« Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – stutt athugasemdPrestkonungar Adamskynslóðarinnar – 16 »

25.11.07

  10:14:50, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 870 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

STELLA VITAE (Stjarna lífsins) – Betlehemsstjarnan. Hugleiðing í upphafi aðventu

"Sjá meðfylgjandi mynd

Í eldgamladaga meðan ég starfaði enn sem kortagerðarmaður kom ég nokkrum sinnum til Zeissverksmiðjana í Oberkochen í Þýskalandi. Þar starfa miklir hagleiksmenn (og konur að sjálfsögðu). Áratugum saman hafa Zeissverksmiðjurnar verið leiðandi í hönnun og smíði alls kyns tóla og tækja til landmælinga, stjörnufræðiathugana og rannsóknartækja innan læknisfræðinnar. Til marks um álit það sem Zeiss nýtur hafa verksmiðjurnar framleitt flesta þá spegla sem notaðir eru í stórum stjörnuathugunarstöðvum víðsvegar um heimsbyggðina og í Hubble og lögðu Bandríkjumönnum í té margvísleg sérhæfð mælitæki og myndavélar í tunglferð þeirra forðum.

Nú þegar líður að aðventunni kom skyndilega í huga mér stjörnuhvelið sem þeir höfðu gert (planetarium) og finna mátti í einni fjölmargra sérbygginga í Oberkochen. Hingað komu sérfræðingar víðs vegar að úr heiminum til að skoða himinhvelfinguna eins og hún leit út á ýmsum tímum (þetta var fyrir tíma tölvutækninnar). Það var hér sem ég sá „Betlehemsstjörnuna“ í fyrsta skiptið. Og þar sem aðventan gengur brátt í garð eins og ég sagði, ákvað ég að skyggnast eftir henni á tölvunni minni. Skömmu fyrir fæðingu Krists „runnu“ Júpiter og Venus „saman“ (conjuction) og mynduðu afar skæra stjörnu á himnum sem duldist ekki mönnum. Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig hún leit út frá Babýlon árið 2 f. Kr. á vesturhimninum. Biblían greinir okkur frá því að vitringarnir þrír frá Austurlöndum hafi fylgt þessari stjörnu til Jesúbarnsins í grashálmi jötunnar í Betlehem. Þetta er eins konar áminning til þeirra sálna sem leitast stöðugt við að grafa undan sannleiksgildi Biblíunnar rétt eins og ormurinn Níðhöggur nagaði í sífellu rætur lífstrésins Yggdrasils í norrænu goðafræðinni.

Það sem er athyglisvert í þessu sambandi er sú staðreynd eins og sjá má á myndinni, að þessi skæra stjarna er nærri Konungsstjörnunni (Regúlus) í Ljónsmerkinu, tákni prestkonunga Adamskynslóðarinnar um hin komandi Messías. Myndin greinir okkur frá fleiri leyndardómum hinnar guðdómlegu ráðsályktunar. Skammt frá stjörnumerkinu Ljóninu sjáum við Bikarinn. Nú getum við sagt með Heilögum Anda:

Þú smyr höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur (Sl 23. 5).

Smurningin er krysman – olía skírnarinnar – og bikarinn barmafulli Evkaristían sem barnið í grashálmi jötunnar færði okkur í hendur með friðþægingu sinni á tréi lífsins: Krossinum. Vatnsslangan áminnir okkur um að við fæðingu Krists hófst öld Vatnsberans og sannarlega var Kristur Vatnsberi náðarinnar sem svalaði okkur með vatni lífs og náðar eins og samversku konunni við brunninn. Takið eftir því hvernig Krabbinn teygir klær sínar í átt til Konungsstjörnunnar rétt eins og hann vilji gleypa Konungstjörnuna, tákn Krists. Hann getur sem best skírskotað til óvinar alls hjálpræðis – Satans – sem hatar jólabarnið. Til að áminna okkur enn frekar á mikilvægi þess að velja Veg lífsins en ekki dauðans sjáum við svo Sextantinn, rétt eins og til að leggja áherslu á að við eigum að hyggja að leyndardómi fæðingar barnsins í grashálmi jötunnar eins og vitringarnir þrír: Að taka ekki „skakkan pól í hæðina“ eins og sagt er á sjómannamáli.

Eigum við ekki að segja að vitringarnir þrír skírskoti til sálarkraftanna þriggja: Skilningsins, viljans og minnisins. Ef við látum endurminninguna um Frelsarann gagntaka minni okkar með endurminningunni um fæðingu hans leiðir slíkt óhjákvæmilega til uppljómunar skilningsins í bæninni sem hrífur viljan til athafna og viðbragða. Vitringarnir þrír færðu Jesúbarninu gull, reykelsi og myrru. Eigum við ekki að segja að þetta séu allar þær náðargjafir og hæfileikar sem Skapari okkar gaf okkur af gnægtum sínum! Ef við leggjum þær við fætur Drottins okkar í grashálmi jötunnar umbreytir hann þeim í lofgjörðarfórn og þannig megnum við að vegsama dýrð náðar okkar himneska Föður ásamt með Jesú (sjá Ef 1. 6).

BÆN:

Alhelga Hjarta Jesú, líknarríkt náðardjúp loga lifandi elsku. Gef í miskunnarrríkri náð þíns Heilaga Anda að logi elsku þinnar glæðist með stöðugt fyllri hætti í mínu bersynduga hjarta. Hlýð á bæn mína eins og þú lagðir eyra við ákalli ræningjans á krossinum. Drottinn minn og Guð! Veit mér náð til að leita ávallt skjóls í þínu Alhelga Hjarta rétt eins og lærisveinninn – hann Jóhannes – sem hallaði sér að brjósti þínu í síðustu kvöldmáltíðinni.

Alhelga Hjarta Jesú! Miskunna mér syndugum manni!
Blíða og flekklausa Hjarta Maríu! Umvef mig hjúpi verndar þinnar.
Heilagur Jósef og ástvinur hinna háheilögu Hjartna: Bið fyrir mér. Amen.

No feedback yet