« Bróðir spyr kristinn bróður um leiðinaTrúarleg ljóð eftir Ólöfu frá Hlöðum »

22.06.08

  12:47:11, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 841 orð  
Flokkur: Úr lífi og starfi kirkjunnar, Kaþólskir Íslendingar

Tveir kaþólskir prestar okkar látnir

Skyndilega, í sömu vikunni, eru tveir af fremstu mönnum meðal presta okkar á seinni hluta 20. aldar burt kallaðir. Þeir eru séra Sæmundur Vigfússon og séra Georg (f. August George), sá síðarnefndi þjóðkunnur sem skólastjóri Landakotsskóla um 34 ára bil, 1964–98, en einnig sem staðgengill biskups frá 1969. Þeirra verður nú minnzt hér nokkrum orðum.

Séra Georg gegndi tvívegis starfi yfirhirðis kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, sem postullegur umsjónarmaður biskupsdæmisins árin 1986-88 (eftir andlát dr. Hinriks biskups Frehen) og 1994-95 (eftir andlát dr. Alfreðs Jolson biskups, unz dr. Jóhannes Gijsen tók við sem biskup). Frá árinu 1998 var séra Georg einnig fjármálastjóri biskupsdæmisins.

Séra Georg var öflugur þátttakandi í kirkjukór Kristskirkju og sístarfandi að hag hennar jafnt sem útliti og viðhaldi að utan sem innan. Hann hafði einnig í marga áratugi umsjón með sumarstarfi kaþólskra barna í Riftúni í Ölfusi, og er veran þar mörgum minnisstæð. Tók hann þar t.d. þátt í knattspyrnu og öðrum leikjum barnanna.

Fæddur var hann 5. apríl 1928 í þorpinu Wijlre í Limburg-héraði í Hollandi, fimmta barnið í hópi sex systkina. Hann gekk í drengjaskóla hinnar kaþólsku Montfort-reglu í Schimmert og síðar í prestaskóla reglunnar í Oirschot í Hollandi. Hann vígðist prestsvígslu 11. marz 1956 og var sendur til Íslands þá um haustið. Starf hans hér hefur því staðið óslitið í rúmlega hálfa öld. Eftir að hafa kennt við Landakotsskóla nokkur ár, tók hann við stjórn hans, eftir að séra Jósef Hacking lést árið 1964. Árið 1994 veitti forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, honum riddarakross fálkaorðunnar fyrir störf hans að fræðslumálum, enda naut skólastarfið og leiðsögn hans þá virðingar og viðurkenningar út fyrir raðir kaþólskra manna á Íslandi.

Séra Georg lézt að morgni mánudagsins 16. júní á Landspítalanum í Reykjavík, áttræður að aldri. Með honum er genginn síðasti eftirlifandi presturinn af Montfort-reglu hérlendis, en um aldarlanga sögu þeirra hér á landi frá 1903 má lesa á þessari fróðlegu vefsíðu kirkjunnar. Meðal Montfort-prestanna voru hinir mikilhæfu biskupar Marteinn Meulenberg (1929-41), Jóhannes Gunnarsson (1942–66) og Hinrik H. Frehen (1968–86; sjá nánar hér, með myndum biskupanna).

