« Pílagrímsferð til Maríulindar á SnæfellsnesiHvað geta kirkjur gert til að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi? »

01.07.11

  09:19:21, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 182 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Þungbært að fá nöfnin ekki fyrst frá kirkjunni

Í dag birti Fréttatíminn nafn Sæmundar F. Vigfússonar, prestsins sem liggur undir grun um kynferðisafbrot kynferðislega áreitni*. [1] Áður hafði sama blað riðið á vaðið og birt nöfn Georgs skólastjóra og Margrétar. Það er þungbært að fá ekki þessar slæmu fréttir og nafnbirtingar frá kirkjustjórninni fyrst. Almennt má segja að ef ætlunin er að byggja upp traust milli kirkjustjórnarinnar og safnaðarfólks þá verður kirkjustjórnin að láta safnaðarfólk njóta forgangs hvað varðar upplýsingar af þessu tagi. Það helgast af því að þau börn sem verið er að reyna að vernda í málum af þessu tagi eru velflest börn safnaðarfólks.

Það þarf að birta nafn/nöfn þeirra sem ásakaðir hafa verið, ásamt afsökunarbeiðni, einlægum huggunarorðum og upplýsingum um til hvaða ráðstafana hafi verið gripið. Einnig þarf að birta hvatningu um að fólk gefi sig fram og láti vita ef ske kynni að einhverjir fleiri búi yfir upplýsingum sem skipt geta máli.

Sama má reyndar segja um allt sem skiptir máli í starfsemi hennar. Safnaðarfólk á að fregna það fyrst frá kirkjunni og úr málgögnum hennar og miðlum en ekki úr almennum fjölmiðlum.

[1] Sjá bls. 2:
http://www.frettatiminn.is/images/uploads/tolublod/01_Juli_2011.pdf
* Leiðr. 2.7.2011.

13 athugasemdir

Athugasemd from: Sigurður Ragnarsson
Sigurður Ragnarsson

Í grein Þóru Tómasdóttur 1. júlí er séra Sæmundur heitinn sakaður um “kynferðislega áreitni,” en um hana er aðallega fjallað í 199. gr. almennra hegningalaga. Ekki kemur fram í hinni nýju frétt eða í Fréttatímanum 17. júní, hvort hann var á sínum tíma kærður til lögreglu, en þá hefði hann fengið tækifæri til að svara þar eða fyrir dómi. Fólk á að kæra, ef það telur illa brotið á sér, og það getur fengið leiðbeiningar frá lögreglunni og fleirum.

Hinn óafngreindi viðmælandi Þóru er sagður hafa farið 1997 og nokkrum sinnum síðar með kvörtun sína til kirkjunnar. Að jafnaði ríkir trúnaður um meðferð og úrlausn slíkra mála, sem er ekki geðþóttaákvörðun hverju sinni, heldur fyrirskipað í kirkjulögum (sjá til dæmis Can. 1455 og 1719), sem gilda í öllum löndum og eru reist á almennum sjónarmiðum. Ef Þóra blaðakona eða aðrir fá ekki öll viðtöl, svör eða skýrslur, sem þau óska, gæti þetta verið ástæðan.

Tvennt virðist aðallega ljóst:

1) Það stenzt engar kröfur að úthrópa fólk, sízt látið fólk, eftir ásökun frá einum manni, sem óháð gögn finnast ekki um. Fólk á í réttarríki ekki að þurfa að sanna sakleysi sitt, heldur á að sanna sekt þess í sérhverju máli gegn því: Ei incumbit probatio qui dicit, non qui negat. Meira að segja sá orðhvati Jónas Kristjánsson segir í kafla um eðli frétta á vef sínum: “Það er alger regla, að ekki má leyfa nafnlausum aðila að koma á framfæri gagnrýni á nafngreindan aðila.”

2) “Actus homosexualitatis suapte intrinseca natura esse inordinatos, neque unquam ullo modo approbari posse,” eins og Franciscus kardínáli Šeper sagði í bréfi 29.12. 1975. En séra Sæmundur, sem ég þekkti ekki neitt og hef enga skoðun á, verður í mínum huga að teljast saklaus af slíku, því að annað er að svo komnu ósannað.

Vingjarnleg kveðja.

