« Ritningarlesturinn 14. september 2006Ritningarlesturinn 13. september 2006 »

13.09.06

  10:17:16, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 716 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Þú breytir gráti okkar í gleðidans og gyrðir okkur fögnuði (sjá Sl 30. 12)

Sælir eru kristnir menn. Drottinn býr í kirkju sinni og Heilagur Andi opinberar okkur hann á hverjum degi og við fáum að sjá hann í hulu hinna helgu efna og bergja á heilögu blóði hans og nærast á holdi hans og sálin fagnar. Þegar hin helgu efni eru borin fram á altarinu opnast himnarnir því að hann er ekki einn á ferð. Enginn konungur fer í ferð án hirðar sinnar, síst af öllu þessi Konungur lífsins. Í sérhverri messu taka hinir heilögu tignarvættir þátt í lofgjörð altarisins eða eins og Heil. Hildigard frá Bingen sagði: „Þeir geta aldrei staðist himneska lofgjörð og því koma þeir.“ Dýrleg er sú birta sem ljómar fyrir andlegu auga kristins manns þegar himnesk birta streymir yfir altarið. Kirkjan er okkur því dýrmætur fjársjóður og náðargjöf sem Drottinn gaf okkur meðan hann dvaldi með okkur á jörðu í holdi.

Miklu best er þó þegar hann umbreytir hjörtum okkar í musteri sitt vegna þess að þá verður andi okkar að altari hans og hásætisstól. Og sálin ber skyn á ljúfleika Guðs síns og nýtur gæsku hans óaflátanlega í náðinni. En þegar hún finnur að náðin dvínar fyllist hún hryggð og verður harmi lostin vegna þess að hún missir sjónar af Ástmögur sínum og yndi. Þá úthellir hún tárum eins og Adam í garðinum og segir: „Hvar hefur þú hulið þig, Ástmögur hjarta míns, hvenær gefst mér að sjá þig aftur ljúfleiki minn og æðstu gæði?

Því gaf Drottinn kirkju sinni einnig hús iðrunarinnar þar sem sálin getur leitað sér skjóls í harmkvælum sínum. Á einni slíkri stundu þegar heil. Silúan upplifði fjarveru Drottins, sagði Drottinn við hann: „Láttu sál þína dvelja í víti og örvæntu ekki.“ Þegar heil. Silúan sá þann stað sem honum hafði verðið fyrirbúinn í víti sökum synda sinna fylltist hann gleði sökum miskunnar Guðs sem hafði forðað honum frá þessum stað eilífra harmkvæla og iðraðist ákaft synda sinna og náð Heilags Anda gerði sér aftur bústað í hjarta hans og grátur hans varð að gleðidans. Þetta er sökum auðmýktarinnar. Sá sem er lítlátur og auðmjúkur í hjarta elskar auðmjúka sál.

Hinn náttúrlegi maður syndarinnar, getur ekki borið skyn á inntak orðsins synd vegna þess að hann er andlega dauður. Orðið er dregið af orðinu sundrung, skírskotar til þess sem sundrar samfélagi okkar við Drottin. Í besta falli getur hann borið eitthvert skyn á syndina út frá siðrænu inntaki hennar. En hann fær ekki skilið að iðrunartárin opinbera hinum andlega manni þau sem veginn til Guðs sem græðir allt með andhverfu sinni, hann sem lætur lífið spretta upp af dauðanum og breytir tárunum í gleðidans. Því segir heilög Ritning að stærilætið sé falli næst.

Setjum okkur fyrir sjónir mann sem dvelur í framandi landi. Dag einn kemur bláókunnugur maður til hans og vill gefa honum flugfarseðil svo að hann geti flogið heim. Í hroka sínum og stærilæti bregst hann illa við, rífur farseðilinn og segir: „Ég get keypt mína eigin farseðla og flogið þangað sem ég vil þegar mér sýnist! Ég er enginn bónbjargarmaður og hef hingað til getað séð sjálfum mér farborða án þess að vera háður ölumusugjöfum annarra!“

Þannig bregst hinn náttúrlegi maður við náðargjöfum Jesú. Á degi sem nóttu, í hitasvælu og næðingi vetrarkuldans gengur hann hús úr húsi, úr þorpi til þorps, frá einni borginni til annarrar og úr einu landinu í annað og iðulega kemur hann að lokuðum dyrum. Þetta er hryggilegt vegna þess að okkar sanna föðurland er á himnum (Fl 3. 20) og eina lággjaldaflugfélagið sem flýgur þangað er Flugfélag Jesú – Jesus´Air Lines!

