« Ritningarlesturinn 7. september 2006Ritningarlesturinn 6. september 2006 »

06.09.06

  08:34:41, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1075 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Útkallið – ekkaleo (koina Nýja testamentisins)

Í dag heyrum við orðið „útkall“ iðulega tengjast björgunarsveitum: Þær fá útkall þegar eitthvað slys eða voða ber að höndum. Umfangsmesta björgunaraðgerð veraldarsögunnar átti sér stað þegar Guð sendi sinn elskaða Son til jarðar í Holdtekjunni til að bjarga þeim heimi sem logaði í hatri og vítiseldi óvinar alls lífs: Satans. Þá urðu mestu vatnaskilin í mannkynssögunni. Einn hinna fornu kirkjufeðra sagði því sigri hrósandi: „Guð setti beitu holdsins á öngul hjálpræðisins og Satan gleypti hana umhugsunarlaust“ (Heil. Gregoríos frá Nyssa (335-295).

Koinasögninni ekkaleo er samsett úr forsetningunni ek (ex) eða ‚út“ og nafnorðinu kaleo eða „að kalla.“ Það var af þessari sögn sem frumkristnir menn mynduðu orðið ekklesia eða kirkja. Í fleirtölu skírskotar orðið ekklesia í Nýja testamentinu til alls líkama hinna trúuðu á jörðu (1Kor 12. 28; Ef 1. 22) og á himnum (Heb 12. 23). Því hefur kirkjan talað um hinn stríðandi líkama eða kirkju á jörðu og hina sigrandi kirkju á himnum frá upphafi. Náskylt sögnunum ekkaleo og ekklesia eru sagnorðin ekkleio, „að loka úti eða útiloka (Gl 4. 17; Rm). Einnig má minnast á aðra sögn, sagnorðið ekklino, „að snúa frá,“ að hafna (Rm 3. 12, 16. 17 og 1Pt 3. 11). Okkur er stundum hollt að íhuga heil. Ritningar með því að snúa okkur beint til sjálfs frumtexta Nýja testamentisins sem fræðimenn nefna Textus Receptus (hinn viðurkennda texta). Hann er varðveittur í bókasafni Vatíkansins.

Orðið kirkja þýðir þannig bókstaflega samfélag þeirra sem „útkallaðir“ eru úr heiminum til að þjóna Guði. Þeir lifa í heimunum án þess að vera af heiminum og lúta guðslögum, en ekki lögum höfðingja heimsins: Satans. Þeir eru vottar trúarinnar í heiminum:

Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi, og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem. Þér eruð vottar þessa“ (Lk 24. 45-48).

Fyrstu 40 árin í sögu kirkjunnar á jörðu höfðu guðspjöllin eins og við þekkjum þau í dag ekki verið færð í letur, Heilagur Andi hafði enn ekki blásið guðspjallamönnunum í brjóst að skrifa þau. Engu að síður höfðu frumkristnir menn fært ýmislegt í letur sem guðspjallamennirnir höfðu til hliðsjónar í skrifum sínum. Á þessu tímaskeiði lifði kirkjan á hinni lifandi arfleifð eins og postularnir höfðu þegið hana úr hendi Jesú sem lærisveinar hans og þeir vöktu yfir arfleifðinni eins og sjá má á fyrsta kirkjuþinginu í Jerúsalem árið 48, eða einungis 15 árum eftir að Drottinn var krossfestur. Auk hinna postulegu skrifa hefur fyrsta trúfræðslukver kirkjunnar eða Tólfpostulakenningin (Didache) verið færð í letur einhvern tímann á árabilinu frá 66-120. Önnur merkileg trúarkenningarleg heimild er bréf Barnabusar frá því um 130, svo að einungis fátt eitt sé nefnt. Þegar kirkjan vegur og metur sannverðugleika kenninga Drottins Jesú Krists, þá styðst hún bæði við sjálf guðspjöllin og erfikenninguna: Hina heilögu arfleifð.

Meðan Drottinn dvaldi enn meðal okkar á jörðu fól hann samfélagi sínu – kirkjunni – mikið vald á hendur: Valdið yfir lífi og dauða sálnanna:

Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni (Mt 17. 18-19).

Og enn og aftur:

Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað“ (Jh 20. 23).

Þetta er hið postullega vald kirkjunnar. Hver sem skírist til nafns Drottins Jesú og drýgir synd fær fyrirgefningu synda sinna ef hann játar hana og iðrast gjörða sinna. Það er vikið að slíkri iðrun í guðspjöllunum með koinasögninni ekklino hér að ofan, „að snúa frá,“ eða „hafna“ fyrri breytni sinni til að verða aðnjótandi náðar Krists að nýju. Þetta gildir um alla kristna menn, hér er engin undantekning gerð á.

Svo er um önnur samfélög að ræða sem gera kröfur til þess að kallast „kirkjur,“ en boða allt aðra kenningar. Slíkar „kirkjur“ urðu að uppsprettu mikilla hugvillna mennskra hugsmíða í upphafi tuttugustu aldarinnar þegar íslenska kirkjan losnaði úr tengslum við dönsku kirkjuna: Þær boðuðu andatrú (spíritisma) og miðilsstarfsemi. Þannig villtu þær um fyrir þjóðinni. Hugvillur þessara mennsku hugsmíða náðu einnig til lútersk evangelísku kirkjunnar á Íslandi, og það svo mjög að skömmu fyrir miðbik s. l. aldar urðu nokkrir trúfastir þjónar hennar að stofna „Samtök rétttrúaðra presta“ til að standa vörð um trúarsetningar kristindómsins.