Sæmundur Fossdal Vigfússon var fæddur 27. janúar 1926 í Reykjavík. Foreldrar hans voru þau Guðrún Ólafsdóttir, f. 21. nóv. 1885 í Litluhlíð á Barðaströnd, d. 1.12. 1979, og Vigfús Þorkelsson, verkamaður í Reykjavík. Sæmundur hóf nám í Verzlunarskóla Íslands og stundaði svo almenn skrifstofustörf og síðar bókhald hjá Olíufélaginu hf. í Reykjavík 1946–53. Hann tók kaþólska trú 1947. Stundaði hann undirbúningsnám undir prestaskóla og því næst nám við Collegio de Propaganda Fide (háskólagarð útbreiðslu trúarinnar) í Róm 1954–62 og lauk prófi þaðan í heimspeki 1957 og í guðfræði 1962. Hann var vígður prestur í Róm 20. desember 1961, hinn þriðji í röð Íslendinga til að vígjast kaþólskri prestsvígslu eftir siðaskipti. Gegndi hann prestsstörfum í Castelgandolfo á Ítalíu (þar sem sumarsetur páfa er) í nokkra mánuði. Heim kominn var séra Sæmundur skipaður aðstoðarprestur við dómkirkju Krists konungs í Landakoti, en síðan prestur kaþólska safnaðarins í Hafnarfirði og sjúkrahúss St. Jósefssystra þar, í desember 1962. Síðar varð hann aftur aðstoðarprestur í Landakoti ásamt því að starfa við þýðingar messutexta úr latínu. Þótti hann mjög nákvæmur og vandvirkur við það verk.

Séra Sæmundur annaðist messuhaldið oft í Kristskirkju á fyrstu áratugum kirkjugöngu þess, sem þetta ritar, í Landakot. Voru predikanir hans jafnan vel hugsaðar, íhugunarverðar og settar fram á kjarngóðu íslenzku máli. Hann átti sinn drjúga hlut að þýðingu hins merka verks Tómasar á Kempis, Breytni eftir Kristi, og mun áhrifa hans því áfram gæta í kirkjunni hér á landi, meðan sú bók er lesin að verðleikum. Ýmislegt efni frá hans hendi má einnig finna í Merki krossins, tímariti kaþólsku kirkjunnar á Íslandi.

Svo virtur og vel metinn var séra Sæmundur, að hann þótti koma til greina sem eftirmaður Jóhannesar Gunnarssonar á biskupsstóli, en hálærður maður hollenzkur af Montfort-reglu, Hinrik Frehen, varð fyrir valinu. Margir nutu fræðslu séra Sæmundar í trúnemafræðunum og báru mikið lof á hann fyrir það. Hann var heimilisfastur lengst af síðustu áratugina í prestahúsinu við Hávallagötu, og þar var gott að hitta hann hressan að máli eins og jafnan í kirkjukaffi í safnaðarheimilinu, meðan heilsa hans leyfði. Hann var mikill fróðleiksbrunnur um kristin fræði og sögu fyrri alda og gæddur fáguðum húmor.

Séra Sæmundur lézt síðastliðinn miðvikudag, 18. júní, á hjúkrunarheimilinu Eir í Reykjavík, 82 ára að aldri. Ég, sem þetta rita, minnist hans af þakklæti, hlýju og virðingu.

Sálumessa séra Sæmundar verður í Kristskirkju á morgun, mánudag 23. júní, kl. 14, og séra Georgs í sömu kirkju á þriðjudag, 24. júní, kl. 14. Drottinn blessi þá og varðveiti – hans eilífa ljós lýsi þeim.

Viðauki 22. júní 2011: Nú hafa komið fram ásakanir á hendur séra Georg og kennslukonu í Landakotsskóla, en hún er einnig látin. Um þetta skal ekkert dæmt hér, enda ekki hlutverk ritarans að kveða upp neinn dóm, heldur skal vísað til nýlegra skrifa þar um hér á Kirkjunetinu. Það, sem var ef til vill óverðskuldað hól um hann í pistli þessum, í fáeinum setningum, hef ég nú skorið niður – vil ekkert fullyrða í þá átt fremur en hina. Læt ég þó bænarorð í lokin standa óbreytt, eins og gefur að skilja. Máttugur er Guð að veita miskunnsemi sína og fyrirgefandi náð, syndugum mönnum (eins og við öll erum) til líknar, jafnvel á lokadögum ævinnar, ef menn aðeins iðrast og endurnýjast í hjarta. – JVJ.

No feedback yet

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

multiblog