« Mongólska heimsveldiðLifi frjálst Tíbet!!! »

07.04.08

  16:15:18, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 491 orð  
Flokkur: Kynþáttahyggjan og átök þjóða, Tíbet: Ákall frelsisunnandi þjóðar

Tíbet og sjálfsstjórnarvæðin - kort á íslensku

TENGILL Á KORTIN

Hér birti ég kort af Tíbet og tíbezku stjálfsstjórnarsvæðunum. Satt best að segja var ekki hlaupið að því að vinna þessi kort. Flest kort af Tíbet (á vefnum) koma frá stjórnvöldum í Bejing með fölsuðum landamærum sem koma til móts við landakröfur kínversku ógnarstjórnarinnar.

Í þessu sambandi vil ég minna lesendur á að í 3500 ára sögu Tíbets sem sjálfstæðs ríkis hefur landið einungis verið undir stjórn Kínverja í 49 ár – og það ekki samfellt. Innrásir Gúrkha frá Nepal 1724 og að nýju 1792 urðu þess valdandi að Tíbetar leituðu hernðaðaraðstoðar Kínverja 1792 og skipuðu þeir í kjölfarið amban“ (eins konar sendiherra) sinn í Lhasa. Kínversku Mansjúarnir sem á þessum tíma voru komnir á fallandi fót gripu þetta tækifæri til að reyna að skerða sjálfstjórnarrétt Tíbeta árangurslaust.

Um miðbik nítjándu aldar dró mjög úr áhrifum Kínverjar í Tíbet sem sjálfir höfðu öðrum hnöppum að hneppa heima fyrir. Svo var komið 1912 að Tíbetar birtust í samfélagi þjóðanna sem fullvalda þjóð og þrátt fyrir viðleitni af hálfu Kuomintang flokksins kínverska til að seilast til áhrifa í Tíbet bar það engan árangur.

Við skulum einnig hafa í huga að þegar Tíbetar lögðu mál sitt fyrir Sameinuðu þjóðirnar í nóvember 1950 eftir að kommúnistar tóku að þvinga upp á þá stjórnskipulagi sínu, átti landið ekkii aðild að SÞ. Þeir snéru sér þá til Indverja sem ætíð hafa verið vinveittir Tíbetum í gegnum aldirnar. Þar brugðust Indverjar. Þetta má best sjá á ummælum Jayaprakash Naryan, áður þekkts sósíalista en þá stuðningsmanns landabótastefnu Vinoba Bhave Bhoodan: „Það er rétt að við hefðum ekki getað komið í veg fyrir landatöku Kínverja í Tíbet. En við hefðum getað forðað okkur frá að eiga þátt í óréttlætinu.“

Indverjar undir stjórn Nehrús höfnuðu því að gerast talsmenn Tíbeta hjá SÞ. Það var hins vegar smáríkið El Salvador sem tók að sér þetta hlutverk og lagði mál Tíbeta fyrir Allsherjarþingið. Málstað Tíbeta var vel tekið, en vegna hikandi afstöðu Indverja var málinu drepið á dreif, þrátt fyrir góðar undirtektir. Þannig gátu Kínverjar farið sínu fram án þess að virða neinn alþjóðarétt.

Ég vek athygli lesenda á heimasíðu Tíbezku útlagastjórnarinnar í London: http://www.tibet.com/index.html

Þar má sjá fjölþættar upplýsingar um sögu og menningu Tíbeta auk nýjustu frásagnanna af þróun mála í Tíbet og á öðrum sjálfstjórnarsvæðum þeirra í Rauðakína. Lifi frjálst Tíbet!

6 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hjartans þakkir fyrir þetta, kæri nafni minn. Ég fór svo að skoða kortabækur mínar, fyrst The Times Atlas of World History, svo hinn ámóta stóra Söguatlas Máls og menningar. Þar á bls. 271, á korti ofarlega til hægri, stendur: “TÍBET 1912: sjálfstætt,” sem er vitaskuld í fullu samræmi við allt það, sem ég hef fræðzt um landið.

Nú hefur verið stofnað félagið Vinir Tíbets, og allir, sem bera hagsmuni Tíbets sér fyrir brjósti, eru velkomnir að gerast félagsmenn. Kem ég væntanlega aftur á síðuna að upplýsa betur um þetta.

09.04.08 @ 00:18
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Sú fullyrðing tíbezku útilagastjórnarinnar um að Tíbetar hafi einungis búið undir kínversku oki í 49 ár er söguleg staðreynd. Um miðbik þrettándu aldar lögðu Mongólar bæði undir sig Kína og Tíbet. Í riti sínu „The Revolt in Tibet,“ eftir Frank Morales, (The Macmillan Company, New York 1960), rekur Morales með miklum ágætum þessa sögu og vekur athygli á þeirri staðreynd, að þegar mongólsku hirðingjarnir lögðu á stað til að leggja undir sig heiminn urðu bæði Tíbet og Kína að hluta heimsveldis þeirra. Það sem varð Tíbetum til bjargar var að þeim auðnaðist að snú Kublai Khan til lamatrúar og þannig nutu þeir sjálfsforræðis og sérréttinda innan Mongólska heimsveldisins. Enn í dag líta Mongólar á Dalai Lama sem andlegna trúarleiðtoga sinn.

