« „Jólin eru hátíð hinnar endurreistu sköpunar“Merki krossins 2. hefti 2007 er komið út »

21.12.07

  08:29:02, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 545 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni, Kaþólska kirkjan á Íslandi, Önnur trúarbrögð

Trúin og skólinn

Á bloggsíðu séra Svavars Alfreðs Jónssonar sóknarprests í Akureyrarkirkju hafa nýverið spunnist talsverðar umræður um presta og heimsóknir þeirra í leik- og grunnskóla landsins. Sjá hér: [Tengill]. Sitt sýnist hverjum eins og gjarnan vill verða þegar umræður um skólamál eru annars vegar. Í stuttu innleggi sem ég lagði fram í athugasemdakerfinu þá kom ég því sjónarmiði á framfæri að umræðan snérist fyrst og fremst um skólamál þ.e. hvað eigi að gera í skóla og hvað ekki.

Allir starfa þessir skólar eftir fyrirmælum um það hvernig starfi skólans skuli háttað og þessi fyrirmæli eru sett fram í námsskrám frá Menntamálaráðuneytinu og skólanámsskrám sem skólarnir hafa mótað sjálfir. Þetta eru því fyrst og fremst deilur um námsskrá og starfshætti skóla. Það er fyrst hin síðari ár sem skólar hafa fengið frelsi til að móta eigin skólanámsskrá - og þeim ber að gera það en ef til vill og trúlega hefur sú vinna ekki skilað sér nægjanlega inn á svið trúmálanna enn sem komið er.

Nú er hægt að taka undir það með kristnum foreldrum að börn þeirra eigi rétt á að fá að ástunda trú sína í leikskólanum, á sama hátt er hægt að taka undir það með trúleysingjum að börn þeirra fái að vera án trúarþátttöku á leikskólanum. En málið er að erfitt er að gera svo öllum líki þó hægt sé að hugsa sér að trúfélög eða lífsskoðanafélög reki sérstaka skóla - það verður kannski raunin síðar en þó hefur t.d. kaþólska kirkjan rekið bæði leikskóla og grunnskóla hér á landi.

Hvernig hægt verður að þjóna trúarlegum þörfum eða trúleysisþörfum barnanna verður að vera verkefni skólastjórnendanna til að setja fram í skólanámsskránni og það er alls ekki útilokað að þeim takist að leysa þau mál með farsælum hætti ef málið er skoðað vel og gefin er út stefna skólans í trúarlegum málefnum. Vel er hægt að hugsa sér að skipuleggja bænastundir með kristnum börnum og börnum múslima, jógastundir með þeim sem það kjósa eða heimspekistundir með þeim sem það kjósa. Hugsanlega kjósa einhverjir foreldrar að velja allt, þ.e. láta börnin biðja bænir með þeim kristnu, stunda hugleiðslu eða læra um veraldlegar heimspekikenningar. Það ætti að vera létt verk fyrir leikskólastjórnendur að haga því starfi þannig að engum finnist hann vera útundan. Það er reyndar alvanalegt að ekki séu allir eins á leikskólanum, sumir geta ekki farið út af einhverjum ástæðum, sumir mega ekki borða allan mat o.s.frv. Allt er þetta hægt að leysa ef unnið er í málunum og hlutirnir útskýrðir fyrir krökkunum.

Sjá: http://svavaralfred.blog.is/blog/svavaralfred/entry/393572/, athugasemd frá undirrituðum 20.12.2007 kl. 20:54

No feedback yet