« Frásögn Brentano af fæðingu Drottins - heilagt innsæi eða tilfinningaþrunginn skáldskapur?Allra heilagra og allra sálna messur »

23.12.14

  10:49:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 552 orð  
Flokkur: Helgir menn, Kaþólska kirkjan á Íslandi

Þorlákur helgi - verndardýrlingur Íslands

Þorlákur helgi Þórhallsson.

Hl. Þorlákur

„Þorlákur biskup Þórhallsson hinn helgi fæddist á Hlíðarenda í Fljótshlíð árið 1133. Foreldrar hans voru Þórhallur Þorláksson bóndi þar og kona hans Halla Steinadóttir.

Skólanám stundaði hann fyrst hjá Eyjólfi Sæmundssyni í Odda. Hann gekk í munkareglu hl. Ágústínusar og tók sínar fyrstu vígslur ungur að árum. Síðar nam hann í París og einnig í Lincoln á Englandi og varði útivist hans í sex ár. Heimkominn dvaldi hann tvö ár með frændum sínum en varð þá príor í Kirkjubæ önnur sex ár og eftir það ábóti í Þykkvabæ í Álftaveri í sjö ár, er hann var valinn til biskups í Skálholti og gengdi því embætti a.m.k. í fimmtán ár. Þorlákur andaðist 23. desember 1193 sextugur að aldri". [1]

„Hann var svo var í sínum orðum að hann lastaði aldrei veður, sem margir gera. Hann kveið engu mjög nema Alþingi og imbrudögum, af því Alþingi að honum þótti margur maður þar verða villur vegar, en imbrudögum, að honum þótti það ábyrgðarráð mikið að vígja menn er til þess sóttu langan veg, og hann sá þá mjög vanfæra til. Hann söng hvern dag messu, bæði sér til hjálpar og öðrum og minntist í sífellu píningar guðssonar. Hann fastaði þá er hann var heima, vakti löngum um nætur og baðst fyrir. Hann var drykksæll svo ekki þraut drykki þá er hann blessaði í veislum. Hann lét kalla saman fátæka menn fyrir hinar hæstu hátíðir 12 eða 9 eða 7 og kom til leynilega að þvo fætur þeirra og þerrði síðan með hári sínu og gaf hverjum þeirra nokkra góða ölmusu áður á brott færi." [2]

„Hinn 20. júlí árið 1198 voru bein Þorláks tekin úr jörðu og skrínlögð. Páll biskup Jónsson lýsti því þá yfir á Alþingi að leyfilegt væri að líta á Þorlák sem helgan mann. Árið eftir lýsti Alþingi hann svo helgan mann. 14. janúar 1984 lýsti Stjórnardeild sakramenta og guðsdýrkunar í Páfagarði því yfir að Þorlákur helgi væri verndardýrlingur Íslands, með samþykki Jóhannesar Páls II. páfa. Undirbúningsvinna og frumkvæði að viðurkenningu á helgi Þorláks var aðallega í höndum Hinriks biskups Frehens og Ágústínusarmunksins Brian McNeill." [3]

Ekki er hægt að segja skilið við heilagan Þorlák án þess að minnast á Þorlákstíðir. Baldur Andrésson skrifar um þær á vefnum www.musik.is og segir þar m.a.:

„Á Þorláki biskupi helga var hér fyrrum mikill átrúnaður, og eru til um hann mörg kvæði og lesmál. Langmerkast af öllu því er tíðasöngurinn á Þorláksmessu eða hinar svonefndu Þorlákstíðir.Tíðasöngurinn er varðveittur í skinnhandriti í Árnasafni, og er það messubók frá dómkirkjunni í Skálholti. Textinn er allur á latínu og rímaður, en söngurinn er einraddaður og allur með nótum. Tíðasöngurinn er allur prentaður í þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar. Bjarni Þorsteinsson segir: „Söngur þessi er mjög merkilegur, ekki aðeins fyrir það, hve gamall hann er, heldur einkum fyrir hitt, að hann er orktur á Íslandi, eftir íslenzkum rímreglum og undir íslenzkum bragarháttum. Virðist því mjög líklegt, að lagið við tíðasöng þennan sé íslenzkt, tilbúið af einhverjum hinna kaþólsku klerka, og það því fremur, sem hvorki hefur tekist að finna textann né lagið í nokkrum útlendum nótnabókum frá þeim tíma".[4]

RGB tók saman.

Endurbirtur pistill sem birtist hér 22.12.2005, 23.12.2009, 20.07.2012 og 23.12.2013

Heimildir:
[1] Hreinn Erlendsson: „Þorlákssaga helga.“ Sérprent úr Árnesingi II. Útg. Sögufélag Árnesinga 1992.
[2] Jón Helgason: „Byskupa sögur.“ 2. hæfte.
[3] Ólafur H. Torfason: „Kaþólskur annáll Íslands.“ Handrit. Þorlákssjóður gaf út 1993.
[4] Baldur Andrésson: „Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist.“
http://www.musik.is

3 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Á þessum degi hl. Þorláks er við hæfi að minnast þess að útgáfa Þorlákstíða með Voces Thules fékk íslensku tónlistarverðlaunin á þessu ári í flokknum hljómplata ársins. Í umsögn um útgáfuna segir: „Vönduð og glæsileg útgáfa í alla staði og einstök heimild um tónlistariðkun Íslendinga á miðöldum. Flutningur Voces Thules er afar innlifaður og sannfærandi og hljóðvinnsla og umgjörð eins og best verður á kosið. Algert tímamótaverk og merkt innlegg í sögu þjóðar“. Þá hlaut sönghópurinn einnig sérstakar þakkir frá páfa vegna útgáfunnar. Sjá hér: [Tengill].

Heimild: http://www.iston.is/Index/tilnefningar/SIGILDOGSAMTIMATONLIST/

23.12.06 @ 13:36
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þessi stutti texti gaf læsilegt og gott yfirlit um lífshlaup Þorláks helga og góða innsýn í hans evangelíska líf, þ.e. líf samkvæmt fagnaðarerindinu. Hann hefur verið afar bænrækinn, fastað mikið og haft til að bera kristilega auðmýkt, eins og reglulegur fótaþvottur hans á fátækum um hverja stórhátíð sýnir (sem sé umfram þá reglu að gera það á skírdag), og miskunnsamur hefur hann verið við fátæka. Hann var þó ekki undirgefinn veraldlega valdinu, sem sjá má bæði á staðamálum hans og ummælum hans hér ofar um Alþingi: “Hann kveið engu mjög nema Alþingi og imbrudögum, af því Alþingi að honum þótti margur maður þar verða villur vegar …” Megum við kristnir menn í landinu ekki segja það sama nú, þegar við óttumst að þingheimur bæti gráu ofan á svart með því að leyfa tilraunir á fósturvísum, gera vændisrekstur og -kaup refsilaus, auka enn ofréttindi samkynhneigðra og ágang þeirrar stefnu á kirkjusamfélög, sem og að auka fremur en stöðva fósturdeyðingar?

Sonur minn heitir Þorlákur eftir þeim helga biskupi okkar; sjálfur tók ég mér dýrlingsnafnið Þorlákur við fermingu mína. Vona að hann biðji nú og til frambúðar fyrir mér og mínum, trúsystkinum okkar og þjóð.

Svo þakka ég Ragnari góða grein á þessum Þorláksmessudegi og óska lesendum öllum gleðilegrar jólahátíðar.

23.12.06 @ 15:14
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég þakka innlitið og góð orð Jón, jólakveðjur til þín og lesenda.

23.12.14 @ 10:54