« Úr bænasjóði KarmelsHin Heilaga arfleifð »

24.01.06

  10:22:32, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 976 orð  
Flokkur: Bænalífið

Tvær undurfagrar Maríubænir

+Jesús, María!

Mig langar að koma hér á framfæri tveimur undurfögrum Maríubænum. Við í minni reglu (Karmelítareglunni) förum með fyrri bænina á hverjum morgni þegar við vöknum. Í sjö aldir hefur þessi bæn sem nefnist Flos Carmeli (Blómi Karmels) og var bæn hl. Símons Stock, aldrei brugðist þeim sem ákalla Guðsmóðurina með þessum hætti:

Ó, þú blómi Karmels, ávaxtaríki vínviður,
prýði himins, heilög og einstök, þú sem ólst
Son Guðs, þú sem ætíð ert hin flekklausa mey.
Kom mér til bjargar (í þessum vanda).
Ó, þú hafsins stjarna, kom mér til bjargar
og veit mér vernd þína! Sýndu mér að þú
sért móðir mín.

Ó, María! Getin án syndar, bið þú fyrir oss
sem leitum ásjár þinnar!

Móðir og prýði Karmels, bið þú fyrir oss!
Meyja, blómi Karmels, bið þú fyrir oss!
Verndari allra þeirra sem bera axlarklæðið,
bið þú fyrir oss!
Von allra sem deyja með axlarklæðið,
bið þú fyrir oss!
Heilagur Jósef og vinur hins Alhelga hjarta,
bið þú fyrir oss!
Heilagur Jósef, flekklaus eiginmaður Maríu,
bið þú fyrir oss!
Blíða hjarta Maríu, bjarga oss.

La madre fundadora, hl. Teresa frá Avíla, segir í Sögu lífs míns
að hún hafi ekki farið að taka framförum í vaxatartakmarki Krists fyllingarinnar (Ef 4. 13) fyrr en hún snéri sér til hl. Jósefs í bænum sínum. Skýring hennar var einföld en hnitmiðuð. Á jörðu leit Jesús ávallt á hl. Jósef sem pabba sinn, og hann var honum hlýðinn sonur, eins og hann hlýddi sínum himneska Föður. Á himnum verði hann þannig samstundis við bónum hl. Jósefs vegna þess að hann geti ekki annað en orðið við bónum hans. Sama gildir um Panhagíuna (hina Alhelgu), Guðsmóðurina.

Blíða hjarta Maríu, bjarga oss! Þannig ákalla bræður okkar og systur í Austurkirkjunni Guðsmóðurina einnig: Panhagia despoina Theotoke, sozon hymas! (Alhelga mey og Guðsmóðir, bjarga okkur). Í þeim klaustrum Austurkirkjunnar sem leggja rækt við Jesúbænina kemur hún í stað ákveðinna þátta í tíðagjörðinni. Þannig kemur samfélagið saman á kvöldin og ákallar hið ljúfa nafn í tvo tíma. Þetta kemur í stað kvöldtíðanna (completorium).

Iðulega kemur ákallið til Panhagíunnar í stað Jesúbænarinnar. Þannig er hún ákölluð 100 sinnum í senn á hnútabandinu (talnabandi Austurkirkjunnar): Panhagia despoina Theotoke, sozon hymas!

Heilagur Jósef og vinur hins Alhelga hjarta. Mig langar að segja ykkur frá ákalli til hins Alhelga hjarta Jesú sem ávallt er unnt að grípa til í erli dagsins og þegar illar hugsanir og freistingar sækja á okkur. Það er svona:

Alhelga hjarta Jesú, miskunn!

Þegar við öndum að okkur segjum við: Alhelga hjarta Jesú. Síðan nemum við staðar í hjartanu nokkur andartök, og segjum síðan með útönduninni: Miskunn! Þannig streymir miskunn hans yfir líkama okkar, sál og anda. Þetta hefur gefist mér, bersyndugum manninum, afar vel. Öll verðum við iðulega að kjósa á milli góðs og ills á pílagrímsgöngu okkar á jörðinni. Slík áköll hjálpa okkur til að ganga Veg lífs og hlýðni boðorða Drottins.

Þannig sjáum við hvernig hinir heilögu feður og mæður gripu til Ave Maria (Heil sért þú . . .) þegar á fjórðu öld. Þýskur guðfræðingur hefur þannig kallað Ave Maria Jesúbæn Vesturkirkjunnar. Jafn furðulegt og það kann að hljóma, hefur bænin varðveist nær orðrétt í hinni heilögu arfleifð í 1700 ár! Bænin er Kristlæg: Hinn flekklausa Mey er blessuðust meðal kvenna vegna þess að hún gaf Drottni líf af eigin holdi. Þetta er þungamiðja bænarinnar. Þetta er það sem við eigum öll að gera: „Verði mér eftir orðum þínum“ (Lk 1. 38). Þetta er það sem Meister Eckhart kallaði „hinn eilífa getnað Orðsins“ í mannssálinni. Jóhannes Páll páfi hafði guðfræði Meister Eckharts í svo miklum hávegum að hann skrifaði bók um inntak guðfræði hans, guðfræði sem sumir samtímamanna hans báru ekki skyn á.

Hin Maríubænin er ættuð úr Austurkirkjunni og er úr Hinni guðdómlegu helgisiðagjörð hl. Jóhannesar Chrysostoms og má sjá í messuhandbók Austurkirkjunnar:

ÁKALL TIL ÞEOTOKOS

Alhelga mey og Guðsmóðir, ljós minnar myrku sálar, von mín og vernd, skjól mitt, huggun og yndi. Ég þakka þér fyrir að hafa gert mig, alls óverðugan, þess umkominn að meðtaka heilagan Líkama og dýrmætt Blóð Sonar þíns. Þú sem barst hið sanna Ljós, upplýstu andlegt auga sálar minnar. Þú sem veittir uppsprettu eilífs lífs líf, veittu mér sem er dauður í syndum mínum líf. Þú sem ert hin náðarríka Móðir almiskunnsams Guðs, miskunna þú mér og glæddu með mér samúð iðrandi hjarta og auðmjúkt hugarfar. Leystu hugsanir mínar undan ánauðaroki þeirra. Ger þú mig þess umkominn allt til hinstu stundar, að njóta í flekkleysi hinna guðdómlegu Leyndardóma [efkaristíunnar] líkama mínum og sálu til græðslu. Veit mér tár iðrunar og eftirsjár svo að ég megni að heiðra þig og vegsama sérhvern dag lífs míns, sökum þess að þú ert blessuð og dýrleg um aldir alda. Amen.

Dýrð sé Guði Föðurnum í Syninum fyrir Heilagan Anda! (Hin forna og upprunalega Dýrðarbæn).

No feedback yet