« Upplýst val og ættleiðingPáfi útnefnir patríarka Kaldeakirkjunnar í Írak kardínála »

03.07.08

  20:39:14, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 3483 orð  
Flokkur: Ýmsir höfundar, Bryndís Böðvarsdóttir

Tómasarguðspjall og hin guðspjöllin fjögur

Eftir Bryndísi Böðvarsdóttur

[Eftirfarandi pistill eftir Bryndísi Böðvarsdóttur birtist upprunalega á bloggsíðu hennar og er hann endurbirtur hér með hennar leyfi. Aths. RGB]

Tómasarguðspjall

Margir vilja meina það, að hið utan-kanónska guðspjall (utan Biblíulega) sem kennt hefur verið við Tómas postula Jesú, eigi fullan rétt á því að vera í Biblíunni eins og hin kanónsku guðspjöll 4 (Matt. Mark. Lúk. Jóh). Það Tómasarguðspjall sem við þekkjum í dag leit dagsins ljós í Nag Hammadí handritafundinum í Egyptalandi 1945 c.a. Það er ritað á koptísku, en hefur nú verið þýtt úr koptísku yfir á ýmis tungumál og þar á meðal Íslensku.

Menn urðu vissulega spenntir þegar þetta guðspjall uppgötvaðist. Töldu ýmsir menn að kominn væri „týndi hlekkurinn" sem veita mundi mönnum nýja innsýn í það hver hinn ,,sögulegi Jesú" var. Ritaðar hafa verið fjölmargar bækur um þetta guðspjall og dregnar margar ályktanir um áreiðanleika þess.

Vandinn er hinsvegar sá að það er ennþá ekkert sem sannar að Tómasarguðspjall sé ritað eftir Tómas lærisvein Jesú.

Engar tilvitnanir eru í heiti þessa guðspjalls fyrr en frá 3. og 4.öld e.k. Það er aðeins til eitt handrit af því í heild sinni skráð á koptísku 350 e.k. c.a. Í því handriti kemur fram breyting á orðavali og uppsetningu, sé það borið saman við eldri gríska textann sem talinn er vera frá 2.öld e.k. Sá gríski er hinsvegar aðeins til í handritabroti. Koptíska Nag Hammadí handritið gæti því allt eins hafa verið með öðru innihaldi en hið gríska.

Það sem hinsvegar er vitað um Nag Hammadí handritin í heildina, er að flest þeirra hafa afar gnostískar áherslur og sérkenni sem ekki er að finna í Ritningunni. Þessar áherslur er einnig að finna í Koptíska handritinu af Tómasarguðspjalli.

Viðureign kirkjufeðranna við Gnosta og aðrar hreyfingar sem kölluðu sig kristna

Trúarhópar gnosta kenndu sig við kristna trú en krydduðu hana með ýmsum mystískum kenningum og heimspeki. Kirkjufeðurnir gagnrýndu gnosta fyrir að hafa afbakað fagnaðarerindið. T.d. ritar Íreneus(c.a. 180) og Tertúllían (c.a.200) gegn villukenningum þeirra. Þeir gagnrýndu þá fyrir að falsa rit undir nöfnum postula og koma með sérkennilegar kenningar um Guð og fagnaðarerindið.

Sem dæmi um óhefðbundna biblíutúlkun gnosta og dóketista (en oft má sjá þessar kenningar skarast), má nefna að þeir trúðu að sköpunarguðinn væri illur Guð og allt annar en Guð Kristninnar. Hann hafði náð að fjötra mennina sem yrðu einungis frjálsir öðluðust þeir sanna, leynda þekkingu (gnosis). Eins er Kristur oft gæddur annarlegum karakter, sem ekki ber á í hinum kanónsku guðspjöllunum 4. (aðallega sérkenni dóketista) Hann er t.d. oft hlæjandi á augnablikum sem okkur mundi sjálfum finnast óviðeigandi. Sem dæmi átti Jesú að hafa sagt einum af lærisveininum frá því, að í raun hafi það verið Símon (þ.e. sá er bar kross Jesú) sem var krossfestur en ekki Jesú. Þá er sama lærisveini bent á hvar hinn raunverulegi Jesú stendur við krossinn og hlær, á meðan Símon hangir á honum kvalinn!

