna þrælana og fangana sem gerðu ekki neitt af sér? Og bara að því að einn maður sagði nei.

Hérna er guð að gera barn veikt og það tekur það 7 daga að deyja.

Síðari Samúelsbók 12/14-15

14En sakir þess, að þú hefir smánað Drottin með athæfi þínu, þá skal sá sonur, sem þér er fæddur, vissulega deyja.”
15Síðan fór Natan heim til sín. Drottinn sló barnið, sem kona Úría hafði fætt Davíð, svo að það varð sjúkt.

Meira
Jesaja 13:15-18
15Hver sem fundinn verður, mun lagður verða í gegn, og hver sem gripinn verður, mun fyrir sverði falla.
16Ungbörn þeirra munu knosuð verða fyrir augum þeirra, hús þeirra verða rænd og konur þeirra smánaðar.
17Sjá, ég æsi upp Medíumenn gegn þeim. Þeir meta einskis silfrið og þá langar ekki í gullið.
18Bogar þeirra rota unga menn til dauða. Þeir þyrma ekki lífsafkvæmum, og líta ekki miskunnaraugum til ungbarna.

Og hérna skipar hann fyrir að það eigi ekki þyrma börnunum.

Fyrri Samúelsbók 15:3
3Far því og vinn sigur á Amalek og helgaðu hann banni og allt, sem hann á. Og þú skalt ekki þyrma honum, heldur skalt þú deyða bæði karla og konur, börn og brjóstmylkinga, naut og sauðfé, úlfalda og asna.”

Er með meira en punturinn minn er að þú getur ekki bara nefnt það góða og sleppa því vonda…það er bara ekki heiðarlegt.

20.01.11 @ 12:02
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sverrir, þú virðist ekki gera þér grein fyrir því að gamla-testamentið sem þú vitnar í er trúarrit gyðinga en nýja-testamentið sem Jón Rafn vitnar í er trúarrit kristinna manna. Af því að kristnin spratt upp úr gyðinglegu umhverfi og gyðingatrú og byggir því á gyðinglegum grunni þá er gamla-testamentið haft með í biblíu kristinna. M.a. til að kristnir menn geti gert sér grein fyrir þróun hugmynda á borð við guðsmyndarinnar.

Sú guðsmynd sem birtist í gamla-testamentinu er því ekki eiginleg kristin guðsmynd heldur grunnur hennar á fyrri stigum þróunarinnar.

Höfundar gamla testamentisins hafa greinilega skrifað allt sem gerðist á reikning Guðs, bæði það góða en einnig það slæma svo sem veikindi, flóð, náttúruhamfarir eða annað böl og litið á það sem refsingu eða reiði Guðs. Það ber því mikið á frumstæðum hugmyndum um reiði og hefnd.

Sú guðsmynd sem birtist í nýja-testamentinu er mun þróaðri. Sérstaklega eru mikilvæg orð Krists um að leyfa börnunum að koma til sín því að slíkra sé guðsríki. Án efa hefur þetta viðhorf og þessi orð breytt miklu til hins betra í aðstæðum barna innan hins kristna heims.

Ásökun þín um óheiðarleika Jóns Rafns byggist því á fákunnáttu um kristna trú eða í besta falli misskilningi, en svona ásakanir eru því miður býsna algengar í dag og sjást gjarnan í skrifum ákafra trúleysingja.

Það verður að segjast eins og er að gagnrýni eða áróður ágengra trúleysingja gegn kristnum viðhorfum byggist því miður of oft á persónuárásum gegn kristnum einstaklingum en ekki á málefnalegri gagnrýni þar sem t.d. hugtök kristninnar eru tekin fyrir og þau gagnrýnd.

Lestu skrif ákafra trúleysingja með gagnrýnu hugarfari Sverrir og láttu þá ekki leiða þig út í að ásaka samborgara þína um óheiðarleika að óathuguðu máli.

22.01.11 @ 15:17
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Um margt er vel er haldið á spöðunum hjá þér í þessu svari, Ragnar, ekki öllu, eins og fram kemur hjá mér hér neðar. Þó vil ég ekki fullyrða mikið um allt hér, a.m.k. ekki að öllu leyti með sama hætti og þú gerir, en tek sterklega undir allan seinni hlutann hjá þér.

