Heilagur Jóhannes af Krossi, vegvísir kærleikans »

27.01.20

  13:01:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1801 orð  
Flokkur: Philumena

Trúfræðsla „Faðir vor"

"Faðir vor"

Með skírninni erum við innlimuð í líkama Krists, kirkjuna og öðlumst þar með barnarétt sem systkini Jesú Krists. Með fermingunni staðfestum við trú okkar og vilja til að breyta í samræmi við vilja þess Guðs sem við köllum Föður okkar. Enda þótt við séum sköpuð í mynd hans erum við endurreist til líkingar við hann með náð, og við verðum að bregðast við þessari náð með því að haga okkur sem synir eða dætur Guðs. Barnarétturinn, sem er frí gjöf, krefst þess af okkur að við tökum stöðugum sinnaskiptum og lifum nýju lífi.Sá sem elur í brjósti sér miskunnarlaust og ómannlegt hjarta getur ekki kallað Guð allrar gæsku Föður sinn, því sá hinn sami hefur ekki lengur auðkenni himneskrar gæsku Föðurins. Það er hið auðmjúka treystandi hjarta sem gerir okkur kleift að biðja í samfélagi við Krist til Himnaföðurins með ávarpinu "Faðir vor". Þetta nafn vekur í okkur kærleikan og tiltrú að öðlast það sem við erum í þann mund að biðja um. (Tilvísun: Hl. Ágústínus, De serm.Dom.in monte 2, 4, 16: PL 34, 1276)

"Þú sem ert á himnum"

Þetta biblíulega orðalag "á himnum" táknar ekki stað (rúm), heldur tilveru, það vísar til samfélags hinna hjartahreinu, hinna hólpnu eða heilögu. Þetta samfélag eða föðurhús" á himnum" er hið endanlega föðurland þeirra sem hólpnir eru. Með því að úthýsa syndinni, sem ávallt ber hinn illa ávöxt óhamingjunnar, erum við smám saman að byggja okkur bólstað í sæluríki Guðs. Þannig mætti segja að "himnaríki" hefjist ekki við dauðann, heldur í  jarðnesku lífi hins hjartahreina. Þótt hið veraldlega bregðist okkur, gefst okkur kostur á með eftirbreytni eftir Kristi að upplifa þegar í þessu lífi hinn góða ávöxt kristins lífernis og gildismats," hamingjuna", sem felst í öryggi, von, gleði og friði. Sá einn getur með réttu beðið "Faðir vor, þú sem ert á himnum" sem vegna trúfestu er meðvitaður um að Guð sé þegar búin að taka sér bólfestu í hjartanu. Sá trúfasti hefur brugðist við kalli Guðs til góðra verka og því búið Honum heilagt musteri í hjarta sínu. Þess ber því að gæta að þótt kristnir menn séu holdi klæddir, ber þeim ekki að lifa samkvæmt holdinu, heldur í samræmi við andann sem í holdinu býr --vera Guði trú allt til dauða og þar með  kenningum þeim sem Postulunum og þeirra eftirmönnum var uppálagt að boða af Kristi sjálfum í orði og verki. Þær kenningar hafa haldist í samræmi við frumkirkjuna innan kaþólsku kirkjunnar, sem Kristur sjálfur stofnaði, tilnefndi og skipaði undir vald fyrsta Páfans Pétur Postula:. Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast..... (Jh 1:42; Mt 16:18-20). Ef við hagnýtum okkur þetta hjálpartæki, kenningar kaþólsku kirkjunnar, sem Kristur heitir að verði öllum trúföstum mönnum til bjargar allt til endurkomu Hans, þá er leiðin greið að loka takmarkinu--að gerast þegnar í himnaríku um alla eilífð í samfélagi við Guð og alla aðra kærleiksríka menn sem keppt hafa að sama marki. Með Kristi og Hans leiðsögn sigrumst við á öllu mótlæti sem okkur kann að henda í veröldinni, í skjóli Hans sköpum við okkar eigið himnaríki á jörðu þar sem ekkert skiptir máli nema endalokin sem engin getur umflúið en allir geta umbreytt með trúfestu í orði og verki. 