Það má eiginlega segja að Tertúllían og Íreneus, með því að vísa til postullegrar vígsluraðar, hafi náð að króa gnostana af. Tertúllían manar gnostana til þess að vísa í hina postullegu vígsluröð sinna trúarleiðtoga, allt aftur til þeirra postula sem þeir vildu kenna sig og rit sín við. Biskupar og leiðtogar hinnar dreifðu kirkju út um allt Rómaveldi, náðu að halda nokkuð góðu sambandi sín á milli og þekktu þannig postullegar vígsluraðir hvers samfélags um sig (eins og sjá má í upptalningum á þeim víða í kirkjusögu Eusebiusar 350 e.k c.a.). Postulleg vígsluröð fólst í því, að biskupar og helstu kennimenn kirkjunnar vissu hvaða menn það voru á hverjum stað, sem postularnir fólu að vera hirðar og taka við hinu postullega valdi að sínum líftíma liðnum og í fjarveru sinni. Eins vissu þeir hverjir tóku síðan við af þeim mönnum og svo koll af kolli eftir hinni svo kölluðu postullegu vígsluröð. Þetta hafa gnostarnir án efa ekki getað gert.

Auk þess voru reglulega haldin kirkjuþing, til þess að samræma kennsluna við hina upprunalegu kenningu postulanna og til þess að komast að niðurstöðu í guðfræðilegum álitamálum, út frá röksemdum hinna viðurkenndu kristnu rita eða hinni postullegu hefð.

Gnostarnir héldu þó starfi sínu áfram eitthvað fram á næstu aldir, en héldust sem minnihlutahópur innan kristninnar, enda boðuðu þeir afar sérkennilegt „fagnaðarerindi" og leynda þekkingu aðeins fyrir fáa útvalda, en það kemur skýrt fram í guðspjöllunum fjórum að fagnaðarerindið er fyrir alla. Eins voru trúarathafnir þeirra með afar mistískum hætti.

Þegar ég nefni aðeins gnosta er réttast að það komi fram, að í raun var um að ræða nokkrar kristnar hreyfingar sem ekki hlutu kenningarlegt samþykki kirkjufeðranna eða á kirkjuþingum. Þetta voru nokkur afbrygði af gnostum, aríusarsinnum og dóketistum sem komu með afbakaðar hugmyndir af fagnaðarerindinu, og sem kirkjufeðurnir sáu að samræmdust ekki guðspjöllunum fjórum í boðun sinni. Ég sjálf vel að vísa aðallega til gnostana, þar sem þeir gengu lengst í túlkunargleði sinni á fagnaðarerindinu. Auk þess bera mörg af Nag Hammadí handritunum þeirra sérkenni, en Tómasarguðspjall fannst þar á meðal.

Athuga ber samt, að þó svo að Tómasarguðspjall hafi fundist þar á meðal, þarf ekki að þýða að það sé beint afsprengi af kenningarsmiðju gnostanna. Ekki er samt ólíklegt, hafi áður verið til upprunalegt og réttmætt Tómasarguðspjall, að þeir hafi farið sínum höndum um ritið og breytt þar ýmsu til þess að veita sínum kenningum meðbyr.

Varðandi kenningarlegan áreiðanleika guðspjallanna fjögurra

(Matteusar-, Markúsar-, Lúkasar-, og Jóhannesarguðspjall)

Helstu heimildir um aldur þeirra er að finna í skrifum manna eins og Justins Martyr (c.a. 150). Hann nefnir Guðspjöllin fjögur eins og þau séu sjálfsögð og almennt viðurkennd sem kristið viðmið. Sama gerir Íreneus er hann telur upp hin viðurkenndu Rit innan kirkjanna (c.a. 180 e.k.). Íreneus nefnir þar Guðspjöllin fjögur sem eru í Biblíu okkar í dag.

Taki maður jafnframt mark á Kirkjusögu Eusebiusar fáum við þá niðurstöðu að öll ritin hafi verið rituð á 1.öldinni. Hann vísar í heimildir kirkjusagnfræðinga og kemur með beinar tilvitnanir í rit þeirra. Gallinn er bara sá að mörg þessara rita sem hann vísar til hafa glatast, líklega í ofsóknunum gegn Kristnum. Hinsvegar ef skoðaðar er tilvitnanir Eusebiusar í heildina, með tilliti til þeirra rita sem hann vísar til og enn eru til, ýmist sem sjálfstæðar einingar eða sem tilvitnanir annarra, þá er ekki að sjá að hann hafi neina tilhneigingu til þess að fara með fleipur.

Guðspjöllin fjögur og Pálsbréfin (auk annarra) eru því almennt talin vera skráð um miðja 1.öld e.k. eða í síðasta lagi 70 árum eftir dauða Krist (miðað við dauða Jesú c.a. 30 e.k.) og því snemma byrjað að vísa til þeirra sem kennivalds um hin ýmsu álitamál.