Enn í dag eru þessar sömu „kirkjur“ uppspretta mikillar villu þegar þær boða að kristnir menn þurfi ekki að iðrast sökum breytni sinnar. Enn að nýju nær þessi falsboðskapur langt inn í raðir þjóna hinnar lútersk evangelísku kirkju. Ef til vill verður nýju lífi blásið í „Samtök rétttrúaðra presta?“ Hver veit, það mun framtíðin leiða í ljós vegna þess að hlutverk kristinna presta er að bjóða „öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda.“

Þróunin á undanförnum mánuðum nú fyrir komandi kosningar á næsta ári er sú, að þeir stjórnmálaflokkar sem boða stefnu sínu með afdráttarlausum og skírum hætti og undanbragðalaust virðast auka fylgi sitt til muna meðal kjósenda. Gefi algóður Guð okkur náð til þess að tær og hljómfagur boðskapur fagnaðarerindisins nái til sem flestra á sömu forsendum.

Kirkjan er samfélag þeirra sem kallaðir hafa verið út úr samfélagi guðsafneitunar veraldarhyggjunnar sem á fornum tímum á tímaskeiði frumkirkjunnar var kallað HEIÐINDÓMUR.

Sem kaþólskur maður segi ég hins vegar afdráttarlaust: Snúið ykkur einfaldlega til Móðurkirkjunnar þar sem þið öðlist kjötmeti trúarinnar, en ekki mjólk ætlaða ómálga börnum.

7 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Það er gaman að sjá þig fjalla með svo frjóum hætti um þessi hugtök, ekkaleo og ekklesia, sem við ræddum í stuttu símtali í gær. Sjálfur var ég einmitt að skrifa öðrum vinum mínum um þetta sama í nótt og sagði þar: “Orðið ekklesia hefur þá merkingu (úr ‘ekkaleo’: ég kalla frá; kalla saman), að kirkjan sé kölluð úr því, sem heimsins er (heimshyggjunni – eða veröldinni sem guðvana eða vegvilltri), eða úr þjóðunum (eins og Abraham og Ísrael) og til samfélags um það sem Guðs er.”

06.09.06 @ 10:49
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég hreifst af hugleiðingu heil, Bernhards sem fylgir Ritningarlestri dagsins. Fögur orð og djúpvitur, enda ekki við öðru að búast á þeim bænum.

06.09.06 @ 11:04
Athugasemd from: Aðalbjörn Leifsson
Aðalbjörn Leifsson

Þeir sem boða andatrú og annan Krist en við þekkjum eru óvinir Guðs. Ég þori að fullyrða það að Hjörtur Magni er ekki vinur Guðs þvert á móti. Sumir prestar boða villutrú og Gyðingahatur, hef ég heyrt, ég veit að margir prestar tilheyra frímúrarareglunni, einnig katólskir menn eru þar, það veit ég. Guð blessi ykkur bræður í nafni Krists Jesú. Amen.

06.09.06 @ 14:29
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Aðalbjörn, ég er ekki talsmaður Hjartar Magna og þekki hann ekkert, hef reyndar andmælt málflutningi hans á einu sviði, en ég mótmæli samt þeirri fullyrðingu að hann sé ‘ekki vinur Guðs’. Gleymum ekki dæmisögunni um miskunnsama Samverjann. Hjálpin kemur gjarnan úr þeirri átt sem við væntum hennar síst. Til er góðviljað fólk sem í raun vinnur verk Krists þó það játi ekki trú á hann - eða játar trú á hann á annan hátt en við gerum og leitast við að finna sannleikann samkvæmt sannfæringu sinni. Við skulum virða þessa þrá fólks til að breyta eftir eigin sannfæringu og forðast ummmæli um nafngreinda einstaklinga með þessum hætti.

Málefnaleg umfjöllun er það sem óskað er eftir hér. Af þeirri sömu ástæðu mótmæli ég líka fullyrðingu þinni um Gyðingahatursboðun presta - tel hana fráleita og að hún styðjist ekki við neinar áreiðanlegar heimildir.

06.09.06 @ 16:30
Athugasemd from: Aðalbjörn Leifsson
Aðalbjörn Leifsson

Kæri Ragnar, þegar þú talar um miskunsama Samverjann þá kemur mér í hug saga sem ég heyrði fyrir nokkrum árum. Ég var vistmaður á drykkjumannahæli í Reykjavík sem hét Teigur, á þessum tíma var ég ekki trúaður og hataði allt og alla og sérstaklega þá sem kristnir kölluðust. Þarna var stúlka ein sem var afskaplega illa farin á sál og líkama, ég veit ekki hvort hún er lífs eða liðin í dag, en hún sagði mér að hún hefði margoft farið upp á Landakot til Katólsku prestanna þar og þeir gáfu henni föt mat og peninga og báðu fyrir henni. Mér þótti þetta mjög merkilegt vegna þess hvernig kona hún var en þeir prestarnir horfðu ekki á ástand hennar heldur á hjarta hennar, þeir sáu að hún var ekki vonlaus, hún hafði von. Þessi saga grópaðist inn í mig og ég hugsaði með mér: er til eitthvað gott fólk í Katólsku kirkjunni? Já það eru margir góðir þar. Orð til ykkar bræður frá mér: Hósea 10:12 og þökk fyrir að hjálpa þeim sem minna mega sín. Guð blessi ykkur.

06.09.06 @ 19:12
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér, Aðalbjörn, þessa frásögn þína ásamt þínum góðu orðum í garð prestanna í Landakoti. Og blessunarbæn þína met ég mikils.

06.09.06 @ 21:33
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Fólk sem hefur andlega speki til að bera dæmir anda þess sem á hlut að máli með hliðsjón af heilagri Ritningu. Það hyggur að því hvort orð hans séu til samræmis við vilja Guðs. Með þessum hætti kemst það að niðurstöðu um hann – hl. Serafim frá Sarov.

06.09.06 @ 21:34