Ég vissi ekki ef þessari umræðu fyrr en nú, en óbeint hef ég sennilega opnað á hana vegna tilvísunar minnar af vef Kristinna stjórnmálasamtaka (Krist.blog.is) á þessa afar góðu grein Jóns Rafns.

Gamla testamentið er líka rit kristinna manna, ekki aðeins Gyðinga. Sérhver kaþólskur prestur les t.d. allan Psaltarann – rit þess Davíð sem hér kom við sögu – reglulega, og það sama tíðkast í allri tíðagjörð kaþólskra, t.d. í Þýzkalandi, og anglíkana í Bretlandi.

Elskaður var Davíð af Guði bæði fyrir og eftir hans höfuðsynd. Guð gaf honum soninn Salómon, albróður barnsins sem “Drottinn sló … svo að það varð sjúkt” og dó. (Í nýrri útgáfu Biblíunnar, 2007, er þetta þýtt með nútímalegri hætti: “Drottinn lét drenginn, sem kona Hetítans Úría ól Davíð, veikjast.") En Guð elskaði samt Salómon og blessaði hann margfaldlega, þótt hann væri lífsafkvæmi hinnar sömu Batsebu, ekkju Úría. Í Guðs hendi eru öll börn, og þetta sveinbarn, sem Guð deyddi, hefur síðan verið í kærleikshendi hans.

Hr. Sverrir, sem mætti upplýsa hér betur um fullt nafn sitt, gerir alls ekki rétt, ef hann telur verk Guðs með þessum hætti til jafns við verk manna. Menn hafa ekkert vald yfir framtíð þeirra, sem þeir deyða, en Guð hefur það. Hér er engin jafnstaða, og siðferðislegir dómar verða því ekki felldir yfir Guði í slíkum tilfellum á grunni samanburðar við verk manna og siðferðisdóm yfir þeim.

Þar að auki erum við Guðs sköpun og hans eign. Hann hefur vald til að gefa lífið, og hann hefur vald til að taka það. Kalli hann til sín líf barns, er því borgið hjá honum. Börn Egyptanna eru óhultari hjá Guði en þeir hermenn sem hann sökkti í Rauðahafið.

Svo var spámönnum Guðs gefin spádómsgáfa, þeim var gefið að sjá fyrir hluti, sem áttu eftir að verða. Það eru margir textar í Gamla testamentinu sem fjölluðu um það, sem óhjákvæmilegt yrði, eftir stríðsháttum þess tíma, við innrásir óvinaþjóða inn í Landið helga. Ábyrgðin var þeirra, sem frömdu ódæðisverkin, sem og þeirra spilltu stjórnvalda Ísraels og Júda, sem kölluðu þau yfir þjóð sína.

22.01.11 @ 20:54
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég varð að breyta 1. setningu innleggs míns, til þess að hún orkaði ekki tvímælis, fyrst og fremst af því að vitaskuld verðum við að gera það öllum ljóst, að Gamla testamentið er helgirit kristinna manna eins og það nýja. Jesús sjálfur talaði um “lögmálið og spámennina” (heildarheiti um Gamla testamentið) sem orð Guðs, og við það ber okkur að halda okkur, enda gerir kirkjan það.

Þetta kann að gera trúvarnarfræðin flóknari og erfiðari, því er ekki að neita, en þá er bara að taka því og hagnýta sér þann verkhluta guðfræðinnar, sem unnið hefur verið að í hugsun kirkjunnar og rannsóknum kirkjufeðra og Biblíufræðinga – jafnvel höfunda NT – um hátt í 20 alda skeið.

25.01.11 @ 01:28
Athugasemd from: Sverrir
Sverrir

Ragnar Geir Brynjólfsson

Jesus, þú veist, aðal maðurinn, var gyðingur, var meiri segja klippt á […] , talaði oft um gamla testamentið, nefnir Nóa á nafn og alles.
Og hann segir um gamla testamentið.

Matteusarguðspjall 5:18
18Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram.

