« Bæn hl. Thérèse af Jesúbarninu (1873-1897), karmelnunnu og kirkjufræðara. Daglegur guðspjallatexti ásamt hugleiðingu »

19.05.08

  21:10:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1248 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Tólfpostulakenningin sem hluti hinnar heilögu arfleifðar erfikenningar kirkjunnar

Sjá grísk-íslenskan millilínutexta (interlinear) hér samkvæmt texta Fílóþeos Brýenniós metrópólítana í Níkomedíu.

Í Trúfræðsluriti rómversk kaþólsku kirkjunnar er vikið svofelldum orðum að hinni heilögu arfleifð eða erfikenningu:

Þessi lifandi arfleifð, sem fram er komin í Heilögum Anda, er kölluð erfikenning enda aðgreinist hún frá Heilagri Ritningu þótt hún tengist henni nánum böndum. Í gegnum erfikenninguna “varðveitir kirkjan eilíflega, í kenningu sinni, lífi og tilbeiðslu, allt það sem hún sjálf er, allt það sem hún trúir og lætur það ganga að erfðum til allra kynslóða. Ummæli hinna heilögu feðra vitna um hina lífgandi nærveru þessarar erfikenningar og þau sýna fram á hvernig auðlegð hennar er úthellt í starfi og lífi kirkjunnar, í trú hennar og bænum”. (78)

Og nokkru síðar:

Erfikenningin sem hér um ræðir er komin frá postulunum og lætur hún það ganga í erfðir sem þeir námu af kenningu og breytni Jesú og það sem Heilagur Andi kenndi þeim. Fyrsta kynslóð kristinna manna hafði ekki Nýja testamentið í skriflegum búningi og er Nýja testamentið sjálft skýrt dæmi um ferli hinnar lifandi erfikenningar (83).

Á sama tíma og sjálft Nýja testamentið og hin postullegu bréf voru í ritun urðu aðrir helgir textar til sem varðveist hafa í aldanna rás. Einn mikilvægur þessara texta er Tólfpóstulakenningin (Didache) eða: Διδαχὴ Κυρίου διὰ τῶν δώδεκα ἀποστόλων τοῖς ἔθνεσιν (Didachi Kiriou diẚ tôn dôdeka ápostólon toîs ẻþnesin). Hún er fyrsta trúfræðslukver kirkjunnar í frumkristni. Hún er talin vera rituð á árabilinu 66 e. Kr. til 110 e. Kr. eins og sjá má á koine-grískunni sem er sú sama og í Nýja testamentinu.

Um aldir var sjálft handritið glatað með öllu, en þó var vitað um tilvist þess. Eusebíus sagnfræðingur og byskup í Sesareu (260-340) vék að því í Kirkjusögu sinni (III. 25) og Hl. Aþanasíus erkibyskup í Alexandríu minnist einnig á það í einu bréfa sinna. Hér eru einungis tekin tvö dæmi af ótalmörgum.
Árið 1883 birti Fílóþeos Brýenniós metrópólítani í Níkomedíu texta Didache. Hafði hann fundist 10 árum áður í 120 blaðsíðna handriti frá elleftu öld í bókasafni í Konstantínópel sem var í umsjón patríarkans þar. Vakti þetta gífurlega athygli á sínum tíma og innan 8 ára höfðu hundruð þýðinga verið gerðar.

Í Tólfpostulakenningunni (2. 2) lesum við meðal annars þessi orð: Ekki saurga drengi: οὐ παιδοθορήσεις (oú paidoþerěseis). Hér er vikið að samkynhneigð. Á tímum frumkirkjunnar var almennt tíðkað meðal heiðinna manna að eldri menn notuðu unga drengi til að svala kynlosta sínum. Í reynd endurómar bann Tólfpostulakenningarinnar við samkynhneigð orðin: „Og þér skuluð gjöra greinarmun á því, sem er heilagt og óheilagt“ (3M 10. 10). „Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð“ (3M 18. 22). Í Septuagintutextanum (sem er hinn viðurkenndi texti kirkjunnar) hljóðar þetta svo á grísku: „καὶ μετὰ ἄρσενος οὐ κοιμηθήῃ κοίτην γυναικός“ (kai metả ărsenos oú koiměþȇê koítěn) Á koinegrísku Nýja testamentisins er orðið karl: ἄρσυν (ărsěn) (Mt 19. 4; Gl 3. 28). Ljóst er að Páll postuli myndar nýyrði út frá Septuagintatextanum, orðið: ἀρσυνο-κοίτης (ărsěno-koítês) eða ἄρσυν κοίτην (ărsěn koítên)1Kor 6. 9: 1Tm 10. 10). Orðið sem hann notar til að lýsa samkynhneigð er ekki til í klassískri grísku. Orðið κοίτη (koítê) þýðir bókstaflega „beð“ eða „rekkja,“ og nýyrði Páls því bókstaflega „karlmannsbeð,“ sem er ólögmætt kynferðislegt samræði manna (fólks) af sama kyni (Rm 13. 13). Ljóst er að Páll postuli sem numið hafði heimspeki í Aþenu grípur hér til hæðnisarfleifðar grísku heimspekinganna.