"Helgist þitt nafn"

Þetta ákall er lofgjörð sem beinist að því að nafn Guðs megi ávallt vera mönnum heilagt. Með því að skapa manninn í sinni líkingu krýndi Guð hann "með sæmd og heiðri," en maðurinn syndgaði og "skortir því Guðs dýrð." (S1 8:6;Rm 3:23;sbr. 1M 1:26) Frum-foreldrar okkar, Adam og Eva, féllu í þá freistni að vilja verða sem Guð --settu sinn vilja gegn vilja Guðs með því að óhlýðnast fyrirmælum Hans. Afleiðingin varð erfðasyndin, hin fallna náttúra mannsins, sem gerir það að verkum að eðlishneigð mannsins beinist að sjálfselsku. Eftir að maðurinn hins vegar var uppvakinn í Kristi og nafn Hins heilaga Guðs opinberað í Syninum, í holdinu, sem Frelsara, öðlaðist maðurinn lifandi fyrirmynd hlýðni í stað hins kalda bókstafs lögmálsins. Þessi lifandi fyrirmynd, sem helgaði sig fyrir okkur svo við séum einnig helguð í sannleika, auðveldar manninum að endurreisa þá ímynd sem hann í upphafi var skapaður til að gegna. --að yfirbuga sjálfselskuna og rækta með sér skilyrðislausa ást --kærleika til Guðs, og vina jafnt sem óvina. (Jh 17:11, 19) Holdtekja Krists boðaði þannig þau stakkaskifti á hinum kalda lagabókstaf, sem Gyðingum var boðið að fylgja og hinum lifandi syni Guðs, sem þjónaði því hlutverki að gerast fyrirmynd þeirra sem í Hans anda lofa nafn Guðs og þjóna honum einum. "Helgist þitt nafn" er lofgjörð til Guðs föðurins og áminning Krists um að við leitumst við að verða heilög og hæf til himnavistar. "Verið heilagir eins og Faðir yðar á himnum er heilagur," segir Kristur. (Kólossubréf 3:1-189. Í skírnarvatninu erum við "laugaðir...helgaðir" réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists og fyrir Anda vors Guðs." (1Kor. 6:11) Í öllu lífi okkar erum við kölluð af Föður okkar til heilagleika og það er Honum "að þakka að við erum í samfélagi við Krist Jesúm. 

Komi þitt ríki

Ríki Guðs er ríki þeirra sem tilbiðja hinn þríeina Guð: Föðurinn, Soninn og Hinn Heilaga Anda. -Það er ríki þeirrar Heilögu Þrenningar sem við biðjum að komi og verði að veruleika við endanlega komu ríkis Guðs með endurkomu Krists til jarðar --ríki réttlætis friðar, og fögnuðar. En það skírskotar einnig til að í raun hefur ríki Guðs verið að koma allt frá boðskap Krists, sem kveður á um að: "Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd. Gjörið iðrun og trúið fagnaðarerindinu" (Mk 1, 15) Við síðustu kvöldmáltíðina staðfesti Kristur að tíminn væri fullnaður og að Guðs ríki hinna trúföstu væri í nánd: Hann væri og myndi ávallt vera mitt á meðal okkar allt til enda veraldar í evkaristíunni, sem við meðtökum í Heilagri Messu þ.e.a.s.  líkama, blóð, sál og guðdómleika Jesú Krists undir ásjónu brauðs og víns. Við sem enn lifum á tímum úthellingar Heilags Anda erum fyrir tilstuðlan Heilags Anda kölluð til leggja okkar að mörkum til að beita okkur fyrir því að lifa svo að við getum með hreinum huga og óttalaust beðið "komi þitt ríki". Með því að fylgja sæluboðunum (Ég trúi bls 132) gerumst við virkir þátttakendur í endursköpun okkar til hins nýja manns sem hlýðir hinum fagnaðarríka boðskap Jesú.  

Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.