01.07.11 @ 20:58
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Heill og sæll Sigurður og takk fyrir innlitið.

Þó við vitum ekki nafn þessa tiltekna aðila þá veit kirkjan það og miðað við frásögnina þá hefur hann ekki farið dult með auðkenni sitt heldur m.a. setið eða reynt að sitja fund með starfandi biskupi.

Ég held að kirkjan geti ekki látið regluna “saklaus uns sekt er sönnuð” verða leiðbeinandi viðmið í sínu starfi þó hún sé eðlilegt og sjálfsagt viðmið réttarríkisins. Kirkjan verður að setja sér hærra viðmið vegna þess að hún ætlar sér hlutverk sem gerir sérstakar kröfur. Hún ætlar sér það hlutverk að vera siðferðilegur leiðtogi allra manna og veita þeim sáluhjálp. Hún hvetur m.a. þjóna sína til fullkomnunar. Sá aðili sem ætlar sér þannig hlutverk getur og ætti að gera ríkari kröfur til þjóna sinna en þær að túlka vafann meintum gerendum í hag.

Það þarf að vera hægt að bera sérstakt traust til þjóna hennar, m.t.t. þess að þeir eru sálgæslumenn. Sálgæsla felur sjálfkrafa í sér að sá sem eftir henni leitar þarfnast stuðnings, skjóls og stendur stundum höllum fæti. Ég þekki ekki mikið til kirkjulaga en vona svo sannarlega að þau taki tillit til þessara atriða. Hugsanlega þarf að breyta þeim í ljósi þróunarinnar í þessum málum.

Góð kveðja sömuleiðis.

02.07.11 @ 05:22
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Leiðr. við aths. 02.07.11 @ 07:22 “heldur” í 1. málsgr. lesist “hefur".

Sem viðbótarinnlegg í þessa umræðu vísa ég á pistil frá í gær: http://www.kirkju.net/index.php/2011/06/29/hvae-geta-kirkjur-gert-til-ae-koma-i-veg-fyrir-kynfereisofbeldi?blog=8

02.07.11 @ 09:41
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég verð að taka undir þau almennu grunnsjónarmið sem Sigurður Ragnarsson setti hér fram á vandaðan hátt. Mér þykir þú hafa verið heldur fljótfær og ógætinn, Ragnar, í framsetningu ýmissa krafna í þessari umræðu.

Það vill svo til, að ég veit nafn mannsins, sem hér um ræðir, hann hringdi í mig á þriðjudaginn var. Vil taka fram, að mér virtist hann alls ekki ótrúverðugur í frásögn sinni, en um hugsanleg atvik get ég ekki dæmt út frá einu símtali.

Svo ber að minnast þess, að hvergi hefur neitt komið fram um ásökun mannsins yfir neinu öðru í málinu en þessu: 1) að viðkomandi prestur er sagður hafa ætlazt til þess margítrekað, að maðurinn, […] Friðriksson, afklæddist fyrir framan hann og 2) að til þess hafi presturinn neytt hann með hótun um að láta ella taka af honum þegar greitt fé fyrir veitta greiðsemi og ýmis viðvik, sem maðurinn hafði unnið fyrir prestinn (ekki af kynferðislegum toga). Hvergi kemur neitt fram um, að um snertingu milli þeirra hafi verið að ræða.

02.07.11 @ 09:53
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hvað þýðir þetta orð, Sigurður: suapte? Ég finn það ekki. Getur það átt að vera suacte (= suo ipso acto?)?

