« Karla-Magnúsar bænSéra Halldór S. Gröndal er látinn »

06.09.09

  20:53:08, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 629 orð  
Flokkur: Bænamál, Ýmis skáld, Kristindómur og menning, Kaþólskir Íslendingar

Torfi Ólafsson, sálmahöfundur og velgjörðarmaður kaþólskrar kirkju

Eins og Þjóðkirkjan hefur átt sálmakveðskap Sigurbjörns Einarssonar, sem óx fram með árunum og varð með því bezta sem sú kirkja hefur alið af sér í andlegum ljóðum og innilegri trúrækni, þannig eigum við kaþólikkar okkar Torfa Ólafsson, sem hefur um langt árabil auðgað kirkju sína að þýddum sálmum og frumsömdum trúarversum.

Það skal þakkað, sem vel er gert, og hvað má heita betra tilefni en hrifning á kirkjubekk við lestur eins af hans þýddu sálmum, og gott var að taka undir hann með öðrum í sömu messu nýliðins dags. En það er líka tilefni, að nú í vor, 26. maí, hélt Torfi upp á níræðisafmæli sitt, og er það höfðinglegur aldur sem hann ber með prýði, því að andlega hress er hann og fer flestra erinda sinna gangandi og heldur sér þannig við góða heilsu.

Oft hef ég mátt dást að kraftinum í eðlilegu, óupphöfnu máli hans, af sannri, íslenzkri rót, en þó 'graced' eða gætt þeim náðaranda sem gerir hið guðlega nærfærið manni á snertandi hátt. Alþýðlegt er orðfærið, eins og kannski Kristur hefði viljað, og vináttan við hann er líftaugin, og þar hentar þá ekkert orðskrúð, heldur einlægt tal manns við mann, þótt Guð sé sá um leið.

Textinn rennur jafn-eðlilega fram og lækur í frjálsum farvegi. Hvergi verður þess vart, að til 'rímorða' sé gripið til að bjarga ljóðforminu, heldur fellur þar allt í ljúfa löð innihalds og forms sem þjónar hinu fyrrnefnda fullkomlega og oft með svo einföldum hætti að hreint furðuverk má kallast. Þið sjáið dæmi þessa í eftirfarandi altarisgöngusálmi eftir Friedrich Spitta, sem Torfi hefur þýtt af sínu mikla listfengi og þó einfaldleik.

 

 • Lát þú mig, Drottinn, flytja frið
 • og fara' að vilja þínum.
 • Þín náð mér ávallt leggur lið
 • sem ljós á vegi mínum.
 • Mér Andinn helgi er við hlið
 • með öllum krafti sínum.

 

 • Þú tekur fús á móti mér,
 • að máltíð þinni kveður
 • þann manninn helst sem aumur er
 • og ekkert jarðneskt gleður.
 • Því krýp ég, Guð, og þakka þér 
 • sem þjóninn veika seður.

 

 • Veit þú oss kærleik, tryggð og trú
 • og traust á þínu orði,
 • svo breytni sú, er boðar þú,
 • frá böli mönnum forði,
 • og lömbin týndu leiddu nú
 • til lífs að þínu borði.

 

Með þakkarhug birti ég þetta, en væntanlega fleiri sálma síðar, því að Torfa Ólafssyni á ég mikið að þakka. Hann hefur verið sannur þjónn kirkju sinnar og Krists, gefið mikið af sér fyrir kaþólska söfnuðinn, leitt Félag kaþólskra leikmanna um mestallan þann tíma sem ég hef sótt kirkjuna (frá 1973) og ritstýrt Merki krossins, tímariti kirkjunnar, trúlega um jafnlangt skeið, og einnig Kaþólsku kirkjublaði (mánaðarriti) stóran hluta af útgáfutíma þess. Hann hefur þýtt margt fyrir kirkjuna og prestana, m.a. trúfræðsluritin Vegurinn, sannleikurinn og lífið (1981) og Kaþólskur siður (1995). Þá hefur hann verið helzti málsvari kirkjunnar í fjölmiðlum (m.a. oft tilkallaður til álitsgjafar í útvarpi og sjónvarpi) og aðallesari Kristskirkju næst á undan guðspjalli dagsins í hámessum okkar um áratuga skeið.

Allt væri þetta nóg til að halda uppi nafni hans í söfnuðinum, sem og það að hafa mátt njóta hlýrrar návistar hans, léttleika og kímni, en heppnasta hygg ég kirkjuna vegna þess bænamáls af anda hans, sem fann sér farveg í trúarsöngvum sem munu enduróma áratugum og vonandi öldum saman í Landakoti og í Guðshúsum víða um land – og í sem flestum kirkjum annarra trúarfélaga, vænti ég, rétt eins og við kaþólskir syngjum líka sálma Helga Hálfdánarsonar, Péturs Sigurgeirssonar, Sigurbjarnar Einarssonar, Páls Jónssonar í Viðvík, Hallgríms Péturssonar og annarra andans manna í hinni lúthersku Þjóðkirkju. Sjálfur hefur Torfi látið svo ummælt í mín eyru (miðlað hér eftir mínu skeikula minni, áratugum síðar), að þróun hans frá gamalli Þjóðkirkju-trúrækni til kaþólsku hafi verið sem eðlileg dýpkun og áframhald á ræktarsemi við hinn kristna trúararf fremur en sem bylting eða hefðarrof.

Heill sé Torfa Ólafssyni níræðum.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir þennan pistil Jón. Ég tek undir hvert orð og sendi Torfa afmæliskveðju. Hann ásamt séra Sæmundi kenndu mér margt varðandi málfar á árunum sem ég vann að Kirkjublaðinu. Það var mikill og góður skóli og ég bý að því ennþá að hafa unnið með þeim, lært að skoða hverja setningu og hvert orð og gæta að hvort eitthvað væri hægt að laga og betrumbæta.

07.09.09 @ 19:17
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir þetta innlegg þitt, Ragnar. Það voru góðir tímar þegar við sátum með Torfa í ritnefndinni.

07.09.09 @ 20:38
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blog soft