Faðir okkar á himnum "vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum." (1Tim 2:3-4) Þessvegna kennir Kristur okkur að leitast við að vilji okkar verði sem vilji Guðs Föðurs, sem ríkir á himni í samfélagi við hina heilögu og á því einnig að ríkja í hjörtum okkar ef við viljum teljast til Guðs barna og erfingja þess ríkis sem koma skal. Boðskapurinn um vilja Guðs er ekki langsóttur né torskilinn, hann er sameinaður í einu orði "kærleikanum" Í fyrsta lagi kærleikanum til Guðs, sem er algóður, og því ekki erfitt að elska Hann og í öðru lagi kærleika til allra manna. Þessi 2 kærleiks boðorð eru undirstaðan undir þeim friði og þeirri hamingju sem við strax á jarðríki búum okkur undir að njóta að eilífu. Og til áréttingar um annað boðorðið, sem okkur hugnast kannski ekki alltaf alveg eins vel, segir Hann: "Elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hver annan." (Joh. 13:34; 1Jh. 3; 4; Lk. 10:25-37) Takist okkur að halda þessi 2 kærleiksboðorð höfum við jafnframt haldið þau 10 boðorð sem Móse boðaði í GT og sem eiga að leiða mönnum fyrir sjónir hvað ber að varast til að syndga ekki gegn Guði. Í stað hins kalda bókstafs lögmálsins höfum við nú öðlast lifandi og holdi klædda fyrirmynd í Jesú Kristi sem sjálfur lét ekki deigan síga, en var trúr í hlýðni sinni við Guð föðurinn allt til dauða. Okkur til fyrirmyndar, sagði Jesú,  "Ég er kominn til að gjöra vilja þinn, Guð minn"...Og til frekari skýringa segir Páll postuli "og þótt hann Sonur væri, lærði (Jesú) hlýðni af því sem hann leið" líkt og við einnig eigum að læra af því mótlæti sem lífið óhjákvæmileg hefur upp á að bjóða. (Heb. 5:8) Með því að staðfesta trú okkar á Jesú Krist göngum við til liðs við Hann og gerum Hann að leiðarljósi okkar í viðleitni okkar til að þjóna kærleikanum í stað sjálfselskunni og að láta þar með alltaf gott af okkur leiða. Bænin er hjálpartæki okkar til að öðlast þennan nýja mann, en þó ber ávallt að gæta þess að orðin tóm megna lítils til að opna okkur dyr himneskrar sælu verkin eiga að staðfesta og fullkomna einlægni okkar í eftirbreytni eftir Kristi, líkt og Kristur sem kominn var til "að gjöra vilja Föður míns sem er á himnum" ekki bara í orðum heldur einnig í kærleiksverkum sem innsigluðu trúfestu Hans allt til dauða. (Mt. 7:21)

Vort daglegt brauð

"Gef oss í dag vort daglegt brauð" er ákall til Himnaföðurins, --bæn um  að okkur muni aldrei skorta neitt hvorki til líkama né sálar. Með þessari bæn er Jesú að áminna okkur á að þó að Himnaföðurinn elski okkur og Hans vilji sé að okkur skorti ekki neitt eins og góðu foreldri sæmir, þá ber okkur ekki að taka öllu sem sjálfsögðum hlut, heldur að biðja, því bænin kallar á þakklæti jafnvel fyrir það sem sjálfsagt er. Húsaskjól og fæði eru t.d. sjálfgefið í hugum margra barna, en samt er það ekki sjálfgefið að foreldrarnir geti ávallt veitt það eins og víða er dæmi um þar sem efnisleg gæði eru af skornum skammti. Því ber okkur öllum börnum sem fullorðnum að biðja og þakka jafnvel fyrir sjálfsagða hluti eins og hið daglega brauð eða hið daglega fæði. En til áréttingar um að biðja um og þakka jafnvel svo nauðsynleg gæði sem fæði, eins kemur fram í bæninni um daglegt brauð, þá minnir Kristur okkur einnig á andlegu hlið þessarar tilvitnunar í Faðirvorinu, nefnilega hið allra nauðsynlegasta, hið sanna keppikefli sem hefur forgang fram yfir allt hið efnislega, Guðs ríki, sem eitt getur veitt okkur þann styrk sem við þörfnumst til að þola þrengingar, allt annað er aukaatriði í samanburði við það að eiga trú á og styrk Heilags Anda, sem Guð sendir okkur til stuðnings þegar við biðjum. Skortur hvort sem er andlegur veikleiki eða efnislegur er okkur oftast til eflingar andlega, þar sem mótlæti en ekki meðlæti er aflvaki trúarstyrks okkar. Líkt og demantar sem myndast aðeins undan ógnar þrýstingi getur skortur eða mótlæti orðið okkur til eflingar í ásetningi okkar að eignast hlutdeild í Guðsríki og það eitt er andanum, sem lifir að eilífu, ómetanlegt. Þessu til áréttingar segir Jesú: Segið því ekki áhyggjufullir: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum við að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning." (Mt 6:31-34)  

Philumena

No feedback yet