Það er einhvað meira en það er nokkuð ljóst að Jesus talar um “trúarrit gyðinga” þannig þetta gengur ekki það sem þú ert að segja….og ég stend við það sem ég sagði, þú verður að taka það slæma með.

“Lestu skrif ákafra trúleysingja með gagnrýnu hugarfari Sverrir og láttu þá ekki leiða þig út í að ásaka samborgara þína um óheiðarleika að óathuguðu máli.”

Ragnar, áður en ég las einhvað með Dawkins, Hitchen, áður en ég horfði á Thunderfoot eða Aronra, áður en ég vissi af vantrú og hvað það allt heitir, þá trúði ég á biblíuna, biblían var sönn mínum augum, það var bara eitt að, ég leit aldrei á biblíuna með “gagnrýnu hugarfari” eins og þú orðar það. Svo einn daginn rakst ég á einhverja síðu með nokkrum vel völdum köflum í biblíunni og ég hugsaði neiiii, þetta getur ekki verið í biblíunni þetta er viðbjóður, ég hljóp niður í geymslu og náði í biblíunna mína gömlu, opnaði hana og lenti auðvita á sálm 107, enda bréfaklemma sem er á þeirri síðu sem hefur verið þar síðan ég fermdist, ég las hann yfir en svo flétti ég á einn af þessum skemmtilegu köflum (til dæmis Fjórða bók Móse 31, drepa konur sem eru ekki hreinar meyjar…..) í biblíunni og það hefur ekki verið aftur snúið.

Kannski ættir þú að lesa biblíuna og greinar eftir trúað lið með “gagnrýnu hugarfari".

25.01.11 @ 23:21
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sverrir, ég birti þessa athugasemd (01/26/11 @ 00:21 ) frá þér en felldi jafnframt niður tvö orð.

26.01.11 @ 16:52
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég held ég geri varla betur en að vitna í Jón Rafn hér að ofan þar sem hann segir:

Þegar í Gamla testamentinu opinberar Guð sig sem miskunnsaman Drottin allsherjar, þann sem „rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og elskar útlendinginn, svo að hann gefur honum fæði og klæði“ (5M 10. 18). Hann elskar mannanna börn og „yndi hans eru mannanna börn“ (Ok 8. 31). Það er þessi sami Guð sem segir: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er himnaríki“ (Mt 19. 14).

Ég leit á sálm 107 og átta mig ekki á því hvað það er sem stuðar við hann, en fjórða bók Móse, k. 31, já hmmm…, Maður verður að vita hvað maður er að lesa, hver skrifar, inn í hvaða samhengi og inn í hvaða samfélag. Við getum kallað þetta að lesa hlutina í samhengi. Þarna er verið að lýsa hernaði Ísraelsmanna gegn Midíanítum og eflaust hefur Móses talið sig vera að gera rétt á svipaðan hátt og herforingjar allra tíma gera. Þessi frásögn af hernaði Ísraelsmanna skiptir máli m.t.t. sögu Ísraelsþjóðarinnar en í kristnum skilningi hefur þessi kafli litla sem enga merkingu aðra en að veita innsýn í hugsunarhátt þessarar þjóðar á þessum tíma. Sem kristinn trúarlegur texti hefur hann því aðeins merkingu ef hann er settur í þetta samhengi, þ.e. að veita sýn á hugsunarhátt Ísraelsþjóðarinnar og þróun hugmynda þeirra um Guð. Það er magnað að nútímafólk geti hnotið um svona texta og talið þá vera á einhvern hátt lýsandi fyrir Guð kristninnar. Við verðum að passa okkur að lesa þetta ekki eins og við lesum t.d. boðorðin 10 í gamla testamentinu.

En jú, því miður er til nútímafólk sem horfir á svona texta eins og 4M31 og telur sig lesa einhvern boðskap úr þeim, oftast eru það öfgamenn af einhverju tagi sem vilja eiga reiðan, refsandi og hefnigjarnan Guð. Það er því mikilvægt hvernig biblían er túlkuð og til þess höfum við prestana Sverrir, að leiða okkur áfram.

26.01.11 @ 17:24