Íreneus, Tertúllíanus og Klemens frá Alexandríu (allir á 2.öld e.k) höfðu það sameiginlegt að telja eftirtalin rit vera almennt viðurkennd innan Kirkjunnar: Guðspjöllin fjögur (sem eru í Nýja testamenti okkar í dag), 13 Pálsbréf, Postulasöguna, 1.Pétursbréf, 1.Jóhannesarbréf og Opinberun Jóhannesar,

Það hafa þá líklega verið Jakobsbréf, 2. og 3. Jóhannesarbréf og 2. Pétursbréf og mig minnir Hebreabréfið, sem voru ekki þekkt af þeim öllum. Öll hin rit N.t. voru almennt viðurkennd af safnaðarhirðum kirknanna um þetta leiti. Þarna erum við að tala um að Rit Nýja testamentisins voru nánast í heild sinni þau sömu og við erum með í dag strax á miðri 2.öld, fyrir utan einhver örfá bréf sem deilt var um hvort væru raunverulega eftir Jóhannes, Pétur og Pál, og hvort þau mættu því fara í hið kristna Regluritasafn Nýja testamentið. Það voru því örfá af ritum N.t. eins og við þekkjum það í dag sem ekki var almenn fullvissa um, að gætu talist almennt viðurkennd allstaðar, alltaf og af öllum söfnuðunum, og þar með réttmætt eftir þann höfund sem þau eiga að vísa til.

Deilunni um einstök rit (önnur en þessi sem almennt viðurkennd á 2.öld), hvort þau ættu heima í regluritasafni Kristinnar trúar, lauk á 4.öld, með útgáfu hins kristna regluritasafns Biblíunni.

Innihald Tómasarguðspjalls borið saman við hið kanónska regluritasafn Nýja testamentið

Sé Tómasarguðspjall borið saman við þessar almennt viðurkenndu og upprunalegu heimildir trúarinnar sem urðu grundvöllurinn að regluritasafni okkar Nýja testamentinu, þá sér maður þónokkuð kenningarlegt ósamræmi. Lesi maður Tómasarguðspjall sjálfur, hafandi einhverja grunn þekkingu á boðskap Nýja testamentisins, skynjar maður fljótt að á köflum virðist það ekki samræmast að öllu leiti kærleiksboðskap hinna Guðspjallana fjögurra. Ef guðspjöllin 4 voru orðin almennt viðtekin sem hið kristna viðmið síðasta lagi 150 e.k. er Justin Martyr vísar til þeirra, þá mundi ég telja, að allt það sem skrifað er eftir þann tíma og samræmist ekki innihaldi þeirra, hljóti að teljast minna trúverðugt.

Athuga skal að til eru margar eldri tilvísanir frá öðrum kristnum ritum kennimanna og kirkjufeðra frá 1.öld, sem taka nánast orðrétt fyrir ýmis ritningarvers úr guðspjöllunum og bréfum Páls og samræmast boðun guðspjallanna fjögurra nánast fullkomlega. Nægir hér að nefna sem dæmi um kenningarlegt samræmi, Klemensar og Barrabasar bréf frá 1.öld e.k. og Didache ritið. Sama má segja um kenningarlegt innihald Pálsbréfanna, sem samræmist kennivaldi guðspjallanna fjögurra nánast fullkomlega.

Ýmsir fræðimenn vilja meina að hinum postulunum hafi verið illa við Tómas, og því hafi þetta guðspjall (sem þeir staðhæfa að sé að nánast öllu leiti komið frá Tómasi) ekki verið í náðinni hjá þeim. Það er hinsvegar ekki að sjá af öðrum kristnum heimildum, að neinum af postulunum hafi verið illa við Tómas. Sú kenning passar án efa þægilega inn í heildar samsæriskenningu þeirra manna, sem vilja svo gjarnan að Tómasarguðspjall sé í raun komið frá Tómasi postula, og sé þannig í heild sinni bein orð Jesú, rituð af Tómasi. Þeir sem vilja halda þeirri kenningu fram þyrftu hinsvegar að geta rökstutt mál sitt betur, í ljósi þeirra ofangreindu staðreynda, er mæla gegn kenningunni.

Dæmi um ritningarvers úr Tómasarguðspjalli sem erfitt er að samræma boðskap N.t.

14. Jesus said to them, "If you fast, you will bring sin upon yourselves, and if you pray, you will be condemned, and if you give to charity, you will harm your spirits."