02.07.11 @ 12:33
Athugasemd from: Sigurður Ragnarsson
Sigurður Ragnarsson

Ég skil vel sjónarmið Ragnars um háleitt hlutverk kirkjunnar og réttmætar kröfur til þjóna hennar. Mér finnst hún á síðari árum reyna mjög að standa undir því. Til dæmis kom fram í yfirlýsingu Péturs biskups 17. júní, að hann hvatti manninn, sem kvartaði undan séra Sæmundi, “til að leita til yfirvalda vegna málsins, og myndi kirkjan veita alla þá aðstoð sem unnt væri til að upplýsa málið.” Væntanleg rannsóknarnefnd er annað dæmi, og vonandi tekst að samræma störf hennar ákvæðum kirkjulaga. Þriðja dæmið er væntanleg viðbrögð frá biskupum Norðurlandanna. Erlendis hafa prestar oft verið settir af og sviptir réttindum, biskupar jafnvel þurft að segja af sér vegna tómlætis. Stundum gerist slíkt ótrúlega hratt, eins og í hinu sorglega máli með fyrrverandi biskup í Þrándheimi, þótt sök hans væri löngu fyrnd að lögum, brotið aðeins eitt og ekki komið í hámæli. Ný ákvæði um prestaskóla eru gagnleg varðandi framtíðina. Meira máli en allt þetta skiptir, að hinir trúuðu sameinist í bæn og iðrun, biðji þar á meðal bæði fyrir þolendum og gerendum.

Nauðsynlegt er, að við reynum öll að fyrirgefa og sættast við hvert annað: vaxa í kærleika, hlýða Kristi og hugsa um sáluhjálp okkar. En dæmin að undanförnu sýna því miður, hvað það er stundum erfitt. Og nauðsynlegt getur verið, út af borgaralegri skyldu við meðbræður okkar, að taka frá breyzkum mönnum freistingar varðandi börn og sálgæzlu. Þess vegna kvað ég hér að framan fast að orði um kærur, þótt þær séu í mínum huga engin draumalausn.

Ps., Jón Valur: Sá fróði Immanuel Johann Gerard Scheller segir, að suapte þýði sua ipsius. Orðmyndin suopte ruglar þig kannski, sem þýðir suo ipsius.

Góð kveðja.

02.07.11 @ 13:40
Athugasemd from: Sigurður Ragnarsson
Sigurður Ragnarsson

Eitt atriði enn. VefÞjóðviljinn fjallar í gær um svipuð álitaefni og nú brenna á kaþólsku kirkjunni:

http://www.andriki.is/default.asp?art=01072011

02.07.11 @ 14:30
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sælir og takk fyrir innleggin.
Jón, viltu vera svo vinsamlegur að upplýsa mig um hvaða kröfur, fljótfærni og ógætni þú ert vísa til í innleggi þínu frá 02.07.11 @ 11:53.

02.07.11 @ 16:40
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Já, ég skal gera það, Ragnar, þegar betra færi gefst.

Þakka þér svarið til mín, Sigurður. Ég spurði, af því að ég var ekki með mínar latínubækur uppi við. Þakka þér líka uppbyggilega umræðu.

Málið, sem rætt er um á VefÞjóðviljanum (andriki.is) og Sigurður vísaði til, er um Dominique Strauss-Kahn, og reyndar er þar líka talað um íslenzk nauðgunarmál.

En hér er líka athyglisverður, en stuttur leiðari í Morgunblaðinu í dag:

Aðgátar er þörf

Umræða um mál sem snerta kynferðislega misbeitingu af margvíslegu tagi er mjög fyrirferðarmikil. Áður var fátítt að slík mál væru í opinberri umræðu. Það þarf alls ekki að þýða að margt misjafnt hafi ekki gerst og raunar er ástæða til að ætla að margur þolandinn hafi orðið að bera harm sinn í hljóði, svo ekki sé minnst á skaðann, líkamlegan sem andlegan, bæði stóran og smáan. Því er jákvætt að bannhelgin brotni. En svo vont og ljótt sem margt af því sem nú er rætt vissulega er réttlætir það ekki að allar leikreglur víki, þegar slík mál eiga í hlut. Í Stöð 2 var sagt að vegna umræðu sem snerti Landakotsskóla hefði kaþólski biskupinn á Íslandi beðist fyrirgefningar þeirra sem „kynnu“ að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni starfsmanna þeirrar stofnunar. Fréttamaðurinn sagði að þar með gæfi biskupinn í skyn að þeir sem borið hefðu fram ásakanir væru ekki að segja satt. Það er fráleit ályktun. Fréttamenn, sem aðrir, verða að sætta sig við að ásökunin ein dugir ekki til að sök sé sönnuð, ekki alvarleg sök fremur en önnur. Nauðsynlegur trúnaður við þá meginreglu felur ekki í sér neinn dóm um sannleiksgildi ákæru.