Í reynd virðist þetta bann við kynferðislegu samræði fólks af sama kyni ná allt aftur til prestkonunga Adamskynslóðarinnar. Í annarri grein hér á kirkju.net http://www.kirkju.net/index.php/jonrafn/2007/09/18/p1302 má sjá að það „me“ eða „maa“ (guðdómlega réttlæti) sem árfeðurnir báru með sér til Egyptalands frá Súmer leggur blátt bann við slíku samræði, eins og má sjá í egypsku Dauðrabókinni þar sem það er dauðasök þegar sálin gengur fyrir dóm þar sem orð hennar eru vegin á móti fjöður á vog réttlætisins eftir dauðann. Í egypsku Dauðrabókinni fólst dauðasök sálarinnar m.a. í eftirfarandi atriðum: „Lygum, hórdómi, framhjáhaldi, samkynhneigð og að hafna maa, auk rógburðar.

Annað sem vekur sérstaka athygli í Tólfpostulakenningunni (2. 2) nú á tímum herskárrar veraldarhyggju (secularism) er bannið við fósturdeyðingum og barnamorðum: οὐ φονεύσεις τέκνον ἐν φθορᾷ οὐδε γεννηθέντα ἀποκτενεῖς (oú fonefseis téknon én fþorã oúde gennêþénta àpokteneis) – ekki deyða barn með eyðingu né fæddu fyrirkoma. Boðskapurinn er augljós og orðin „né fæddu fyrirkoma“ leiða í ljós að fyrri liðurinn víkur að ófæddum börnum. Í Rómaveldi voru það einungis Gyðingar sem ólu upp öll sín börn, drengi sem stúlkur, og Rómverjar hæddust að þeim fyrir þetta. Undantekningarlaust voru öll stúlkubörn umfram tvö borin út í heiðni vegna þess að talið var nægja að ala upp tvö stúlkubörn til að tryggja viðhald „gens“ eða ættarinnar. Rómverskar stúlkur voru þannig nafnlausar fram til þess að þær voru komnar á giftingaraldur og báru aðeins gælunöfn líkt og gæludýr. Rómverskur heimilisfaðir hafði vald musterisprests innan veggja heimilisins og enginn dróg „pateras potesta“ hans í efa. Allt breyttist þetta með tilkomu kristindómsins.

Ég minni einungis á upphafsorð Tólfpostulakenningarinnar um vegina tvo: Ὁδοι δύο εἰσί, μία τῆς ζωῆς καὶ μία τοῦ θανάτου (Odoi dío eísi, mía tês zȏês kaí mía toŭ þanátou) – vegirnir tveir eru, einn lífsins og einn dauðans. Vegur kirkjunnar er hinn helgi vegur lífsins, eins og Jesaja spámaður greinir frá honum:

Þar skal verða braut og vegur. Sú braut skal kallast brautin helga. Enginn sem óhreinn er, skal hana ganga. Hún er fyrir þá eina. Enginn sem hana fer, mun villast, jafnvel ekki fáráðlingar. Þar skal ekkert ljón vera, og ekkert glefsandi dýr skal þar um fara, eigi hittast þar. En hinir endurleystu skulu ganga þar.Hinir endurkeyptu Drottins skulu aftur hverfa. Þeir koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja“ (Jes 35. 8-10).

Enginn getur gengið tvo vegi samtímis. Við eigum valið: Við getum gengið veg lífsins eða veg dauðans. Þess vegna nefnir kirkjan veg veraldarhyggjunnar veg dauðans: Dauðamenningu. Við sjáum þannig hvernig hin heilaga arfleið og Ritningarnar haldast í hendur á vegi lífsins. Það eru einmitt þær kirkjudeildir sem hafnað hafa hinni heilögu erfikenningu arfleifðarinnar sem eru tvíráðar vegna þess að þær hafa jafnframt hafnað sakramentunum sjö sem helgunarvegi Drottins. Kirkjufeðurnir nefndu sakramentin μυστηρίον; eða leyndardóma. Það eru þau svo sannarlega eins og vikið verður að í næstu grein.

No feedback yet