Þegar Mingkeisaraættin kínversks tókst að hrekja Mongóla af höndum sér var hún allt of vanmegna til að leggja undir sig Tíbet. En kínverskir áróðursmeistarar Beijingstjórnarinnar halda því blygðunarlaust fram að Tíbetar hafi verið undir kínverskri stjórn allt frá árinu 1254!!!

Tíbetar urðu afar friðsöm þjóð undir leiðsögn andlegrar meistara lamaismans. Einungis skal minnst á ákvæðið um að vinna engri lifandi skepnu tjón, hvað þá heldur mönnum! Hvergi á víðu jarðarbóli hef ég séð orð Krists rætast með jafn afgerandi hætti og meðal Tíbeta: „Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla“ (Mt 26. 52). Jafnvel kristin kirkja þverbraut þetta andlega lögmál á mestu niðurlægingarskeiðum sínum. Í þessu sambandi má minnast á Barteleusarmorðin í París og um allt Frakkland 1592 þegar húgenottar voru myrtir köldu blóði þúsundum saman. Enn hefur kirkjan ekki séð ástæðu til að harma þessi víg. Orð Maximalíusar Þýskalandskeisara urðu víðfleyg í þessu sambandi: „Þetta er ekki það sem Kristur kenndi postulum sínum!“

Þegar herskáir Gúrkhar frá Nepal gerðu innrás í Tíbet 1724 og að nýju 1792 er talið að einungis 5000 menn hafi verið í tíbezka heimavarnarliðinu og því leituðu þeir ásjár Kínverja til að verja land sitt. Kínverjar notuðu þetta tækifæri til að reyna að skerða sjálfsforræði Tíbeta og staðsetja „amban“ eða kínverskan sendiherra í Lhasa. 5000 heimavarnarmenn voru þannig í lífvarðarsveitum Dalai Lama árið 1950 þegar Rauði herinn hóf hernám Tíbets með skelfilegum afleiðingum fyrir tíbezku þjóðina. Ef menn eru „kortlæsir“ sjá þeir í hendi sér að tíbezki hringvegurinn miðast við að auðvelda liðsflutninga til suðurlandamærana. Auk þess starfa kínverskir áróðursmálafulltrúar og innlendir skoðanabræður þeirra í aðlægum löndum líkt og Nepal og Bhútan og grafa undan stöðugleika stjórnmálalífsins. Tilgangurinn er augljós: Að leggja þessi lönd undir kínverski ógnarstjórnina um leið og tækifæri gefst og umheimurinn sofnar á verðinum.

Þau rök að „varasamt“ sé að gagnrýna kínversk stjórnvöld vegna viðskiptahagsmuna eru brosleg vegna þess að Kínverjar hafa jafn mikla þörf fyrir að selja afurðir sínar erlendis eins og aðrar þjóðir að selja þeim sínar.

Viðbót: Ég setti Lhasa-Beijingjárnbrautina inn á kortið, en hlutverk hennar – auk þess að vera vestrænum ferðamönnum til yndis – er að auka enn frekar aðstreymi kínverskra nýbúa til landsins og flytja verðmæta málma úr landi til fullvinnslu í Kínverska alþýðulýðveldinu.

09.04.08 @ 08:58
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Af gefnu tilefni skal bent á að nafnlaus skrif eru ekki tekin til greina á þessum vef (sjá skilmála). Gera verður þá kröfu til þeirra talsmanna Beijingstjórnarinnar á Íslandi sem vilja tjá málstað sinn að koma fram undir fullu nafni, líkt og Arnþór Helgason í Morgunblaðsgrein nú fyrir skömmu í grein sem bæði vakti undrun og hneykslan fólks.

10.04.08 @ 22:46
Athugasemd from: Arnþór Helgason
Arnþór Helgason

Ýmsu er hér gersamlega snúið á hvolf um sögu Tíbets og hið friðsamlega þjóðfélag sem sumir Vesturlandabúar ímynda sér að hafi viðgengist þar. Sannleikurinn er sá að meginhluti alþýðu fólks var undirokaður og í raun eign klaustranna. ekki þarf annað en lesa frásagnir vestrænna ferðamanna sem áttu leið um þetta afskekkta land. Í anda kristilegs kærleika Páls postula ættu menn að varast öll fúkyrðin sem finna má á þessari heimasíðu o vanda fremur heimildaöflun sína. Sannleikurinn fæst aldrei með innrætingu.

27.06.08 @ 14:24
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Skelfing getum við Íslendingar verið þakklátir vegna fjarlægðarinnar frá slíkum „frelsisöflum.“

27.06.08 @ 15:55
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Fundur verður við kínverska sendiráðið, Víðimel 27, á morgun, laugardag, kl. 13 – samstöðufundur með hinni þjáðu og undirokuðu Tíbetþjóð.

27.06.08 @ 23:04