« Um þöggunFeitu árin og mögru árin – hugleiðing »

14.10.08

  11:52:20, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1657 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um aðskiljanlega náttúru knattleikja – hugleiðing

Á umliðnu sumri var handknattleikur mikið til umræðu meðal þjóðarinnar, einkum vegna velgengni íslenska landsliðsins í Beijing. Bolti og handknattleikur gegnir einnig mikilvægu hlutverki í boðskap Jesú. Drottinn greip til dæmisagna í ríkum mæli eins og við sjáum í guðspjöllunum. Á grísku er orðið dæmisaga „parabole,“ en bókstaflega þýðir orðið: „með bolta.“ Jesús varpar þannig boðskap sínum til okkar líkt og bolta í handknattleik. Við getum þannig gripið boðskapinn eða boltann á lofti og í þessu sambandi eru viðbrögð okkar mikilvæg, rétt eins og gengur í öllum öðrum handknattleikjum. Í þessu samhengi getum við sem best rætt um „veraldlegan“ og „guðdómlegan“ knattleik.

Í Jesajabók lesum við: „Komið, eigumst lög við! - segir Drottinn“ (Jes 1. 18). Mörgum er meinilla við slíkan Guð sem „átt getur lög“ við dauðlega menn! Hinum hálfvolgu eða nafnkristnu (Opb 3. 16) er illa við slíkan Guð. Þeir geta sem best sætt sig við guð sem er eins og páfagaukur í búri, það er að segja sem gott er að leita til þegar eitthvað bjátar á: Svo að segja gráta við öxl hans. Einhvers konar guð sem nota má sem „mjólkurkú,“ eins og Meistari Eckhart komst að orði forðum daga. Þess á milli vilja þeir sem minnst af honum vita! Þetta gildir ekki einungis um fjölmarga Íslendinga heldur almennt talað um öll Vesturlönd, eða getum við ekki sagt þann hluta heimsbyggðarinnar sem býr við mikla efnislega velsæld sem hún þakkar sjálfri sér vegna þess að hér er um „nafnkristnar“ þjóðir að ræða. Velsæld sem engu að síður er svo snauð að hún telur sig ekki hafa „efni“ á kærleika og er því snauðari í augum Drottins en sárfátækustu Þriðjaheimsþjóðir!

Á umliðnum áratugum hefir þessi hluti heimsbyggðarinnar brotið gróflega með síendurteknum hætti gegn boðorðum Drottins. Þessar nafnkristnu þjóðir hafa lagt rækt við fósturdeyðingar í svo ríkum mæli að á síðustu tveimur áratugum hefur milljarði ungbarna verið fórnað á altari Móloks með efnahagslega velferð viðkomandi þjóða í huga. Auk fósturdeyðinga mætti minnast á fjölmargt annað, líkt og fyrirlitningu á helgi hjónabandsins, tilraunir með fósturvísa og lögleiðingu afbrigðilegrar kynhegðunar, allt í nafni mannréttinda og framfara.

Hér hafa ráðamenn jafnt og einstakar kirkjudeildir gengið fram af oddi og egg og boðað falskristni sem er í engri samhljóðan við boðorð Drottins. Drottinn hefur sagt okkur að kærleiksboðin tvö séu uppfylling allra annarra boðorða:

Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum“. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er þessu líkt: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir"“ (Mt 22. 37-40).

Já, Drottinn okkar varpar til okkar dæmisögum sínum eins og bolta í handknattleik og viðbrögð okkar eru mikilvæg ef við ætlum að „skora mark,“ rétt eins og í veraldlegum handknattleik. Munurinn er engu að síður sá að sannkristnum einstaklingi er ætlað að „skora“ í mark kærleikans meðan hann dvelur hér á jörðinni: Öll önnur markaskorun er hreinasta ósvinna, ógild mörk á vogarskálum hins guðdómlega réttlætis! Ein þeirra dæmisagna sem Drottinn grípur til er dæmisagan af brúðkaupsklæðunum sem við getum lesið um í Mt 22. 1-14. Og konungurinn segir við einn gestanna sem ætlar að ganga inn í brúðkaupsfagnaðinn:

„Vinur, hvernig ert þú hér kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum?“ Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: „Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Því að margir eru kallaðir, en fáir útvaldir“.

Við könnumst einnig flest við ævintýrið hans H. C. Andersens af konunginum sem taldi sig ganga um í fínofnum skrúðklæðum þegar hann var í reynd kviknakinn. Það var einn smælingja Guðs – barn – sem vogaði sér að hafa orð á þessu í ævintýrinu. Konungurinn var í reynd ginningarfífl. Við skulum nú hlýða á það sem Ágústínus kirkjufaðir hefur að segja um þessi brúðkaupsklæði:

Hver eru þau þessi brúðkaupsklæði sem guðspjallið víkur að? Vissulega eru þessi klæði eitthvað sem einungis hinir gæskuríku eiga, þeir sem fyrirhugað er að taka þátt í veislunni . . . Geta þetta verið sakramentin? Skírnin? Án skírnarinnar kemst einginn til Guðs . . . Ef til vill er þetta altarið eða það sem einstaklingurinn meðtekur við altarið? En þegar sumt fólk meðtekur líkama Drottins, þá etur það og drekkur sjálfu sér til dóms (1Kor 11. 29). Hvað eru þau þá? Að fasta? Enn hinir illgjörnu fasta einnig. Að fara í kirkju? En hinir illgjörnu fara einnig í kirkju rétt eins og aðrir . . .

