« Abba Móse var að rjúfa föstunaÉg gerði nokkuð! »

19.03.08

  09:58:40, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 331 orð  
Flokkur: Prédikanir

Trúboðssunnudagur

……… Árið 1927, eða einungis tveimur árum áður en dómkirkjan í Landakoti var vígð, gaf þáverandi páfi út mjög einkennilega yfirlýsingu. Að minnsta kosti virtist hún einkennileg við fyrstu sýn. Páfi lýsti því yfir að heilög Teresa frá Lisieux — karmelnunna sem hafði varið öllum fullorðinsárum sínum í klaustri — væri himneskur verndari alls trúboðsstarfs í framandi löndum ásamt með heilögum Francis Xavier.

Heilagur Francis Xavier var að sjálfsögðu augljós kostur þess að vera himneskur verndari allrar trúboðsstarfsemi í framandi löndum, því hann fór til Austurlanda fjær og vann mikið og gott starf í trúboðslöndum. En það sama var ekki hægt að segja um heilaga Teresu frá Lisieux.

Lengsta ferðalag sem Teresa fór um ævina var pílagrímsferð til Rómar. Hvernig gat því hún sem var lokuð inni í klaustri öll sín fullorðinsár og kom aldrei til trúboðslanda, verið verndardýrlingur trúboðanna?

Það er ekki nema von að þessi yfirlýsing páfa hafi virst mjög einkennileg við fyrstu sýn. En þeir sem höfðu einhvern skilning á leiðum Guðs voru fljótir að átta sig.

Sem karmelsystir hafði heilög Teresa sýnt fram á, að það var hægt að vinna í þágu trúboðanna án þess að fara til þeirra staða þar sem þau voru stunduð. Það var þetta sem páfinn var að leggja áherslu á.

Starf sitt fyrir trúboðin innti heilög Teresa af hendi með sínum mörgu bænum og fórnum sem hún færði Guði í þágu starfsemi þeirra. Þetta sýnir okkur fram á, að jafnvel þótt við getum ekki farið til annarra landa til að breiða út fagnaðarerindið, þá getum við vissulega beðið fyrir starfsemi trúboðanna og fært fórnir í þeirra þágu. ………

No feedback yet