« Þess biðjum vér í þvísa lífiAð hugga volaðan náunga í nauðsynjum »

06.03.06

  10:05:35, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 479 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Tók Ísland að byggjast í upphafi fimmtu aldar?

Ari fróði hefur staðfest tilvist papanna í Landnámu og minnist sérstaklega á að þeir hafi skilið eftir „bagla og bjöllur.“ Eitt höfuðeinkenni keltneskrar kristni var T krossinn sem var borinn sem stafur og bjöllur léku veigamiklu hlutverki í keltnesku helgisiðunum og voru svo að segja einkennismerki reglumeðlima.

En önnur forn og athyglisverð frásögn hefur varðveist sem virðist hafa farið fram hjá sagnfræðingum. Þetta er frásögn heilags Brendans (um 486-578) í Navigatio (Sjóferðunum). Allt trúarlíf papanna var líkt og grundvallað á 107. Davíðssálminum: „Þeir sem fóru um hafið á skipum, ráku verslun á hinum miklu vötnum, þeir hafa séð verk Drottins og dásemdir hans á djúpinu“ (v. 23, 24). Paparnir lögðu út á ókunn djúp hafsins til að finna hið fyrirheitna land. Í Navigatio greinir Brendan frá því að hann og sæmunkar hans hafi fundið eyju sem byggð var reglu íhugunarmunka. Samfélag þetta lifði undir ströngu þagnarheiti, en ábótinn rauf þagnareiðinn nægilega lengi til að greina Brendan frá því, að þeir hefðu hafist hér við í 80 ár. Allan þennan tíma höfðu þeir verið lausir við alla sjúkdóma og ekkert óhapp borið að höndum. Einn af munkum Brendans varð svo snortinn af þessari frásögn og hinu heilaga líferni papanna, að hann bað um leyfi til að ganga í samfélagið sem honum var fúslega veitt.

Brendan og skipshöfn hans vörðu jólunum næstu fimm árin í þessu samfélagi hinna keltnesku íhugunarmunka meðan þeir reyndu að finna siglingaleið til Ameríku. Ein tilvísananna í Navigatio þar sem minnst er á „heita leirtjörn“ bendir til þess að þessi eyja hafi verið jarðhitasvæði, og auk þess virkt eldfjallasvæði. Í frásögn sinni í Navigatio greinir Brendan einnig frá eldfjalli þar „sem þeir stóðu við hlið heljar.“ Risavaxnir djöflar fleygðu í þá stórum kekkjum af logandi gjalli úr risavöxnum eldsofni og þeir gátu séð fljót gullins elds renna niður hliðar ofnsins. Einn munkanna féll jafnvel fyrir borð meðan þessi árás stóð yfir og fannst aldrei aftur. Allt bendir þetta eindregið til Íslands sem eina virka eldfjallasvæðisins í Norðuratlantshafinu. Ég skýt þessari hugmynd fram til umþenkingar og umræðu.

Enn að nýju legg ég áherslu á hversu mikilvægt það er að leita til frumheimildanna til að brjótast út úr hefðbundnum þankagangi. Þetta á ekki síst við hina tæru lind Orðsins í guðspjöllunum nú á tímum upplausnarguðfræðinnar og hinnar andlegu fuglaflensu ofurfrjálslyndisguðfræðinnar. Það hefur aldrei gefist vel þegar eggið leitast við að kenna hænunni að verpa. Hér á ég við heilaga kirkju og ofannefnda óáran mennskra hugsmíða.

TENGILL

No feedback yet