Hvað eru þau þá þessi brúðkaupsklæði? Páll postuli segir okkur: „Markmið þessarar hvatningar er kærleikur af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú“ (1Tm 1. 5). Þetta eru brúðkaupsklæðin. Pa´ll er hér ekki að tala um hvaða kærleika sem er vegna þess að iðulega getum við séð óprúttið fólk elska hvert annað . . . en við sjáum ekki þennan kærleika meðal þess sem „sprettur fram úr hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú.“ Það er þessi elska sem er brúðkaupsklæðin.

Páll postuli sagði: „Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt“ (1Kor 13. 1-2). Hann segir að jafnvel þó að ég hefði þetta allt til að bera án Krists „væri ég ekki neitt“ . . . Þetta væri haldlaust vegna þess að þannig gæti ég elskað vegna elsku á eigin upphefð . . . „En hefði ég ekki kærleika, væri ég ekki neitt.“ Þetta eru brúðkaupsklæðin. Hyggið að ykkur sjálfum: Ef þið hafið hann til að bera, komið þá í veislufagnað Drottins af fyllsta trausti. (90. predikunin (Patrologia latina 38, 559 o. áfr.)

Nú á umliðnum tveimur vikum hefur skæð „fuglaflensa“ þjáð hagkerfi Mammóns á jörðu. Margir sem töldu sig „ganga um í skrúðklæðum“ standa eftir sem kviknaktir örbjargarmenn. Í reynd standa þeir í sömu sporum og konungurinn í ævintýrinu. Það hefur satt best að segja verið meira en lítið spaugilegt að hlusta á alla „sérfræðinga hagspekinnar“ á undanförnum vikum, mánuðum og árum: Allt þeirra hyggjuvit hefur verið hjal fávísra manna. Satt best að segja gekk einni kunningjakonu minni betur í spádómum sínum í kaffibolla hér forðum daga vegna þess að einstaka sinnum hafði hún þó rétt fyrir sér, þó að ég mæli slíku háttalagi ekki bót.

En snúum okkur að sjálfri alvörunni. Eftir að Drottinn holdgaðist á jörðu og stofnsetti kirkju sína er hún musteri hans á jörðu og hann vakir yfir velferð barna sinna, þeirra sem virða boðorð hans. Meðal nafnkristinna manna og afvegaleiddra kirkjudeilda er KRISTUR REIÐINNAR ekki vinsælt umræðuefni. En hvernig brást hann sjálfur við meðan hann dvaldi á jörðinni meðal okkar?

Þá gekk Jesús í helgidóminn og rak út alla, sem voru að selja þar og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna og mælti við þá: „Ritað er: „Hús mitt á að vera bænahús“, en þér gjörið það að ræningjabæli"“ (Mt 21. 12-13).

Er þetta svo fjarri því sem við höfum fyrir augunum í dag hér á jörðinni? Rétt eins og eitt voldugasta herveldi mannkynssögunnar leið átakalaust undir lok á níunda áratugi s. l. aldar þegar mælir Guðs hafði fyllst, sjáum við það sama gerast hvað varðar græðgisvæðingu peningahyggju Mammóns sem hrynur eins og spilaborg þegar Drottinn hefur voldugan armlegg sinn á loft. Tja! Getum við ekki litið á þetta sem viðvörun? Í Matteusarguðspjallinu einu saman grípur Drottinn til orðsins „gehenna“ sex sinnum. Gehenna voru öskuhaugar Jerúsalemborgar forðum daga, orð sem Jesús greip til þegar hann vék að víti eða eilífri dvöl í eldi gehenna (Mt 5. 22) Skömmu áður sagði hann:

Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram (Mt 5. 18).

Sumum er afar illa við slíkan Guð, já, beinlínis hata hann, Guð, sem hefur afskipti af framgangi mannkynssögunnar. Jafnvel eyrir ekkjunnar í musterinu sem gaf af örbirgð sinni gleymist ekki slíkum Guði. Ber það ekki vott um gæskuríka umhyggju hans fyrir mannssálunum þegar hann grípur til hégóma eins og fjármuna til að opna augu sumra sálna áður en það verður um seinan, það er að segja á dauðastundinni. Er dýrð hinna eilífu brúðkaupsklæða ekki náðarrík í samanburði við tötra græðginnar: Eina dauðasyndanna sjö? Vökum því og biðjum meðan tími gefst.

No feedback yet