« Sjálfstæðismenn álykta um staðfasta sambúð samkynhneigðra.UM ÞJÓÐKIRKJUNA – séra Þórir Jökull Þorsteinsson »

29.03.07

  21:41:27, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1053 orð  
Flokkur: Ýmsir höfundar

Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Ludgerus biskup

(Eftirfarandi grein sem Torfi Ólafsson þýddi úr þýsku birtist í Kaþólska kirkjublaðinu í mars 2005 og er endurbirt hér með leyfi ritnefndarinnar og þýðandans. (Aths. RGB )

Ludgerus (Liudger) biskup í Münster (26. mars.)
Münsterbúar halda á þessu ári (2005) upp á 1.200 ára afmæli þess að biskupsdæmi þeirra var stofnað. Og samtímis minnumst við líka fyrsta biskups þeirrar borgar.

Biskupsdæmið okkar er á ýmsan hátt tengt Münsterbiskupsdæmi: af því að Ansgar-samtök þeirrar borgar hafa oftsinnis stutt okkur með fégjöfum, af því að dómarar Münsterbiskupsdæmis fara með kirkjuleg dómsmál okkar og af því að dómkirkjupresturinn okkar, séra Jürgen Jamin, er fæddur og uppalinn í því biskupsdæmi. Auk þess kom biskupinn í Münster, Reinhard Lettman, hingað í heimsókn árið 2004 ásamt tveim af prestum sínum.

Ludgerus fæddist í Fríslandi árið 742 og óx upp undir handarjaðri Gregors ábóta, nemanda Bonifatiusar. Þegar hann hafði unnið árum saman að vísindastörfum hjá Alkuin í York, varð hinn helgi maður var við þá löngun innra með sér að takast á hendur trúboðsferðir, eftir fordæmi Bonifatiusar, hinnar miklu fyrirmyndar sinnar.

Ludgerus var prestvígður í Köln og starfaði eftir það að trúboði í Austur-Fríslandi. Uppreisn Widukinds fursta í Saxlandi, sem sóttist eftir yfirráðum í Fríslandi, kom í veg fyrir að hann gæti haldið áfram starfi sínu. Ludgerus hélt því úr landi til Ítalíu, til þess að biðjast fyrir við grafir postulanna,

Hann bjó tvö ár í Montecassino-klaustrinu og kynnti sér þar líferni munkanna án þess að gerast munkur sjálfur. Þegar hann sneri heim aftur úthlutaði Karl mikli honum fimm héruðum þar sem hann skyldi boða trú. Árið 794 fól hann Ludgerusi stjórn Münsterbiskupsdæmis sem þá var nýstofnað. Hann meðtók biskupsvígslu árið 804 og er það einnig talið vera stofnár Münsterbiskupsdæmis.

Fimm árum síðar dó Ludgerus og samkvæmt ósk sinni var hann lagður til hinstu hvíldar í grafhvelfingu Werden-klausturs við Ruhr sem hann hafði stofnað.

Hinn heilagi biskup var, eins og við höfum þegar vikið að, mjög vel að sér í ritlist og lét hann engan dag líða svo að hann fræddi ekki einhverja lærisveina sína um þau mál. Hann lék líkama sinn hart með ströngum föstum og þráfaldlegum næturvökum og bar í laumi næst sér yfirbótarskyrtu úr hári sem menn vissu ekki um fyrr en eftir andlát hans. Þá sjaldan sem hann borðaði kjöt, og þá vegna kærleika til náungans, fór hann aldrei yfir þau takmörk sem samviskubundin hófsemi bauð honum. Ef hann komst ekki hjá því eitthvert sinn að taka þátt í mannfundum, leiddi hann umræðuna af mikilli leikni að andlegum málum og hélt síðan á brott eins fljótt og honum var unnt. Hann var mildur og alþýðlegur við fátæklinga en staðfastur og ákveðinn við auðmenn. Við þá sem syndugir voru og frábitnir því að bæta fyrir syndir sínar var hann ævinlega strangur og ósveigjanlegur. Aðalskona ein, sem hafði gert sig seka um alvarlega yfirsjón, fékk að reyna það. Hún reyndi öll ráð til að vinna dýrlinginn á sitt band en án árangurs. Hann vildi ekki hlusta á hana og þar sem hún vildi ekki bæta ráð sitt útilokaði hann hana frá samfélagi trúaðra. Af föðurarfi sínum og tekjum biskupsdæmisins tók hann aðeins það sem hann þurfti sér til framfæris. Það sem þá varð eftir gaf hann fátækum.

Þó að hegðun þessa heilaga manns væri óaðfinnanleg, urðu alltaf einhverjir til að lasta hann. Menn níddu hann jafnvel við Karl mikla og sögðu hann vera mann af því tagi sem kæmi biskupsdæmi sínu á vonarvöl og vanrækti að skreyta kirkjur þess. Keisarinn, sem hafði dálæti á fögrum kirkjum, hlýddi á þær sakir sem bornar voru á Ludgerus og kvaddi hann til hirðarinnar. Ludgerus hlýddi því. Daginn eftir komu hans þangað tilkynnti hirðmaður honum að keisarinn biði eftir honum. Ludgerus, sem var þá að biðja tíðabænir sínar, svaraði að hann skyldi koma á fund keisarans strax þegar hann hefði lokið við þær. Hann var boðaður þrem sinnum, hvað eftir annað, því að mönnum leist ekki á þetta seinlæti hans. Óvinir hans hikuðu ekki við að benda á þetta sem yfirsjón hans. Þegar hann kom að lokum, spurði keisarinn hann af nokkurri hörku hvers vegna hann hefði látið sig bíða svo lengi.

“Ég veit hversu mikið ég á yður að þakka, yðar hátign”, svaraði Ludgerus. “en ég hugsaði að þér munduð ekki reiðast mér fyrir það að ég lét Guð ganga fyrir. Þegar maður er hjá honum, verður maður að gleyma öllu öðru. Annars fór ég í þessu máli eftir fyrirmælum yðar hátignar því þér sögðuð mér við biskupsvígslu mína að láta þjónustuna við Guð alltaf ganga fyrir þjónustunni við mennina.” Þetta svar hafði svo mikil áhrif á keisarann að hann bar af Ludgerusi allar sakir sem bornar höfðu verið á hann, heiðraði hann fyrir frammistöðu sína og vísaði á bug þeim sem höfðu beitt sér gegn honum.

Á innsigli Ludgerikirkjunnar í Münster er mynd af dýrlingnum í biskupsklæðum með bagal og bók. Á síðari tíma myndum er hann sýndur með kirkjulíkan og tvær villigæsir eða svín við fætur sér. Sagan segir að hann hafi létt gæsaplágu af trúboðssvæði sínu eða landsetri. Samkvæmt annarri helgisögn eiga svín að hafa þjónað honum. Hans er minnst 26. mars í Münsterbiskupsdæmi og auk þess í Hildesheim, Groningen og Utrecht.

Heimild: http://www.vortex.is/catholica/snts.html

No feedback yet