02.07.11 @ 18:04
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég sé ekki hvernig þetta síðasta innlegg sem varðar umræðu um umræðu tengist umræðuefninu hér beint Jón. Ég yrði þakklátur ef hér yrði fjallað um efni pistilsins sem er þetta:

“Þungbært að fá nöfnin ekki fyrst frá kirkjunni”

Þangað til annað kemur í ljós vísa ég órökstuddum ásökunum þínum um kröfur, fljótfærni og ógætni á bug.

02.07.11 @ 18:19
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Við vitum það báðir, Ragnar, að þú barst mjög fljótt fram kröfu (eða tilætlun/áskorun) um afsökunarbeiðni biskupsins, einkum HÉR, og það álitaefni ræddum við þar áfram. Þar virtistu taka Iðunni Angelu strax á orðinu, í stað þess að bíða þess, að meira kæmi fram um málið. Síðan þá hefur nokkur ónákvæmni óneitanlega komið í ljós í framburði hennar eða a.m.k. framsetningunni eins og hún var í Fréttatímanum, það hefur einkum hinn glöggi dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson bent á. Á ég að telja þetta upp? Jú, ætli ég neyðist ekki til þess.

1. Rangt virtist fullyrt í blaðinu, að faðir Iðunnar hafi klagað yfir sr. Georg í Hinrik biskup, því að klögunin mun hafa átt sér stað 1963, en hann kom hingað 1968.

2. Iðunn fullyrti, að sr. Georg hafi verið mjög loðinn á bringunni. Allt annað ber minnugur maður (VÖV) sem fór með honum í sund í Hveragerði ásamt öðrum Riftúns-börnum.

3. Og þetta virðist illa ganga upp (með orðum dr. Vilhjálms):

“Iðunn Angela er fædd 1951.
Faðir hennar fer á fund biskupsins árið 1963, ("sumarið áður en Iðunn byrjaði í gagnfræðaskóla"), og skömmu eftir að Iðunn segir foreldrum sínum frá hræðilegri reynslu sinni (heimild Fréttatíminn).
Sumardvalarheimilið Riftún opnar fyrst árið 1964, (heimilið var vígt 7. júní 1964).
Iðunn Angela er samt send þangað af foreldrum sínum (heimild Fréttatíminn). Kannski til að vera með séra Georg, kvalara sínum?” (Sjá hér.)

02.07.11 @ 20:46
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið og svarið Jón.

Það sem ég gerði var að taka undir kröfu Iðunnar Angelu en ég stend heilshugar við þá ákvörðun mína frá fyrstu stund.

Ég skil alls ekki hvað er athugavert í þessu og líkum málum við að biskupinn gefi strax út skilyrta beiðni um fyrirgefningu og afsökun eins og okkar góði Pétur biskup er búinn að gera og orða svo fagmannlega.

Ef þú kýst að kalla þetta fljótfærni í mér eða kröfugerð þá verður svo að vera. Ég er reyndar á þeirri skoðun að þessi afsökunarbeiðni hafi komið á elleftu stund svo að segja og hafi bjargað því sem hægt var að bjarga af heiðri kirkjunnar.

En fellum nú niður þessi álitamál hér. Þau geta haldið áfram á tilvísaðri vefslóð þinni. Mér þætti afar gott ef hægt væri að halda áfram með umræðuefnið sem er:

“Þungbært að fá nöfnin ekki fyrst frá kirkjunni”

02.07.11 @ 21:22
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér svarið, Ragnar. Ég hef verið á hlaupum inn og út úr húsi í dag og í kvöld, en vil aðeins geta þess, að ég ætlaði einmitt (en gleymdi) að nefna það, að lausn Péturs biskups á málinu var ekki einföld og alger afsökunarbeiðni (eins og sá ætti að bera fram, sem sekur væri), heldur skilyrt afsökunarbeiðni. Mér fannst þú í byrjun keyra nokkuð á það, að kirkjan bæðist afsökunar á þessum meintu eða líklegu atvikum og gerningum og það í hinni fyrrnefndu merkingu orðsins ‘afsökunarbeiðni’ (ekki þeirri síðari) og að hún tæki á sig alla ábyrgðina. Leið biskups er ekki svo róttæk.

02.07.11 @ 21:49