6 athugasemdir

Athugasemd from: Aðalbjörn Leifsson
Aðalbjörn Leifsson

Þakka þér fyrir þetta Jón Rafn, gott að lesa og hugleiða þetta.

13.09.06 @ 15:18
Steingrímur Valgarðsson

Þakka þér fyrir þetta Jón Rafn. Þetta er satt og rétt. Leiðinlegt hversu margir Íslendingar halda að þeir séu merktir með innsigli eilífðarinnar vegna skírnarinnar og fermingar. Halda svo að þeir skjótist inn í eilífðina á rakettu barnatrúarinnar. En barnatrúin sem svo margir íslendingar segjast eiga kemur manni ekki í himnaríki. Menn verða að taka við farmiða endurlausnarinnar sem fæst eingöngu við Krossinn, þar sem menn og konur geta orðið réttlát frammi fyrir Guði Föður fyrir blóð Krists. Sorglegt hversu margir sjá sjálfa sig ekki sem syndara. Fólk heldur að eigið réttlæti og góðu verk munu tryggja þeim sæti í himnaríki. Biblían líkir réttlæti mannsins við saurug klæði. Ég tel vandann liggja að stórum hluta í því að það er búið sumstaðar að “sykurhúða” boðskap trúarinnar og fólkið sem heyrir boðskapinn er ekki hvatt til iðrunar.
Kv Steini

13.09.06 @ 17:00
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Kæru bræður! Sífellt og endurtekið hef ég bent á helgun blóðsins á Fórnarhæð krossins í skrifum mínum hér á kirkju.net. Það mun ég halda áfram að gera hvar sem er meðan mér er ætlað að dvelja hér í hinni stríðandi kirkju á jörðu. Allur endurómar þessi sannleikur í orðum sjálfs Jesú:

Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi, og að prédika skulu í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefninga syndanna og byrja í Jerúsalem. Þér eruð vottar þessa“ (Lk 24. 48).

Kross Krists var og er og verður sá sami allt til endurkomunnar. Svo er um aðra votta að ræða, falsboðendur orðsins sem ekki eru vottar Krists.

Við sjáum þessa votta þegar í Postulasögunni í trúboði Páls postula. Páll fór um Kýpur og borgirnar tóku fullar gleði við fagðnaðarerindinu. Í kjölfar hans komu svo Gyðingarnar til að spilla prédikun hans.

Svo er enn á okkar dögum. Þegar í fornkirkjunni gerðist það að nafnkristnir menn urðu áhrifamiklir í kirkjunni. Þetta gerðist á árabilinu 413-500 þegar kristindómurinn var gerður að opinberri ríkistrú Rómaveldis.

Rómverskir embættismenn og fjölskyldur þeirra streymdu þá inn í kirkjuna og höfðu í för með sér afar óholl áhrif. Þetta sjáum við á neyðarópum kirkjufeðranna. Heil. Jóhannes Chrysostomos sagði: „Kraftaverkin eru hætt að gerast á okkar tímum í staðarsöfnuðum.“
Sama sjáum við í skrifum heil. Kýrillosar frá Jerúsalem sem þjónaði í kirkjunni frá því um 420 til 490. En í dag eru nafnkristnir menn vandræðagripir í öllum kirkjudeildum: afsláttarmennirnir sem leita málamiðlana við heiminn.

Því töluðu hinir heilögu feður um fyrsta og annað stig trúarinnar. Síðara stigið er hin lifandi trú Lífsins Anda (Rm 8. 2), trú hinna heilögu.

Drottinn áminnti okkur um þetta í dæmisögunni um hyggnu og fávísu meyjarnar. Þær fyrri höfðu helgandi olíu Heilags Anda í lömpum sínum, hinar ekki. Þeim var ekki boðið til brúðkaupsfagnaðarins.

Í dag, 14. september, fagnar kirkjan hinum heilaga krossi með upphafningu hans. Það er til að áminna hina trúuðu um að það var á Fórnarhæð krossins þar sem Drottinn friðþægði fyrir syndir okkar með því að líða píslir og úthella sínu heilaga blóði.

