« Sameinast Þjóðkirkjan kaþólsku kirkjunni?Ekki er allt sem sýnist – af fráfalli Vesturlanda frá Guðstrú »

28.02.07

  00:23:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 439 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Siðferði og samfélag, Kristindómur og stjórnmál

Að farga fóstri til að koma í veg fyrir vansælt líf síðar meir?

"Ég hef séð of mörg börn vansæl vegna þess að foreldrarnir hugsa ekki nógu vel um þau, viljum við virkilega bæta á þann fjölda?" Þannig spyr ung kona í langri umræðu um fósturdeyðingar á annarri vefsíðu í gær. Þetta svar birtist þar í gærkvöldi:

Kannski ekki endilega, en viljum við SAXA Á ÞANN FJÖLDA? Um það snýst spurningin á þessari vefsíðu.

Og hvernig getur Ingibjörg Rósa vitað það fyrir fram, hverjir muni lenda í þessum hópi? Býr hún yfir þeirri útreiknings-kunnáttu að geta spáð fyrir um gæfulega þungun annars vegar og óvelkomna og vansæla hins vegar?

Vissulega er hægt að ímynda sér fyrir fram allnokkur LÍKINDI til þess, að einhver lendi í erfiðum, vansælum aðstæðum, ég verð að viðurkenna það. "En er eitthvað að marka slík tilbúin dæmi?" geta menn þá sagt. Jæja, tökum þá í staðinn dæmi úr heimi raunveruleikans. Þar, í því dæmi, var vitað, að faðirinn var sárasóttarsjúklingur (þ.e. með sýfilis), en móðirin með berkla. Gæfulegt til að fæða börn? Ekki aldeilis, maður minn, enda varð það fyrsta blint, annað dó sem ungabarn, það þriðja varð mállaust og heyrnarlaust og fjórða barnið með berkla. Ég tek aftur fram, að þetta eru raunveruleg dæmi. Proves your point, Ingibjörg Rósa? Nei, vertu ekki of fljót á þér, því að fimmta barnið er eftir! Þetta er ekki litla, íslenzka kjarnafjölskyldan, nei, þetta lið heldur alltaf áfram að ala börn eins og kanínur! (heyrt þennan?!). Og nú kemur allt í einu að stóru spurningunni, sjálfri ögrandi siðferðisspurningunni, sem þú átt reyndar svo auðvelt með að svara – og eins læknirinn einmitt í þessari sögu, sem spurður var af öðrum lækni: "Hvernig hefðir þú tekið á þessari fimmtu þungun?" Sá aðspurði svaraði náttúrlega af væntumþykju sinni eins og hún Ingibjörg Rósa okkar hefði gert: "Ég hefði bundið enda á þungunina." – En það er bara svo óvæntur endir á sögunni: "En þá," sagði hinn læknirinn, "hefðir þú drepið sjálfan Beethoven!"

Tökum okkur ekki vald að dæma um það, sem Guði einum heyrir til, um líf og dauða annarrar mennskrar veru. Og Ingibjörg Rósa! ég veit þú ert alls kostar fullfær um að hugsa. Hugsaðu þá málið, þegar þú hlustar á níundu sinfóníu Beethovens, já, á Óðinn til gleðinnar.

8 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Staðreyndirnar tala sínu máli! Ég heyrði sálfræðing halda því fram um daginn að 15% íslenskra unglinga væru svo vansælir að þeir létu allt reka á reiðanum.

Þetta er ekki þessum unglingum að kenna heldur lífsstíl foreldranna sem eru helsýktir af hégómlegri eftirsókn efir tálsýnum neysluþjóðfélagsins þar sem „fjallajeppinn“ eða „42″ plasmasjónvarp“ vegur þyngra en börnin. Hvað er til ráða: AÐ LÁTA EKKI STJÓRNAST AF GLAMRI AUGLÝSINGA GYLLIBOÐA HELDUR HLÚA AÐ ÞVÍ SEM MESTU MÁLI SKIPTIR Í LÍFINU FYRIR HJÓN: HAMINGJUSAMT FJÖLSKYLDULÍF.

28.02.07 @ 10:27
Athugasemd from: Emil Örn Kristjánsson
Emil Örn Kristjánsson

Ég segi nú bara: Guð minn góður, í hvernig samhengi sér þetta fólk hlutina?
Hvert einasta barn sem fæðist hefur tækifæri til þess að þroskast og vaxa og eiga sínar gleði- og sorgarstundir, sem sagt njóta þess að vera til. Það er enginn þess umkominn að svipta nokkra mannveru þessum tækifærum.
Vissulega er það rétt að væru börnin færri væru færri börn óhamingjusöm en með sömu röksemdafærzlu má segja að væri mannkyninu einfaldlega útrýmt væri minni neyð og óhamingja í heiminum.
Það er aðeins ein leið til þess að “saxa á” fjölda vansælla barna og það er að hugsa betur um börnin okkar. Ekki bara sem foreldrar heldur einnig sem samfélag.

28.02.07 @ 13:42
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér þetta, Einar Örn, vel mælt – og réttilega ályktað þarna í síðustu klausunni um einu færu leiðina til að minnka vansælu barna í heiminum.

