« Sunnudagsmessan er heimsókn okkar til Guðs.……… að búa við villimennsku ……… »

10.02.08

  20:13:15, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 896 orð  
Flokkur: Greinar eftir Sr. Róbert Bradshaw (dó 1993)

Himnaríki

Ef sum alvarlegustu orð Biblíunnar varða helvíti, þá fjalla líka sum þeirra yndislegustu um himnaríki. Þar er sýnt fram á, að himnaríki er hin sönnu heimkynni okkar og sá staður þar sem Guð óskar þess, að við dveljum með sér í eilífðinni. Augu kristins manns ættu að beinast staðfastlega að himnaríki, en ekki hvika undan, til þess að reyna að forðast hugsunina um helvíti.

Guð vill, að við frelsumst, og þess vegna sendi hann ………

son sinn í heiminn, og aðeins á grundvelli himnaríkis og helvítis er krossfesting Jesú skiljanleg. Guð hefur gengið eins langt og unnt er, svo við eigum kost á því að frelsast, og hann hefur veitt okkur hvatningu svo sem frekast má verða til þess að kjósa himnaríki. Ef við bregðumst, er það ekki sök Guðs, heldur okkar.

Mannlegt tungumál og skilningur hrekkur einnig skammt, þegar kemur að því að lýsa himnaríki. Við skulum byrja á hinni skáldlegu lýsingu himnaríkis, sem er í Biblíunni. "Og ég sá nýjan himin og nýja jörð; því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin, og hafið var ekki framar til. Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum; og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: 'Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna. Hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans, og Guð sjálfur mun vera hjá þeim. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið. ' Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: 'Sjá, ég gjöri alla hluti nýja'" (Opb. 21).

Hér er áherslan lögð á hinn fullkomna frið á himnum. Þegar við lesum Nýja testamentið, verður það þó ljóst, að friðurinn á himnum er ekki friðsæld aðgerðaleysis. Þvert á móti er brugðið upp mynd af himnaríki, þar sem andleg atorka fær sannarlega notið sín, þar sem allir hæfileikar okkar nýtast til hins ítrasta. Þar er ekki sífelldur sálmasöngur, eins og rithöfundar láta oft í veðri vaka. Það er frekar, að þar fái maðurinn notið sín til fullnustu.

Öll höfum við ánægju af því að þekkja fólk og fræðast. Sífellt spyrjum við spurninga, hlustum á fréttir og reynum að skilja fjölmargt sjálf. Þekkingin gleður, því mannleg skynsemi leitar sannleikans. En Guð einn getur fullkomnað þá gleði, vegna þess að hann er sannleikurinn sjálfur. Í himnaríki verðum við augliti til auglitis við Guð, og þá veitist skynsemi okkar hin fullkomna gleði.

Heilagur Páll lýsir þessu þannig: "Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í óljósri mynd, en þá augliti til auglitis. Nú er þekking mín í molum, en þá mun ég gjörþekkja, eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn" (1. Kor. 13.12). Hjá heilögum Jóhannesi kemur fram sama hugmynd með einfaldari hætti: "En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesúm Krist" (Jh. 17.3). Og í fyrsta bréfi sínu segir hann, að á himnum munum við sjá Guð "eins og hann er" (3.2).

Biblían og kirkjan gera það ljóst, að mesti fögnuður himnaríkis er það að sjá og þekkja Guð sjálfan. Þar munum við fagna "með óumræðilegri og dýrlegri gleði" (1. Pt. 1.8,9). Vandinn er sá, að ímyndunarafl okkar þrýtur. Heilagur Páll segir okkur, að "ekkert auga hefur séð né eyra heyrt né komið upp í hjarta nokkurs manns, það sem Guð hefur fyrirbúið þeim, er elska hann" (1.Kor. 2.9,10). Og þetta er kjarni málsins. Við vitum það, að við munum lifa með lífi Guðs sjálfs og að innsta djúp sálar okkar verður fyllt fögnuði. En hvað merkir það fyrir okkur nú? Heimspekingar, guðfræðingar og þeir, sem helga sig sambandinu við Guð, geta gert sér grein fyrir einhverju af fegurð og merkingu þessa. Flestu fólki nægir að vita það, að á himnum ríkir fögnuður og hamingja, eins og framast verður, og þar munum við vera með hinum elskandi Guði.

Kristur gaf okkur skýrustu myndina, þegar hann líkti himnaríki við kvöldmáltíð, sem góðgjarn og mikils háttar konungur bauð til. Við gleðjumst yfir vináttu, hamingju og góðum félagsskap í veislunni og vitum okkur örugg hjá þeim, sem ætíð munu elska okkur og vernda. (Lk. 14. 16 - 24).

Fögnuður himnaríkis verður einnig fólgin í því að þekkja hina alsælu Maríu mey, dýrlingana og vini okkar. Þar munum við öll hittast, hreinsuð af öllum ávirðingum, full hamingju, af því að líf okkar hefur öðlast dýrð sína. Það verður þá sem hjálpsemi sú og vinsemd, sem við sýndum öðrum í þessu lífi, mun fullkomnast með Guði á himnum.

No feedback yet