Hvað um hina vottana, þá ótrúföstu. Drottinn sagði:

„En hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem á mig trúa, væri betra að vera sökkt í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls. Vei heiminum vegna ginninga hans. Hjá ginningum verður eigi komist, en vei þeim manni, sem veldur“ (Mt 18. 6-8).

Allt er þetta sökum þess að þeir treysta á eigin hugsmíðar í stað þess að biðja Drottinn um að stinga fingrinum í eyra sér og mæla orðið effaþa!

Andatrú (spíritismi) og afneitun trúarsetninganna er fagnaðarerindi þessara falsboðenda og nú síðast kynlosti mennskra girnda,

En Drottinn sagði jafnframt:

„Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að Föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið“ (Lk 12. 32).

Það bendir til þess að hyggnu meyjarnar séu færri, en hafi ekkert að óttast.

14.09.06 @ 07:52
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Miklu fyrr en á fimmtu öld gerðist þetta, að nafnkristnir menn tóku að hafa spillandi áhrif á kristna söfnuði, sbr. m.a. gnostíkana.

14.09.06 @ 12:37
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Gnostíkerar rétt eins og fleiri voru hreinir og beinir villutrúarmenn. Vitaskuld var Júdas Ískaríot einungis nafnkristinn, svo að aðeins sé vikið að einu dæmi úr frumkirkjunni. En holskeflan kom í upphafi fimmtu aldarinnar þegar kristindómurinn varð að opinberri ríkistrú. Þá hafa fjölmargir einfaldlega gerst kristnir að „nafninu til“ af hreinum hagsmunaástæðum.

Þetta sjáum við greinilega í skrifum heil. Kýrillosar og hversu varkár hann er orðinn í orðalagi þegar hann skrifaði „Mystagoge“ líklegast um 485. Þá hafa nafnkristnir menn augljóslega verið komnir í safnaðarstjórnar í kirkjunum í Jerúsalem, þar á meðal hans eigin kirkju.

Hin stórelfdi vöxtur til reglulifnaðar sem hófst um 350 og náði hámarki á fimmtu öld bendir eindregið í þá átt, að sannkristnum körlum og konum var nóg boðið. Þannig var Gregoríos frá Nyssa hrakinn í útlegð til Jerúsalem þar sem hann varð að dvelja í tíu ár sökum aríanismans sem fór eins og eldur um sinu um alla Kappadokíu.

Ég vil bæta við og leggja áherslu á:

Hið sanna andlega líf er ekki að finna á sviði mennskra hugsmíða, það er einfaldlega áþreifanleiki og opinleiki að inntaki. Hið sanna samfélag við Guð er einungis unnt að leita í persónulegri bæn til persónulegs Guðs. Sönn andleg reynsla kristindómsins er samfélag við Guð sem er að öllu leyti frjáls og hvílir því ekki einungis á mennskri viðleitni og vilja, eins og verður á vegi okkar í reynsluheimi þeim sem stendur utan kristindómsins og meðal nafnkristinna manna.

Ég bæti við orðum Sophronij arkimandríta í umfjöllun hans um Silúan starets:

Þegar Kristur vitraðist Silúan starets var um persónulegt stefnumót að ræða og því einkenndist samfélag hans við Guð af persónulegu inn­taki. Þegar hann bað ræddi hann auglitis til auglitis við Guð. Þegar við upplifum Guð sem persónu hreinsar það bænina af öllum draumsýnum og óhlutstæðum hugmyndum og gerir hana að lifandi samfélagi hið innra. Í hinni innri einbeitingu hættir bænin að vera „hróp út í tómið“, og andi okkar meðtekur og þiggur með því að hlusta. Þegar staretsinn ákallaði nafn Guðs, hvort sem hann greip til orðanna Drottinn, Faðir eða einhverra annarra, var hann hrifinn upp til sviðs ósegjanleika „sem engum manni er leyft að mæla (2Kor 12. 4). Einungis sá einn sem upplifir nærveru lifandi Guðs ber skyn á slíkt.

Þetta er hin lifandi trú hinna heilögu feðra og mæðra kirkjunnar sem þau hafa fært okkur sem dýrmæta arfleifð.

14.09.06 @ 13:09
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Frábær hugleiðing! Ég hélt raunar að ég væri að lesa miklu lengri tilvitnun í hl. Hildegard en áttaði mig svo við annan lestur að tilvitnunin var stutt og þetta var mest þinn texti.

14.09.06 @ 18:18