30. Jesus said, "Where there are three deities, they are divine. Where there are two or one, I am with that one."

Neðangreint vers (nr.50) er t.d. sérkennandi fyrir hin gnostísku rit og kenningu þeirra um leyndardóma og dulkóða (leynd þekkingarorð) til þess að mega ganga í himininn:

50. Jesus said, "If they say to you, 'Where have you come from?' say to them, 'We have come from the light, from the place where the light came into being by itself, established [itself], and appeared in their image.'

If they say to you, 'Is it you?' say, 'We are its children, and we are the chosen of the living Father.'

If they ask you, 'What is the evidence of your Father in you?' say to them, 'It is motion and rest.'"

Hefði Jesú í raun og veru sagt eftirfarandi, þá hefðu Pétur og Páll ekki þurft að funda um það hvort umskurn væri mikilvæg eða ekki, eins hefði Pétur þá ekki þurf að sjá sýnina um hið óhreina sem hann mátti nú neyta, eins og sagt er frá í Postulasögunni:

53. His disciples said to him, "Is circumcision useful or not?"

He said to them, "If it were useful, their father would produce children already circumcised from their mother. Rather, the true circumcision in spirit has become profitable in every respect."

(Ekkert samt kenningarlega rangt þarna, bara passar ekki við hið sögulega samhengi Ritningarinnar miðað við aldur Tóm og Post.).

Hér er síðan ritningarvers sem hljómar kunnuglega en hefur fengið furðulegt inntak í lokin:

107. Jesus said, "The (Father's) kingdom is like a shepherd who had a hundred sheep. One of them, the largest, went astray. He left the ninety-nine and looked for the one until he found it. After he had toiled, he said to the sheep, 'I love you more than the ninety-nine.'"

Síðan er það loka setningin sem kórónar allt:

114. Simon Peter said to them, "Make Mary leave us, for females don't deserve life."

Jesus said, "Look, I will guide her to make her male, so that she too may become a living spirit resembling you males. For every female who makes herself male will enter the kingdom of Heaven."

En ekkert í orðum Jesú, vísar til þess að hann hafi verið karlremba eða ekki haft skilning á því að fátt greini kynin tvö að, annað en ytra atgervi og hormónar! Hvernig ættu þá konur að vera óverðugar í hans augum? Enda sýnir hann í sögunni af Mörtu og Maríu að hann mat konur mikils.

Að lokum

Það má því vel vera að það hafi eitt sinn verið til safn orða Jesú og jafnvel eitthvað sem Tómas ritaði sjálfur. Það getur jafnvel verið að það hafi verið þau sem voru á grísku handritabrotunum og eru að hluta til í Tómasarguðspjalli. En þetta tiltölulega heila kopstíska handrit frá Nag Hammadí, getur varla talist hreint og óviðbætt samansafn af orðum Jesú.

Það er visslulega margt kunnuglegt í því og ýmislegt sem samræmist vel því sem við þekkjum úr Ritningunni, en slíka þekkingu getur höfundurinn vel hafa fengið með því að sitja og hlusta á prédikun postulanna og prestanna, eða með því að afrita úr þegar þekktum og viðurkenndum ritum N.t. og síðan bætt við það.

Það að Tómasarguðspjall sé uppbyggt eins og glósupunktar af orðum Jesú, getur eins hafa stafað af því að einhver vildi skrá hjá sér orð hans, eða orð hans úr ræðum annarra, til að tryggja öruggari varðveislu þeirra . Hið sögulega samhengi situr auðveldar í minni og því í lagi að fela það umsjá munnlegrar geymdar, en þegar maður vill varðveita ummæli eins og flóknar dæmisögur og líkingar vill maður fremur punkta það hjá sér. Má því allt eins líklega telja að Tómas hafi haft þann háttinn á sínum tíma og jafnvel skilið eftir sig einskonar safn orða Jesú. Ekki er því ólíklegt að Tómas eða einhver sem tengist honum, hafi ritað eitthvert upprunalegt Tómasarguðspjall.

En vegna þeirra sláandi þversagna og ósamræmis í inntaki hins koptíska handrits við guðspjöllin fjögur, og ósamræmis við eldri grísku handritabrotin, verður hið koptíska Tómasarguðspjall að teljast tortryggilegt og óáreiðanleg heimild með meiru. Erfitt getur reynst að greina hver af orðum guðspjallsins geti talist sönn umfram einhver önnur, að undanskildum þeim sem hafa fullan samhljóm með ritningarversum guðspjallanna fjögurra.