01.03.07 @ 08:44
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Á vefsíðunni löngu, sem vísað er til í upphafi þessa litla pistils míns, sagði ég einnig að gefnu tilefni (og endurtek það hér lítt breytt, af því að þetta er svo mikið kjarnaatriði í umræðunni, sem hér fer fram):

Útreiknings-hyggja þeirra, sem telja sig vita, að fæðing vissra barna verði ófarsæl fyrir fólk og börnin sjálf (!), af því að það muni “sýna uppeldi þeirra lítinn áhuga, sinna þeim illa og fara þannig illa með sálarlíf barnsins” o.s.frv., er vitaskuld engin vísindi, heldur óhaldbærar getgátur, ábyrgðarlausir spádómar út í loftið.

Mætur Englendingur, prófessor John Scarisbrick, sagði í ritlingi sínum What´s wrong with abortion? (Life, Leamington Spa, 1980, s. 9) um “the fallacy of wantedness” (þ.e. rökskekkjuna: “börn eiga að vera velkomin, annars eiga þau ekki að fæðast!"), í þýðingu minni og endursögn:

“En það eru fyrir hendi sönnunargögn, mjög eindregin og víða staðfest, um að það sé einmitt barnið, sem var “skipulagðast” og “velkomið", sem verði í áhættu á illri meðferð, þ.e. barsmíðum. Væntingar foreldra þess eru meiri og umburðarlyndi þeirra minna, vegna þess að barnið var “velkomið". Börn, sem fyrir fram er ætlað að eigi að hæfa fullkomlega því fyrirkomulagi, sem foreldrarnir vilja hafa á hlutunum, líða óhjákvæmilega fyrir það, þegar þau byrja (eins og þau óhjákvæmilega gera) að setja fram óvæntar kröfur, fylgja ekki ætlaðri uppeldisstefnu eða lenda fyrir neðan þann ’standard’, sem planaður hafði verið. – Til eru þeir þróunarpunktar í mannlegri tilveru og samskiptum – og það á við, þegar eitthvað hefur bjátað á – að skipulagning fyrir fram hafi gagnstæð áhrif á við það, sem að var stefnt. Fósturdeyðingastefnan er eitt megineinkennið á hinni óásættanlegu ásjónu ofurskipulagningar sem bæði er afmennskuð og afmennskandi. (Abortionism is a major feature on the unacceptable face of dehumanised and de-humanising ultra-plannning.)”

01.03.07 @ 09:15
Athugasemd from: Gunnar Friðrik Ingibergsson
Gunnar Friðrik Ingibergsson

Það er alltaf sorglegt þegar þarf að eyða þarf lífi. En höfum við ekki rétt til lifsins hvernig svo sem við erum ? Ég hefði haldið það.
Ég starfa með þroskaheftum og hef unnið með einstaklingum sem hafa Down Syndrome og þykir þetta fólk mjög skemmtilegt. En því miður að þá er mikið að Down Syndrome fóstrum eytt nú til dags. Hvaða skilaboð eru þetta til þeirra sem eru með Down Syndrome að þeir hafi ekki sama rétt lífsins eins og við.
Ég hefði frekar haldið að það væri samfélagið sem væri vandamálið til að koma til móts við fólk með Down Syndrome

14.04.07 @ 09:00
Lárus Viðar Lárusson

Mig langar að benda greinarhöfundi á að þessi saga um Beethoven er flökkusaga og á sér enga stoð í raunveruleikanum. Beethoven var annað barn foreldra sinna, það eru engar heimildir fyrir því að faðirinn hafi verið með sárasótt né að systkini hans hafi haft þessa sjúkdóma, þó að það elsta og eitt annað hafi látist í barnæsku, sem var algengt á þessum tímum. Berklar urðu reyndar móðir hans að bana en það var löngu eftir fæðingu hans.

Annars finnst mér Beethoven rökin nokkuð veik. Það væri eins hægt að segja að fóstureyðingar væru af hinu góða því með þeim hefði verið hægt að koma í veg fyrir fæðingu Stalíns eða annarra illmenna af því tagi.

20.04.07 @ 00:04
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Lárus Viðar skrifar þetta af því að hann vill verja fósturedeyðingar. En ástæða illmennsku Stalíns var ekki sú, að hann var eitt sinn litið, saklaust fóstur, heldur hin, að hann lét spillast, hafnaði kristnu siðferði (sem hann hlýtur að hafa aðhyllzt, þegar hann fór í prestaskólann), fór að láta tilganginn helga meðalið (sbr. skipulagningu hans, upp úr 1905, á vopnuðum bankaránum til að afla byltingarmönnum fjár) og vann með öllum ráðum og brögðum að því að tryggja alræði sitt í sovézka kommúnistaflokknum eftir byltinguna.

Fullyrðingar Lárusar um Beethoven legg ég ekki trúnað á, án þess að hann tilfæri fyrir þeim neinar heimildir.

20.04.07 @ 08:39
Lárus Viðar Lárusson

Til dæmis er hægt að lesa sér til hér um systkini Beethovens. Þar kemur fram að hann var annað barn foreldra sinna, ekki það fimmta. Einnig er þarna fróðleikur um faðir hans, hvergi er minnst á sárasótt.

http://www.beethoven.ws/siblings.html

20.04.07 @ 13:55
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

multi-blog platform