Stundum finnum við innra með okkur þessa sterku þörf fyrir að vita meira um líf Jesú, uppvaxtarár og sérstaklega orð hans. Jóhannesarguðspjall er samkvæmt Eusebius kirkjusagnfræðingi ritað á eftir guðspjöllunum 3 (samstofnaguðspjöllunum). Jóhannes lærisveinn Jesú átti að hafa ritað það til þess að bæta við frásagnir hinna guðspjallanna þriggja. Samt segir Jóhannes í lok guðspjallsins, að Jesú hafi gert og sagt svo miklu meira en hann sjálfur hafði rúm til að skrifa. Jóhannes skilur okkur þannig í eftirvæntingafullri þrá eftir einhverju meiru.

Þessi þrá fær mann til þess að vilja trúa því að rit eins og Tómasarguðspjall séu að mestu leiti áreiðanleg og sönn. En í ljósi ofangreinds er líklega öruggast að staldra aðeins við. Vilji maður vera trúr hlutlausri fræðimennsku og leita aðeins sannleikans, þá hlýtur maður að vilja treysta fyrst og fremst á elstu og upprunalegustu heimildirnar um t.t. viðfangsefni. Eða eins og hér um ræðir elstu og upprunalegustu heimildirnar um persónu Jesú Krists og orð, sem Kristnin í dag sækir vísdóm sinn til. Kirkjufeðurnir sáu til þess að áreiðanlegustu og elstu frásagnirnar af Jesú fengju að lifa áfram, með því að velja þær frásagnir sem höfðu afgerandi kennivald á meðal hinna dreifðu safnaða kirkjunnar. Var síðan ákveðið að móta úr þeim lokað regluritasafn: Nýja testamentið.

Sjái maður þannig í öðrum fornkirkjulegum ritum ósamræmi við innihald og boðun Nýja testamentisins, hlýtur maður að mega tortryggja og draga sannleiksgildið þeirra rita í efa sem heimild, er varpa eigi ljósi á það hver Jesú í raun og veru var. Tómasarguðspjall ætti ekki að vera undanskilið frá þeirri reglu.

----------------------------------

Viðauki

Margir fræðimenn og guðfræðingar hafa tilhneigingu til þess að útiloka sumar heimildir í ákafa sínum yfir einni. Það má segja að upp hafi komið einskonar Tómasarátrúnaður hjá sumum sem upphefja öll rit er bendluð eru við nafn hans.

Sama á við um þau sem tengjast nafni Maríu (Magdalenu). Vegna Maríuguðspjalls (sem fjallar hinsv. ekki um hana og Jesú) hafa menn, í ákafa sýnum yfir því að gera Jesú eins mannlegan og hægt er, tekið það upp með sjálfum sér að ákveða að Jesú hafi verið giftur Maríu Magdalenu. Þeir velja þannig að líta á Naghammadí ritin sem áreiðanlega heimild. Samt tala þau ekki um að Jesú og María hafi átt í neinu ástarsambandi. Menn sniðganga þá staðreynd að kirkjufeðurnir ýmist þekktu ekki til sumra þessara rita (nefna þau ekki á nafn) eða trúðu því ekki að sumir þessara titla gætu talist sannir eða réttilega eftir þá höfunda sem þeir vísuðu til. Samt deildu þeir við gnosta um þau rit sem þeir vissu um. Kirkjufeðurnir hefðu vissulega átt að vita hvaða rit voru sönn og hver ekki, ef marka má heimildir um þá og það hvernig þeir störfuðu.

Eins sést á þessu hvernig þessir fræðimenn hafa í ákafa sínum hoppað yfir eina mikilvægustu heimildina. Það er kirkjusaga Eusebiusar. Það er ekki hægt að strika út heila bók sem ómarktæka umfram aðrar bækur til þess að hagræða sannleikanum sér í vil.

Helstu heimildirnar sem ég sótti í eru:

Átökin um Textann; C.E.Glad; 2004.

An Introduction to the New Testament Apocrypha; F. Lapham; 2003.

Christian Theology, An Introduction; Alister E. McGrath; 2001

Kirkjan Játar; Einar Sigurbjörnsson; 1991.

Eusebius - History of the Church; Penguin books; 1965.

http://www.gnosis.org/naghamm/gosthom.html

Restin hefur bara síast inn hér og þar.

(ATH! set inn þessar upplýsingar um heimildir en lít ekki á þessa grein sem heimildaritgerð, enda engar tilvísanir. Reyndi að segja frá efninu út frá eigin hjarta og því sem ég man úr því sem ég því sem ég hef lært úr ofangreindum bókum og öðru efni . Heimildirnar eru aðallega hugsaðar til þess að fólk geti lesið sér til sjálft um þetta efni, sé áhugi fyrir hendi).

No feedback yet